Norðurslóð


Norðurslóð - 15.12.1978, Qupperneq 3

Norðurslóð - 15.12.1978, Qupperneq 3
KRISTJÁN ELDJÁRN: Mr. Gillespie um borð í skipinu Kólumkilla. Mr. Gillespie, Eiríkur Pálsson og ég o o Hinn 22. júní 1978 fórum við hjón snemma morguns frá Stonefield Castle Hotel við Loch Fyne í Argyll á Skotlandi alllanga leið til smábæjar sem Oban nefnist og stigum þar um borð í skip mikið sem bar nafn hins heilaga Columba eða Kólum killa, eins og fornir frændur okkar nefndu hann. Skip af þessu tagi kalla enskir ferju, svo látum það gott heita. En hlut- verk þessa skips var að sigla með ferðamenn út um eyjar og sund vestur af Argyll, og nú var það einmitt á einni slíkri hringsigl- ingu. Ferjan lagði af stað klukk- an níu um morguninn, sigldi síðan vestur og norður fyrir stóra ey sem Mull nefnist og á þeirri leið var fróðlegt og indælt að horfa á eyjar og strendur í kyrru og hlýju veðri. Var til dæmis farið eins nærri og komist varð eynni Staffa með stórkostlegum stuðlabergsveggjum og hellum inn í þá, og er einn þeirra hinn frægi Fingalshellir, sem Mend- elsohn hefur gert tilkomumikið tónverk um. Líklega hafa frændur okkar að fornu nefnt eyna Stafey eftir stafverkinu í stuðlabergsþiljunum. Eða þá Stapa. Og áfram er haldið og vestur fyrir Mull, beygt þar til suðurs og haldið til eyjarinnar helgu, Iona, þar sem Kólumkilli stofnaði trúboðsstöð sína og klaustur af írskri kristni, og var sú stofnun allfræg og hélst sem mikill helgistaður þangað til víkingar fóru þar með báli og brandi og manndrápum hvað eftir annað uns þetta menntaset- ur gjöreyddist. Eyin helga var helsta takmark siglingarinnar og hvergi var gengið á land nema þar. Tvær klukkustundir dvöldumst við í landi og skoðuðum þar rústir af miðaldaklaustri, sem reist var þar að rómversk-kaþólskum sið (Benediktínaklaustur), svo og dómkirkju, sem að neðanverðu eru gamlir veggir tóftar, sem lengi hefur staðið opin og veðrast um aldir, en að ofan- verðu nýlega uppgerð fyrir atbeina Iona-félagsins og virðist það allt af ráði og viti gert. Háir krossar eru þarna og legsteinar margir fornra manna. Eyin er mannlaus eða því sem næst, nema aðeins um sumartímann, en kindur gengu þar jarmandi innan um rústirnar. Fyrir mig var það ævintýri líkast að vera allt í einu kominn til Iona, staðar sem ég hef lesið svo mikið og hugsað um vegna papanna okkar gömlu. Stemmningin var dá- samleg en tíminn naumur, við urðum að hypja okkur um borð í ferjuna í tæka tíð, síðan var siglt suður fyrir Mull og var þar víða heimalegt til lands að sjá, og að lokum gegnum fremur þröngt sund heim til Oban aftur og var þá klukkan sjö að kvöldi. Lokið var yndislegum hamingjudegi, sem ég gleymi seint. Þannig var þessi ferð og verður ekki ger sagt frá henni hér. Á ferjunni var fjöldi manns, líklega af ýmsum þjóðum, en auðheyrilega voru þeir langflest- ir enskumælandi. Engir voru þar íslendingar nema við hjón og fylgdarmaður okkar, við vorum þarna alfrjáls og óþekkt og kallast slíkt á finu máli að ferðast inkognító. Við spígsporuðum um þiljur, sátum á bekkjum, litum inn í setustofur, allt eftir atvikum, en þó var dýrðin mest að horfa á