Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. október 2004 Þ egar Coline Serreau fæðist í París 29. október 1947 er mikil gerjun í aðsigi í frönsku leik- listarlífi sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á leikritun út um allan heim og svo verður hún barn ’68-kynslóðarinnar í Frakklandi og skarpskyggn baráttumaður í þeirri víðfrægu uppreisn gegn kyrrstöðu. Eftir seinna stríð verður til hreyfing í Frakklandi sem brýtur blað í sögu leikrit- unar, umrótaði öllu því sem hafði verið skrif- að til þessa, færði út takmörk sviðsins og auðgaði leikbókmenntir okkar tíma. Listin hafði ekki dáið í gasklefunum í Þýskalandi, það eru átök í pólitíkinni og ólga í leikhúsinu: Avant-garde leikhúsið eða „nýja leikhúsið“ verður til. Þessu öllu rennir Coline Serreau niður með móðurmjólkinni. Hún fæðist inn í leiklistarfjölskyldu, því faðir hennar Jean Marie Serreau er leikari, mikilhæfur leik- stjóri og leikhússtjóri og móðirin Geneviève Serreau er rithöfundur og leikritaskáld, og þau áttu bæði drjúgan þátt í að hrinda avant- garde leikhúsinu af stokk- unum. Í Frakklandi verður nafn Jean Marie Serreau ávallt bendlað við Brecht og Beckett en hann varð fyrstur manna til að kynna Brecht í Frakklandi árið 1950 og það var honum að þakka að Beðið eftir Godot komst fyrst á fjalirnar í Babylon- leikhúsinu 1953 þar sem hann var leik- hússtjóri, en Roger Blin sem vildi setja verk- ið upp hafði gengið á milli leikhúsa og alls staðar fengið synjun. Þetta verk Becketts er og verður tákn avant-garde hreyfingarinnar, það sem mestur ljómi stafar af, það sem stendur hæst. Jean Marie Serreau átti þátt í að fleiri avant-garde höfundar voru settir á svið, Ionesco, Adamov, Audiberti, Genet og Ghelderode, og seinna studdi hann yngri höf- unda einsog Michel Vinaver, Marguerite Duras og Max Fritch. Móðirin Geneviève Serreau var einnig mjög virk innan leikhúss- ins, hún skrifaði leikrit en er líklega þekktust fyrir að hafa skrifað Sögu avant-garde leik- hússins (Histoire du „Nouveau Théâtre“) sem kom út hjá Gallimard árið 1966 og er eitt helsta rit um þetta efni, enda bókin skrifuð af miklu næmi og þekkingu. Þegar Coline Serreau leggur út í lífið býr hún því að miklu listrænu veganesti. Hún er réttnefnt leikhúsbarn, eldhugi, kappsöm og kraftmikil. Hún leggur í æsku stund á bæði klassískan og nútímaballett, æfir loftfimleika í sirkusskóla Annie Fratellini, lærir á orgel, stundar tónmennt í Tónlistarháskólanum og bókmenntir í Sorbonne. Og virðist meira að segja búa yfir hæfileikum á öllum þessum sviðum! En þegar hún stendur frammi fyrir því að velja, þá nær leikhúsbarnið yfirhönd- inni. Hún kemst inn í þekktan leiklistarskóla í París, l’Ecole de la Rue Blanche, og sækir tíma hjá Andreas Voutsinas. Leikferill henn- ar hefst árið 1970 í Théâtre du Vieux- Colombier og upp frá því leikur hún jafnt á sviði sem á hvíta tjaldinu. Hvert stór- hlutverkið á fætur öðru fellur í hennar hlut, kvenhetjur Shakespeares og Pirandellos en líka hrein gamanhlutverk einsog þau sem franski gamanleikjahöfundurinn Coluche skrifar. Fljótlega vill Coline Serreau ekki bara túlka persónur sem sprottnar eru úr hug- arfylgsnum annarra, hún vill láta öðruvísi og meira að sér kveða og hún hefur sjálf að skrifa og leikstýra. Árið 1973 skrifar hún handritið að kvikmyndinni Við fórum ást- arsöguvillt (On s’est trompé d’histoire d’am- our) sem Jean-Louis Bertucelli leikstýrir en þar fór Francis Perrin með aðalhlutverkið. Tveimur árum síðar, þegar Coline Serreau er 28 ára gömul, tekur hún sér í fyrsta sinn