Feykir


Feykir - 04.04.2013, Blaðsíða 6

Feykir - 04.04.2013, Blaðsíða 6
6 Feykir 13/2013 08/2013 júlíus jóhannsson brottfluttur Sauðkrækingur hefur mörg járn í eldinum Viðtal Pall Friðriksson Júlíus Jóhannsson er brottfluttur Króksari sem þótti uppátækjasamur í æsku. Hann segist hafa verið ofvirkur með athyglisbrest á æskuárum en þá var það kallað óþekkt. Júlíus hefur náð að virkja kraftinn sem býr innra með honum og hefur vanalega mörg járn í eldinum en meðal verka hans er að hafa komið Góa og eldfærunum á koppinn sem og Góa og baunagrasinu sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu. Feykir hafði samband við Júlíus og spurði hann um æskuárin á Króknum og hvað lífið hafði uppá að bjóða er hann hleypti heimdraganum. Júlíus er sonur Jóhanns heitins Júlíusarsonar, Djóka sem var sjómaður og Valdísar Hagalínsdóttur verkakonu og er hann yngstur fjögurra systkina. Með eiginkonu sinni, Moniku Hjálmtýsdóttur viðskiptafræðingi, á hann einn son, Jakob Hagalín 5 ára en áður eignaðist hann soninn Jóhann Sölva, 17 ára menntaskólanema. Þau hjón eiga og reka fasteignasölu í Reykjavík sem heitir Kaupsýslan auk þess sem þau eru leikritaframleiðendur í hjáverkum. -Það voru forréttindi að fá að alast upp á Króknum. Fyrir dreng eins og mig, sem er fullur af athyglisbresti og ofvirkni eða óþekkt eins og það hét nú í þá daga, þá var gott að búa á Króknum. Ég var mikið í hestunum með Ingimari Pálssyni og var ég hálfgerður heimalingur hjá þeim Ingimari og frú Halldóru Helgadóttur til margra ára. Það að hafa fengið að vera með Ingimari í hestunum og beina ofvirkninni þangað hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á líf mitt og Dóruhakkið er best, segir Júlíus og bætir við að margt hafi verið brallað, sumt birtingarhæft og annað alls ekki. Júlíus er af þeim skemmtilega árgangi 1974 og eins og hann segir sjálfur þá hefur líklega verið mikill fögnuður á kennarastofunni þegar margir af þeim árgangi gengu í hinsta sinn úr Gagganum. -Er mér saga fersk í minni af Stefáni nokkrum Jónssyni, vini og skólabróður þegar við vorum að fara yfir stöðuna hvað við ætluðum að verða eftir hálft ár að skólagöngu lokinni. Jú, við ætluðum að verða sjómenn eins og feður okkar. Þá voru engin há plön um að fara í menntaskóla eða feta menntaveginn frekar enda búnir að vera óþekkir alla skólagönguna og pössuðum illa inn í þann ramma sem jafnan er reynt að setja fólk í. En víkur sögu okkar að samræmdu prófi í ensku. Við Stefán förum saman í prófið. Tjáir Stefán mér að þetta verði ekkert mál, ég þurfi ekki að vera stressaður, enda hafði ég aldrei fundið fyrir stressi... og einkunnirnar eftir því. Að fimmtán mínútum liðnum af próftímanum sé ég Stefán standa upp og skila prófinu. Hann lítur síðan á mig og brosir. Ég hugsaði með mér, góðir gestir, þarna er að labba maður fram sem er í þann mund að fá einn eða tvo á prófi. Kem þó í humátt á eftir honum, þar sem ég hafði ekki verið vel undirbúin fyrir prófið sjálfur og hitti hann frammi á gangi. Ég spyr hann hvernig hafi gengið. Svaraði hann mér. Júlli, ég gat svarað öllu, þetta var skítlétt. Fréttirnar fá aðeins á mig þar sem að ég hafði alls ekki sjálfur getað svarað þeim öllum. Spyr hann aftur, ertu viss um að þú hafir svarað þeim öllum. Segir hann, já öllum nema efstu, þar stóð Name og ég giskaði á Afríka. Þetta er nú bara ein saklaus saga af mörgum. Eflaust gæti maður gefið út bók með örsögum af skemmtilegum uppátækjum vina og kunningja á Króknun og hver veit nema það muni líta dagsins ljós einn daginn. Árið 1993 fer Júlíus frá Sauðárkróki þar sem hann hafði ráðið sig í vinnu hjá Hampiðjunni og hugðist gerast netagerðamaður. Sá draumur varð þó skammvinnur því að hann hafði uppgötvað dulinn hæfileika sem var sölumennska og fór að vinna í tískuvöruversluninni Sautján. -Er mér minnistætt þegar strákarnir af Skaftanum komu og voru að fara á árshátíð, vantaði þá jakkaföt. Það var ekki mikið mál, seldi þeim nánast öllum sömu jakkafötin og þegar Fasteignasalinn Júlíus. þeir komu svo á fögnuðinn þá voru þeir allir eins, segir Júlíus og hlær. Gói og eldfærin verða til Þegar Júlíus er spurður um aðkomu hans að leikritinu um Góa og eldfærin segist hann sem ungur maður hafa hlustað mikið á ævintýrið um eldfærin og Jóa og baunagrasið sem Gylfi Ægis