Morgunblaðið - 30.10.2021, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 30.10.2021, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. OKTÓBER 2021 ✝ Vignir Einar Thoroddsen fæddist 18. júlí 1948 á Bíldudal. Hann lést á Land- spítalanum 20. október 2021. Hann var sonur hjónanna Erlu Thoroddsen, f. 1923, og Stefáns Thoroddsen, úti- bússtjóra Vestur- bæjarútibús Búnaðarbankans, f. 1922, d. 1997. Systkini Vignis eru Sigríður, Freyja og Björn en Vignir var þeirra næstelstur. Vignir kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Kristínu Guð- mundsdóttur enskukennara, f. 1948, árið 1979. Dóttir þeirra er Hanna Kristín Thoroddsen við- skiptafræðingur, f. 1980. Unn- usti hennar er Brynjar Darri Jónasson. Vignir var ungur að árum þegar fjölskyldan flutti frá Bíldudal og suður í Hafnarfjörð. Hann var þó öll sumur í sveit á Gjögri, uns hann hafði aldur til þess að vinna brú- arvinnu á Vest- fjörðum á sumrin. Hann lauk stúd- entsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og vann fyrst hjá JL- húsinu og síðar Skrifstofu Rannsóknastofnana atvinnu- veganna til ársins 1984 þegar hann var hann ráðinn til Haf- rannsóknastofnunar, þar sem hann sinnti starfi aðstoðarfor- stjóra til starfsloka. Síðustu ár- in naut Vignir ferðalaga með eiginkonu sinni, lék golf, skíðaði og sinnti ýmsum trún- aðarstörfum fyrir Oddfellow- stúkuna Ingólf. Útför Vignis fór fram 28. október 2021. Vignir bróðir okkar er látinn. Hann er okkur öllum harm- dauði og okkur finnst tími hans hér hafa verið of stuttur fyrir mann sem hafði eins gaman af líf- inu og hann. Vignir var samt já- kvæður fram á síðustu stundu og bjó yfir mikilli sálarró þrátt fyrir erfið veikindi. Við erum fjögur systkinin og Vignir líklega líkast- ur pabba okkar í fasi og gjörn- ingum, báðir hávaxnir og mynd- arlegir. Það hefur alltaf verið mjög gott á milli okkar systkina og gott samband þrátt fyrir að systurnar hafi búið í Svíþjóð og á Austfjörðum. Við þrjú elstu erum fædd á Bíldudal og á sá staður alltaf stóran sess í hjartanu. Minningar úr bernsku um ævintýri og enda- laust sólskin í þorpinu okkar þar sem frænkur og frændur bjuggu í hverju húsi. Seinna fæddist svo litli bróðir Björn í Hafnarfirðin- um og átti hann eftir að verða þekktastur af okkur öllum. Vignir bróðir hafði góða söng- rödd og stofnaði sönghóp ásamt félögum sínum úr MR. Áhugi hans á ættfræði jókst með árun- um og beið hann spenntur eftir því að lesa bók Ólínu frænku okk- ar um föðurættina. Bókina auðn- aðist honum að lesa áður en yfir lauk og hafði gaman af. Þar kom að við systkinin stofn- uðum fjölskyldur og Vignir bróð- ir eignaðist yndislega konu og dóttur, Kristínu og Hönnu Krist- ínu, og Kristín eiginkona hans er búin að vera kletturinn hans í öll- um veikindunum. Minningabrot koma upp í hugann eins og þegar við systkinin mættum öll á Bíldu- dals grænar 2015. Þá var nú glatt á hjalla. Svo kemur ein saga frá mót- unarárum þeirra bræðranna. Á þeim árum þegar pabbi og mamma bjuggu á Njálsgötunni voru bræðurnir með herbergi í annarri álmu íbúðarinnar með sérinngangi. Þannig var Vignir með stórt herbergi og Bjössi með lítið herbergi sem hafði áður ver- ið eldhús. Sambúðin gekk ágætlega en mikill munur var á lífsstíl þeirra bræðra í skemmtanalífinu. Annar hlustaði á Black Sabbath og fékk vini til þess að kaupa ákavíti í Ríkinu en hinn hlustaði á klass- íska músík og drakk rauðvín. Átti sá eldri rauðvínsbelgi í herberg- inu sem sá yngri leit hýru auga og læddist til að tappa af við og við. Það kom sér vel fyrir skólaball í Flensborg og hugðist Bjössi nýta birgðirnar þar en hann varaði sig ekki á því að rauðvínið hafði smám saman gerjast í