stöðu fyrir aftan kvikmyndavélina og gerir myndina En hvað vilja þær eiginlega? (Mais qu’est-ce qu’elles veulent?) sem er kynnt á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1977. Myndin er nokkurs konar heimildarmynd, þar sem Serreau tekur viðtöl við konur og skilgreinir á fíngerðan hátt kvenfrelsiskröfur kynsystra sinna, að nokkru leyti að fordæmi Agnès Varda. Kvenfrelsisbaráttan er í al- gleymingi í Frakklandi og Coline Serreau sem er barn sinnar kynslóðar vill leggja sitt af mörkum. Eftir þessa mynd fær hún á sig þann stimpil að vera vinstrisinnaður fem- inisti. Og ekki að ósekju. Henni hefur skilist að listin er gífurlega sterkt vopn í allri þjóð- félagsbaráttu, bæði kvikmyndalistin og leik- sviðið sem hún byrjar nú að skrifa fyrir. Coline Serreau er ákveðin kona og mikill eldhugi. Hún hefur bakgrunninn, sjálfsálitið, orkuna, getuna og umfram allt viljann og löngunina. Hún vill breyta. Hún vill víkka sjóndeildarhring almennings, færa honum ný lífsgildi. Hún vill opna augu áhorfenda, fá þá til að hugsa og skilja til þess að þeir verði betur í stakk búnir til að skapa nýjan og betri heim. Coline Serreau er skarpskyggn bar- áttumaður í uppreisn gegn kyrrstöðu, gegn arfgengum venjum, gegn smáborgaraskap. Hún hrærist í ölduróti nútímans og er barn ’68-kynslóðarinnar. Hún kýs því í verkum sínum, bæði leik- ritum og kvikmyndum, að leggja meiri áherslu á innihaldið en formið. Djarfar til- raunir með ný leikræn form, sem eiga mjög upp á pallborðið í Frakklandi, vekja ekki áhuga hennar. Hún vill skila sínu á skýran og einfaldan hátt, hennar markmið er að ná til sem flestra. Til alþýðu manna. Því hún tekur á málum sem snerta alla og til þess að ná til þeirra velur hún skæðasta vopnið, húmorinn. Hún vill segja sögur, hún vill segja allt af létta og segja hvað mætti betur fara. Hún vill segja að staða konunnar í þjóðfélaginu sé ekki eins og hún ætti að vera – og ekki staða karlsins heldur, ef út í það er farið – að ras- ismi sé ófyrirgefanlegur, að atvinnuleysi og vosbúð eigi ekki að eiga sér stað … Coline Serreau skellir skollaeyrum við tali þeirra sem reglulega kveða upp dauðadóm yfir leikhúsinu. Existensíalískar spurningar höfða ekki til hennar, hún neitar að taka öðru vísi á listinni en á þann hátt sem allir skilja. Hún er alltaf jafnherská. Í kvikmyndinni Því ekki? (Pourquoi pas?) frá árinu 1977 tekst hún á við kreddur þjóð- félagsins og boðar frjálsar ástir. Í myndinni er fjallað um ástarþríhyrning, um tvo karl- menn og eina konu sem lifa saman og elskast. Annar karlmannanna er heimavinnandi og eldar, saumar og bætir flíkur, því fyrir Coline Serreau er konan ekki ein um að vera föst í fjötrum kynhlutverkanna heldur karlinn ekki síður. Hún gerir sér far um að laða fram hið kvenlega í karlmanninum, færa kynja- hlutverkin nær hvort öðru, láta þau snertast. Og karlmaður getur líka hugsað um hvít- voðung. Í kvikmyndinni Þrír karlmenn og hvítvoðungur (Trois hommes et un couffin) sem hún gerir árið 1985 stillir hún upp þrem- ur karlmönnum sem lenda í þeirri kostulegu stöðu að fá hvítvoðung upp í hendurnar sem þarf að ala upp og á eftir að kollvarpa þægi- legu piparsveinalífi þeirra. Þessi mynd naut einstakrar almannahylli í Frakklandi, hún var á hvíta tjaldinu samfleytt í sex mánuði og 8 milljón manns komu að sjá hana. Myndin fékk Cesar-kvikmyndaverðlaunin sem besta mynd ársins og fór sigurför um allan heim. Hollywood renndi hýru auga til handritsins og gerði sína útgáfu árið 1987, Three men and a baby, í leikstjórn Leonards Nimoys. Kaninn lét