Skutull - 01.01.2009, Side 2
Ályktun frá Samfylkingunni í ísafjarðarbæ:
Forsvarsmenn
Seðlabanka og
Fjármálaeftirlits víki!
Stjórn Samfylkingarinnar I ísafjarðarbæ skorar á
ríkisstjórn lýðveldisins íslands að víkja nú þegar frá
bankastjórn og bankaráði Seðlabanka íslands, sem
og stjórn og stjórnendum Fjármálaeftirlitsins. Hrun
íslenska bankakerfisins hefur rýrt álit þjóðarinnar
erlendis og forsvarsmenn þessara stofnana hafa
fyrirgert trausti almennings. Þeir eiga því að víkja og
flýta þannig fyrir endurreisn og siðvæðingu íslensks
efnahagslífs.
Stjórn Samfylkingarinnar í ísafjarðarbæ skorar á þá
ráðherra og ráðuneytisstjóra sem tengjast vafasömum
hlutabréfaviðskiptum eða siðlausri
fyrirgreiðslu og innherjaviðskiptum í bankastofnunum,
að gera nú þegar hreint fyrir sínum dyrum, eða segja
strax af sér að öðrum kosti.
Stjórn Samfylkingarinnar í ísafjarðarbæ telur að róttæk
endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé ein af
forsendum endurreisnar (slensks efnahagslífs. Við
þær aðstæður sem nú ríkja verður rfkisstjórnin að
koma til móts við réttlætis- og jafnréttiskröfur um nýtt
stjórnkerfi í sjávarútvegi.
Stjórn Samfylkingarinnar í l’safjarðarbæ hveturtil þess
að þegar verði hafnar viðræður við Evrópusambandið
um hugsanlega aðild að sambandinu og upptöku Evru.
Stjórn Samfylkingarinnar í ísafjarðarbæ
skorar á ríkisstjórn að virða úrskurð
mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi
fiskveiðistjórnunarkerfið og bregðast tafarlaust við
þeim úrskurði með breytingum á stjórn fiskveiða
svo ekki verði lengur legið undir ámæli vegna
mannréttindabrota.
Samþykkt í desember 2008.
Guðbjartur Hannesson alþingismaður:
íslenskt samfélag á tímamótum
íslenskt samfélag stendur á erfiðum tímamótum eftir hrun allra bankanna á
haustmánuðum. Þjóðin glímir nú við fjórðungs samdrátt í ráðstöfunartekjum
ríkissjóðs, sem er annars vegar vegna hruns í tekjum en hins vegar stóraukinna
vaxtagjalda ríkissjóðs.
Með tilkomu Sam-
fylkingar í ríkisstjórn
fyrir hálfu öðru ári
hófst endurreisn
velferðarkerfisins og
náðst hefur verulegur
árangur í málefnum
barna, lífeyrisþega
og innflytjenda nú
þegar. Góðir áfangar
hafa einnig náðst
í barnaverndar- og jafnréttismálum og
stór skref stigin til að bæta hag fatlaðra
og efla menntun i landinu með tilkomu
nýrra frumvarpa um öll skólastigin. Þá
fengu byggðamálin aukið vægi en einkum
var lögð áhersla á hraðari uppbyggingu í
samgöngumálum. Ekki tókst Samfylkingunni
að þvinga fram breytingar á kvótakerfinu
né ákvörðun um umsóknaraðild að ESB í
stjórnarsáttmála, en bæði þessi mál skyldu
þó skoðuð á kjörtímabilinu. Þá var ekki talið
fært að snúa til baka þeim ákvörðunum
sem teknar höfðu verið í stóriðjumálum,
en sett fram metnaðarfull stefna um gerð
rammaáætlunar um framtíðar nýtingu og
varðveislu náttúrusvæða.
Mikilvægustu verkefni stjórnvalda á
nýju ári er að leiða þjóðina í gegnum þá
erfiðleika sem við eigum við að etja. Þar er
mikilvægast að vernda hag fjölskyldna og
heimilanna, tryggja kjör láglaunafólks, hindra
að fólk komist í þrot og missi húsnæði sitt.
Til að það takist þarf að halda atvinnulífinu
gangandi, forða okkur frá langvarandi
atvinnuleysi og ná hér ásættanlegu gengi á
íslensku krónuna.
Byggja þarf upp á nýjum grunni, með
gildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi;
félagshyggju, jafnrétti og samábyrgð. Hrun
nýfrjálshyggjunnar, frelsi án ábyrgðar og
afleiðingar græðginnar verða að vera okkur
viðvörun og hvatning til aukins gagnsæis í
stjórnsýslu, heiðarleika og hagsýni.
Mikil vinna hefur nú þegar farið fram til
að verja hag heimilanna, lífeyrisþega og
láglaunafólks, en vinnunni er ekki lokið. Til
að efla atvinnulifið þarf að auka innlenda
framleiðslu og horfa til margra þátta
s.s. aukningar þorskkvóta, fullvinnslu
sjávarfangs, sjávareldis hvers konar, enn
frekari nýtingu orkuauðlinda, hvalveiða,
aukinnar ferðamennsku og eflingar
íslenskrar landbúnaðarframleiðslu.
