Dagur - 16.05.1986, Blaðsíða 11

Dagur - 16.05.1986, Blaðsíða 11
10- DAGUR- 16. maí 1986 Guðmundur Þorsteinsson sem búsettur er í Julianahaab á Grænlandi í helgarviðtali Hann sagðist fyrst hafa komið til Akureyrar árið 1954. Á leiðinni til Hríseyjar. Guðmundur heitir hann og er Þorsteinsson. Nú búsettur í Julianahaab á Grœnlandi, fœddur og uppalinn í Reykjavík. Guðmundur hefur átt heima í Julianahaab í tvö ár, er giftur Benedikte Thorsteinsson og eiga þau hjónin þrjú börn og von er á því fjórða í næsta mánuði. Er blaðamaður Dags var á ferðinni í Julianahaab á dögunum hitti hann Guðmund að máli. Við settumst niður í matsal hótels Qaqortoq. Það var verið að ganga frá eftir morgunmatinn. Við hverfum um stund frá Grœnlandi og hefjum samtalið í Hrísey. Á hverju vori setti borgarstrákurinn tannbursta og stuttbuxur ofan í tösku og hélt norður á land. Ferðinni var heitið til Hríseyjar hvar amma snáðans, Ólína Páls- dóttir átti heima. Það var vaðandi síld um alla firði á þessum árum, „og Hrísey var eins og strætóstöð, bátarnir voru að koma og fara. Auðvitað reyndi maður að fylgjast með og lærði nöfnin á öllum bátunum.“ Strákarnir á bryggjunni fylgdust vand- lega með hversu mikinn afla hver bátur bar að landi. „Ég hélt alltaf með Eyja- fjarðarbátunum." Guðmundur sagði að í þá daga hefði fót- boltinn ekki skipt mestu máli í tilverunni. Það var bryggjan, bátarnir. Sjórinn var kolbikasvartur af fiski og þeim leiddist ekkert á bryggjunni, strákunum í Hrísey. „Þetta var heilmikið ævintýri fyrir bæjar- strák." - Þið hafið ekki unnið eitthvað við síld- arsöltunina? „Jú. maður var látinn vera með öðru hvoru. En ég var svo óstýrilátur á þessum árum, að það var ekki hægt að halda manni við tunnu. Maður var rokinn um leið og amma snéri sér við.“ Hafði ekki nœgilega stjórn á sjálfum mér . . . - Er langt síðan þú varst síðast í Hrísey? „Allt of langt síðan. Þegar ég er heima á Islandi er tímaleysinu borið við. Hrísey á ennþá mikil ítök í mér, þetta er staður þar sem maður þekkti hverja þúfu. Já, það er allt of langt síðan ég kom síðast út í Hrís- ey.“ Við höldum áfram og spyrjum hvað hafi orðið úr guttanum. „Ég ætlaði að læra eitthvað. En það tókst ekkert sérlega vel. Ég var jafn óstýri- látur og yfir tunnunum. Var mest í skóla lífsins, eins og það er kallað. Nú, ég reyndi að fara í Iðnskólann, læra pípulögn. Svo ætlaði ég að gerast sjóari. Fór á varðskip. En það varð ekkert nema djamm, sukk. Ég var á sjó í tuttugu daga. Þar með er minn sjómennskuferill upp talinn. Þetta er mikil vinna, erfitt starf og óskaplega krefj- andi. Ég hafði ekki krafta í það, né nægi- lega stjórn á sjálfum mér til að stunda það. Það er líka vanþakklátt starf að vera sjó- maður, þó þeir fái smá pening fyrir þetta, þá finnst mér það bara allt í lagi.“ - Að hverju getur uppgjafasjóari snúið sér? „Ég fór að stunda armbeyjur. Líkams- rækt. Allur minn tími fór í þær. Síðan fór ég til Kaupmannahafnar. Það tíðkaðist á þeim árum að krakkar færu í ferðalög þangað og það hentaði mér ágætlega. Ég þóttist vera að vinna. Og ég kynntist fleiri hliðum á lífinu en bara vökvanum. Svo kynntist ég Benediktu. Hún var að fara í læknisfræðinám. Þá kom það upp úr dúrnum að hún fengi ekki námslán. Auk þess sem hún veiktist. Hún var og er Grænlendingur og það gerði henni erfið- ara fyrir. Það er mjög mikið um það að Grænlendingar flosni upp frá námi. Þeir sækja allt sitt nám til Danmerkur. Þar eru allt önnur viðhorf ríkjandi. Þetta land er ólíkt þeirra landi. Grænlendingar eru lík- ari fslendingum, þeir eru svo tengdir nátt- úrunni.