Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 11
Morgunblaðið | Heimastjórn 100 ára | B 11 Í raun réttri þarf að gjöra allan þjóðveginn akfæran. Það þarf að stefna að því að geta komist um landið á hraðskreiðum vögnum, mótorvögnum, en fyrst þarf að gjöra akveg og brúa ár í allra fjölbyggðustu héruðum landsins. Í sama streng tekur sýslunefnd Rangárvalla- sýslu sem gerir tillögur um „mótorvagnaferðir“ eftir aðalpóstveginum og að „raddsími“ verði lagður „svo langt sem vegirnir ná.“ Sýslunefnd fjölmennustu sýslunnar, Árnessýslu, þótti ekki nóg að gert með hafna- og vegagerð heldur vildi hún lagningu járnbrauta frá Stokkseyri eða Eyrarbakka upp eftir sýslunni báðum megin Ölfusár og „talsíma fram með þeim“, og einnig allt til Reykjavíkur. Sýslunefndarmenn úr Svínavatns- og Torfalækjarhreppum fyrir norðan létu ekki sinn hlut eftir liggja og lögðu til að skorað væri á landsstjórnina að hlutast til um að rannsakað verði hvort ekki sé enn heppilegra en akbrautarlagning, að sem fyrst komist á brautir fyrir mótor- vagna eða gufuvagna milli einhverrar ís- lausrar hafnar og Norðurlands. Þessi tillaga var felld í sýslunefnd Húnavatns- sýslu. Efling höfuðatvinnuvega Landbúnaður var á þessum tíma aðalat- vinnuvegur landsmanna og snerust tillögur héraðanna því mjög um hann. Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu bendir á að menn rækti enn landið „á líkan hátt eins og það var ræktað fyrir mörg hundruð árum.“ Nú sé vinnuaflið orðið svo dýrt að landbúnaðurinn geti ekki staðist nema taka upp nýjar ræktunaraðferðir. Styrkja þurfi Ræktunarfélag (Norðurlands) sem vill vinna að því að „bændur fari að nota hestaflið til vinnu meira en áður, fari að nota vélar og verkfæri, sem eigi hafa verið notuð hér á landi, og taka upp nýjar aðferðir til þess að auka frjó- semi jarðarinnar og rækta hana.“ Meðal fjölmargra tillagna sem fram komu um eflingu landbúnaðar er stofnun lánsfélaga fyrir bændur með forgöngu hins opinbera, að landssjóður veiti styrki til að hvetja bændur til kynbóta á búpeningi, jarðrækt verði efld með styrkveitingum og lánum, landstjórnin hefji rannsókn á því „hvar best sé að ná vatni úr Þjórsá til áveitu á Flóa og Skeið“, og að hafin verði framræsla og áveita beggja megin Hér- aðsvatna. Sýslunefnd Rangárvallasýslu telur nauðsynlegt að styrkja mjólkurbúin m.a. með því að setja „kælingarvél í skip til þess að flytja smjörið í til útlanda“. Nokkrar sýslunefndir hvetja til þess að þjóðjarðir verði seldar ábú- endum eða afgjöldum þjóðjarða varið til húsa- og jarðabóta. Þegar kemur að málefnum sjávarútvegs er ágangur erlendra skipa á fiskimiðum mönnum ofarlega í huga og krefjast margar sýslunefndir tafarlausra úrbóta. Sýslunefnd Vestmanna- eyjasýslu telur yfirgang botnvörpunga (togara) fara vaxandi í nánd við eyjarnar, einnig innan landhelgi, og sé fyrirsjáanlegt að „bátaútvegur hér muni með öllu afnemast, ef landhelgis- gæsla eigi batnar“. Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu tekur í sama streng og vill að „hæfilega stór fallbyssubátur“ sem kostaður er af ríkissjóði sé fenginn strax „til varnar fisk- veiðasvæði héraðsins allt árið“. Sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu krefst friðunar Faxaflóa fyr- ir veiðum útlendra botnvörpuskipa „eða öfl- ugri og hentugri vernd gegn veiðum þeirra í landhelgi og skemmdum á veiðarfærum landsmanna.“ Af tillögum um almenn fram- faramál í sjávarútvegi má nefna auknar lán- veitingar úr landssjóði til byggingar eða kaupa á þilskipum, landsjóður styrki ábyrgðarfélög þilskipa og leggi hæfilegt fé til stofnunar ábyrgðarsjóð fyrir opin skip. Rígur milli landbúnaðar og sjávarútvegs fór vaxandi um aldamótin vegna samkeppni um vinnuaflið og togstreitu um forgang og fé í op- inberri atvinnustefnu. Þessa gætti nokkuð í skýrslum sýslunefndanna. Í áliti sýslunefndar Norður-Ísafjarðarsýslu segir að enda þótt vel sé farið hjá fjárveitingavaldinu að styðja land- búnaðinn, eins og allmikið hefur verið gert síð- ustu árin, þykir henni nokkurs misréttis gæta gagnvart sjávarútveginum og þeim sem hann stunda. Þar á hún við hið ósanngjarna útflutningsgjald af fiski, að- alvöru sjávarbóndans, þar sem landbænd- um eru greidd verðlaun fyrir útflutt smjör. Það er því mjög sanngjörn krafa , að útflutn- ingsgjaldið verði afnumið, og það því heldur, ef innflutningsgjald á kaffi og sykri verður hækkað, því vitanlega kemur sú hækkun þyngra