Morgunblaðið - 04.09.2002, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 04.09.2002, Blaðsíða 14
AKUREYRI 14 MIÐVIKUDAGUR 4. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ STEFNT er að því að skrifa undir samning um byggingu menningar- húss á Akureyri á þessu ári. Þetta kom fram í ræðu Tómasar Inga Ol- rich menntamálaráðherra á aðal- fundi Eyþings sem haldinn var í Mý- vatnssveit. Einnig eru uppi áætlanir um að byggja menningarhús á Ísa- firði að sögn ráðherra. Um 70 manns sátu þingið og bar það nokkur merki þeirrar samein- ingar kjördæma sem verða á næsta ári, en nokkrir sveitarstjórnarmenn af Austurlandi sátu þingið að þessu sinni sem og þingmenn. Gunnar Vignisson, forstöðumaður Þróunarstofu Austurlands, flutti er- indi sem hann nefndi „Áhrifasvæði stórframkvæmda á Austurlandi,“ og benti á að áhrif stórframkvæmda fyrir austan munu ná til Norður- lands. Auk menntamálaráðherra fluttu einnig ávörp þær Valgerður Sverr- isdóttir iðnaðarráðherra og Arn- björg Sverrisdóttir þingmaður. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra undirritaði samkomulag við fulltrúa Eyþings um samstarf sjúkrastofn- ana. Sveitarfélögum í Eyþingi hefur á kjörtímabilinu fækkað, þau voru 26 í upphafi tímabilsins en eru nú 20. Sveitarfélagið Þingeyjarsveit varð til með sameiningu fjögurra hreppa, Háls-, Bárðdæla-, Ljósavatns- og Reykdælahrepps og Reykjahreppur sameinaðist Húsavík. Stjórn Eyþing hefur haft þá afstöðu, segir í skýrslu hennar, að beita sér ekki sérstak- lega fyrir sameiningu sveitarfélaga en telur eðlilegt að leggja málinu lið ef eftir er leitað og aðstæður leyfa. Eyþing og SSA ekki í eina sæng að svo komnu Nokkur umræða hefur verið um hvort stefna beri að sameiningu Ey- þings og Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, en fyrir liggur að Aust- firðingar vilja flýta sér hægt í þeim efnum, m.a. vegna þess að Hornfirð- ingar óskuðu eftir því að starfa áfram innan SSA þrátt fyrir að sveitarfélagið flytjist yfir í Suður- kjördæmi. Við kjördæmabreytingu kemur Siglufjörður inn í Norð- austurkjördæmi. Stjórn Eyþings er ekki kunnugt um hvort hugur Sigl- firðinga stendur til nánara sam- starfs innan Eyþings, en þeir eru í Samtökum sveitarfélaga á Norður- landi vestra. Stjórn Eyþings er tilbúin til viðræðna um það verði þess óskað. Í nýrri stjórn Eyþings eru nú þau Reinhard Reynissson, Húsavík, for- maður, Jakob Björnsson, Akureyri, Ásgeir Logi Ásgeirsson, Ólafsfirði, Guðný Sverrisdóttir, Grýtubakka- hreppi, og Björn Ingimarsson, Þórs- höfn. Næsti aðalfundur Eyþing verður haldinn í Ólafsfirði. Menntamálaráðherra á fundi Eyþings Stefnt að samningi um menningarhús Mývatnssveit. Morgunblaðið. REKSTRARAFKOMA Fjórðungs- sjúkrahússins á Akureyri á fyrri helmingi þessa árs er óviðunandi, en kostnaður umfram fjárheimildir nemur alls 87,4 milljónum króna. Forsvarsmenn FSA kynntu heil- brigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, bága stöðu sjúkrahússins nú nýlega. Vignir Sveinsson, framkvæmda- stjóri fjármála og reksturs, sagði að ráðherra hefði sýnt málinu skilning og fundurinn verið jákvæður þannig að menn væntu þess að leiðréttingar fengjust. Á fundinum var gerð grein fyrir helstu ástæðum þess að rekstar- kostnaður hefði farið fram úr áætl- un, en að sögn Vignir eru skýringar þar á nokkrar. Nefndi hann m.a. að nokkrir þættir er varða launakostn- að