Morgunblaðið - 30.04.2002, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 30.04.2002, Blaðsíða 26
26 C ÞRIÐJUDAGUR 30. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐHeimiliFasteignir B YGGING Bæjarútgerðar Reykjavíkur Grandagarði 8 er rammgert hús, sem byggt var árið 1947 og stendur við flæðarmálið í Reykjavík- urhöfn. Þetta hús á sér langa sögu og margir hafa sótt þar atvinnu í gegn- um tíðina og eru því húsinu kunn- ugir. Nú hafa fasteignasölurnar Foss og Þingholt fengið í sölu nýendur- gert húsnæði á annarri hæð í þessu húsi. Þetta húsnæði er afar óvenju- legt að allri gerð en hentugt engu að síður. Lofthæðin er 4–5,5 metrar og útveggir með miklum útsýnisglugg- um. Alls er húsnæðið 1.050 m2 með sameign en séreignin er 967,8 m2 að stærð. Húsnæðið er innréttað sem skrifstofu- og iðnaðarrými, en er á allan hátt mjög sveigjanlegt, hvað framtíðarnotkun snertir. Innanhússhönnunin er óvenju björt og falleg og mjög nútímaleg. Það er líkast því, sem gengið er inn í listasafn, en sérsmíðaðar háar rennihurðir og innréttingar úr evrópskum kirsuberjavið eru áberandi svo og ofanbirta frá ítölskum ljósabúnaði. Gluggarnir eru með sérstöku hljóð- og hitaeinangrandi gleri, er nær niður að gólfi og auk þess er hæðin með átta rúmgóðum og skemmtilega lögðum svölum með miklu útsýni yfir höfnina og til fjalla. Á hæðinni eru afar falleg móttaka, fullbúið eldhús auk tilbúinna lagna innanveggja fyrir önnur eldhús, rúmgóð kaffistofa eða matsalur með sjávarútsýni, sérútbúið fundarherbergi með smáeldhúsi, ljósritunarherbergi, geymsla og tölvuherbergi auk opinna og sveigjanlegra skrifstofueininga með nútíma tölvulögnum. Þrennar snyrtingar eru í húsnæðinu, þar af ein með gufuklefa og nuddpotti. Heillaðist af húsinu Eigandi þessa húsnæðis er Guðjón Bjarnason, 43 ára gamall myndlistamaður og arkitekt, sem sjálfur hefur hannað allar innréttingar í húsnæðinu og stjórnaði framkvæmdum við endurnýjun þess. „Ég keypti þetta húsnæði á vormánuðum fyrir tveimur árum, sannfærður um að hér væri um að ræða stórkostlegt tækifæri fyrir arkitekt,“ segir Guðjón. „Það þurfti að byrja á því að hreinsa hér út verksmiðjulagnir í þúsunda tali. En þetta er vandað hús að upphaflegri gerð og töluvert í það lagt. Það var byggt úr innfluttu, erlendu sementi og veggir eru t.d. mjög þykkir.“ „Ég er alinn upp við Ægisíðu, innan um trillukarla og við mikla sjávarstemningu, sem hefur haft mikið aðdráttarafl fyrir mig æ síðan,“ heldur Guðjón áfram. „Ég er líka vanur hafnarsvæðum erlendis og finnst þau oftast mjög skemmtileg. Eitt sinn, þegar ég var ásamt bróður mínum á hraðbát í höfninni í Reykjavík, sá ég þetta hús blasa við og sjóinn alveg upp að því. Mér fannst þetta koma fyrir sjónir eins og töfraumhverfi Feneyja og var þá reyndar nýkominn þaðan. Þá skynjaði ég hve miklir möguleikar voru fólgnir í þessu húsi og ákvað að kaupa hluta af því, ef hægt væri. Eftir að ég hafði fengið húsnæðið afhent, tók ég til við að hanna það upp á nýtt og þá með tilliti til útsýnisins, birtunnar og lofthæðarinnar, en húsið er opið og sveigjanlegt og mikill hreyfanleiki í því, eins og sagt er á fagmáli. Að hönnuninni lokinni var hafizt handa um framkvæmdirnar. Þar naut ég aðstoðar fólks, sem ég þekkti frá