Morgunblaðið - 11.03.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 11.03.2020, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. MARS 2020FRÉTTIR Þarftu skjóta afgreiðslu á ein- blöðungum, bæklingum, vegg- spjöldum, skýrslum, eða nafn- spjöldum? Þá gæti stafræna leiðin hentað þér. Sendu okkur línu og fáðu verðtilboð. STAFRÆNT Í stað þess að fara í útskriftarferð dvaldi ég í Amman í Jórdaníu sumarið 2000, og þóttist ætla að læra arabísku á meðan skólafélagar mínir úr MR myndu leika við hvern sinn fingur, tógaklæddir og hífaðir, í strandbæ einhvers staðar við Miðjarðarhafið. Heiftarleg magapest varð til þess að ég flosnaði úr námi, og enn hefur mér ekki tekist að læra almennilega að telja upp að tíu á arabísku. Tvennt lærði ég þó í Amman: að ef sjavarma-kokkur notar sömu puttana til að taka við skítugum seðlum og hann notar til að búa til vefjurnar, þá er vissara að henda matnum beint í ruslið; og að Beirút sé æðislegur stað- ur þar sem býr frjálslynt, þenkjandi og lífsglatt fólk. Það var í Amman sem ég heyrði höfuðborg Líbanons fyrst lýst sem „París Miðausturlanda“, og af frá- sögnum kunningja minna í Jórdaníu átti lífið þar að vera dans á rósum: í Líbanon væri að finna agnarsmáa, menningarlega og vestræna vin um- kringda risastórri eyðimörk arabískra rudda frá Sýrlandi í norðri til Sádi- Arabíu og Egyptalands í suðri. Gott ef það fylgdi ekki sögunni að í Líbanon væri karlpeningurinn einstaklega myndarlegur og samkynhneigðir meira eða minna látnir í friði á meðan þeir þyrftu að þola ofsóknir í flestum öðrum löndum í þessum heimshluta. Þegar ég loksins heimsótti Beirút, röskum áratug síðar, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Vinin í eyði- mörkinni reyndist eintómar hillingar og hefur mér sjaldan leiðst jafn mikið í nokkurri borg. Rann upp fyrir mér að glamúr-áratugirnir eftir seinna stríð – þegar Beirút var bæði fjár- málamiðstöð fyrir þennan heimshluta og laðaði til sín hipp og kúl sóldýrk- endur – væru löngu liðnir. Þótt tekist hefði að binda enda á sextán ára borgarastyrjöld árið 1990 voru sárin ekki gróin að fullu, og friðarsam- komulagið sem tryggja átti betra valdajafnvægi á milli trúarhópanna í landinu hafði skapað ný og alvarleg vandamál. Jafnt og þétt hefur efnahagur Líb- anons dalað og núna virðist landið loksins ætla að kikna undan uppsöfn- uðum vanda undanfarinna þriggja áratuga. Gjaldeyrisskortur er í land- inu og bankarnir skammta peninga. Í miðborg Beirút láta mótmælendur öllum illum látum, dauðþreyttir á spilltum stjórnmála- og embættis- mönnum og mislukkaðri hagstjórn. Þeir beina bræði sinni ekki hvað síst að bönkunum; mölva hraðbanka í spað og kveikja jafnvel í banka- útibúum. Um helgina varð ljóst að stjórnvöld gætu ekki lengur greitt af risavöxnum skuldum sínum. Er vandséð hvernig koma má Líbanon aftur á réttan kjöl. Viðkvæmt jafnvægi Þegar rifja þarf upp sögu Líban- ons er erfiðast að ákveða hvar á að byrja enda leitun að öðrum eins hrærigraut átaka og menningar- strauma. Í fornöld skiptust Fönikíu- menn, Egyptar, Hittítar, Persar og Babílóníumenn á að ráða yfir þessu svæði. Svo komu Grikkir, Rómverjar og Sassanídar, þá arabísk veldi af ýmsum toga, allt þar til Ottómanar náðu þar yfirráðum árið 1516 og héldu fram til loka fyrri heimsstyrj- aldar þegar Líbanon færðist undir yfirráð Frakka. Frá því að landið öðl- aðist sjálfstæði árið 1943 hefur ekki lítið gengið á og þegar rennt er yfir sögubækurnar virðist aldrei hafa ríkt þar ró og spekt í lengri tíma nema rétt á 7. áratugnum þegar fjármála- og ferðaþjónustugeirinn