heitu eld- húsinu. Gleðin endaði svo með því að Bjössi varð fárveikur og kast- aði upp. Ekki fer sögum af nein- um eftirmálum af stuldinum enda Vignir umburðarlyndur maður. Þetta eru fátækleg minningar- orð um þann mannkostamann sem Vignir bróðir var en við segj- um: Hvíl í friði, elsku bróðir. Sigríður Thoroddsen, Freyja Thoroddsen Åkesson og Björn Thoroddsen. Stórfrændi og æskuvinur er látinn úr óvægnum sjúkdómi rétt rúmlega sjötugur. Hann lést í æsku sinni eins og sagt var ein- hvern tíma um annan mann, enda er þetta enginn aldur nú á dög- um. Dauðinn er hins vegar stund- vís þegar sá gállinn er á honum. Við vorum í sama mennta- skólaárgangi, en leiðir okkar lágu saman í brúarvinnuflokki Sigfús- ar Kristjánssonar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þar bjuggum við í tjöldum og síðar í skúrum sum- arlangt, lærðum að vinna, kynnt- umst landinu og fólki af öllum manngerðum. Við gerðum líka mikið úr frændseminni, enda af sterkum meiði komnir. Við nut- um þess m.a. í heimboðum til ætt- menna, einkum á Bíldudal, þar sem okkur var tekið sem stór- höfðingjum, menntaskólastrák- lingum að sunnan. Á brúnni unn- um við okkur fljótt upp í merkilegan starfstitil, við vorum gervismiðir, og ég veit ekki betur en að við höldum honum enn, enda ansi lunknir við smíðar. Þarna tóku ungir menn út þroska sem sjálfsagt var annar en ef við hefðum verið öll þessi sumur „í bænum“. Vignir var hæglátur en sterkur karakter og úrræðagóð- ur. Hann var hlýr og hafði góða nærveru, stóð á sínu þegar heimsmálin voru krufin til mergj- ar út á brúardekki eða í matar- skúrnum á kvöldin. Hann var góður félagi. Eftir menntaskólavetur og brúarvinnusumur skildi leiðir eins og gengur, fórum hvor í sína áttina. Alltaf var hins vegar strengur á milli okkar, fagnaðar- fundir þegar við hittumst, stund- um á förnum vegi, eða á tónleik- um Bjössa litla bróður. Undanfarna mánuði var samt ljóst í hvað stefndi. Honum var samt tamara að tala um gamla og góða tíma en sjúkdóm sinn í þeim símtölum sem við áttum, var æðrulaus, yfirvegaður og kannski tilbúinn. Ég votta Kristínu, Hönnu Kristínu og öllum aðstandendum djúpa samúð. Við sjáum á eftir góðum dreng. Sigurður Guðmundsson. Morgunbirta haustsólarinnar umvafði Kópavoginn og byggðina umhverfis þegar mágur okkar og svili, Vignir Einar Thoroddsen, andaðist þar á sínu 74. aldursári. Hann hafði þá lengi glímt við ill- vígan sjúkdóm og mátt sæta þeim dómi í byrjun sumars, að við hann yrði ekki ráðið. Hann tók þessum tíðindum af mikilli stillingu og æðruleysi, naut þess sem notið varð og undirbjó sig og sína fyrir það sem beið. Viðbrögð hans komu ekki á óvart. Það var enda ekki margt sem Vignir lét raska ró sinni. Hann var jafnlyndur, fastur fyrir og ákveðinn þegar hann hafði mótað sér afstöðu en dagfars- prúður og ljúfur í viðkynningu. Hann var reglumaður og gekk skipulega að hverju verki, hvort heldur það voru umsvifamikil verkefni í starfi eða ákvörðun um næstu utanlandsferð. Hann lét af störfum eftir sextugt og skipu- lagði eftirlaunaárin af sömu for- sjálni og annað. Allt var það und- irbúið af stakri kostgæfni. Vignir átti farsælan starfsferil, lengst af hjá Hafrannsóknastofn- un, þar sem hann gegndi ábyrgð- armiklu starfi aðstoðarforstjóra og naut trausts um áratuga skeið. Hann var í senn áhugasamur um hlutverk og viðföng stofnunar- innar og stoltur af það vera hluti af þeirri heild sem þar lagði hönd á plóg. Vignir var fjölskyldumaður sem bjó í gæfuríku hjónabandi á fimmta áratug, elskur að Krist- ínu konu sinni og Hönnu Kristínu dóttur þeirra sem hann bar mjög fyrir brjósti og var jafnframt stoltur af. En hann var líka stolt- ur af ættum sínum og