Feykir


Feykir - 31.08.2016, Side 8

Feykir - 31.08.2016, Side 8
8 32/2016 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Ingólfur Ómar Ármannsson sem er höfundur að fyrstu vísunum að þessu sinni. Munu þær vera ortar á Snæfellsnesi, í fallegri kvöldsól. Ljómar sunna loga skær lýsir jökulskalla. Ótal myndir á sig fær ásýnd blárra fjalla. Sé ég glit við sjónarrönd sólareldur logar. Báran hjalar blítt við strönd blika sund og vogar. Foldarprýði fáguð öll ferðamanninn laðar. Roða gulli reifast fjöll röðull landið baðar. Eftir hinu forna tímatali standa nú yfir, eins og margir vita, er þessi þáttur er í smíðum, svokallaðir hundadagar. Oft gat brugðist til beggja vona fyrir heyskaparfólk hér áður fyrr þegar einu verkfærin voru orf og hrífa. Ef illa gekk bölvaði fólk þessum dögum og taldi þá skapa slæma ævi, eins og fram kemur í næstu vísu, sem ort er af konu sem mun hafa búið við harða lífsbaráttu alla ævi. Hún hét Sigurbjörg Björnsdóttir frá Staðartungu í Hörgárdal. Bernskulundin buguð var blóðug undin klagar allar stundir ævinnar urðu hundadagar. Önnur vísa kemur hér eftir Sigurbjörgu, hef ég kunnað hana að mér finnst í áratugi en er nú nýbúinn að vita um höfund hennar. Sá er kannar kuldann hér kann að verða feginn, ef hann fær að orna sér við eldana hinu megin. Síðastliðinn vetur var í útvarpinu á Rás 1 á kvöldin lesið upp úr æviminningum Tryggva Emilssonar. Var meðal annars frásögn af ferðum Tryggva, er hann var bóndi í Öxnadal, í fjárleit þar í fjallgarðinn. Var hann svo lánssamur að finna í þeirri ferð ær með hrútslambi sem háttsettur maður á Akureyri átti. Stjórnaði þá Sjálfstæðisflokkurinn bæn- um og var þessi kindaeigandi æðsta ráð þar um þetta leyti. Þótti honum vænt um sínar kindur og hafði gert allt sem hann gat til að finna parið. Þegar Tryggvi kemur með þau skilaboð að ærin sé fundin verður eigandinn svo glaður að hann bíður Tryggva, sem þá var yfirlýstur andstæðingur sjálfstæðismanna, starf hjá bænum við að innheimta reikninga fyrir það fyrirtæki sem þá hét Rafmagnsveitur Akureyrar. Tók hann þessu góða boði boði með þökkum og segir sagan að með fyrstu ferðum hans hafi verið að heimsækja Sigurbjörgu, sem þá átti orðið heimili á Akureyri. Fannst henni að þessi harði baráttumaður verkalýðsins ætti að fást við önnur verkefni. Eftir komu hans í hús Sigurbjargar varð þessi til. Röltir um með reikning skakkan Vísnaþáttur 671 rukkar fyrir íhaldið. Mér finnst betra að horfa í hnakkann heldur en í andlitið. Tíminn líður fljótt á milli gjalddaga hjá þeim sem lítið eiga í sjóði. Aftur er rukkarinn kominn og finnst þá Sigurbjörgu rétt að breyta vísunni. Settu upp hattinn, hnepptu frakkann hafðu á þér fararsnið. Mér finnst betra að horfa í hnakkann heldur en í andlitið. Sigurbjörg var einhleyp alla ævi og gerði stundum í vísum sínum grín að því. Skoppar lipur út og inn ekki er gripur viðfelldinn, og á svipinn síúfin svarti piparbaukurinn. Á fallegu haustkvöldi, þegar tunglið var að taka völdin af niðdimmu haustmyrkri, orti Sigurbjörg. Myrkrið er að missa þrótt máninn tekur völdin. Nú er ekki lengur ljótt að líta út á kvöldin. Hér í Húnaþingi hefur nú undanfarnar margar nætur ríkt dimm þoka og oft rásað um fjallgarðinn mest allan daginn. Svo hefur trúlega verið er Rósberg G. Snædal orti þessa hringhendu. Dropasmáar daggir gljá drjúpa strá á völlum. Þokubláir bólstrar á brúnaháum fjöllum. Kannski er gaman að rifja enn og aftur upp þessa kunnu vísu prófessorsins Sigurðar Norðdal. Yfir flúðir auðnu og meins elfur lífsins streymir. Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Minnir að þessi sé eftir Braga Jóns frá Hoftúnum. Fyrir því má finna staf forn er þessi saga, Að margir súpa seyðið af syndum æskudaga. Einn af tryggum áskrifendum að Feyki mun eftir að hafa lesið síðasta tölublað vandlega ort svo. Örvæntingar önug sál oftast froðu sleikir. Ekki virðast vísnamál vanta í blaðið Feykir. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is Núna er sumarið á enda en túristatímabilinu hvergi nærri lokið. Ég er búin að vera í rekstri á söluskálanum Hörpu ásamt mömmu minni í 10 ár í ágúst 2016 og gaman að sjá allar þær breytingar sem að hafa orðið hér í Húnaþingi vestra. Ég man að fyrir 10 árum síðan, þegar að við byrjuðum, þá var það hending að sjá túrista, manni lá við að hringja í björgunarsveitina eða spyrja: „Ertu týndur vinur?“ Í dag þá er þetta tímabil orðið nánast allt árið og má þar Selasetrinu og fleirum margt þakka, mikil uppbygging sem að heldur bara áfram og megum við öll í sveitafélaginu vera stolt af okkur og þeim framförum sem að hér hafa orðið. Sérstaklega tekur maður eftir því hjá ferðamönnum að þeir minnist á hversu fallegt og snyrtilegt sé hérna, hvað allt sé heimilislegt og mikið að gera á ekki stærra svæði. Verslanir matsölustaðir, hestaleigur selaskoðun, bókasafn, sundlaug og fleira. Svo kom það skemmtilega á óvart hversu margir eru farnir að þekkja staðinn, hafa lesið um hann í erlendum ferðabæklingum eða heyrt um hann frá vinum og gera sér ferð hingað. Þá kemur pínu mont í mann af sveitinni sinni. Algengasta spurningin sem að ég fæ (fyrir utan: Hvar sé ég selina?) er sú hversu margir búa hérna og þegar að ég segi þeim 500 í þorpinu og 1200 með sveitinni trúa þeir manni varla. Það sannar bara máltækið margt smátt gerir eitt stórt. Núna er bara að halda áfram að gera vel. - - - -- - Ég vil skora á Heiðu Haralds á Hvammstanga að taka við pennanum Inga Rut Ómarsdóttir á Hvammstanga skrifar „Ertu týndur vinur?“ ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN kristin@feykir.is „Núna er ég tilbúinn að hjálpa ykkur“ Einlægt myndband ungs Króksara vekur athygli Myndband sem Sauðkrækingurinn Daníel Þórarinsson setti á fésbókarsíðu sína nýlega hefur vakið mikla athygli en þar opnar hann hjarta sitt fyrir almenningi er hann opinberlega kemur út úr skápnum. „Ég er að opna mig með mínar tilfinningar, sem hljóðar þannig að ég fæddist aðeins öðru vísi en flestir aðrir,“ segir Daníel í myndbandinu. Þegar þetta er skrifað hafa 22 þúsund manns skoðað myndbandið. Daníel spyr hvað það er að vera öðruvísi. „Maður er alltaf að passa sig að falla inn í eitthvað norm, en þetta norm er ekkert rosalega frábært fyrir alla og ekki fyrir mig. Það er búið að vera mikil vinna að reyna falla inn í þetta norm.“ Hann segist vera kominn á þann stað í sínu lífi að hann ætli að sleppa tökunum á því og koma út úr skápnum. „Allt mitt líf er ég búinn að reyna að vera einhver annar en ég er. En það sem skiptir máli er að manni líði vel hérna,“ segir Daníel og bendir á hjarta sitt. Daníel segir í samtali við Feyki að þetta hafa legið þungt á sér áður en hann tók þá ákvörðun að opinbera samkynhneigð sína en það hafi heldur betur breyst í hina mestu hamingju. Fyrirfram hafði Daníel ekki búist við því. Í myndbandinu hvetur Daníel aðra til að hafa samband við sig ef viðkomandi telji hann geta hjálpað við eitthvað. Að sögn Daníels hefur fólk þegar haft samband með ýmis vandamál og margt jákvætt komið út úr því. „Núna er ég tilbúinn að hjálpa ykkur. Talið við mig þó að þið þekkið mig ekkert,“ segir Daníel í lok myndbandsins. /PF

x

Feykir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.