Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 9
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. október 2004 | 9 Í grein sinni „Hvað eru lýðræðisleg gæði?“ leggur Ringen til að önnur við- mið verði tekin upp en þau sem tíðk- ast hafa þegar lýðræðissamfélög hafa verið metin. Venjulega er horft til þeirra aðferða sem beitt er og til um- gjarðarinnar um hina lýðræðislegu ákvarð- anatöku. Hvort ríkir fulltrúalýðræði eða svokall- að beint lýðræði, þ.e. þar sem leitað er til þegnanna sjálfra þegar ákvarðanir eru teknar? Fulltrúalýðræðið er það sem við þekkjum best en beint lýðræði tíðkast sumstaðar í bæjar- og sveitarstjórnum í Bandaríkjunum og raunar víð- ar. Einnig eru allar veigamestu ákvarðanir tekn- ar beint í landi eins og Sviss sem hefur mjög langa og ríka hefð um þjóðaratkvæðagreiðslur. Er þingræðið of takmarkað? Þarf að auðga það með auknum möguleikum þegnanna til áhrifa, til dæmis með lýðræðislegu samráði af ýmsu tagi, með því þátttökulýðræði sem margir krefj- ast (um þetta má einnig lesa í grein Kristínar Ástgeirsdóttur í nýjasta hefti Ritsins)? Önnur spurning er hvort flokkar eru starfandi eða ekki? Flokkar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri í heiminum. Lýðræðið var til á undan flokkum og þrífst ágætlega í nokkrum löndum án þess að það byggist á flokkum. Hvort er þjóðhöfðinginn kjörinn í almennri atkvæðagreiðslu eða af þinginu? Þetta er mjög misjafnt, eins og dæmin sanna. Er framkvæmdavaldið kjörið með sjálf- stæðum hætti aðskilið frá löggjafarvaldinu, eins og er í Bandaríkjunum eða er það meirihluti lög- gjafarvaldsins sem myndar ríkisstjórn eins og hér tíðkast? Ríkir skýr aðskilnaður milli löggjaf- ans og dómsvaldsins, eða er hann óljós eins og í Bretlandi þar sem yfirmaður dómsvaldsins (Lord Chancellor) hefur jafnframt setið í rík- isstjórn og verið formælandi (speaker) lávarða- deildarinnar? Þótt til standi að breyta þessu síð- arnefnda, er þó ekki hægt að segja annað en að þrátt fyrir þetta hafi dómsvaldið verið þokka- lega sjálfstætt í Bretlandi um alllangt skeið. Aðferð eða árangur? Þetta er einmitt útgangspunktur Ringens í rannsókn sinni á lýðræðislegum gæðum. Hann telur að ólíkar aðferðir við lýðræðislega ákvarð- anatöku segi takmarkaða sögu um það hvort lýðræði ríki í reynd og í staðinn fyrir að einblína á umgjörðina verði að skoða lýðræðið frá sjón- armiði þeirra sem taka þátt í því, þ.e. hins al- menna borgara. Það er engin ein aðferð eða um- gjörð sem er lýðræðisleg heldur getur sama aðferð eða umgjörð leitt til mjög ólíkrar útkomu. En það er árangurinn sem skiptir máli, þ.e. hvort vilji sem flestra sé virtur, hvort þeir telji að réttindi þeirra og öryggi séu tryggð og hvort stöðugleiki ríki í lýðræðinu svo borgararnir geti treyst því að fótunum verði ekki kippt undan því við vissar aðstæður. Til að meta lýðræði í einstöku landi leggur hann til að nálgast viðfangsefnið á svipaðan hátt og gert hefur verið til að meta árangur í velferð- arkerfinu. Gagnstætt því sem tíðkast hefur oft- ast í rannsóknum stjórnmálafræðinga sem ein- blína fremur á aðferðir og umgjörð, telur Ringen að það geti verið gagnlegra að skoða lýð- ræðislegan árangur ólíkra samfélaga fyrir þegn- ana. Til að skýra muninn á aðferð og umgjörð annars vegar og árangri hins vegar, tekur hann dæmi af fulltrúalýðræði. Það skilar yfirleitt góð- um árangri því að fulltrúar fólksins þurfa að endurnýja umboð sitt reglulega. Hafi þeir farið gegn vilja meirihlutans fá þeir ekki umboð sitt aftur í næstu kosningunum. Þetta vita þeir og því reyna þeir að vinna samkvæmt óskum al- mennings. En fulltrúalýðræði