stóð í blóma. Eftir langvarandi átök og ólgu sauð upp úr árið 1975 og brast á borgara- styrjöld sem varði í sextán ár. Þegar tókst loks að stilla til friðar var ákveðið að bæta valdajafnvægið á milli trúarhópanna í landinu með því að gera minniháttar breytingar á kerfi sem hafði verið við lýði frá því fyrir seinni heimsstyrjöld, og kveður á um skiptingu embætta, þingsæta og starfa í stjórnsýslunni eftir trúar- línum. Sem fyrr skyldi forsetinn vera kristinn maroníti, þingforsetinn sjía- múslimi og forsætisráðherrann súnní-múslimi. Allir skyldu elska friðinn og strjúka kviðinn. Það er þessi skipting stjórnmál- anna á grundvelli trúarbragða sem margir mótmælendur í Beirút vilja meina að sé rót vandans: stjórnkerfið hafi fyrir löngu tekið að snúast um bitlinga innan hvers trúarhóps frekar en faglega stjórnsýslu í almanna- þágu. Spillingin hefur tekið á sig ótrúlegustu myndir og þannig rataði í fréttir fyrir skemmstu að það fé sem safnast í stöðumælana í Beirút hefur ekki runnið til borgarsjóðs, heldur til vel tengds fyrirtækis sem gerði á sín- um tíma samning við stjórnvöld um rekstur mælanna. Hinu opinbera veitir ekki af stöðumælaklinkinu: skuldir ríkis- sjóðs eru svo háar að nærri helm- ingur skattekna ríkisins fer í að greiða vexti. Líbanon lendir í þriðja sæti á lista þeirra þjóða sem skulda mest í hlutfalli við landsframleiðslu, fyrir neðan Japan og Grikkland. Fitch reiknast til að líbanski seðla- bankinn, Banque du Liban, sé í 40 milljarða dala skuld. Mistök Argentínu, Grikklands og Japans í einum pakka En vandi Líbanons er flóknari en svo að hægt sé að laga hann með því einu að taka til í stjórnkerfinu og uppræta spillingu. Í tvo áratugi hefur gengi líbanska pundsins verið fest við gengi Bandaríkjadals og hlýtur að þurfa að setja lívruna á flot. Ef svartamarkaðsgengið er notað til við- miðunar myndi það þýða að þjóðar- gjaldmiðillinn helmingaðist í verði. Því næst myndi þurfa að semja um skuldirnar sem í dag má kaupa með 43 til 75 prósenta afslætti, samhliða því að grisja stjórnsýsluna rækilega – hægara sagt en gert því ætla má að um fimmtungur landsmanna sé beint eða óbeint háður launaseðli frá hinu opinbera. Líbanon hefur einhvern veginn tekist að gera allt það versta sem gert var í Argentínu, Grikklandi og Suðaustur-Asíu, frá fastgengisstefnu til skuldasöfnunar. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort leiðtogum Líbanons tekst að leysa úr þessum risavaxna vanda. Í fljótu bragði er aðeins eitt sem gefur tilefni til bjartsýni, og það er tal og fas mót- mælenda á götum úti. Í viðtölum má heyra að þar er á ferðinni ný kynslóð með allt aðrar áherslur, sem lætur sig litlu varða hvaða trúarbrögðum eða stétt fólk tilheyrir, og þykir af og frá að útdeila embættum eftir trúar- línum frekar en að velja þann hæf- asta í starfið. Ef maður hlustar á það sem þetta fólk segir mætti halda að Beirút sé æðislegur staður, þar sem býr frjálslynt, þenkjandi og lífsglatt fólk. Bankarnir brenna í Beirút Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Istanbúl ai@mbl.is Í þrjátíu ár hefur vandi Líb- anons vaxið jafnt og þétt og stendur landið núna frammi fyrir ókleifu skulda- fjalli, grútspilltri stjórnsýslu og gjaldmiðli sem er löngu búinn að missa alla teng- ingu við veruleikann. AFP Óeirðalögreglan í Beirút hefur haft í nógu að snúast að undanförnu. Almenningur er, eðlilega, þreyttur á ástandinu í Líbanon en ráðast þarf í sársaukafullar aðgerðir og róttækar breytingar til að laga vandann.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.