hefðu hækkað, m.a veikindalaun, launatengd gjöld og þá þyrfti nú að greiða fleiri tíma í yfirvinnu vegna útkalla en áður. Stórir útgjaldaliðir, eins og lyf, lækningavörur og matvörur hefðu hækkað umfram almennar verðlags- breytingar. Vignir sagði að árangur hefði náðst á ýmsum sviðum rekstrarins í ár, m.a. vegna kaupa á ýmsum al- mennum vörum og ferðakostnaði og eins hefði náðst raunlækkun á að- keyptri þjónustu. Órói meðal starfsmanna vegna betri kjara syðra Stofnanasamningar á FSA eru ófrágengnir og hefur nú við saman- burð komið í ljós að kjör flestra starfsmannahópa sjúkrahússins eru lakari en bjóðast á Landspítala – há- skólasjúkrahúsi. Bæði starfsmenn og stjórnendur FSA krefjast þess að kjör þeirri verði sambærileg við þau kjör sem bjóðast syðra. Gert er ráð fyrir að kostnaður við að leiðrétta þennan mismun nemi um 60 millj- ónum króna á ári en þessi staða var kynnt fulltrúum í bæði fjármála- og heilbrigðisráðuneyti í upphafi árs og þá leitað eftir leiðréttingu. Nú hefur framkvæmdastjórn FSA tekið þá ákvörðun að ganga ekki frá stofn- anasamningum sem leiða til kostn- aðarauka nema fjárveiting til að mæta hækkuninni verði tryggð. Gæti af þessum sökum vaxandi óróa meðal starfsmanna og gæti hann í versta falli leitt til fjöldauppsagna. Áfram sumarstarfsemi á lyflækningadeildum Framkvæmdastjórnin hefur einn- ig tekið ákvörðun um að grípa til að- gerða vegna þeirrar stöðu sem uppi er varðandi rekstur sjúkrahússins en þær muni leiða til aukins sam- dráttar í starfseminni næstu mánuði. Meðal aðgerða má nefna að sameig- inlegur rekstur bæklunardeildar og handlækningadeildar sem staðið hefur yfir í sumar verður framlengd- ur næstu tvær vikur. Sumarstarf- semi á lyflækningadeildum I og II verður svo framlengd til áramóta. Sparnaður vegna þessara aðgerða nemur um þremur milljónum króna. Þá verður að sögn Vignis áfram gætt ítrasta aðhalds til að ná fram hag- ræðingu og sparnaði í rekstri. Fáist ekki leiðréttingar stefnir í að rúmlega 200 milljónir vanti inn í rekstur FSA. Vignir sagði að til væru lauslegar hugmyndir um að- gerðir sem gripið yrði til kæmu þær aðstæður upp, en ekki væri tíma- bært nú að gera grein fyrir þeim. Slíkar aðgerðir myndu leiða af sér verulega fækkun starfsmanna og skerðingu á þjónustu. „Fáist engar leiðréttingar á fjárhagsgrunninum eigum við ekki annan kost en að loka deildum eða hætta við ákveðna þætti í okkar rekstri. Valkostirnir eru vissulega margir, en við munum í lengstu lög reyna að koma í veg fyrir að grípa þurfi til svo harkalegra að- gerða, sem í raun eru pólitískar,“ sagði Vignir. Afkoma FSA á fyrri helmingi árs óviðunandi og veldur vonbrigðum Aukinn samdráttur í starf- seminni næstu mánuði TVEIR voru fluttir á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eftir að tveir bílar skullu saman á mótum Glerárgötu og Strandgötu á Akureyri í gærmorgun. Árekst- urinn varð kl. 10.50 í gærmorgun og voru tildrög hans þau að bifreið var ekið suður Glerárgötu og beygt til austurs niður á Strandgötu í veg fyrir aðra bifreið sem ekið var norður Glerárgötu. Í öðrum bílnum var ökumaður einn á ferð, en í hin- um ökumaður og farþegi. Þeir sem fluttir voru á slysadeild hlutu ekki alvarleg meiðsl, að sögn lögreglu, og fóru heim að lokinni skoðun. Bíl- arnir eru báðir mjög mikið skemmdir. Morgunblaðið/Kristján Harður árekstur FORSVARSMENN Flugsafnsins á