Morgunblaðið - 11.03.1979, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 11.03.1979, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 11. MARZ 1979 Myndllst eftir BRAGA ÁSGEIRSSON / A Loft- inu Langt er nú umliðið síðan sýningar voru nokkuð regluleg- ur viðburður á efri hæð hinnar sérstæðu listmunaverzlunar að Skólavörðustíg 6, er hlaut nafn- ið „Á Loftinu". Helgi Einarsson hannaði hana og rak fyrstu árin. Ekki mun þó einungis vera við hina nýju eigendur að sakast, sem munu hafa haft á stefnu- skrá sinni að halda áfram sýn- ingarhaldi í húsnæðinu. En það fara ekki allir svo auðveldlega í spor þeirra Helga Einarssonar og Bjargar Sverrisdóttur, fyrr- verandi verzlunar- og rekstrar- stjóra, sem einhvern veginn tóku hinn sérstaka þokka og yfirbrag húsnæðisins með sér, er þau hurfu á braut. Maður saknar þess anda, er þar sveif yfir vötnum, og listlífið í borg- inni er einum þætti fátækara. Ekki þekki ég hina nýju eig- endur, en menn bera þeim vel söguna, og vil ég hvetja þá til að halda áfram viðleitni sinni við að virkja sýningarhúsnæðið. En slíkt stendur og fellur með rekstrarstjóra, sem þarf að vera hugmyndaríkur og njóta trausts listamanna. Það mætti einnig hugsa sér, að þetta yrði griðastaður tóm- stundamálara, því að einhvers staðar verða þeir að hafa at- hvarf til sýningarhalds, vilji þeir koma verkum sínum á framfæri, og þá yrði ákveðnum þætti í myndlistarlífinu góður sómi sýndur. Það er einmitt tómstundamál- ari, Anna K. Þórðardóttir, sem sýnir þar um þessar mundir, menntuð í myndlistarklúbbi Seltjarnarness og á námskeið- um í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þetta er fyrsta einkasýning frúarinnar, sem hefur áður tekið þátt í nokkrum samsýningum. Á sýningunni eru 35 myndir gerðar í olíu, olíupastel og vatnslitum og hafa flest verkin yfirbragð ígripavinnubragða. Um persónuleg stíleinkenni er ekki að ræða nema í meðferð litarins í nokkrum myndanna, og þyrfti frúin að einbeita sér að því að þroska þennan þátt hæfi- leika sinna, því að hér kemur það fram, sem ber vott um að hún getur náð lengra. — Annars er áberandi, hve tæknilegu hlið- um myndverkanna er ábóta- vant, teikning og myndbygging laus og svífandi. Málverkin „Sigalda" (3) er hér undantekn- ing svo og telpumyndin, er hefur hlotið nafnið „Vor“ (8) og er gerð í olíukrít. Þessar tvær myndir þóttu mér í sérflokki á sýningunni. Eg hvet svo að endingu hina nýju eigendur að láta ekki deig- an síga um sýningarhald í ein- hverri mynd í húsnæðinu og óska þeim velfarnaðar. Bragi Ásgeirsson. Leiðréttingar Prentvillupúkinn gerðist ærið aðsópsmikill í Myndlistarvett- vangi mínum, er birtist sl. þriðjudag, 6. marz. Villur þessar voru sérdeilis óheppilegar, m.a. af því að þær voru þess eðlis, að flestir glöggir lesendur gátu áttað sig á þeim og þær gefa því síður tilefni til sérstakrar leið- réttingar, — en voru þó mjög til lýta. Alvarlegast var þó, að fyrir- sagnir, er greindu frá því, sem um var fjallað, voru í einni bendu og gátu því hæglega valdið miklum miskilningi í þá veru, að beint samhengi væri milli þáttanna, en þetta voru þó sjálfstæðar einingar, svo sem fram kemur í greininni sjálfri. —Þá datt út orð í pistli mínum „Ljósið kemur langt og mjótt". Rétt er upphafssetning- in svona: Það hefur lítið farið fyrir einum merkasta sýningar- viðburði vetrarins í fjölmiðlum. Bragi Ásgeirsson. Gísli Guðmundsson Hvalsnesi — 75 ára Suðurnesin hafa aldrei verið sérstaklega rómuð fyrir náttúru- fegurð. Þó eru þeir margir ferða- mannahóparnir svo og