landið og jafnvel einnig nokkuð á farþegana ókunnu, öll þessi margbreyti- legu andlit ungra og gamalla. Eg hef alltaf gaman af að gefa fólki gætur ef hægt er án þess að valda því óþægindum. Oþekktu fólki eins og þessu. Óþekktu segi ég, það er nú svo. Hver situr þarna á bekk með bók í hendi annar en Eiríkur Pálsson, lögfræðingur í Hafnar- firði, gamall sveitungi minn og frændi nokkuð í ættir fram, Ei- ríkur í Ölduhrygg? Eða hvað? Eiríkur er ekki hér um borð, það var af og frá og það vissi ég vel, þetta var bara eitt af þeim dæmum, sem mér verður svo oft, að ókunnugir menn minna mig á einhvern sem ég þekki. Að þessu sinni var sú tilfinning óvenjulega nærgöngul. Maður- inn var nauðalíkur Eiríki, eins á hæð og vöxt, mjög líkur honum í andliti og fasi, roskinn maður með grátt hár en ekki skalla, kvikur í hreyfmgum eins og Eiríkur og allur persónuleikinn einhvern veginn eins og endur- skin af Eiríki. Eg var að sjá hann öðru hverju allan daginn, sitj- andi, gangandi, horfandi og stundum talandi við einhvern, og alltaf fannst mér þetta vera Eiríkur. Mér datt í hug að nógu gaman væri að ganga til hans og segja: Komdu sæll, Eiríkur, eigum við ekki að skreppa norður í Svarfaðardal þegar við komum úr þessari reisu? En ég gerði það ekki, lék mér bara að þessu í huganum og lét mér nægja að fylgjast með manninum í til- hlýðilegri fjarlægð. Og nú göngum við á land á Iona eins og áður segir. Við kona mín og förunautur okkar skoð- uðum klausturrústirnar, hverja vistarveruna á fætur annarri, eða það sem einu sinni höfðu verið vistarverur munkanna, því nú er þetta allt opið og grasi grónar flatir í gólfa stað. Og við komum í klausturgarðinn, sem er nú stór grasflöt. Hver stendur þá þar nema maðurinn sem ég hafði verið að horfa á en ekki ávarpað og ekki tekið eftir að gæfi mér nokkurn gaum. Jú, reyndar. Þarna er hann og er að bíða eftir okkur. Gengur nú í veg fyrir okkur þarna í klausturgarðinum og heilsar kurteislega upp á okkur og spyr hvaðan við séum? Við segjum það, við séum frá íslandi. Og nú víkur hann sérstaklega að mér og segir: Þið verðið að afsaka að ég gef mig svona á tal við ykkur, bláókunn- ugur maðurinn, en ég er búinn að horfa talsvert á þig í dag, og þú ert svo líkur eldri bróður mínum að ég hef bara aldrei komist í annað eins. Ég get varla haft augun af þér. Ég er svo undrandi að ég bara verð að segja þér frá þessu. Ja, þvílíkt, segir hann og slær sér á lær. Ög hvaðan ert þú, _ með leyfi að spyrja, segi ég. Ég er írskur að uppruna en hef lengi átt heima hér og í Englandi, segir hann. Já, einmitt, segi ég, en við verðum nú víst að nota þennan stutta tíma sem við höfum hér á þessari helgu ey, við, skulum spjalla svolítið saman þegar við komum um borð. Hann tók þessu vel, síðan tók fylgdarmaður okkar mynd af okkur tveimur og skildum við að sinni, báðir nokkuð undrandi, held ég megi segja. Með söknuði kvöddum við eyna helgu og ferjan sigldi sína leið. Tíminn_ var nægur og á daginn leið. Ég gekk á þilfar og skyggndist um eftir hinum nýja vini. Jú, mikið rétt, þarna situr hann á bekk, Eiríkur enn, auðþekktur. Ég gekk til hans og hann bauð mér