Skólavarðan - 01.06.2001, Qupperneq 17
Í upphafi varð þessi keppni til vegna spjalls
undirritaðs um Íslandsmeistarakeppnina í
málmsuðu við skólameistara FS, Ólaf Jón
Arnbjörnsson. Tók hann strax vel í þetta og
náði samningi við Landsbankann í Keflavík
um að veita vegleg verðlaun. Landsbankinn
hefur því miður tilkynnt að hann sé hættur
að styðja skólann í þessu verkefni svo að
finna þarf einhvern annan ef á að halda
áfram með keppnina með sama sniði. Klif
ehf., sem selur skólanum málmsuðuvörur,
styrkir keppnina og veitir verðlaun.
Sú breyting varð á gerð auglýsingaspjalds
að Sturla Bragason tölvukall bjó það ekki til
eins og vant er heldur gerðu tveir nemend-
ur í upplýsinga- og tæknimennt (UTN-
133) hvor sitt eintak og voru bæði notuð til
að auglýsa keppnina. Þeir eru Jósef Karl
Gunnarsson og Einar Þorgeirsson nemar
hjá Ómari Baldurssyni og er þeim þakkað
hér með. Stefnt er að því að hafa samkeppni
um gerð auglýsingaspjalds fyrir næstu
málmsuðukeppni. Sex nemendur tóku þátt
í keppninni og einn íslenskukennari
(bóndasonur og brúarsmiður).
Að þessu sinni var keppt í rafsuðu með
pinna og logsuðu, en keppni í hlífð-
argassuðu var felld niður þar sem hún hefur
ekki verið kennd í vetur. Í rafsuðu er
verkefnið að sjóða saman tvö 6 mm
flatjárn með kverksuðu sem þarf að
standast ákveðið mál og gæðakröfur,
en í logsuðunni eru soðnar saman
tvær 3 mm stálplötur með stúfsuðu.
Keppnin gekk mjög vel og komu nokkrir
gestir að fylgjast með. Keppnisstjóri var
Kristján Jóhannesson og tímavörður Ívar
Valbergsson.
Að lokinni keppni var svo sest að kræs-
ingum sem „Ingurnar“ (matráðar skólans),
útbjuggu af sinni alkunnu snilld og voru
menn bæði saddir og sveittir eftir átökin
sem fylgja svona keppni.
Úrslit keppninnar urðu þessi:
1. sæti: Eyjólfur Alexandersson með 43 stig.
2. sæti: Guðni Þór Frímannsson með 42 stig.
3. sæti: Árni Jóhannsson með 34 stig.
Aðrir þátttakendur voru
Gauti Birgisson, Hrafn Helga-
son og Sigmundur G. Helga-
son. Þorvaldur Sigurðsson
keppti í flokki íslenskukennara
og sigraði með glæsibrag í sín-
um flokki.
FS þakkar öllum fyrir áhug-
ann og þátttökuna.
Frétt , p ist i l l
Þann 11. maí sl. var haldin árleg
málmsuðukeppni FS, sú sjötta síðan
1996.
Málmsuðukeppni FS vorið 2001
19
Eftir því sem árin færast yfir
menn finnst þeim gjarnan að
heimurinn fari versnandi. Allt
var svo miklu betra í gamla
daga. Þetta er eflaust eðlilegt
enda viðbúið að minnið sé svo-
lítið mistækt. Það er líka alveg
ástæðulaust að muna annað en
það sem gott var og gleyma
bara hinu.
Ég man að ég var mjög spenntur að
byrja í skóla haustið 1967, sjö ára
gamall strákur á Hvolsvelli. Hafði verið
í vorskóla og fengið Gagn og gaman II
í afmælisgjöf frá systur minni. Áhugi
minn á skólasókn dvínaði furðanlega
lítið eftir því sem árin liðu, að minnsta kosti verður að líta til
þess að skólagöngunni lauk ekki fyrr en tuttugu og tveimur
árum síðar og verður það nú að flokkast undir þrautseigju.
Þegar ég lít til baka yfir skólaferil minn er ég ekki frá því að
ég hafi lært mest þessi allra fyrstu ár. Sérstaklega fór ég að
hugsa um þetta eftir að börnin mín hófu skólagöngu, en ég á
eitt barn í leikskóla, annað í grunnskóla og það þriðja í fram-
haldsskóla. Þegar leið á skólagönguna fékk ég minna og
minna út úr náminu, eiginlega allt þar til að ég var kominn í
framhaldsnám í henni Ameríku. Í gaggó og menntó finnst mér
ég ekki hafa lært mikið þarna fyrir aldarfjórðungi síðan.
Reynslan af félagslífinu hefur reynst mér betra veganesti en
námið sjálft. Það var ekki í tísku að læra mikið þá.
Þegar menn eru farnir að líta til baka um aldarfjórðunga sjá
þeir fortíðina gjarnan í rósrauðum bjarma - þá var allt svo
miklu betra. Mönnum finnst að heimur fari versnandi nema
helst forsætisráðherranum okkar sem tekur alveg hinn pólinn í
hæðina og er haldinn óbilandi bjartsýni. En hann á nú líka
hagsmuna að gæta. Hvað sem því líður þá held ég að skóla-
kerfið sé þrátt fyrir allt miklu betra en þegar ég lallaði mína
skólagöngu. Samanburðurinn sem ég hef er skólaganga
minna eigin barna. Ég fæ ekki betur séð en krakkar nú til dags
læri miklu miklu meira en tíðkaðist þegar ég var í skóla. Og að-
staðan er öll miklu betri.
Dóttur minni gat ég framan af leiðbeint í stærðfræði, sjálfur
var ég í eðlisfræðideild og var 15 tíma á viku í stærð- og eðlis-
fræði í menntaskóla. En strax í níunda og tíunda bekk átti ég
orðið í erfiðleikum með að hjálpa til við stærðfræðina og núna
þegar stúlkan er komin í 1. bekk í menntó er ég oftast alveg
strand. Kannski er það bara af því að ég lærði ekki nógu vel
það sem fyrir mig var lagt, kannski er ég búinn að gleyma öllu
vegna notkunarleysis eða þá að krakkarnir læra einfaldlega
meiri stærðfræði en við gerðum. Með sama áframhaldi verð
ég alveg vonlaus í að aðstoða sex ára son minn við stærð-
fræðinámið eftir nokkur ár.
Annars hefur mér alltaf fundist það svolítið skrítið að það
sem hefur nýst allra best úr stærðfræðinni er einföld þríliða en
hana notaði ég þótt það væri bannað að kenna hana.
Og svo þurfa blessuð börnin að læra svo miklu meira af öllu
tagi en ég þurfti að gera. Allir þessir nýju hlutir, tölvuforrit sem
þau þurfa að kunna skil á, lífsleikni, ítölsk tengiskrift og svo
framvegis. Og börnin læra og læra, sitja við tölvuna og líta
varla upp. Kannski hefði maður líka verið duglegri í gamla
daga ef maður hefði getað sest við tölvu og fundið allar þessar
upplýsingar sem eru á sveimi á Netinu.
Ég get því ekki kvartað undan skólakerfinu og vona bara að
það haldi áfram að batna því að lengi getur gott batnað.
G. Pétur Matthíasson
Höfundur er fréttamaður og foreldri.
Ges
task
r i f
Heimur versnandi fer, eða hvað?