uppruna, Vestfirðingur, fæddur á Bíldudal og tengdi við rætur sem liggja einkum þar um héruð og suður af og hann þekkti vel til, svo og ætt- ingja sem af þessum stofnum eru sprottnir. Hann sýndi eldri kyn- slóðinni í fjölskyldunni mikla um- hyggju og ræktarsemi. Vignir var ljós yfirlitum, hár- vaxinn og sterklegur en bar jafn- framt með sér mýkt og lipurð. Allt mun þetta hafa komið að góðu gagni í golfi, sem var honum og Kristínu mikið áhugamál mörg síðari árin. Þau voru sam- hent í golfinu og samtaka í því að búa sér gott og innihaldsríkt líf. Hann las mikið og var áhugamað- ur um tónlist. Ferðalög, hreyfing, matur og vín, allt í passlegum hlutföllum, var með öðru upp- skrift að vel heppnuðu lífi að loknu starfi og átti að endast miklu lengur. Þá sótti hann fé- lagsskap og viðfangsefni í Odd- fellowregluna, sem hann mat mikils og rækti vel. Við nutum þess að eiga náin fjölskyldutengsl við Vigni í yfir 40 ár og minnumst með ánægju margra gleði- og hátíðastunda m.a. um jól og áramót, þar sem þau Kristín tóku á móti fjölskyld- unni með rausn og gleði. Það er með miklum trega sem við kveðj- um góðan dreng sem sárt er saknað. Ásdís Guðmundsdóttir, Þórarinn V. Þórarinsson. Góður samstarfsmaður til margra ára er fallinn frá. Ég kynntist Vigni fyrst haustið 1984 er hann var ráðinn aðstoðarfor- stjóri fjármála á Hafrannsókna- stofnun en þar hafði ég hafði sjálfur hafið störf nokkrum árum áður. Fljótlega varð mér ljóst hví- líkur öðlingur og öndvegisstarfs- maður Vignir var. Þegar ég var orðinn einn af yfirmönnum stofn- unarinnar gerðist Vignir einn minn nánasti samstarfsmaður í um 25 ár eða þar til hann lét af störfum árið 2013. Í löngu sam- starfi man ég ekki eftir að okkur hafi orðið sundurorða og þar bar aldrei skugga á. Vignir var hvers manns hugljúfi og þá sjaldan að hann skipti skapi voru ríkar ástæður til. Sem fjármálastjóri kom Vignir m.a. að útgerð rannsóknaskipa stofnunarinnar, starfsmanna- og ráðningarmálum, kjarasamning- um og húsnæðismálum. Öllum þessum verkefnum sinnti hann af dugnaði, samvisku og sanngirni. Hann bar alla tíð hag stofnunar- innar fyrir brjósti og var vakinn og sofinn yfir rekstrinum og vildi tryggja að endar næðu saman við uppgjör um áramót. Frá árinu 1990 var Vignir gjaldkeri Surts- eyjarfélagsins allt fram á þetta ár og hafði góða reiðu á reiknings- haldi félagsins. Í frístundum stundaði Vignir skíði og golf með Kristínu sinni og bridge spilaði hann með góð- um vinum. Þá kunni hann að njóta góðs matar og tilheyrandi víns og aldrei sló hann hendinni á móti góðum 12 ára einmöltungi. Fyrir um fimm árum veiktist Vignir af illvígum sjúkdómi og síðan kom annað reiðarslag af svipuðum toga en sýnu alvarlegra í byrjun þessa árs. Ljóst var að framundan væri erfið barátta sem hann háði af miklu æðru- leysi. Vignir var traustur, hógvær og prúðmenni á allan hátt. Hann var greiðvikinn við alla sem til hans leituðu, samviskusamur, fjölhæf- ur og vandvirkur. Það var Haf- rannsóknastofnun mikið lán að Vignir réðst þar til starfa og ég veit að ég mæli fyrir munn allra samstarfsmanna þegar ég þakka honum ævistarfið og vináttuna. Kristínu og Hönnu sendi ég inni- legar samúðarkveðjur á sorgar- stundu. Ólafur S. Ástþórsson. Ég man að við systurnar skríktum af æsingi þegar hann gekk inn um dyrnar hjá ömmu og afa. Kristín móðursystir okkar hafði sagt okkur að þegar Vignir kæmi úr löngum siglingum með rannsóknarskipum Hafrann- sóknastofnunar væri hann fúl- skeggjaður við heimkomuna. Og ekki nóg með það – skeggið væri rautt! Þetta var of spennandi til þess að geta ímyndað sér. Gat Vignir, bara einu sinni, sleppt því að raka sig þar til við hefðum séð hann í þessu