þó ekki þar við sitja heldur bað um meira og þá skrifaði Coline Serreau handritið að Three men and a little lady sem Emile Ardolino leikstýrði. Hún tók sama tema upp aftur með nákvæmlega sömu leik- urunum árið 2002 og heitir myndin einfald- lega 18 árum síðar (18 ans plus tard) en þá eru hinir sömu kumpánar ekki lengur með ungbarn sem þarf að gefa pela, svæfa og skipta á heldur 18 ára stúlku. Voðinn er vís! En Coline Serreau tekst á við fleiri þjóð- félagsvandamál, einsog til dæmis hina alls- ráðandi peningagræðgi. Í kvikmyndinni Eftir hverju erum við að bíða til að vera ham- ingjusöm! (1982) beinir Coline Serreau spjót- um sínum að auglýsingaheiminum, en myndin fjallar um statista sem eru að leika í auglýs- ingamynd og komast að því að framleiðand- inn arðrænir þá. Hópurinn fer því í verkfall, lokar framleiðandann inni og lærir um leið hvað samstaða og vinátta þýða í lífinu. Í kóm- edíunni Romuald og Juliette fjallar hún um rasisma og stéttaskiptingu, en þar segir frá forstjóra stórfyrirtækis og svartri hreingern- ingakonu sem fella hugi saman – og það gengur upp! Árið 1992 er orðið „kreppa“ á allra vörum í Frakklandi og þá gerir hún kvikmynd með því nafni (La Crise) þar sem segir frá manni sem missir konuna og vinn- una sama daginn og öðlast ekki tiltrú á lífið fyrr en hann hittir fátækling, heimilislausan utangarðsmann, sem kemur honum í skilning um hvað máli skipti. Myndin fær mjög góðar undirtektir og hlýtur Cesar-verðlaunin fyrir besta kvikmyndahandritið. Í kvikmyndinni Chaos frá árinu 2001 dregur Coline Serreau upp svarta mynd af heimi vændis og þræla- halds en þessa mynd endurgerði hún fyrir skömmu og þá með Meryl Streep í aðal- hlutverki. Coline Serreau er þekktust fyrir kvik- myndir sínar, en inn á milli snýr hún sér ávallt aftur að leikhúsinu, fyrstu ástinni. Hún heldur áfram að skrifa, leika, leikstýra. Alltaf með sama lífskraftinum, sama viljanum til að betrumbæta heiminn, í hið minnsta fé- lagslega, siðferðislega og pólitískt. Annað er víst ekki í okkar valdi. Leikritin Héri Héra- son (1984), Quisaitout og Grobéta (1990) og Le Salon d’été frá 1997 eru þau leikrita henn- ar sem mesta athygli hafa vakið í Frakklandi og víða um heim. Hún er einnig virtur leik- stjóri og leikstýrði til dæmis Rakaranum í Sevilla sem var frumsýndur í Bastilluóper- unni árið 2002, sýndur aftur á síðasta ári og verður tekinn til sýninga enn á ný í desember 2004. Þessi atorkusama kona hefur að vonum hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar. Hún hlaut nýlega heiðursverðlaun franska rithöf- undasambandsins, S.A.C.D., fyrir ritstörf sín og á Bastilludaginn 14. júlí síðastliðinn sæmdi forseti Frakka, Jacques Chirac, hana ridd- araorðu frönsku heiðursfylkingarinnar fyrir störf hennar í þágu listarinnar. Í uppreisn gegn kyrrstöðu Leikritið Héri Hérason var frumsýnt í Borg- arleikhúsinu í gær. Höfundur þess er franska leikskáldið, leikkonan og kvikmyndagerð- armaðurinn Coline Serreau. Hún er þekktust fyrir kvikmyndir sínar svo sem Þrír karl- menn og hvítvoðungur og Kaos en inni á milli snýr hún sér ávallt aftur að leikhúsinu þar sem hún er alin upp. Morgunblaðið/Kristinn Héri Hérason „Leikritin Héri Hérason (1984), Quisaitout og Grobéta (1990) og Le Salon d’été frá 1997 eru þau leikrita hennar sem mesta athygli hafa vakið í Frakklandi og víða um heim.“ Myndin er tekin á æfingu á Héra Hérasyni í Borgarleikhúsinu. Eftir Ragnheiði Ásgeirsdóttur raggaas@free.fr Höfundur er leikhúsfræðingur í París.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.