Dagur - 01.09.1990, Blaðsíða 6

Dagur - 01.09.1990, Blaðsíða 6
rin ■ a i*v r\r\ir\ ~ — 6 - DAGUR - Laugardagur 1. sepfember 1990 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 96-24222 • SÍMFAX: 96-27639 ÁSKRIFT KR, 1000 Á MÁNUÐI • LAUSASÖLUVERÐ 90 KR. GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMETRA 660 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON. RITSTJ.FULLTRÚI: EGILL H. BRAGASON. UMSJ.MAÐUR HELGARBLAÐS: STEFÁN SÆMUNDSSON. BLAÐAMENN: JÓN HAUKUR BRYNJÓLFSSON (iþr.),_______ SKÚLI BJÖRN GUNNARSSON (Sauöárkróki vs. 95-35960), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON, LJÓSM.: KRISTJÁN LOGASON. PRÓFARKAL.: SVAVAR OTTESEN. ÚTLITSH.: RÍKARÐUR B. JÓNASSON. AUGLÝSINGASTJ.: FRlMANN FRÍMANNSSON. DREIFINGARSTJ.: INGVELDUR JÓNSDÓTTIR, HEIMASÍMI 22791. FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL. PRENTUN: DAGSPRENT HF. Dökk en raunsönn framtíðarsýn Sú skoðun, að ísland eigi að sækja um fulla aðild að Evrópubandalag- inu, virðist eiga vaxandi vinsæld- um að fagna meðal almennings. Þær vinsældir virðist að verulegu leyti mega rekja til vanþekkingar á því sem um ræðir. Að minnsta kosti verður því ekki trúað að óreyndu að stór hluti þjóðarinnar sé tilbúinn til að fórna fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar í skiptum fyrir inngöngu í Evrópubandalagið. Slíkur er þó herkostnaðurinn, ef grannt er skoðað. í júlí síðastliðnum birti Dagur ítarlega grein um ísland og Evrópubandalagið. Höfundurinn er dr. Hannes Jónsson, sem um 35 ára skeið var embættismaður utan- ríkisþjónustunnar. Sem sendiherra íslands víða um heim um 15 ára skeið, fastafulltrúi íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf 1980- 1983 og formaður í fastaráði EFTA 1982, má ætla að dr. Hannes sé manna kunnugastur heimi milli- ríkjaviðskiptanna og því sem er í húfi fyrir íslensku þjóðina í við- ræðunum við EFTA og EB. Full ástæða er til að rifja upp að hvaða niðurstöðu dr. Hannes kemst í grein sinni. Hann dregur m.a. upp mynd af því hvað biði okkar ef við gerðumst aðilar að hinu svonefnda Evrópska Efna- hagssvæði (EES), samkvæmt fyrir- liggjandi hugmyndum. Framtíðar- sýnin er í stuttu máli þessi: Eftir sem áður yrði ísland fámennt smáríki, sem byggði útflutningstekjur sínar fyrst og fremst á lítt unnum hráefna- útflutningi sjávarafla. Raforku- framleiðsla til stóriðju í eigu útlendinga og jafnvel sölu um kapla á sjávarbotni til Bretlands væri vaxandi. Vegna frjálsra fjár- munaflutninga fjárfestu stórfyrir- tæki Evrópu í íslenskum sjávar- útvegi og fiskirækt með því að kaupa smátt og smátt meirihluta í illa stöddum íslenskum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum. Loks réðu þau þeim að fullu. Þannig kæmust þau inn í íslenska fisk- veiðilögsögu og nýttu hana í þágu íiskmarkaðanna í Bretlandi og Þýskalandi. Frystingin legðist af að mestu, enda arðbærara að senda fiskinn ferskan á ís beint á markað. Frekari virkjanir, stóriðjuuppbygg- ing og verktakastarfsemi yrði fljót- lega að mestu í höndum stórfyrir- tækja Evrópusvæðisins. Vegna atvinnu- og búsetufrelsis sameig- inlega vinnumarkaðarins flyttu erlendu fyrirtækin inn starfsfólk frá láglaunasvæðum Evrópu, t.d. Portúgal og Grikklandi og víðar. Hagkvæmnisrök leiddu til vaxandi verkaskiptingar og einhæfni atvinnulífsins og mörg íslensk fyrirtæki yrðu gjaldþrota í sam- keppni við fjölþjóðafirmu EES. Atvinnuleysi færi vaxandi vegna samkeppni frá ódýru erlendu vinnuafli og gjaldþroti margra íslenskra fyrirtækja. Vegna frelsis í rekstri þjónustugreina létu erlend fyrirtæki æ meira til sín taka á sviði bankastarfsemi, trygginga, sam- gangna og ferðaþjónustu. Gróin íslensk fyrirtæki í þessum greinum lentu í erfiðleikum og sum þeirra yrðu keypt upp af samkeppnisaðil- um. Atgervisflótti úr landi gerði vart við sig, því sérmenntað fólk fengi betur launuð störf við hæfi erlendis. Dreifbýlið ætti í vök að verjast vegna fjársveltis og þess, að atvinnustarfsemin þjappaðist