því áður, enda hafði ég starfað lengi sem arkitekt. Þetta var mjög vaskt lið og við lukum við það á um hálfu ári að endurnýja húsnæðið og innrétta það upp á nýtt. Fyrirmyndir hafði ég fengið víða að. Ég var alllengi við nám í Bandaríkjunum, fyrst í Providence í Rhode Island, sem er gamalgróin hafnarborg, skammt frá Boston. Síðan var ég við nám í New York samfleytt í fimm ár, fyrst í myndlist, skúlptúr og síðan arkitektúr og hef auk þess dvalizt þar talsvert síðan m.a. við kennslu og sýningarhald. New York stendur við sjó og þar er víða mjög skemmtilegur arkitektúr niðri við höfnina. Auk þess hef ég ferðast mikið um hafnarborgir Norðurlanda og kynnt mér hafnarmannvirki þar sem og annars staðar í Evrópu. Ég tel mig því hafa haldgóða reynslu á þessu sviði.“ Guðjón rekur nú teiknistofuna Hugsmíð á Mýrargötu 26 í Reykjavík. „Ég fluttist heim 1992 og hef tekið að mér verkefni hér sem annars staðar sem arkitekt síðan jafnframt því sem ég hef unnið jafnt að sköpun í myndlist og höggmyndagerð,“ segir hann. Léttleiki ríkjandi Lofthæðin í húsnæðinu er 4–5,5 metrar samkvæmt framansögðu og burðarvirkið mjög öflugt. „Þetta hús var upphaflega hannað til þess að bera stórar vélar og þunga kapla,“ segir Guðjón. „En þrátt fyrir þungan strúktúr, er léttleikinn nú ríkjandi í þessu húsnæði. Það hefur t.d. verið unnið all ítarlega úr þeim arkitektúr, sem var hér fyrir, en í húsnæðinu voru 36 súlur og það þurfti að sveigja innveggi og aðlaga rýmisskipan í kringum þær. Engu að síður hefur öll innréttingin mjög laust og frjálslegt yfirbragð og ólík form, mjúk og hörð, bein og sveigð, sem kallast á. Þetta er því léttur, sveigjanlegur og svifrænn arkitektúr, sem kallast á við siglingar hafnarinnar. Hér eru kýraugu smábátanna, svífandi form seglanna, þyngdarleysi og hreyfanleiki sjávarins, en sérvalinn kirsuberjaviður frá Innviðum notaður til þess að þilja húsnæðið að innan.“ Guðjón kveðst hafa fundið fyrir mjög jákvæðum viðbrögðum gagnvart þessu húsnæði. „Mörgum þykir gaman að ganga hér um og húsnæðið er eftirsótt fyrir myndatökur og ýmsa atburði,“ segir hann. „Þetta er mjög óvenjulegt húsnæði og skemmtilegt að fylgjast með samspili sólarljóssins og arkitektúrsins. Húsnæðið er í sjálfu sér síbreytilegt eftir árstíðum og birtuskilyrðum. Það er munur á því á sumri og vetri, morgni og kvöldi og þessi mikla lofthæð gefur húsnæðinu virðulegan blæ.“ Útveggirnir eru klæddir að innan með 10 cm einangrun en búið að glerja að kalla algerlega tvær hliðar Morgunblaðið/Golli Húsið stendur við Grandagarð 8. Þetta er rammgert hús, byggt 1947. Það á sér langa sögu og margir hafa sótt þar atvinnu í gegnum tíðina og eru því húsinu kunnugir. Húsnæðið sem er til sölu er á annarri hæð. Vill kalla fram töfraumhverfi Feneyja við Reykjavíkurhöfn Kýraugu smábátanna, svífandi form seglanna og þyngdarleysi og hreyfanleiki sjávarins einkenna nýendurgert húsnæði í gömlu Bæjarútgerðinni við Grandagarð. Lofthæðin er mikil og útsýnið einstakt. Magnús Sigurðsson ræddi við eigandann, Guðjón Bjarnason arkitekt og myndlistarmann. Guðjón Bjarnason, arkitekt og eigandi húsnæðisins, og Úlfar Þ. Davíðsson, sölustjóri hjá Fossi. Léttleikinn er áberandi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.