er umgjörð og til eru dæmi um að það hafi verið meira í sýnd en í reynd, t.d. í kommúnistaríkjunum fyrir fall Berl- ínarmúrsins. Fulltrúalýðræðið er því ekki í sjálfu sér besta lýðræðisformið, heldur er það gott ef og aðeins ef það skilar gjarnan miklum lýðræðislegum árangri fyrir borgarana. Styrkur, geta, öryggi og traust Ringen tekur sérstaklega fyrir átta atriði sem hann telur vera mælikvarða á það sem hann kallar lýðræðisleg gæði. Hann flokkar þau í fjór- ar tvenndir sem byggja hver um sig á einum mikilvægum eiginleika lýðræðis. Þeir eru: styrk- ur, geta, öryggi og traust. Þar sem rannsóknir sýna að lýðræði er það form sem tryggir best frelsi, réttindi og öryggi borgaranna, þá skiptir máli að þeir telji að það standi traustum fótum en ekki völtum og að ófyrirséðir atburðir verði ekki til þess að lýðræðið víki ýmist fyrir fá- mennis- eða einræðisstjórn, eða fyrir upplausn- arástandi. Til að mæla styrk lýðræðisins lítur hann til tveggja atriða, í fyrsta lagi til þess hve- nær konur fengu kosningarétt í viðkomandi samfélagi, í öðru lagi til þess af hve miklum krafti fjölmiðlar nota frelsi sitt. Hann velur fyrrgreinda atriðið vegna þess að það er viss endapunktur í lýðræðislegri þróun þegar kosn- ingarétturinn nær til allra þegnanna, óháð kyni. Það er mjög misjafnt hvenær þetta gerðist og alls ekki orðið að veruleika í öllum ríkjum sem kenna sig við lýðræði í dag. Ringen segir að hafi konur fengið kosningarétt fyrir 1940 sé það mælikvarði á styrk lýðræðisins í viðkomandi samfélagi. Þannig fá Norðurlöndin eitt stig fyr- ir það, þ.m.t. Ísland, en land eins og Frakkland ekkert, þar sem konur fengu ekki kosningarétt þar fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Seinna at- riðið er ekki síður mikilvægt og hér fer það eftir því hvað fjölmiðlar eru duglegir við að láta vald- hafana vita um vilja fólksins og kalla þá til ábyrgðar fyrir það sem miður kann að fara. Hér fá lönd eins og Bandaríkin, Bretland og Ísland stig, en ekki Frakkland, Ítalía eða Tékkland. Með getu lýðræðisríkja til að skila árangri á Ringen við getu stofnana samfélagsins til að taka ákvarðanir og að þær ákvarðanir verndi og auki frelsi borgaranna. Fyrra atriðið í þeirri tvennd byggist á þörf þegnanna fyrir því að ákvarðanir séu teknar sem setji efnahagslífinu og samskiptum í samfélaginu ákveðnar skorður sem tryggi rétt hvers og eins. Séu stofnanirnar í viðkomandi landi færar um þetta fær landið stig. Ísland fær stig hér, ásamt Kanada, Frakk- landi og Chile, svo nokkur dæmi séu nefnd, en ekki Suður-Afríka, Costa Rica eða Ítalía. Seinna atriðið mælir hvort stofnanirnar geta tekið ákvarðanir án þess að hið efnahagslega vald skekki ákvarðanatökuna. Þá er hætt við því að þær séu ekki teknar fyrst og fremst með hag almennings að leiðarljósi heldur í þágu til- tekinna peningaafla. Hér fá hvorki Bretland né Bandaríkin stig og ekki heldur Ítalía. Aftur á móti fá ríki eins og Suður-Kórea og Costa Rica stig hér, og líka Ísland. Með öryggi á Ringen við að frelsi borgaranna sé tryggt. Ekki er nóg að grundvallarréttindi séu til staðar heldur þarf einnig að liggja fyrir að þegnarnir geti mótað líf sitt samkvæmt eigin markmiðum og löngunum. Til þess þurfa þeir frelsi frá fátækt og öryggi í heilbrigðismálum. Mælikvarðarnir hér eru því annars vegar hversu mikil fátækt er í viðkomandi landi og hins vegar hvort allir hafa aðgang að heilsu- vernd og aðhlynningu. Hér fá ríki eins og Bret- land og Bandaríkin stig í hvorugu atriðinu. Aft- ur á móti fá önnur lönd stig í öðru hvoru. Þannig tryggir Sviss öllum einhvern aðgang að heil- brigðiskerfinu