Morgunblaðið - 13.11.2005, Qupperneq 14

Morgunblaðið - 13.11.2005, Qupperneq 14
14 | 13.11.2005 Við eigum stefnumót á heimili Garðars Thórs og unn- ustu hans Tinnu en rétt fyrir fund okkar hringir hann og spyr hvort við getum ekki fært okkur yfir á kaffihús. „Ég er akkúrat að flytja og það er allt í drasli heima – er þér sama?“ Jú, mér er sama og stundarfjórðungi síðar sitjum við í notalegu horni á veitingastað við Laugaveginn. Yfir beyglu og rjúkandi kaffi hefur hann frásögnina sem hefst um miðjan áttunda áratuginn. „Ég er fæddur 2. maí árið 1974 og átti heima í Háaleitishverfinu í Reykjavík. Grunnskólann sótti ég í Álftamýrarskóla en eftir það fór ég í MH þaðan sem ég kláraði stúdentinn. Þá var ég byrjaður í Söngskólanum.“ Tónlistaráhugann á Garðar Thór ekki langt að sækja því foreldrar hans eru Garðar Cortes óperusöngvari og Krystyna Cortes píanóleikari. „Cortes-nafnið fáum við frá Danmörku og Svíþjóð en þangað kom það frá Spáni eða Ítalíu. Ef þú spyrðir pabba myndi hann segjast vera íslenskari en allt sem íslenskt er. Mamma er aftur á móti hálfensk og hálfpólsk. Þrátt fyrir að eiga rætur að rekja hingað og þangað erum við systkinin fyrst og fremst íslensk, enda uppalin hér.“ Systkini Garðars eru þrjú. Elst er kennarinn Sigrún Björk, þá kemur Nanna Maria sem er óperusöngkona, Garðar er þriðji og yngstur er Aron Axel sem einnig hyggst feta braut sönglistarinnar því hann er í söngnámi. „Vissulega var mikið um tónlist á heimilinu og ég sótti mikið í plöturnar hans pabba til að hlusta á stóru tenórana og jafnvel heilu óperurnar. Svo hlustaði ég náttúrulega líka á mínar eigin plötur sem voru með tónlistarmönnum eins og Prince, Bon Jovi og Shakin’ Stevens.“ Garðar hristir höfuðið þegar hann er spurður hvort fjölskylduboðin hafi ekki verið und- irlögð af tónlistarflutningi. „Ég held að fólk sem er mikið í músík sé ekki endilega upptekið af henni öllum stundum. Þegar við hittumst er ekki sest niður til að búa til tónlist heldur talað um eitthvað annað og hlegið saman. Reyndar finnst ömmu alltaf gaman þegar við syngjum jólasálma í kringum píanóið þannig að við reynum alltaf að gera það yfir hátíðarnar enda er föðurbróðir minn, Jón Kristinn, einnig á kafi í tónlist. En annars held ég að það sé ekkert meira en hjá öðru fólki.“ Formlegur tónlistarferill Garðars hófst þegar hann var 11 ára en þá byrjaði hann að læra á kornett hjá Jóni „trompet“ Sigurðssyni. „Ég lærði á kornettið í sjö ár en hætti þegar ég byrjaði í Söngskólanum. Af öðrum áhugamálum get ég nefnt hesta en ég hef aldrei verið mikill íþróttagarpur. Þó var ég í fótbolta þegar ég var yngri og fór meira að segja svolítið í handboltann líka. Það var nú aðallega til að komast með til Akureyrar – ég ákvað að byrja rétt áður en liðið fór þangað. Mig minnir að ég hafi ekkert fengið að spila enda var ég frekar lélegur. Svo hætti ég aftur þegar við komum til baka þannig að sá ferill var bæði stuttur og endasleppur, eins og til var sáð.“ Í aðdáendafans í Þýskalandi | Þegar Garðar var þrettán ára urðu tímamót í lífi hans þegar hann var beðinn að taka að sér hlutverk Nonna í sex sjónvarpsþátt- um sem gerðir voru eftir bókum Jóns Sveinssonar um Nonna og Manna. „Ágúst Guðmundsson, sem leikstýrði þáttunum, vildi fá pabba til að leika illmenni í þeim en svo kom í ljós að hann var of góðlegur í hlutverkið. Þegar Ágúst sagði pabba að hann væri að leita að strákum í aðalhlutverkin sagðist pabbi eiga son og í framhaldi af því fór ég í prufu sem endaði með því að ég fékk hlutverkið.“ Hann segir sjón- varpsvinnuna hafa farið vel í sig og félaga hans, Einar Örn Einarsson, sem lék Manna. „Við vorum svo ungir og saklausir að það flæktist ekkert fyrir okkur að leika fyrir framan myndavélarnar. Ég held að við höfum verið óskaplega eðlilegir.“ Þannig atvikaðist það að þeir Garðar Thór og Einar urðu landsþekktir á einu kvöldi og þótt víðar væri leitað því frægð þeirra barst fljótlega út yfir landsteinana til Evrópu, Skandinavíu, vestur til Ameríku og Kanada og suður til Ástralíu. Sérstaklega urðu þeir vinsælir í Þýskalandi, þar sem stofnaðir voru heilu aðdáendaklúbbarnir um þá félaga. „Við fórum til Þýskalands, komum þar fram í spjallþáttum og á hestasýn- ingum þar sem íslenski hesturinn var í forgrunni og ferðuðumst heilmikið í tengslum við þessa þætti, m.a. til Berlínar, Essen, München og á fleiri staði. Mér fannst þetta skemmtilegt en upplifði mig þó aldrei sem einhverja stjörnu eða að ég væri orðinn frægur. Við Einar litum frekar á þetta sem tækifæri til að hafa það gaman.“ Ólíkt öðrum strákum heilluðu störf flugmanna, lögregluþjóna og slökkviliðs- manna Garðar ekki hið minnsta. „Ég hef alltaf ætlað að verða leikari eða söngvari en ekki endilega óperusöngvari. Ég valdi svo tónlistina því óperusöngvarar leika heilmikið en leikarar þurfa ekki endilega að syngja í sama mæli.