“ Skáldin og söknuðurinn „Þegar ég var úti í Kaupmannahöfn hugs- aði ég oft til skáldanna okkar. Þessara manna sem héldu út, ætluðu að mennta sig. En söknuðurinn var svo mikill, þeir flosnuðu upp. Tengslin við náttúruna, heimahagana eru svo gífurleg. Grænlendingar eru vissulega hvattir til að læra. En það er margt sem dregur úr áhuganum. Þeir hafa ekki séð neinn hagn- að í því að yfirgefa land sitt og hefja nám á erlendri grundu. Koma heim eftir kannski tíu ára útiveru. Fá svo ekki vinnu við það sem þeir hafa verið að læra, eða vinna við hlið Dana og fá mun lægra kaup en þeir. Ógeðslegt! Þetta er kannski fólk sem setið hefur í sömu menntastofnuninni, lært það sama. En það er verið að lokka Danina til að fara til Grænlands. Það vant- ar menntað fólk. Grænland er gulrótin, agnið, sem þeir eiga að bíta á. Fólk kemur hingað til Grænlands í stór- um stíl frá Danmörku. Vinnur hér í nokkra mánuði, jafnvel ár. En það fjár- festir ekkert. Byggir ekki hús. Þetta fólk fer með peningana aftur til Danmerkur. Ég get nefnt sem dæmi, að það er mjög vinsælt á meðal iðnaðarmanna að koma hingað og vinna í t.d. sex mánuði alveg á fullu. Síðan eru þeir farnir og það get ég fullyrt að það eru stórar fjárfúlgur í vasa þeirra. Það er oft talað um að danska ríkið borgi svo og svo stóra upphæð hingað til Grænlands, en mér þætti gaman að vita hversu mikið af þeim peningum sem frá Danmörku koma fara þangað aftur. Það er mín skoðun, að Danir græði á Grænlandi. Getur verið svipað og þau fyrirtæki heima á íslandi sem sögð eru rekin með tapi.“ „Sósíalpróblem“ „Þjóðfélagsþróun hefur verið mjög hröð á Grænlandi. Stundum er talað um menn- ingarlega mishröðun. Það á vel við Grænland. Innrás vestrænnar menningar skapaði misræmi, hin gamla grænlenska menning hefur ekki fengið að blómstra. Fólkið hefur ekki haft nægilegan tíma til að aðlaga sig breyttum háttum. Afleiðing- arnar verða oft og iðulega svokölluð „sós- íalpróblem." „Við getum talað um alkapólitíkina," sagði Guðmundur, horfði út um gluggann, kveikti í Prince sígarettu. „Það eru stórir hópar fólks sem vilja hreinlega banna áfengi. Ég er alki sjálfur og tel mig þekkja þessi mál nokkuð vel. Ég held að það skipti engu máli, þó að fólkið geti keypt sitt áfengi í kjörbúðinni eftir klukkan eitt eins og hér er. Ef fólk ætlar sér á annað borð að ná í áfengi, þá skiptir engu máli hvaða tími er. Það er svo aftur annað mál hvort menn eru alkóhólistar að upplagi eða þá að þeir halli sér að áfenginu af því þeir geta ekki tekist á við vandamálin. Segjast drekka af því þeir hafi ekki vinnu, af því þeir hafi ekki húsnæði. Það eru sós- íalpróblemin, og þau er hægt að leysa. Ef vilji er fyrir hendi.“ 1 kjölfar hraðrar fólksfjölgunar í landinu fylgdi húsnæðisleysi. Á Grænlandi er atvinnuleysi töluvert, allt upp í 30% í sum- um bæjarfélögum. Að einhverju leyti má rekja atvinnuleysið til aflabrests, á síðustu árum hefur þorskafli dregist verulega saman. Greenpeacemenn hafa leikið Grænlendinga hart. Verð á selskinnum fer stöðugt lækkandi. „Það er synd að þetta fólk verði fyrir Frá Julianahaab á Grænlandi. „Ég kann vel við Grænlendinga, þeir eru ekki háðir klukkunni.