Austurglugginn


Austurglugginn - 23.09.2021, Blaðsíða 4

Austurglugginn - 23.09.2021, Blaðsíða 4
4 Fimmtudagur 23. september AUSTUR · GLUGGINN Tveir Austfirðingar eru meðal tveggja efstu frambjóðenda á þeim listum sem bjóða fram til Alþingiskosninganna á laugardag í Norðausturkjördæmi. Hlutur Austfirðinga í efstu sætunum rýrnar verulega frá því fyrir fjórum árum. Þetta leiðir samantekt Austurgluggans í ljós. Austfirðingarnir tveir eru Líneik Anna Sævarsdóttir hjá Framsóknarflokknum og Jódís Skúladóttir hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Báðar skipa annað sætið. Fyrir fjórum árum áttu Austfirðingar fjóra af tíu oddvitum. Vert er að taka það fram að miðað er við lögheimilisskráningu og því telst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Miðflokksins, ekki lengur til Austfirðinga þar sem hann hefur flutt lögheimili sitt frá Hrafnabjörgum til Garðabæjar. Að loknum kosningunum 2017 áttu Austfirðingar þrjá þingmenn, auk Líneikar og Sigmundar Davíðs Þórunni Egilsdóttur frá Vopnafirði sem leiddi Framsóknarlistann. Hún lést í sumar. Líneik er því eini þingmaðurinn með lögheimili á Austurlandi í dag. Hlutur Austfirðinga rýrnar einnig þegar litið er til fjögurra efstu frambjóðendanna. Austfirðingar áttu 35% þeirra árið 2017 en 20% nú. Þegar þetta er tekið saman sést að líkur Austfirðinga á þingsætum aukast varla. Út frá hlutfalli íbúa ættu 2-3 þingmenn að búa eystra. Skipting eftir landssvæðum Rúmlega 32.000 íbúar 18 ára og eldri eru í kjördæminu samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þeim fjölgar um rúmlega 1500 milli kosninga. Hlutfallslega er fjölgunin mest á Eyjafjarðarsvæðinu, tæp 10% en einnig fjölgar á Austurlandi og Akureyri. Fækkun er í Þingeyjasýslu. Þessar breytingar hafa lítil á hrif á hlutföll innan kjördæmisins. Þegar framboðslistarnir eru skoðaðir eftir hlutfalli fram- bjóðanda samanborið við íbúa kemur í ljós að Akureyringar eru undirmannaðir. Þar búa 46% íbúa en 31% frambjóðenda. Fyrir fjórum árum áttu Akureyringar 40% frambjóðenda. Austfirðingar eiga hlutfallslega þann frambjóðendahóp sem íbúafjöldinn telur, eru 26% íbúa en 27% frambjóðenda. Sama má segja um hlutföll Eyfirðinga (16%) og Þingeyinga (13%). Það sem skekkir tölurnar er að 13% frambjóðenda búa utan kjördæmis en þeir voru 4% fyrir fjórum árum. Veruleg áhrif hefur að 13 af 20 frambjóðendum Frjálslynda lýðræðisflokksins búa annars staðar en í Norðausturkjördæmi. Hvað fleira? Útkoma Austurlands er best á listum Framsóknarflokks, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sjö á hverjum. Verst er hún hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum, aðeins einn. Flestir Akureyringar, níu, eru á listum Viðreisnar og Flokks fólksins. Eyjafjarðarsvæðið á flesta, sex, hjá Flokki fólksins og Þingeyingar jafn marga hjá Miðflokknum. Tveir frambjóðendur, báðir á lista Pírata, eru skráðir erlendis. GG Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750 • Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Björn Þór Björnsson, blaðamaður : frett@austurglugginn.is • Auglýsingar: Anna Dóra Helgadóttir: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Anna Dóra Helgadóttir: askrift@austurglugginn.is • Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent Leiðari Raunvitund í kosningaviku Bók Hans Rosling um Raunvitund, eða Factfulness, er ágæt til lestrar í vikunni fyrir kjördag þegar á okkur kjósendum dynja síðustu tilraunir stjórnmálaflokkanna til að sannreyna okkur. Það er reyndar kostulegt að lesa sumar greinarnar eða svörin við spurningum, allt stendur til bóta á næsta kjörtímabili, jafnvel þótt enginn hafi áhugi hafi verið á því áður, lausnir á flóknum vandamálum. Eða einfaldur uppruni óþæginda. Fyrir þá sem ekki þekkja til var Rosling sænskur læknir sem helgaði sig því að uppfræða heiminn með nýjustu staðreyndum, oft í þá veru að heimurinn sé betri en við höldum og miklar framfarir hafi orðið. Til að mynda sé Afríka mun betur stæð en mörg okkar á Vesturlöndum höldum eða að við ofmetum, eða dramatíserum, oft upplýsingar sem okkur berast í stað þess að anda með nefinu. Hann birtir nokkrar staðreyndir um stöðu heimsins og rekur hvernig Nóbelsverðlaunahafar jafnt sem almúginn kolfalla á prófunum. Rosling bendir þó á að baki slökum árangri séu mannlegar hvatir og skilgreinir tíu slíkar sem við þurfum að vera meðvituð um. Má þar nefna alhæfingarhvötina, gjáarhvötina og stærðarhvötina sem allar eiga það á sameiginlegt að við tökum afmörkuð dæmi og drögum af þeim stórar ályktanir. Til dæmis að við horfum á jaðrana, þau 5% sem eru efst eða neðst, frekar en 90% sem eru á milli, að hópar séu einsleitir til dæmis að allir innan ákveðins flokks séu fávitar eða frábærir. Eða þá að allt sem var sé svo frábært. Einna sterkasta hvötin rétt fyrir kjördag er rörsýnarhvötin. Hún fær okkur til að skoða vandamál frá aðeins einu sjónarhorni eða lausn sem Rosling líkir við að við náum okkur í hamar en ekki verkfærakassa til að gera við heima hjá okkur. Hann varar við einföldum hugmyndum og lausnum og minnir á að sagan sé full af hugsjónafólki sem beitt hafi fyrir sig einföldum, útópískum hugmyndum til að réttlæta slæma hluti. Því skulum við fagna flóknum hlutum, leitast við að sameina hugmyndir og gera málamiðlanir. Næst á eftir henni í listanum er ásökunarhvötin, þegar við leitum og skellum skuldinni á einn blóraböggul frekar en leita að samspili orsaka fyrir ólukkunni. Þetta gangi reyndar í báðar áttir því Rosling hvetur fólk til að leita að kerfum frekar en hetjum og spyrja sig hvort útkoman hafi ekki orðið sú sama jafnvel þótt tiltekinn einstaklingur hafi ekki verið til staðar. Bráðræðishvötin er svo síðustu á listanum, áminning um að þótt okkur finnist aðkallandi að taka ákvörðun sé trúlega betra að draga andann, afla upplýsinga og skoða ólíkar sviðsmyndir frekar en bara eina útkomu. Allir stjórnmálaflokkarnir spila á einn hátt eða annan á þessar hvatir. Þess vegna er gott að anda með nefinu, spyrja gagnrýnið og taka síðan ákvörðun sem við þurfum að vera tilbúin að lifa með næstu fjögur árin. GG Tveir Austfirðingar meðal tveggja efstu Fulltrúar framboðanna á kosningafundi Austurfréttar/Austurgluggans í Valaskjálf fyrir viku. Mynd: GG Alþingiskosningar

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.