einstakl- ingar, sem lagt hafa leið sína þangað til þess að skoða það sem ber fyrir augu á þessum slóðum, enda fjölbreytni mikil í landslagi, þótt gróðursæld mætti þar meiri vera. En þessi landshluti geymir þó sögustaði nokkra, sem vissulega vekja áhuga ferðamannsins. Á sumum þessara staða er þó fátt eða ekkert eftir, sem minnir á forna frægð, en samt^sem áður talar þar löngu liðin saga sínu máli og vitnar með áhrifaríkum hætti um mannleg örlög og mann- virki, sem tímans tönn eða nátt- úruhamfarir hafa að mestu eða með öllu afmáð sjónum manna, til dæmis að taka Kirkjuból á Mið- nesi og Básendakaupstað. Einn er þó sá sögustaður á Miðnesi, sem enn heldur fullri reisn. Er það kirkjustaðurinn Hvalsnes. Þar hefur kirkja staðið um aldir, og raunar var þar einnig prestssetur allt til 1811. Sú kirkja, sem nú stendur á Hvalsnesi, var reist árið 1887 af Katli Ketilssyni, stórbónda og hreppstjóra í Kot- vogi, sem þá var eigandi Hvals- ness. Þótt kirkjan sé ekki stór, er hún hið veglegasta guðshús, ein fárra kirkna á landinu, sem hlaðin er úr höggnu grjóti og getur því væntanlega staðið um aldir. Vart getur þann ferðamann, er leggur leið sína um Suðurnes til að kynnast landi og staðháttum, að hann komi ekki við á Hvalsnesi til þess að skoða þar stað og kirkju. Þótt kirkjan sé fögur og vel búin gripum og góðum munum, mun þó flesta, sem í þessa kirkju koma, einkum fýsa að sjá dýrgrip þann, er hún geymir mestan, legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur, sem faðir hennar, séra Hallgrímur Pétursson, setti á leiði elskaðrar dóttur í Hvalsneskirkjugarði. Á steininn hefur séra Hallgrímur höggvið nafn dóttur sinnar og ártalið 1649. En séra Hallgrímur vígðist til Hvalsnesþinga 1644 og þjónaði þar í sjö ár, unz hann fluttist að Saurbæ á Hvalfjarðar- strönd. Þeir sem koma í hlað á Hvals- nesi, hvort heldur eru fleiri eða færri, fara ekki án leiðsagnar til kirkju. Er þeir hafa kvatt dyra, er gjarnan upp fyrir þeim lokið af aldurhnignum manni, ljósum yfir- litum, fríðum sýnum og virðuleg- um, — manni, sem árin og lang- varandi vanheilsa hafa þó í nokkr- um mæli sett sín merki á. Þessi maður er Gísli Guðmundsson með- hjálpari og kirkjuhaldari Hvals- neskirkju og safnaðarfulltrúi Hvalsnessafnaðar. Þegar til kirkju kemur, kann hann frá mörgu að segja, því að fullyrða má, að enginn núlifandi maður er sem hann gjörkunnugur kirkju og stað á Hvalsnesi, svo og þeim prestum er þar hafa þjónað á liðnum árum og öldum. Hann er vel máli farínn, svo að unun er á að hlýða, enda efnið honum eink- arhugleikið og hjartfólgið. Og víst er um það, að þegar haldið er á braut, fer gesturinn mun fróðari um þennan stað og kirkju en þá er hann bar að garði. Þó er þess að geta, að hafi ekki verið um fjöl- menna hópferð að ræða, heldur fámennari heimsókn eða einstakl- inga, sem eitthvað þekkja til á Hvalsnesi, þá er þeim gjarnan boðið til stofu, því að gestrisni þessa heimilis er og hefur alla tíð verið frábær. Meðan staðið er við ber margt á góma, því að húsbónd- inn er í senn ræðinn og greindur vel, hefur víðtæka og staðgóða þekkingu á því, sem er að gerast í nútímanum, en kann þó ekki síður skil á þeim hlutum eða viðburðum, er gerðust í gamla dagá, því að auk fjölþættrar lífsreynslu, er hann mjög vel lesinn og margfróður. Er það með ólíkinduih, hve vel hann er að sér í hinum óskyldustu efnum. Það er þó ekki einvörð- ungu, að sá gestur er kveður Hvalsnesheimilið, fari þaðan vel mettur góðum veitingum, efnisleg- um sem andlegum, heldur tekur hann með sér