af hagkvæmnisástæðum í þéttbýlis- kjarna landsins. íslenskan ætti undir högg að sækja, bæði vegna hins innflutta erlenda vinnuafls og þess að aðaltungumál í samskipt- um stjórnenda hinna erlendu stór- fyrirtækja yrði enska. ísland yrði útkjálki Evrópusvæðisins og þjóðin blandaðist sífellt meir innflytjend- um frá láglaunasvæðum Evrópu. Að öllu samanlögðu er ljóst að þjóðin myndi smám saman glata einkennum sínum, menningar- arfleifð, efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi. Þessi mynd er sannarlega dökk en raunsönn. Þetta er naumast sú framtíð sem við viljum skapa ís- landi. Aðild að EB getur því aldrei komið til greina. Hún yrði allt of dýru verði keypt. BB. til umhugsunar Er of dýrt að verða gamall? „Hún er á níræðisaldri. Hefur ekki getað farið út úr húsi í nokkur ár. Á orðið erfitt með allar hreyfingar. Hefur þó daglega fótavist. Nákominn ættingi býr í nálægri íbúð. Hann annast allt heimilishald fyrir hana og verður oft að fara á venjulegum vinnutíma til að sinna kalli gömlu konunnar eða beiðni um viðvik sem hún getur ekki lengur leyst af hendi. Þegar einstakling- ur er einn og hefur enga möguleika á að hreyfa sig utan nokkra metra á stofugólfi, er tíminn lengi að líða. Lengur en heilbrigðir geta borið skyn á. Vandi hennar er ekki einvörðungu líkamlegs eðlis. Hann er einnig félagslegs eðlis.“ „Onnur kona, komin undir nírætt, býr á þriðju hæð. Hún þjáist af astma. Fótbrotnaði á síðasta vetri. Á orð- ið verulega erfitt með gang. Skutlubílstjórar sjá oftast um innkaup fyrir hana. Hún á efnaða ættingja, sem líta stöku sinnum til hennar en dvelja venjulega skantma stund. Hún þarf trúlega ekki að óttast fjárhagslega afkomu en á orðið verulega erfitt að sinna daglegu vafstri heimilishaldsins. Heimili ættingja standa henni tæpast opin.“ „Hann er á sjötugsaldri. I hjólastól. Ættingjar farnir á bak og burt. Vilja lítið af honum vita annað en fá pen- inga. Hann er á eftirlaunum og hefur því nokkrar fjár- reiður. Hann á erfitt með að annast um sig og er félags- lega einangraður.“ Þótt þessi dæmi séu stílfærð byggjast þau á tilfellum sem hafa verið til. Þau opna að nokkru leyti sýn til þeirra erfiðleika sent margt gamalt fólk verður að búa við þegar ellin færist yfir, starfsþrekið þverr, stundum svo að fólk getur ekki sinnt brýnustu þörfum. Þá breyt- ist veröldin. Hinir daglegu lífshættir verða aðrir og ókunnir. Það sem var hverfur en við tekur að verða öðrum háður. Það verkar misjafnlega á einstaklinga. Margir eiga erfitt með að taka því að verða ósjálfbjarga og vita að engin leið er til baka frá því ástandi. Eldra fólk - stærri hluti af þjóðarheildinni Eldra fólki hefur fjölgað á undanförnum árum og ára- tugum. Betra atlæti og auðveldari vinnuskilyrði auka lífslíkur. Góð heilbrigðisþjónusta eykur einnig lífs- möguleika fólks. Jafnvel um langan tíma. Starfsævi kemur til með að styttast með auknu framboði vinnu- krafta, vélvæddari starfsaðferðum og lengingu eftir- launaaldurs. Eldra fólk og lífeyrisþegar koma til með að verða stærri hluti af þjóðarheildinni en verið hefur. Samfélagið hefur reynt að bregðast við þessu með ýmsum hætti. Dvalarheimili hafa verið reist fyrir fólk sem ekki hefur lengur aðstöðu til að búa að sínu. Kostnaður við slíkar stofnanir, þar sem reynt er að líkja eftir venjulegum heimilum, er mikill og aldrei hefur tekist að anna eftirspurn eftir dvöl. Reikna má með að stofnkostnaður hvers sjúkrarúms á dvalarheimili sé um 4 milijónir króna. Rekstur þess kostar síðan ekki undir 2 til 2,5 milljónum á ári ef allt er talið. Þetta geta virst nokkuð stórar tölur. Einnig hefur verið reynt að leysa nokkuð af vanda ellinnar með heimilishjálp og heimahjúkrun. Hjúkrun- arfólk og aðrir sem fengið hafa undirstöðumenntun í umönnunarstörfum fara á milli heimila gamalla og las- burða einstaklinga og leysa úr þörfum á sviði heimilis- halds og hjúkrunar. Ellin - tími samdráttar Ellin er sá tími mannsævinnar sem ntargir eiga erfiðast