Akureyri hafa mikinn áhuga á því að fá flugvélina sem fannst á botni Skerjafjarðar á dögunum á flugsafn- ið. Svanbjörn Sigurðsson, stjórnar- formaður safnsins, sagði að málið hefði verið rætt við Tómas Inga Ol- rich menntamálaráðherra og hefði hann tekið vel í hugmyndina og lýst yfir vilja til að leggja safninu lið. Svanbjörn sagði að vafalaust kæmu fram fleiri óskir um að fá vél- ina og jafnvel erlendis frá „en mér finnst að vélin eigi heima hér á Ak- ureyri“. Svanbjörn sagði að hug- myndin væri að sýna vélina sem flak á safninu, þar sem safnið hefði ekki bolmagn til þess að láta gera hana upp. Hann taldi vel mögulegt að ná vélinni af hafsbotni en að trúlega yrði ekki farið í að reyna það fyrr en næsta vor. Hér er um að ræða sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB, sem var í eigu norska flughersins. Flugvélar af þeirri gerð voru notaðar hér við land í seinni heimsstyrjöldinni, við kafbátaleit og verndun skipalesta og voru staðsettar í Reykjavík, á Reyð- arfirði og á Akureyri. Flugsveitin heyrði undir breska flugherinn en Norðmenn sáu um rekstur hennar. Sveitinni var skipt í þrjá hluta, sex vélar voru í Nauthólsvík en þrjár vél- ar bæði á Akureyri og Reyðarfirði. Framtíðarsafn fyrir Fairy Battle-sprengjuflugvélina Flugsafnið á Akureyri var stofnað 1. maí 1999, með það að markmiði að halda á lofti sögu flugs á Íslandi, á þann veg að varðveita gamlar flug- vélar, muni, myndir og texta sem tengist þessari sögu á allan hátt. Flugsafnið er til húsa á Akureyrar- flugvelli en það var formlega opnað 24. júní árið 2000. Flugsafnið á Akureyri verður framtíðarsafn fyrir bresku Fairy Battle-sprengjuflugvélina sem fórst í jökli á hálendindu milli Öxnadals og Eyjafjarðar árið 1941, með fjórum mönnum innanborðs. Hörður Geirs- son, safnvörður á Minjasafninu, fann vélina árið 1999, eftir að hafa leitað hennar í 20 ár. Fjölmargir munir úr vélinni eru til sýnis á safninu en enn á eftir að sækja ýmsa hluti, m.a. skrokkinn. Að sögn Svanbjörns er skrokkurinn enn í jöklinum en stefnt er að því að koma honum til byggða og sýna sem flak á safninu. Gert ráð fyrir risaþotu á flug- vallarsvæðinu í aðalskipulagi Eins og fram hefur komið í Morg- unblaðinu eru forsvarsmenn Flug- safnsins á Akureyri að vinna í því að fá Boeing 747 breiðþotu á safnið næsta vor. Slík júmbóþota er engin smásmíði, um 70 metra löng og á þremur hæðum. Hugmyndin er að búkur hennar verði notaður undir starfsemi safnins, enda verulega far- ið að þrengja að starfseminni í nú- verandi húsnæði. Svanbjörn sagði að Flugmála- stjórn hefði gert samning við Arki- tektastofuna Grófargili um að vinna aðalskipulag flugvallarsvæðisins og að í þeirri vinnu væri gert ráð fyrir slíkri risaþotu á svæðinu. Arngrímur Jóhannsson, eigandi Atlanta, er í stjórn Flugsafnsins á Akureyri og hefur hann tekið að sér að fljúga risaþotunni til bæjarins ef af verður. Northrop-sjóflugvél, sömu gerðar og fannst í Skerjafirði, sjósett við Strandgötu á stríðsárunum. Finnst að vélin eigi heima á Akureyri Flugsafnið vill vélina sem fannst á botni Skerjafjarðar Stretchbuxur kr. 2.900 Konubuxur frá kr. 1.690 Dragtir, kjólar, blússur og pils. Ódýr náttfatnaður. Brandtex fatnaður Nýbýlavegi 12, sími 5544433 Stretchbuxur kr. 2.90 Konubux r frá kr. 1.790 ragtir, kjólar, blús ur og pils. Ódýr nát fatna

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.