“ wmm 16. maí 1986 - DAGUR -11 Myndir og texti: -mþþ. mut ■■■■■■■■■■■■•■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■l barðinu á þessum náttúruverndarmönn- um, eins og þeir kalla sig. Grænlendingar hafa veitt selinn í þúsund ár. Þeir verða að eiga í sig og á og þeir drepa ekki fleiri skepnur en þeir þurfa á að halda. Veiði- maður verður aldrei annað en veiðimaður. Og Grænlendingar hafa alla tíð virt selinn. Það tekur ansi langan tíma að breyta hugarfari landsmanna og viðhorfum í þessu sambandi.“ Ekki háðir klukkunni Guðmundur hefur búið á Grænlandi í tvö ár. Hann sagðist kunna vel við Grænlend- inga, „þeir eru ekki háðir klukkunni. Hún hefur ekki skipt þá svo miklu máli í gegn- um aldirnar.“ Guðmundur sagðist ekki hafa neinn rétt til að gagnrýna Grænlend- inga, „Ég kem hingað sem gestur, ég verð að haga mér eftir þeim reglum sem í gildi eru hér. Ég get ekki farið að stilla Græn- lendinga inn á mitt lífsmunstur, enda hef ég kannski ekki alltaf staðið mig sem best í lífinu. Samt er það nú einhvern veginn alltaf svo, að um leið og maður er kominn út fyrir tvöhundruð mílurnar, þá er allt sem íslenskt er númer eitt.“ Áfram með Grænland. Guðmundur sagði að Grænlendingar vildu gjarnan eiga samvinnu við íslendinga. „Og við eigum að veita hana. Ekki að troða henni upp á þá. Þeir eiga að ráða ferðinni. íslendingar og Grænlendingar eru ekki ólíkar þjóðir,“ sagði hann og hugurinn flögraði heim um stundarsakir. Hann sagðist muna eftir því að þegar hann var að alast upp hafi Reykj- avík verið lítil borg. Á síðastliðnum þrjá- tíu árum hafi uppbyggingin verið gífurieg. „Ég verð alltaf svo stoltur þegar ég kem heim. Mér finnst íslendingar vera svo dug- legir. Grænlendingar er duglegir líka, en eiginleikar þeirra fá ekki að njóta sín til fullnustu. Þeir eru þjóð í sínu eigin landi og það má ekki troða upp á þá of miklu af dönskunt, íslenskum eða amerískum áhrif- um.“ Hófum okkar búskap á hvínandi kúpunni Þegar Guðmundur og Benedikte fluttu til Grænlands eftir að hafa átt heima á íslandi í tíu ár samfleytt, seldu þau allar sínar eig- ur. Guðmundur sagði að þau hefðu ekki haft efni á að senda allt dótið með skipi til Álaborgar í Danmörku og þaðan til Grænlands. „Við hófum okkar búskap á hvínandi kúpunni,“ sagði Guðmundur. Draumurinn er að eignast eigið hús, en hingað til hefur fjölskyldan búið í leigu- húsnæði. Þegar er búið að úthluta lóð und- ir húsið. „Við ætlum að kaupa okkur hús heiman af íslandi, einingahús. Lóðin er ágæt,“ segir hann, „við fáum rennandi vatn.“ En mörg húsanna eru þannig stað- sett að erfiðleikum er háð að leggja þang- að vatns- og skolplagnir. Það er dýrt að sprengja fyrir lögnunum. Upphaflega stóð til að þau hjónin ætl- uðu út í búskap á Grænlandi. Tengdafaðir Guðmundar og mágar hafa stundað bú- skap skammt frá Julianahaab. En ýmsar aðstæður urðu til þess að þau hættu við öll slík áform. „Samgöngurnar eru ekki tryggar, það er farið á milli á bátum, auk þess sem við ætluðum að vera meira með börnunum. Eftir að við komum hingað hef ég unnið hálftíma í eftirvinnu. Allt og sumt.