framandi ástandi? Auðvitað hefur Vigni langað til þess að raka sig eftir langt og heitt bað þegar hann kom heim úr sjóferðinni. En í eitt skipti, seint á síðustu öld, lét hann rakst- urinn bíða til þess að gleðja tvær litlar stúlkur. Það er merkilegt að þekkja fólk frá bernsku og kynnast því svo á jafningjagrundvelli þegar maður fullorðnast. Ég vissi í bernsku að Vignir hélt með FH, hann hafði metnað þegar kom að flugeldum á gamlárskvöld og hann kunni að meta góðan mat og drykk – en þegar ég eltist skynj- aði ég betur þann mann sem hann hafði að geyma. Það er dálítið ævintýri að kynnast fólki þannig í annað sinn – næstum eins og að sjá gamal- kunnugt andlit umbreytast með rauðu skeggi. Vignir hafði áhuga á öllum hlutum og hafði gaman af að fá innsýn í viðfangsefni annarra. Hann talaði tæpitungulaust um málefni líðandi stundar, þó án alls hávaða. Hann var skipulagður og vandvirkur en kunni þó að meta hið óvænta og spaugilega, eins og þegar hann var orðinn aukaleik- ari í Stellu Blómkvist ásamt Odd- fellow-bræðrum sínum. Hann lagði sig fram um að greiða götu annarra og létta þeim sem næst honum stóðu lífið. Nú að leiðar- lokum kemur upp í hugann hans sérstaki bygggrautur sem hann færði tengdaföður sínum í morg- unmat í áravís. Það var látlaus kærleikur, umfram það sem nokkur hefði getað farið fram á, en hugulsamur gjörningur og þakklátur. En þegar ég hugsa um Vigni birtist í hugskotinu mynd af því þegar einhver sagði eitthvað spaugilegt. Þá kviknaði fyrst ljós í augunum og andartaki síðar kipptist annað munnvikið upp á við, eins og ósjálfrátt. Hann hafði þægilega nærveru og hans verð- ur sárt saknað við veisluborð framtíðarinnar. Yngsta kynslóð fjölskyldunnar mun sömuleiðis sakna grillmatsins sem enginn gat matreitt eins og Vignir. Kristín og Vignir gengu í takt í rúm fjörutíu ár. Sumpart svo ólík, sumpart svo lík, þá féllu persónu- leikar þeirra saman þannig að bæði höfðu pláss til þess að njóta sín í hjónabandinu. Umhyggja þeirra hvort fyrir öðru var áþreif- anleg og birtist mjög fallega síð- ustu ár, þegar á móti blés. Einka- dóttirin frænka mín var svo augasteinn föður síns, uppspretta stolts og gleði. Vignir bar þær mæðgur á höndum sér og miss- irinn er sár. Þegar ég var barn fannst mér ergilegt að geta ekki talað um Vigni sem frænda minn. Hann var kvæntur frænku minni, hann var pabbi frænku minnar, var virkilega engin leið til þess að vísa til mannsins nema sem eig- inmanns móðursystur? Á síðari árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að fjölskyldu- bönd verði til með ýmsum hætti og þakka Vigni samfylgdina og frændskap í tæp fjörutíu ár. Arndís Þórarinsdóttir. Í dag er kvaddur hinstu kveðju Vignir Einar Thoroddsen, fyrr- verandi aðstoðarforstjóri Haf- rannsóknastofnunar, 73 ára að aldri. Þegar ný lög tóku gildi um Hafrannsóknastofnunina árið 1984 voru ákvæði um að á stofn- uninni skyldu vera tveir aðstoð- arforstjórar; annar á fræðasviði stofnunarinnar, hinn á sviði rekstrar og fjárhalds. Var Vignir ráðinn í síðarnefnda starfið, m.a. vegna þekkingar og reynslu sem hann hafði áunnið sér í sínu fyrra starfi á Skrifstofu rannsókna- stofnana atvinnuveganna. Það var mikill happafengur að fá þennan unga mann til starfa á þessum tímamótum stofnunar- innar. Þegar undirritaður tók við starfi forstjóra Hafrannsókna- stofnunarinnar árið 1998, var Vignir þar fyrir, reynslumikill og bjó yfir þekkingu á minnstu smá- atriðum sem að rekstri og fjárhag stofnunarinnar lutu. Fimmtán næstu árin var Vignir einn af mínum nánustu samstarfsmönn- um. Hann var einstaklega traust- ur félagi, þægilegur í öllum sam- skiptum, áreiðanlegur og úrræðagóður þegar með þurfti. Hann