en verndar ekki alla gegn fá- tækt. Holland hlífir öllum við fátækt en veitir ekki öllum nauðsynlega heilsuvernd. Svo eru lönd eins og Frakkland, Belgía, Norðurlönd sem fá stig fyrir bæði atriðin. Ísland líka. Næstum fullt hús stiga? Það er ekki síður mikilvægt að þegnarnir upplifi þjóðfélag sitt sem lýðræðislegt og er þetta sjálf- stæður mælikvarði á lýðræðisleg gæði. Annars vegar þurfa þeir að trúa að það kerfi sem notað er sé viðunandi og hins vegar þurfa þeir að treysta því að það muni verja réttindi sín um ókomna tíð. Þeir þurfa sum sé að treysta stjórn- völdum, treysta því að réttindi þeirra og frelsi séu tryggð og, síðast en ekki síst, treysta á þjóð- skipulag sem gerir fólki kleift að treysta hvað öðru. Atriðin tvö, sem Ringen tilgreinir sem mælikvarða á traust, eru í fyrsta lagi að hve miklu leyti almenningur treystir löggjafanum og stjórnvöldum og í öðru lagi hvort hann treysti almennt því að frelsið sé tryggt í fram- tíðinni. Niðurstöður á samanburði milli landa eru ekki síður athyglisverðar hér. Lönd sem fá hvorugt stigið eru Mexíkó, Tékkland og Spánn, en því má ekki gleyma að ekki er langt síðan landið laut einræðisherra. Þetta á líka við um lönd þar sem lýðræðið á að heita rótgrónara eins og Belgíu. Einnig er athyglisvert að í sum- um ríkjum (Indlandi, Chile og Ítalíu) treystir fólk núverandi löggjafa og stjórnvöldum en er ekki öruggt um varanleika lýðræðisins. Aftur á móti eru önnur ríki þar sem almenningur treystir því að frelsi þess sé tryggt en ber ekki mikið traust til kjörinna fulltrúa sinna. Þetta eru Bandaríkin og Bretland, en líka Noregur og Ísland sem missa þar eitt stig en væru annars með fullt hús stiga. Þótt við Íslendingar getum verið ánægðir með það hvernig við komum út úr mati Ringens (sjá þó grein Gunnars Helga hér á síðunni sem bendir á ýmsa veikleika í mati hans á lýðræði á Íslandi), þá játar Ringen að enn sem komið er sé hann að fikra sig áfram með þessar mæl- ingar. Eins mætti spyrja sig hvort ekki þyrfti – hvað Ísland varðar – að fara betur í saumana á atriðinu sem varðar getu lýðræðislegra stofn- ana til að komast að niðurstöðu án íhlutunar hins efnahagslega valds. Þetta má bæði setja í samhengi við það hvað stjórnvöld draga lapp- irnar við að setja reglur um fégjafir til stjórn- málaflokka en einnig í ljósi þeirra umræðna sem áttu sér stað síðastliðið vor og sumar um hvort setja beri fyrirtækjum, sem hafa ráðandi markaðsstöðu á einu sviði, ákveðnar skorður hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum. Torfi H. Tulinius tók saman. Hvað eru lýðræðisleg gæði? Í samanburði á lýðræðiskerfum nokkurra vestrænna ríkja kemst Stein Ringen, prófess- or við Oxford-háskóla, að þeirri niðurstöðu að Ísland ásamt Svíþjóð og Noregi standi fremst. Hér er stiklað á stóru í grein Steins Ringen „Hvað eru lýðræðisleg gæði?“ Stein Ringen er prófessor í félagsfræði og opinberri stefnu í velferðarmálum við Oxford-háskóla. Hann hef- ur einnig gegnt prófessorsstöðu í Stokkhólmi. Hann hef- ur skrifað fjölmargar greinar og tvær bækur, The Poss- ibility of Politics og Citizens, Families and Reform, báðar útgefnar af Oxford University Press. Sú niðurstaða Stein Ringen að Íslandhafi ásamt Noregi og Svíþjóð bestalýðræðiskerfið af þeim ríkjum sem hann skoðar hlýtur að vekja nokkra athygli á Íslandi. Það þarf að vísu ekki að koma mikið á óvart að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafa hvað traustast lýðræð- iskerfið. Í því efni er hollt að hafa í huga að bara rétt rúmlega tuttugu ríki í heiminum hafa búið samfellt við lýðræði frá því um 1950. Ég held að Ísland myndi alltaf