ljúfmannlega að setjast við hlið sér og tókum við tal saman. Hann sagðist heita Gillespie og hefði upphaflega verið eins konar arkitekt, en síðan snúið sér að kennslustörf- um og síðast lengi verið skóla- stjóri í verkmenntaskóla eða kannski tækniskóla í Kent á Englandi. Nú væri hann kominn á eftirlaun. Fæddur sagðist hann vera í Belfast í Ulster á írlandi og væri írskur maður, en fjölskylda sín hefði fyrir mörg- um öldum komið til Irlands frá Norðvestur-Skotlandi. Ungur hefði hann svo farið til Skotlands og síðan Englands eins og margir landar hans. Síðan bað hann mig afsökunar á að hann hefði slegist svona upp á mig, en ég bara varð að gera það, sagði hann aftur, þú ert svo nauðalíkur eldri bróður mínum að það er alveg makalaust. Það er ekki eitt, heldur allt, látbragð og fram- koma, sömu taktarnir. Éða með öðrum orðum, hann lýsti þessu nákvæmlega eins og ég vildi hafa lýst því sem ég hugsaði um hann og Éirík Pálsson. Annars þarft þú ekkert að vera óánægður með þetta, sagði hann svo hlæjandi, því hann bróðir minn gamli er allra viðkunnanlegasti náungi. Ég sagði Mr. Gillespie að ég hefði lengi verið safnstjóri í Þjóðminjasafninu á íslandi. Hver veit nema við eigum þá sameiginlegan kunningja, sagði hann. Kona mín og Douglas Allan, sem lengi var yfirmaður Þjóðminjasafnsins í Edinborg eru nefnilega systkinabörn. Kannski þú þekkir hann? Það er nú líkast til, sagði ég, hann kom til mín í Þjóðminjasafnið í Reykjavík og ég bauð honum með mér austur á Þingvöll, og seinna kom ég við hjá honum í hans safni í Edinborg. Já, já, og við Mr. Gillespie komumst að þeirri gamalkunnu niðurstöðu, að heimurinn væri lítill. Vel fór á með okkur. Ég sagði honum hvað ég hafði verið að hugsa um hann og Eirík Pálsson og nú leiddist tal okkar að alþekktum sögum um samskipti Ira og hinna fornu Norðmanna sem námu ísland. Gillespie reyndist mjög viðtalshæfur um þetta efni og veltum við því fyrir okkur góða stund. Aldrei hefur mér dottið í hug að bera brigður á að írskt blóð renni í æðum okkar Islendinga, en hinu get ég ekki neitað, að ég er ekki í hópi þeirra sem mest vilja gera úr því. Þvert á móti hef ég lengi haldið, að írski þátturinn í ætterni okar hafi bæði fyrr og síðar verið allmjög ýktur, mönnum hefur þótt eitthvað ævintýralegt og jafnvel fínt að vera ekki bara venjulegur norskur sveitamaður að uppruna, heldur líka írskur, kannski jafnvel af írsku kon- ungablóði. Ég held þetta reynd- ar enn, en hvað á maður að segja, þegar annað eins og þetta hvolfdist tvöfalt yfir mann, án þess að minnsti_vottur afhugsun um skyldleika Islendinga og Ira hafi hvarflað að manni að fyrra bragði? Tóm tilviljun? Vera má það, kannski. Og þó. 6. júlí 1978. NORÐURSLÓÐ - 3 Kristján Eldjárn og Mr. Gillespie í klausturgarðinum á Iona. Búnaðarfélag Svarf- dæla - stofnað 1880 hefur staðið fyrir hverskonar umbót- um á sviði ræktunar jarðar og búfjár og almennum fram- faramálum í Svarf- aðardal um hart nær aldarskeið. Félagið sendir Svarfdælingum nær og fjær bestu kveðjur um jól og nýár og óskar öllum farsældar á árinu 1979.

x

Norðurslóð

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.