með að upplifa. Ellin er tími samdráttar. Starfshæfni og þrek hverfa. Oft bindur það annars frjóan huga. Þegar takmarkanir ellinnar blasa við verða mörg mál við- kvæmari en ella. Allar breytingar á líferni, sem oft hafa verið í föstum skorðum í áratugi, verða einstaklingnum erfiðar. Hann sættir sig misjafnlega við orðinn hlut. Veit stundum ekki hvað hann vill eða gerir sér grein fyrir hvað honum er fyrir bestu. Orðatiltækið „tvisvar verður gamall maður barn“ er enn í fullu gildi og kemur víðar við eftir því sem langlífi eykst. Þegar að því kemur að aldurhniginn einstaklingur getur ekki lengur annast um daglegt líf kemur ýmislegt til álita hvernig bregðast skuli við. Alveg er Ijóst að ekki hentar öllum það sama. Margir ala með sér þann draum að geta dvalið sem lengst á heimili sínu. Fók treystir á ættingja og sem betur fer eiga margir þá til að leita til þegar að hausti hallar. Gera verður ráð fyrir að meirihluti fólks vilji Ieggja eitthvað á sig til að sinna aldurhnignum foreldrum eða öðrum nánum ættingjum. Þess ber þó að gæta að aðstæður geta verið ólíkar og möguleikar nútímafjölskyldunnar og nútímaeinstakl- ingsins misjafnir til að takast slíkt hlutverk á hendur. Það verður aldrei hjá því komist að samfélagið komi til og sinni þessu verkefni að stórum hluta. Æskilegt að vera heima Að sjálfsögðu er æskilegt að að gamalt fólk eigi þess kost að vera sem lengst um kyrrt á heimili sínu. Njóta þess sem það hefur eignast og byggt upp. En oft kemur að því að heilsa þverr og geta til slíks minnkar. Einnig Eftir Þórð Ingimarsson. fellur maki frá og lasburða einstaklingur stendur einn eftir í lífsbaráttunni. Hann á oft erfitt með að bregðast við slíkum aðstæðum og verr eftir því sem ellin hefur hrjáð hann meir. í þeim tilfellum getur heimilishjálp og heimahjúkrun leyst mikinn vanda. En hún leysir hann ekki allan. Hún er ekki megnug að leysa hinn félagslega þátt nema að litlu leyti ef ættingjum er ekki til að dreifa. Hún leysir heldur ekki vanda þess sem ekki er lengur megnugur að dvelja einsamall mestan hluta sól- arhringsins. Það er því ljóst að kostir verða að vera í boði þegar einstaklingur, sem skilað hefur samfélaginu starfsdegi sínum, kallar eftir aðstoð til að eyða síðustu árum ævinnar. í fyrsta lagi verður hann að eiga kost á vist á dvalarheimili ef aðstæður eru á þann hátt að hann eigi ekki annars úrkosta eða vilji hans standi eindregið til þess. í öðru lagi verður hann að eiga kost á aðstoð og aðhlynningu ef hann kýs að dvelja á heimili sínu svo lengi sem hann treystir sér til. í þriðja lagi hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að fólki, sem hefur full- orðna ættingja eða aðra á heimili sínu verði greitt eitt- hvað fyrir það þannig að annað vinnuálag geti minnkað. Þetta er athyglisverð hugmynd þótt hún verði aldrei þess megnug að leysa vanda allra. Erfitt er að gera sér grein fyrir kostnaði sem af slíku gæti hlotist en trúlega yrði hann innan þess ramma sem aðrar leiðir í málefnum aldraðra taka til. Er of dýrt að verða gamall? Flest eldra fólk er búið að skila þjóðfélaginu löngu dagsverki. Þau dagsverk geta verið misjafnlega verð- mæt en það mat fer oft eftir því hvaða mælistika er lögð á þau. Því verður að líta á það sem skyldu velferðar- samfélagsins að sinna fólki þegar það nálgast enda lífs- leiðar og er oft þrotið að kröftum. Eftir því sem fjöl- breytni og gnægð í þjóðfélaginu fer vaxandi fylgir sá kostnaður sem ellin skapar í réttu hlutfalli á eftir. Það er því til umhugsunar hvort orðið sé of dýrt að verða gamall. En þessi kostnaður má ekki eingöngu vaxa nútímamanninum í augum. Líta verður svo á að það eldra fólk sem þarf aðhlynningu á hverjum tíma hafi lagt fram sinn skerf. Þrátt fyrir það er þó sjálfsagt að gæta að hverju skrefi í uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða og reyna að finna út hvað hverjum hentar. Undan því getum við ekki vikist.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.