Margt smátt - 01.08.2024, Blaðsíða 3
3
Þróun efnahagsmála undanfarin ár hefur haft sérstaklega
neikvæð áhrif á afkomu þeirra sem fyrir stóðu höllum fæti í
samfélaginu. Umsóknum til Hjálparstarfsins frá fjölskyldum
í fjárhagslegum erfiðleikum hefur fjölgað og oftar en ekki
er byrði húsnæðiskostnaðar um að kenna, sem er reyndar
gömul saga og ný. Slík staða bitnar á þeim sem síst skyldi
en börn eru stór hluti þeirra sem njóta góðs af þeirri aðstoð
sem Hjálparstarfið getur veitt.
Bjallan hringir inn
Skólastarf er að hefjast og nú í ágúst leggur Hjálparstarfið
því sérstaka áherslu á að aðstoða efnalitla foreldra í upphafi
skólaárs til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun
barna. Foreldrar fá þá aðstoð svo börnin geti stundað íþróttir
og tómstundastarf með jafnöldrum sínum – óháð efnahag.
Börnin fá einnig vetrarfatnað, íþróttafatnað og -töskur,
ritföng til að nota heima við, nestisbox og skólatösku.
Á hverju hausti leita fjölmargar barnafjölskyldur til Hjálparstarfs kirkjunnar þegar skólastarf
er við það að hefjast. Ástæðan er einföld og ávallt sú sama. Þau sem minnst hafa handa á milli
þurfa aðstoð við að útvega börnum sínum það sem öll börn þurfa þegar skólar hefjast; góða
skólatösku, fatnað, ritföng og fleira. Í fyrrahaust leituðu 124 fjölskyldur til Hjálparstarfsins
við upphaf skólastarfs og börnin sem fengu aðstoð voru 294 talsins.
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur umsjón
með innanlandsstarfi Hjálparstarfsins, útskýrir að
Hjálparstarfið hafi um langt árabil aðstoðað foreldra sem
eiga börn á þessum tímamótum sem upphaf skólagöngu
er. Sérstök haustsöfnun í tilefni þess að skólastarf er
að hefjast kom til árið 2017, en fram til þess tíma hafi
Hjálparstarfið notið stuðnings fjölda aðila við að létta
undir með foreldrum skólabarna.
Vilborg segir að mikilvægt skref hafi náðst þegar
sveitarfélögin samþykktu að bjóða öllum nemendum
gjaldfrjáls skólagögn. Það breyti myndinni þó ekki nema að
takmörkuðu leyti fyrir þá sem verst standa, þó aðgerðin hafi
vissulega verið til bóta. Nú telur Vilborg að stíga megi næsta
skref sem er ekki síður mikilvægt, en fagnar því um leið að
fríar skólamáltíðir eru staðreynd sem hluti af aðgerðum
yfirvalda til að liðka fyrir kjarasamningum.
Í fyrrahaust fengu fjölskyldur 294 barna stuðning frá Hjálparstarfinu við upphaf skólastarfs.