yl þeirrar hjarta- hlýju og góðvildar, sem hann átti þar að mæta. Því er með þakklæti í huga haldið úr hlaði. Kirkjustaðurinn Hvalsnes á Miðnesi heldur enn fornri reisn, þótt slíkt hið sama verði ekki sagt um suma aðra sögustaði á þessum slóðum, eins og fyrr var að vikið. Þá reisn má vissulega þakka þeim, sem þennan stað hafa setið. Gísli Guðmundsson er kvæntur mikilli mannkostakonu, Guðrúnu Páls- dóttur, sem fædd er og uppalin á Hvalsnesi. Þar fæddist einnig og ól allan sinn aldur Magnús Pálsson bróðir hennar, en hann lézt árið 1970. Magnúsi var flest vel gefið. Auk þess að vera áræðinn og snjall sjósóknari, var hann listasmiður og tónlistarmaður ágætur, þótt lítillar menntunar fengi hann notið í þeirri listgrein. Komið hafa út eftir hann 22 sálma- og sönglög, sem bera listagáfu og hæfileikum hans fagurt vitni. Magnús var organisti Hvalsneskirkju í 43 ár, án þess nokkru sinni að þiggja laun fyrir. Enda þótt Hvalsnessöfnuði þyki vænt um kirkju sína og hafi sýnt það í verki, þá má þó fullyrða, að það er fyrst og fremst Gísla Guðmundssyni, svo og Guðrúnu konu hans og Magnúsi bróður hennar að þakka, að staður og kirkja á Hvalsnesi hafa haldið þeirri reisn, sem raun ber vitni. Þau Hvalsneshjón, Gísli og Guð- rún, hafa í sannleika helgað kirkju sinni krafta sína varðandi hirð- ingu, búnað, helgihald og hvers kyns þjónustu. Þau hafa einnig gefið henni stórgjafir og látið sér á allar lundir mjög annt um hana, 1 % auk þess sem Gísli hefur um áratugi verið fulltrúi kirkju og safnaðar á opinberum vettvangi. Gísli Guðmundsson er fæddur 12. marz 1904 að Klapparkoti í Fuglavíkurhverfi og verður því 75 ára á morgun. Foreldrar Gísla voru hjónin Gróa B. Einarsdóttir og Guðmundur Gíslason. Hafði móðir Gísla verið ekkja, áður en hún giftist Guðmundi, og eignazt tvö börn með fyrri manni sinum, Gesti Sigurðssyni, — Lísbet, sem búsett er í Keflavík og Einar, sem býr í Norðurkoti. Þegar Gísli var tveggja ára, fluttist hann með foreldrum sínum að Norðurkoti og ólst þar upp. Var hann elztur þriggja alsystkina og eru hin, Sigurður Ragnar og Mar- grét, látin fyrir nokkrum árum. Þau voru búsett í Keflavík. Gisli dvaldi í foreldrahúsum til 27 ára aldurs og stundaði einkum sjósókn, fyrst á opnum skipum, síðar sem vélstjóri á bátum frá Sandgerði, en vélstjóraréttindi hafði hann hlotið árið 1925. Sumr- ið 1931 fluttist Gísli að Hvalsnesi, enda voru þau þá heitbundin hann og heimasætan þar, Guðrún Páls- dóttir. En þá um haustið veiktist Gísli af berklum og lá heima, unz hann lagðist inn á Vífilsstaðahæli um miðjan febrúar 1932. Þar dvaldist Gísli í tvö ár, en kom heim vorið 1934 og vann — eftir því sem heilsa hans leyfði — að því að hjálpa Magnúsi mági sínum við útgerð þá, er hann rak frá Hvals- nesi. Þann 3. ágúst 1935 gengu þau í hjónaband Gísli og Guðrún, en tæpu ári síðar veiktist Gísli á ný og fór öðru sinni á Vífilsstaðahæli, þar sem hann lá fram á síðsumar 1937. Eftir að þaðan kom fór Gísli að geta unnið nokkuð, þótt hann yrði lengi að vera undir læknis hendi. Fékkst hann þá við ýmiss konar vinnu s.s. miðstöðvarlagnir og uppsetningu vindrafstöðva, enda maður bráðlaginn til allra verka. Árið 1946 var raflínan lögð frá Sogi til Suðurnesja, og réðst þá Gísli í vinnu til Aðalsteins Gísla- sonar rafvirkjameistara í Sand- gerði. Síðar hóf Gísli rafvirkjanám hjá Aðalsteini og lauk sveinsprófi í þeirri grein árið 1951. En löggild- ingu sem rafvirkjameistari hlaut hann árið 1955. Eftir það starfaði Gísli nokkuð að raflögnum á eigin vegum, en snemma