Morgunblaðið - 11.02.2022, Blaðsíða 21
beint og óbeint að passa vel upp á sig ennþá og vera ekki of ber-
skjaldaðar gagnvart makanum.
Ég held að margar konur og jafnvel karlar upplifi þetta, að
eiga erfitt með að sýna makanum veika blettinn af ótta við að
minnka í augum viðkomandi. Í mínum fyrri samböndum átti ég
oft erfitt með að biðja um aðstoð eða sýna viðkvæmar hliðar.
Mér fannst ég alltaf þurfa að vera sterk, dugleg og geta allt. Ég
lærði loks með herkjum að þetta væri mjög ósjálfbært til lengd-
ar auk þess sem þá er maður að halda makanum alltaf í ákveð-
inni fjarlægð og svipta sjálfan sig því tækifæri að byggja upp
skilyrðislaust traust í sambandinu. Ég var því komin með allt
aðra heimspeki í sambandsmálunum þegar ég kynntist Einari.
Í stuttu máli er heimspekin sú að það að stofna til sambands
er í raun eins og að stofna og reka fyrirtæki saman, sem hljóm-
ar mjög órómantískt vissulega en er þó keimlíkt ef maður spáir
í það. Þið ákveðið að leggja bæði tíma og vinnu í sambandið, því
næst kaupið þið eign eða leigið húsnæði undir starfsemi sam-
bandsins, þar sem þið leggið bæði fjárhagslega til heimilis-
haldsins, skiptið með ykkur verkefnum og takið ákvarðanir um
umsvif sambandsins. Þetta er ákveðið fyrirtæki í sjálfu sér.
Fyrsta ár sambandsins er fólk svo að móta sín á milli
ákveðnar upphafsleikreglur. Svo er bara að gera sameiginlega
stefnu og aðgerðaáætlun og endurskoða þær þess á milli svo
þær falli að markmiðum sambandsins. Það er mikilvægt að vera
raunsær á það hvernig styrkleikar beggja nýtast sambandinu
best og haga verkefnaskiptingunni eftir því.“
Bæði faðir Ragnhildar Öldu og afi voru duglegir að taka til
hendinni heima fyrir.
„Afi var mikið útivinnandi og amma var heimavinnandi þann-
ig að hún sá um mest heima, en alltaf þegar hann var heima þá
bara gekk hann í öll þessi verk og fleiri óumbeðinn og létti undir
með henni. Pabbi hefur svo alltaf verið svona aðalkokkurinn á
heimilinu og mamma séð um hátíðarmatinn frekar, hann er
einnig mjög iðinn við frágang og þrif heima ásamt ýmsum heim-
ilisverkum. Ég er því alin upp við menn sem deila álagi þriðju
vaktarinnar til jafns með konunum og myndi seint una öðru
held ég.“
Berst fyrir réttindum heimilislausra kvenna
Ragnhildur Alda er ein þeirra sem barist hafa fyrir neyð-
arathvarfi fyrir heimilislausar konur.
„Ég lagði fram tillögu um að setja aftur á laggirnar sams
konar neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og var komið á í
fyrstu bylgju faraldursins. Þá kostaði ríkið athvarfið og Reykja-
víkurborg sá um að reka það. Þetta athvarf hafði þá sérstöðu að
það líktist meira stúdentagörðum með sólarhringsstuðning en
hefðbundnu neyðarskýli þar sem því var ekki lokað yfir daginn
og konurnar höfðu sérherbergi með sérbaðhergi. Þær gátu því
ráðið hvernig þær höguðu sínum degi, þurftu ekki að óttast að
einhver tæki eigur þeirra og gátu baðað sig í einrúmi. Þetta
skipti sköpum fyrir konurnar en í kjölfar lokunar úrræðisins
fóru þær allar áfram í varanlegt framhaldsúrræði, sem er 100%
árangur! Galdurinn var fólginn í því að konurnar fengu aðlög-
unartíma í stuðningsríku umhverfi þar sem þær upplifðu sig við
stjórnvölinn. Því miður var tillaga mín og Sjálfstæðisflokksins
ekki samþykkt í borgarstjórn af meirihlutanum heldur vísað
inn í velferðarnefnd og þaðan inn í stýrihópinn um endurskoðun
aðgerðaáætlunar um málefni heimilislausra. Ég er þó hvergi
nærri dottin af baki og held áfram að tala fyrir henni þar.“
Hvað kom á óvart í þessari vinnu?
„Það var helst tvennt sem kom mér verulega á óvart. Fyrst
það hversu stórt þjónustugat er á milli ríkisins og sveitarfélaga
gagnvart þessum hópi. Oft er um að ræða einstaklinga sem eru
verulega andlega og líkamlega veikir ásamt því að vera í virkri
fíkn. Þyngri einstaklingarnir þar af lenda svo oft í því að vera
heita kartaflan sem á hvergi samastað og enginn vill taka að sér
að þjónusta almennilega. Það aðgerðaleysi leiðir svo bara af sér
meiri kostnað annars staðar í kerfinu, hvort sem það er þörf á
dýrari læknisþjónustu en ella eða fleiri heimsóknir á bráða-
móttöku eða til lögreglu.
Hitt var það sem ég myndi kalla mjög þrönga túlkun á „Hús-
næði fyrst“-stefnunni sem borgin fylgir og kallast á ensku „Ho-
using first“. Sú stefna er mjög flott og byggð á því að öruggt
þak yfir höfuðið sé hornsteinn þess að fólk í virkri fíkn geti náð
bata. Rannsóknir hafa stutt við þessa kennisetningu. Borgar-
fulltrúar meirihlutans hafa hins vegar lýst því yfir að stefna
borgarinnar til langs tíma sé sú að það eigi ekki að vera nein
þörf á neyðarathvörfum, það verði bara þannig að allir séu með
húsnæði. Þarna finnst mér meirihlutinn vera með þröngsýna
nálgun á Húsnæði fyrst því það dugar ekki eitt og sér að byggja
smáhýsi eða koma fólki í félagslega íbúð, afhenda lykilinn og
segja gangi þér vel. Jafnvel með reglulegu innliti frá stuðnings-
aðilum getur það reynst fólki sem er mjög veikt fyrir ofviða að
halda eigið heimili. Sérstaklega ef viðkomandi er búinn að vera
lengi á vergangi og er mjög illa á sig kominn. Fólk getur þannig
lent í því að vera sett í stöðu þar sem gerðar eru of miklar kröf-
ur til þess. Svo kannski missir það íbúðina eða húsið og sjálfs-
álitið brotnar í enn fleiri mola en áður og borgin er ólíklegri til
að reyna aftur. Þar að auki er líka fólk í þessum hópi sem er
ekki heimilislaust heldur að flýja heimili sitt vegna ofbeldis.
Neyðarathvörf eru því mjög mikilvæg sem lágþröskuldaúrræði
og fyrsti viðkomustaður fyrir þá sem eru ekki tilbúnir fyrir
framhaldsúrræði.
Það sem tillagan mín leggur svo til er að útfæra neyðar-
athvörf þannig að þau bæði grípi fólk beint af götunni en virki
líka til að valdefla og aðstoða fólk við að aðlagast sjálfstæðri
búsetu.“Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ástalífið gekk brösulega áður en
Ragnhildur kynntist Einari.
FÖSTUDAGUR 11. FEBRÚAR 2022 MORGUNBLAÐIÐ 21