Stefnan til lengri tíma verður að vera skýr,
við þurfum nýjan gjaldmiðil og meira öryggi
fyrir okkar fjármálalíf með inngöngu ( ESB
og upptöku Evru sem fyrst, til að tryggja
lægri vexti, afnám verðtryggingar og lægra
vöruverð á innfluttum vörum. Það er ekki
lengur hægt að bíða með að skilgreina
samningsmarkmið og gefa þjóðinni tækifæri
til að taka afstöðu til aðildar að ESB.
Forsenda þess að okkur takist að byggja
upp að nýju á skömmum tíma er að
samtakamáttur þjóðarinnar verði virkjaður,
allir leggist á eitt. Græða þarf sár vegna
undangenginna áfalla, horfa fram á við
og leita nýrra leiða og nýrra tækifæra.
Endurskoða þarf stjórn peningamála, stokka
upp f Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og ef
með þarf stokka upp ríkisstjórn eða efna
til kosninga. íslensk þjóð, landbyggðarfólk
og þá ekki hvað síst Vestfirðingar vita hvað
samstaða þýðir.
Ég vil þakka Vestfirðingum samstarfið og
stuðninginn á liðnu ári um leið og ég óska
þeim og landsmönnum öllum gæfu og
gengis á nýju ári.
Karl V. Matthíasson, alþingismaður:
Hvaða ráð eigum við gegn kreppunni ?
í þeirri alvarlegu stöðu, er nú blasir við hljótum við að hugsa hvernig sem flestir geti fengið atvinnu á ný. Mjög margir horfa nú til þeirra möguleika
sem hafið gefur okkur. í mínum huga er það ekki spurning að við eigum að auka fiskveiðiheimildir og deila þeim út á annan hátt en verið hefur.
Það ætti að setja þær á markað og gefa þannig fleirum kost á því að afla sér möguleika til fiskveiða á jafnréttisgrundvelli.
Þeir sem harðast berjast
gegn breytingum á
fiskveiðistjórninni eru
útgerðamenn og er það
skiljanlegt því þeir vilja
búa við stöðugleika í
greininni og festu, en
einnig má vera að einhverjir
þeirra horfi á kvótann
sinn sem eigin auðæfi,
er þeir geta ekki fyrir
nokkurn mun látið af hendi.
Reyndar er það svo með lífið, að við látum allt
af hendi með brottför okkar út þessum heimi,
nema það sem við höfum hugsað, sagt og gert.
Þegar við breytum fiskveiðistjórnarkerfinu verðum
við auðvitað að hafa það grundvallarsjónarmið í
huga að greinin standi undir sér, búi við stöðug-
leika og að fiskveiðiheimildunum sé réttlátlega
útdeilt. Við höfum reyndar fengið á okkur úrskurð
frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um
að breyta beri fiskveiðistjórnarkerfinu til aukins
jafnræðis. Að setja auknar fiskveiðiheimildir á
opinn markað yrði skref í rétta átt og margir
fengju með því möguleika til að losna við
atvinnuleysi og skort. Þetta gæti líka orðið til
þess að fólk flytti aftur út á landsbyggðina.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með
því frumkvöðlastarfi sem átt hefur sér stað
í þorskeldi ekki síst hér á Vestfjörðum. Mfn
skoðun er sú að setja þurfi meiri pening í
seiðaframleiðslu og rannsóknir á þorskeldi.
Ég sé fyrir mér öflugt fræðasetur þorskeldis á
Vestfjörðum. Það væri líka glæsilegt ef koma
mætti á fót sérstökum þorskeldisáfanga í
Menntaskólanum á ísafirði. Hið sama vil ég segja
um kræklingaræktina. Kræklingarækt er mjög
vistvæn grein og gæti líka þrifist vel samhliða
þorskeldi og er ánægjulegt að sjá þann dugnað
sem Vestfirðingar hafa sýnt á þessu sviði.
Við búum við mikla möguleika og tækfæri á
mörgum sviðum. Það eru gæði lands okkar,
strandar og miða sem því valda. Við verðum
að nýta möguleikana sem best við getum
með réttlæti og sanngirni að leiðarljósi.
SKUTULL
Elsta málgagn jafnaðarmanna á íslandi, kom fyrst út 23. júlí 1923
Póstfang Miðtún 16 - 400 ísafjörður Kennitala 600269-2169 Ritnefnd Arna Lára Jónsdóttir, Bryndís Friðgeirsdóttir, Jóna Símonía Bjamadóttir, Dagur Rafn
Hákonarson, Kári Þór Jóhannsson og Guðmundur Þór Kristjánssor. Ábyrgðarmaður Sigurður Pétursson Umbrot/Prentun Gunnar Bjarni - Pixel ehf.
Ljósmynd á forsíðu Baldur Páll Hólmgeirsson, Holtsbryggja í Önundarfirði. Skutull kemur út í 3.500 eintökum og er dreift inn á öll heimili á Vestfjörðum.