og Rúnar heitinn Júl og Hemmi Gunn gerðu ódauðlegt hér um árið. Og þegar Jóhann Sölvi sonur hans var yngri þá hlustuðu þeir feðgar einnig mikið á þessi ævintýri. Kviknaði þá hjá Júlíusi sú hugmynd að gaman væri að koma þessum ævintýrum inn í leikhús. Sótti þessi hugmynd að honum aftur og aftur í a.m.k. áratug eða alveg þangað til hann fann sig knúinn til að gera eitthvað í málinu. -Var ég á þessum tíma að vinna hjá Prime umboðsskrifstofu og ákváðum við Páll Eyjólfsson eigandi Prime og Monika konan mín að hrinda þessu í framkvæmd. Það var svo þegar ég hitti Guðjón Davíð Karlsson leikara, betur þekktur sem Gói og Vigni Snæ Vigfússon tónlistarmann að hjólin fóru að snúast. Þá var spurningin, hvar ætti að setja sýninguna upp. Fór ég á fund með Magnúsi Geir Þórðarsyni leikhússtjóra Borgarleikhússins og kynnti fyrir honum hugmyndina að þremur verkum sem honum leist mjög vel á. Úr varð að ákveðið var að uppfærslan um Góa og Eldfærin yrði sett upp í Borgarleikhúsinu og fengum við til liðs við okkur Þröst Leó Gunnarsson stórleikara og snilling og var verkið frumsýnt í apríl 2011, segir Júlíus en skemmst er frá því að segja að sýningin fékk feiknagóðar viðtökur. Leikritið fékk mjög góða dóma og var tilnefnt til Grímunnar það árið sem besta barnasýning og sem besta sýningin að mati áhorfenda. Nú er verið að sýna Góa og baunagrasið og segir Júlíus að aldrei hafi verið nein spurning með framhald. -Nei, fyrir lá samningur við Borgarleikhúsið um þrjú verk. Þegar ráðist var í næsta verk var pressan mikil að gera enn betur með Góa og baunagrasið eftir mjög góða velgengni Eldfæranna. Baunagrasið gekk enn betur en Eldfærin og mjög góðir dómar rötuðu í hús. Auk þess fengum við aftur tilnefningu til Grímunnar sem besta barnasýningin, eitt þriggja verka árið 2012. Við erum ofboðslega stolt af þessum verkefnum þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Við erum svo lánsöm að hafa með okkur frábæra samferðamenn. Við erum framleiðendur sýninganna í samstarfi við Júlíus hefur mikið yndi af útivist og eru fiskveiðar í uppáhaldi. Borgarleikhúsið sem er jú atvinnuleikhús þar sem mikil fagmennska og metnaður er einkennandi og nutum við liðsinni þess frábæra starfsfólks sem þar vinnur. Gói og Þröstur eru náttúrulega snillingar og leikarar af guðs náð og Vignir Snær sem semur tónlistina er mikill listamaður og fagmaður svo ekki sé minnst á alla hina fagmennina sem koma að verkefninu, segir Júlíus. Hvað er einkennandi fyrir sýningarnar? -Einfaldleikinn er í fyrirrúmi, þar sem áherslan er lögð á að virkja ímyndunaraflið. Hugmyndin er raun sú að sýna fram á að krakkar, jafnt sem fullorðnir geti skapað sér ævintýraheim sem á sér engin takmörk, án þess að umgjörðin eða leikmyndin sé mikil. Börn eru svo ótrúlega skapandi og þegar þess er krafist af þeim að þau noti ímyndunaraflið til þess að lifa sig inn í ævintýraheim eins og gert er í þessum verkum, þá verður upplifunin enn sterkari og raunverulegri. Hefur það líka sýnt sig á sýningum að börnin taka virkan þátt og láta heyra í sér. Það til dæmis bregst ekki að þegar Gói er í þann mund af fara að taka óskynsamlega ákvörðun í hlutverki sínu, þ.e. hann ætlar að fara upp til risans enn einu sinni þrátt fyrir að móðir hans hafi bannað honum það, þá hrópa börnin upp á svið og reyna að hafa áhrif á atburðarrásina því þau vilja alls ekki að Gói lendi aftur í hættulegum aðstæðum. Það er fátt eins skemmtiegt og að fara með börn í leikhús. Hjá okkur þá mega þau hlæja og gráta og vera með vesen. Þau eru börn og eiga að fá að haga sér eins og slík og það gerir leikhúsið svo miklu líflegra og skemmtilegra. Júlíus segir að búast megi við framhaldi á Góa og Þresti Leó í öðrum ævintýrum þar sem nú þegar sé verk á teikniborðinu sem tilheyrir leiksyrpu þeirra félaga Góa og Þrastar Leós en getur ekki sagt meira frá því að svo stöddu. Gói og baunagrasið ætla í smá ferðalag um helgina því tvær sýningar eru áætlaðar í Hofi á Akureyri næsta sunnudag og hvetur Júlíus alla Skagfirðinga og nágranna til að mæta í Hof og sjá þessa frábæru sýningu. Miðasala fer fram á menningarhus.is og í síma 450 1000 en hægt er að fylgjast með á Facebook undir heitinu Baunagrasið. Ætlaði í netagerð en endaði í sölumennsku

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.