árs 1955 réðst hann sem skrifstofu- og inn- heimtumaður til Rafveitu Miðnes- hrepps og gegndi því starfi til ársloka 1970, er hann varð að hætta vegna heilsubrests. Hafði hann kennt kransæðasjúkleika síðan 1958, sem ágerðist, auk þess sem ýmsir fylgikvillar sóttu á hann, svo að hann varð að dveljast á sjúkrahúsum um lengri eða skemmri tíma. Þess á milli hefur hann dvalizt heima og stundað talsvert bókband í tómstundum sínum auk lesturs góðra bóka. En langvinn og oft þung veikindi sín hefur Gísli borið með einstöku æðruleysi án þess nokkru sinni að kvarta og ósjaldan gert mun minna úr þeim en efni stóðu til, jafnvel oft ætlað sér meira en veik heilsa hans leyfði. Gísli er maður félagslyndur og hefur gefið sig talsvert að félags- störfum. Sem ungir menn voru þeir bræðurnir virkir félagar í ungmennafélagi Miðnesinga, er stofnað var 1920. Þá var Gísli einn af stofnendum slysavarnadeildar- innar Sigurvon í Sandgerði, sem stofnuð var 1928. Var hann lengst af gjaldkeri hennar, og á 40 ára afmæli deildarinnar 1968 var hann gerður heiðursfélagi hennar. Einn- ig hefur hann mætt á mörgum þingum Slysavarnarfélegs íslands sem fulltrúi deildar sinnar. Loks er þess að geta, að hann var um skeið starfandi í Lionsklúbbi Sandgerðis. Árið 1940 varð Gísli meðhjálp- ari og kirkjuhaldari Hvalsnes- kirkju og litlu síðar safnaðarfull- trúi Hvalsnessafnaðar. Hefur hann síðan setið alla héraðsfundi prófastdæmisins að einum undan- skildum vegna þess að fundarboð barst honum of seint. Þau hjónin Gísli og Guðrún hafa aldrei safnað veraldarauði, enda naumast að vænta. Á heimili þeirra hefur alla tíð verið afar gestkvæmt, og 'allir, sem þangað koma, verða að þiggja rausnarleg- ar veitingar, því að gestrisni er einstök. Einnig eru þau sérstak- lega gjafmild og greiðug. Getið hefur verið um stórgjafir þeirra til kirkjunnar. Hitt vita færri, hve ótrúlega þau eru örlát á gjafir til allrar hjálpar- og líknarstarfsemi. En þótt þau hjón hafi ekki aflað sér auðs á veraldarvísu, hefur þeim annars konar auður fallið í skaut. Þau hafa eignazt tvær myndarlegar og mannvænlegar dætur, sem tekið hafa að erfðum í ríkum mæli mannkosti foreldra sinna. Eldri dóttirin Guðlaug er gift Tómasi Grétari Ólasyni, sem stundar vinnuvélaleigu, og búa þau í Kópavogi, en sú yngri, Iðunn Gróa, er gift Hjálmtý Guðmunds- syni, tölvufræðing og eiga þau heima í Reykjavík. Eru téngdasyn- irnir dugnaðarmenn og drengir góðir, en barnabörnin, 8 að tölu, öll hin efnilegustu. Hvalsneshjónin hafa alla tíð notið mikils trausts og virðingar sveitunga sinna sökum mannkosta og fyrir hið mikla og fórnfúsa starf, sem þau hafa unnið fyrir kirkju sína. Því veit ég, að ég má flytja Gísla og konu hans innilegar þakkir Hvalsnessafnaðar á þessu merkisafmæli hans. Og síðast en ekki sízt vildi ég flytja honum hjartans þakkir fyrir ágætt og náið samstarf í meira en aldar- fjórðung. Við hjónin þökkum þeim Gísla og Guðrúnu hjartanlega frábæra gestrisni, góðar viðtökur og ánægjuríkar samverustundir á heimili þeirra, en ekki síður þann hlýhug, vinsemd og góðvild, sem okkur hefur alltaf mætt á þessu heimili, sem segja má að verið háfi okkar annað heimili, síðan við fluttum á Suðurnesin. Um leið og við þökkum alla tryggð og vináttu í áratugi, flytjum við Gísla og Guðrúnu konu hans hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni þessa af- mælis og biðjum þeim, heimili þeirra og ástvinum blessunar Guðs, gæfu og farsældar á ókomn- um árum. Guðm. Guðmundsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.