“ Frá því Guðmundur og fjölskylda fluttu til Grænlands hefur hann mikið unnið að málum sem tengjast samvinnu á milli íslands og Grænlands. Hann er einnig mikill áhugamaður um íþróttir og hefur nú í vetur verið að skipuleggja ferð 120 græn- lenskra krakka til Islands. Tilgangur ferð- arinnar er að efla tengslin á milli landanna. Fyrirhugað er að hinn stóri hópur Græn- lendinga komi til íslands í byrjun júní. „Þetta er mikið meira mál en menn geta ímyndað sér. Krakkarnir eru víða að og það er heilmikið mál að koma þeim til Narssasuaq. Þegar þangað er komið setj- umst við upp í þotu Flugleiða og þá fyrst get ég farið að slappa af. Nú, svona ferð er líka mjög dýr. Ég hef verið að vinna í því á undanförnum mánuðum að fá ýmsa aðila til að styrkja okkur og það hefur gengið ágætlega sums staðar. Ég er að reyna að útvega öllum hópnum eins galla. Ég vil að allir mæti jafnir til leiks.“ ísland er land þitt „íslendingar,“ sagði Guðmundur, „eru fljótir að snúa bökum saman þegar eitt- hvað kemur upp á. Samkenndin er geysi- mikil. Islendingar hafa „symbol" sem þeir geta hallað sér að. Það verða allir að eiga eitthvað sameiginlegt „symbol" þegar í harðbakkann slær. Við höfum okkar ástkæra ylhýra, tung- unni er haldið að okkur frá blautu barns- beini. Okkur er sagt að hún sé það stór- merkilegasta sem til er. Þegar ég finn til söknuðar, langar heim, þá set ég plötu á fóninn. Ég á dágott safn af íslenskum plötum, en þegar ég finn fyrir hvað mestum söknuði, þá set ég plötu með Magnúsi Þór á fóninn. Og hann syngur ísland er land þitt. Ég verð endurnærður á eftir. Sáttari við sjálfan mig.“ Guðmundur sagðist vera í góðu sam- bandi heim til íslands, ættingjar og vinir sjá til þess að hann fylgist með því sem er að gerast. Þegar heimsmeistarakeppnin í handbolta stóð yfir í Sviss fékk Guðmund- ur síðustu mínútur leiks íslendinga og Dana í gegnum síma. „Þegar úrslitin voru ráðin og við höfðum rótbustað Danina, skipti ég um galla, klæddi mig í Henson galla, fór út á svalir og hrópaði úrslitin til allra sem heyra vildu. Það fannst mér of- boðslega skemmtilegt!“ Guðmundur sagði að á meðan börn sín ættu heima á Grænlandi væru þau Græn- lendingar. Stelpurnar Inga Dóra sem er fjórtán ára og Súsan Ýr sem er þrettán ára tala báðar íslensku, en Guðmundur sagði að strákurinn Andreas Þorsteinn vildi ekki tala íslensku. Þriggja ára pollinn samþykk- ir bara grænlenskuna. „Þetta er auðvitað svolítið erfitt fyrir hann, það eru þrjú mál í gangi í kringum hann. En ég er samt stundum svolítið sár yfir að hann vill ekki reyna við íslenskuna. Það hefur ekki einu sinni þýtt fyrir mig að fá hann til að tala málið jjegar við erum tveir á gangi, og ég jafnvel búinn að gefa honum ís! En hann kann eina setningu: Ég er íslendingur. Einhverju sinni þá vorum við úti og það var mjög kalt. Hann var vel klæddur, í anorakk og peysu og innst var hann í bol með mynd af íslenska fánanum. Nú, þar sem við erum á ferðinni hittum við mann sem við förum að tala við. Hann spyr þann stutta hvaðan hann sé. Það gekk eitthvað erfiðlega að gera manninum það skiljan- legt. Það endar með því að Andreas fer að rífa upp anorakkinn og peysuna og bendir hróðugur á fánann. Ég er íslendingur, sagði hann svo. Þá var ég stoltur.“ Hann reif sig úr anoraknum sínum og sagði: „Ég cr íslendingur". Andreas Þorsteinn, þriggja ára sonur Guðmundar.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.