“ Leið Garðars lá því nokkuð beint í Söngskólann í Reykjavík, þar sem hann hóf nám 18 ára að aldri undir leiðsögn Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Þó að pabbi hans starfaði við skól- ann og stýrði honum kom aldrei til tals að hann yrði kennari Garðars, jafnvel þótt raddfag þeirra beggja sé tenór. „Pabbi hefur hins vegar alltaf leiðbeint mér í gegn- um árin og það er mjög gott að geta leitað til hans.“ Eftir 8. stigs próf og útskrift úr Söngskólanum árið 1997 fór Garðar til Austur- ríkis þar sem hann fékk inni í Tónlistarháskólanum í Vínarborg. „Ég hætti eftir hálft ár því ég vissi af betri kennara í Kaupmannahöfn, André Orlowitz, og vildi komast strax til hans í stað þess að eyða fjórum árum í Vín. Ég kynntist Orlowich meðan ég var enn í Söngskólanum og hafði farið nokkrum sinnum til hans í Köben.“ Eins og besta maskína | Það varð því úr að Garðar fluttist aftur heim og í nokk- urn tíma á eftir flaug hann á milli Íslands og Danmerkur til að sækja nám hjá Orlowitz. Á sama tímabili komst ferill hans sem söngvari í söngleikjum á skrið og náði reyndar hápunkti með hlutverki Raoul í söngleiknum Phantom of the Opera eftir Andrew Llo- yd Webber á West End í Lundúnum, sem þar hefur gengið fyrir fullu húsi í um 20 ár. Áður hafði hann sungið hlutverk Tony í West Side Story í Þjóðleikhúsinu árið 1995 og hlutverk Krulla í Oklahoma sem Nemendaópera Söngskólans setti upp í Óperunni 1996. Árið 1998 söng hann hlutverk Josés í söngleiknum Carmen Negra hjá Íslensku óperunni en þar var á ferð eftirgerð óperunnar Carmen eftir Bizet. Handritið var eftir Bretana Stewart Trotter og Callum McLeod sem störfuðu á söng- leikjasviðinu á West End og voru þeir fengnir til að halda utan um uppsetningu verksins hér heima. Frammistaða Garðars í verkinu varð til þess að Callum hafði orð á því við hann hvort hann vildi ekki hasla sér völl innan söngleikjahefðarinnar í Lond- on en Garðar leiddi lítið hugann að því til að byrja með. „Þegar sýningum á Carmen Negra var lokið vorum við pabbi einhverju sinni að spjalla um þetta og hann sagði: „Af hverju prófarðu ekki?“ Í framhaldinu hringdum við út til Callum og spurðum hvort eitthvað væri til í því sem hann hafði sagt. Strax eftir það samtal var hringt í mig úr leikhúsinu og ég beðinn að koma út í prufu fyrir Phantom of the Opera.“ Þannig atvikaðist það að Garðar Thór tók að sér að syngja eitt aðalhlutverkanna í einum þekktasta söngleik Webbers, sem vissulega var heilmikið ævintýri. „Þetta var miklu meira batterí en ég hafði kynnst áður og gekk eins og besta maskína þannig að ég lærði heilmikið á þessu. Samningurinn var upp á átta sýningar á viku í níu mánuði og eftir það buðu þeir mér að halda áfram en þá ákvað ég að fara frekar í akademíuna í London. Ég hefði sjálfsagt getað verið í þessum söngleikjaheimi það sem eftir var, sem er bæði gaman og góður peningur, en ég held að ég hefði ekki orðið ánægður með það til lengdar.“ Garðar Thór hóf því nám við óperudeild Royal Academy of Music haustið 1999, hjá kennara að nafni David Maxwell Anderson. „David var að minnka við sig söng- inn á þessum tíma en var ennþá að og fyrsta árið var hann eiginlega meira í burtu en á staðnum sem var svolítið erfitt. Hann bætti mér það reyndar síðar upp og þar sem ég var vel settur raddlega séð og vissi að ég væri á réttri leið hafði ég ekkert slæmt af þessu. Auðvitað þarf maður alltaf einhvern til að leiðbeina sér en ég held að það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að kenna manni mikið. Hins vegar eru engin tak- mörk fyrir því sem hægt er að læra, ekki bara í söng heldur í öllu í lífinu. Það er hægt að ýta manni í rétta átt en svo þarf maður sjálfur að finna rétta leið.“ Eins og lög gera ráð fyrir var mikið samkeppnisumhverfi í skólanum en Garðar segist lítið hafa fundið fyrir því. „Ég vissi að samkeppnin var til staðar en það trufl- aði mig aldrei. Fengi ég ekki eitthvert hlutverk leit ég svo á að því væri ekki ætlað að verða og einfaldlega samgladdist þeim sem fékk hlutverkið. En vissulega var mikið um að fólk talaði um næsta mann, hvernig hann syngi og hvernig tæknin hans væri. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þegar ég gengi út af kaffistofunni yrði talað um mig á sama hátt.“ Ég fór meira að segja svolítið í handbolt- ann líka. Það var nú aðallega til að komast með til Akureyrar … Garðar Thór tæp- lega eins árs. Stórfjölskyldan við jólaborðið 1996. Garðar eldri heldur á myndavélinni. Með Einari vini sínum í Nonna og Manna. V

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.