var sérlega talnaglöggur og þekkti vel til allra þátta rekstrar Hafrannsóknastofnunar og því lykilmaður yfirstjórnar stofnunarinnar allan þann tíma sem hann gegndi þessu mikil- væga hlutverki. Í starfi aðstoðarforstjóra var í mörg horn að líta, en undir starfssvið Vignis heyrði lengst af mannhald, kjarasamningar við starfsfólk og allt utanumhald fjármála, þar með talin útgerð nokkurra rannsóknaskipa með öllu sem því fylgir, útvegun að- fanga og viðhald. Fyrir forstjór- ann sem þurfti einnig að hafa at- hygli á innri starfsemi stofnunarinnar og samskiptum út á við var ómetanlegt að hafa sér við hönd mann sem kunni til verka og mátti treysta fullkom- lega að ekkert færi úrskeiðis. Oft hefi ég hugsað til þessa og hve starf mitt hefði getað orðið erf- iðara viðfangs ef Vignis hefði ekki notið við. Vignir var hvers manns hug- ljúfi og góður félagi, vel að sér og fylgdist með dægurmálum á hverjum tíma. Hann var tónelsk- ur og söng vel, naut bókmennta og lista. Fyrir utan að vera Hafn- firðingur og síðar Kópavogsbúi var hann sennilega þó mestur Vestfirðingur. Við áttum stund- um saman spjall um Vestfirðina. Séra Sigurjón Einarsson prófast- ur á Kirkjubæjarklaustri sem nú er nýlátinn, var kvæntur föður- systur Helgu konu minnar, en Sigurjón var uppeldisbróðir Stef- áns föður Vignis og ólust þeir saman upp í Arnarfirði vestra. Við Vignir vorum sammála um að ævisaga Sigurjóns, Undir ham- rastáli, sem út kom árið 2006, væri ein magnaðasta lýsing á lífi fólks til sveita á Vestfjörðum á fyrri hluta 20. aldar, sem rituð hefur verið. Oft spurði Sigurjón mig um hann Vigni, sem hann bar hlýjan hug til, og var alltaf jafn glaður við þegar ég staðfesti að þar færi sérstakt prúðmenni, sem alltaf væri hægt að reiða sig á. Þannig veit ég að margir fyrr- verandi samstarfsmenn Vignis munu minnast hans. Við Helga viljum votta samúð okkar þeim mæðgum Kristínu og Hönnu Kristínu og öðrum aðstandend- um. Megi góðar vættir vernda minningu Vignis Einars Thor- oddsen. Jóhann Sigurjónsson. Vignir Einar Thoroddsen Í dag kveðjum við með trega kæra söngsystur okkar, hana elsku Dúnu. Dúna hefur sungið með Kór Akraneskirkju í tæp tuttugu ár og verið ein- staklega góður félagi. Dúna lífgaði upp á umhverfi sitt með skemmtilegum tilsvörum, prakkaraskap og einstökum húmor. Alltaf glöð og hress. Hrókur alls fagnaðar, sem gustaði af, hvar sem hún fór. Dúna var fagurkeri, smekkleg Guðrún Garðarsdóttir ✝ Guðrún Garð- arsdóttir fædd- ist 29. júní 1956. Hún lést 16. októ- ber 2021. Útförin fór fram 25. október 2021. með afbrigðum, ávallt glæsilega til fara og mesta pæj- an í hópnum. Dúna var þó fyrst og fremst mikil fjöl- skyldukona og átti einstaklega gott samband við börn og barnabörn þeirra Kalla – og ekki má gleyma dýrunum, sem skipuðu stóran sess í hennar daglega lífi. Við eigum margar góðar minningar um Dúnu okkar, bæði hér heima sem og úr ferðum kórsins á erlendri grundu. Hennar mun verða sárt saknað úr hópnum. Við minnumst Dúnu með þakklæti og hlýju. Elsku Kalla okkar, Rakel, Styrmi og fjölskyldunni allri sendum við hjartans samúðar- kveðjur, ljós og kærleika á þessum erfiðu tímum. Hinsta kveðja Jarðvist á enda, lífsgöngu lokið, ljósið þitt slokknað fölnuð brá. Hljóðnuð er röddin, hæglátur blærinn helguð þín brottför Drottins náð. Syrgjendur kveðja, söknuðinn finna, sárasta harminn, tregans tár. Faðmi þig ljósið, friðarins engill fylgi þér nú á æðra stig. Virðing og þökk, vegferðin öll vel í huga geymd. (Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson) Fyrir hönd félaga í Kór Akraneskirkju, Bjarnheiður, Erla, Jensína, Rún og Þórgunnur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.