lenda meðal tuttugu efstu lýð- ræðiskerfanna eða jafnvel þeirra tíu efstu, nokkurn veginn sama hvaða mæli- kvarði er notaður Um mælingar af þessu tagi má hins veg- ar alltaf deila. Mæling Ringens á gæðum lýðræðiskerfa er byggð á átta mælikvörð- um. Fæstir þeirra mæla beinlínis einhverja þætti lýðræðiskerfisins og tveir þeirra – mælikvarðarnir á fátækt og örugga heil- brigðisþjónustu – mæla reyndar fé- lagslegan jöfnuð frekar en eiginleika hins pólitíska kerfis. Um slíka mælikvarða má augljóslega deila. Tveir af mælikvörðunum eiga að mæla hvort borgararnir hafi ástæðu til að treysta því að lýðræði sé tryggt í sessi. Ísland fær tvö stig af tveimur mögulegum vegna þess að konur fengu hér kosningarrétt snemma og frelsi fjölmiðla er tryggt. Innfæddir geta að vísu velt fyrir sér hversu vel frjáls fjölmiðlun er tryggð á Íslandi í ljósi deilna um fjölmiðlafrumvarp síðasta sumar, en það verður hins vegar ekki dregið í efa að fjölmiðlun er í meginatriðum frjáls á Ís- landi. Hitt má kannski frekar draga í efa að jafn þátttökuréttur hafi verið öllum tryggður í íslenskum stjórnmálum á tutt- ugustu öld þegar íbúar í þéttbýli höfðu drýgstan hluta aldarinnar einungis hluta af þeim atkvæðisrétti sem dreifbýlinu var tryggður. Næstu tveir mælikvarðarnir eiga að mæla getu stjórnkerfisins til ákvarð- anatöku í almannaþágu. Annar mælikvarð- inn hér er spillingarvísitala alþjóðlegra samtaka gegn spillingu (Transparency Int- ernational) sem bendir til að á Íslandi séu mútur sjaldgæfar í stjórnmálum og stjórn- sýslu. Þessir mælikvarðar líta hins vegar alveg framhjá öðrum tegundum spillingar sem voru inngróinn hluti hins íslenska fyr- irgreiðslukerfis á tuttugustu öld. Síðustu tveir mælikvarðarnir taka á trausti almennings á stjórnvöldum, öðru fólki og framtíð einstaklingsfrelsis. Hér missir Ísland sitt eina stig í þessari úttekt vegna ónógs trausts almennings á stjórn- völdum. Þetta virðist Ringen byggja á gildakönnun frá 1990–1993. Í Evrópsku gildakönnuninni frá 1999–2000 var hins vegar traust á Íslandi bæði á þingi og stjórnsýslu hins opinbera langt yfir með- altali sem sýnir ef til vill hversu vand- meðfarnar vísbendingar af þessu tagi eru. Athyglisvert er hins vegar að í sömu könn- un er traust á öðru fólki minna á Íslandi en annars staðar í Norður Evrópu – sem gæti bent til að ein helsta undirstaða lýðræð- isins, félagsauður, standi veikar hér. Hvað sem segja má um einstakar mæl- ingar held ég að meginpunktur Ringens sé mikilvægur: það er ekki nóg að skera úr um hvort lýðræði ríkir – það er nauðsyn- legt að skoða einnig hversu vel lýðræðið skilar þeim gildum sem slík kerfi eiga að skila almenningi. Það er í því samhengi ekki aðalatriðið hvort mælikvarðarnir eru átta, eins og hjá Ringen, eða fleiri og raun- ar mætti vel hugsa sér fleiri mælikvarða en þá sem hann notar. Til dæmis sakna ég ein- hvers konar mælingar á því í þessari úttekt hversu vel lýðræðið stuðlar að samstöðu og vernd minnihluta. Á Íslandi ríkir mun óheftara meirihlutaræði en í flestum þeirra smáríkja í Evrópu sem hafa traustustu lýð- ræðishefðirnar. Einn megintilgangur lýð- ræðisins er að stuðla að samstöðu og sátt í samfélaginu. Er Ísland besta lýðræðisríki í heimi? Eftir Gunnar Helga Krist- insson ghk@hi.is Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Morgunblaðið/Sverrir Lýðræðisleg gæði „Það er ekki síður mikilvægt að þegnarnir upplifi þjóðfélag sitt sem lýðræðislegt og er þetta sjálfstæður mælikvarði á lýðræðisleg gæði,“ sagði Stein Ringen í fyrirlestri sínum. Við hlið hans situr Sandrine Rui.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.