niður á sjávarbóndanum en land- bóndanum. Ýmsar tillögur sýslunefnda lutu að verslun- armálum og er athyglisvert að sjá hve treyst er á landsstjórnina til góðra verka. Í nokkrum skýrslum er farið fram á að skipaður verði verslunarerindreki fyrir landið erlendis sem sjái um markaðsmál. Sýslunefndir Dala- og Rangárvallasýslu telja áríðandi að útvegaðir verði sem fyrst markaðir fyrir landbúnaðaraf- urðir. Barðstrendingar eru sáróánægðir með verslun í sýslunni og fara fram á tugþúsunda lán úr landssjóði á góðum kjörum til að stofna verslunarsamtök bænda í sýslunni. Nýir atvinnuvegir: orkuvinnsla og iðnaður Iðnaður og var afar skammt á veg kominn um aldamót en marga dreymdi stóra drauma fyrir hans hönd. Stóriðja var komin á dagskrá og tengdust þau áform virkjun vatnsafls eins og fram kemur í áliti sýslunefndar Árnessýslu: Að líkindum mætti og koma hér upp tals- verðum iðnaði í ýmsum greinum og nota til þess hina aflmiklu fossa, sem margir eru í sýslunni, svo sem fossana í Soginu ... Í sam- bandi við þetta hefur sýslunefndin að lykt- um látið í ljós það álit sitt, að ísjárvert er að gefa útlendingum kost á að eignast fossana og að þörf væri að girða fyrir það með lög- um. Utan Reykjavíkur var fáum iðnaðarfyrirtækj- um til að dreifa en þó var á Akureyri ullarverksmiðja. Sýslunefnd Eyjafjarðar ósk- aði eftir lánsfé til að efla hana og lagði nefndin jafnframt til að komið væri upp verksmiðju fyrir byggingarefni, sérstaklega „tígulsteina- verksmiðju“ og „steinsteypuverksmiðju“. Í landbúnaðarhéruðum eins Austur-Barða- strandarsýslu lögðu menn frekar áherslu á að efla tóskap, en í Ólafsdal voru tóvélar starf- ræktar og létu margir bændur kemba þar mest alla tóskaparull sína. Hugmyndabanki heimastjórnartímans Landsstjórn og Alþingi nýttu sér hugmyndir og tillögur sýslunefndanna um framfarafyrir- tæki í héruðum á þeim miklu framkvæmdaár- um sem í hönd fóru. Af starfi Alþingis má ráða að tillögur sýslunefndanna hafi verið notaðar við undirbúning fjárlaga og annarrar löggjafar þegar árið 1905. Vísast höfðu margar þeirra verið til umræðu í stjórnmálunum og sumar jafnvel ratað inn í stefnuskrár flokkanna, enda sátu margir af forystumönnum þjóðarinnar í sýslunefndunum. Engu að síður felst í skýrslu- gerð sýslunefndanna heildstæð úttekt á brýn- um umbótamálum og má sjá merki þeirra í löggjöf og stjórnarframkvæmdum um langan tíma. Þær urðu því eins konar hugmyndabanki fyrir stjórn og þing við mótun atvinnustefnu á komandi árum. Af málum sem sýslunefndirnar settu á odd- inn og náðu fram að ganga á næstu árum má nefna símamálið, en Hannes Hafstein ráð- herra gerði samning við Mikla norræna rit- símafélagið um lagningu ritsíma sem lauk árið 1906. „Raddsími“ hafði fyrst komist í notkun 1899 og spruttu víða upp samtök á næstu ár- um um rekstur talsíma, einkum frá og með 1906. Á Alþingi 1905 voru samþykkt lög um styrk úr landssjóði til samvinnusmjörbúa, um sölu þjóðjarða og stofnun Fiskveiðasjóðs Ís- lands. Á næstu þingum voru samþykkt lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, vá- trygging fyrir sjómenn og vátryggingarfélög fiskiskipa. Ísland hóf þátttöku í kostnaði við landhelgisgæslu og síðar var stofnað embætti viðskiptaráðunautar í útlöndum sem Bjarni Jónsson frá Vogi var ráðinn í. Afleiðingin var stórhækkun á framlögum til samgöngu- og at- vinnumála og námu þau í fyrsta skipti yfir 50% útgjalda landssjóðs árið 1906. Upphaf ríkisafskipta Eins og fyrr sagði var áberandi hve hinu op- inbera, landsstjórn og Alþingi, var ætlað stórt hlutverk í atvinnumálum. Umsvif ríkisins voru alls ekki bundin við samgöngumál og aðra grunngerð efnahagslífs eða hentuga löggjöf fyrir atvinnulíf. Kröfur voru settar fram um að hið opinbera aðstoðaði við markaðssetningu útfluttra vara, beitti tollum til að örva innlenda framleiðslu og útvegaði fjármagn til atvinnu- vega í formi lána og styrkja. Það var einmitt á þessum fyrstu árum 20. aldar að verulega fór að kveða að fjárbeiðnum til Alþingis. Á hverju ári rigndi yfir fjárlaganefnd beiðnum einstak- linga og félaga um lán og styrki til atvinnu- rekstrar, og skömmu síðar einnig beiðnum um ríkisábyrgðir á lánum. Þessi ásókn í opinbera fyrirgreiðslu minnkaði nokkuð eftir því sem bankakerfið þroskaðist og varð fjölþættara en varð samt áberandi einkenni á fjármálum rík- isins á næstu áratugum. Fjárstjórnin var að vísu varfærin miðað við það sem síðar varð en útgjöld fóru hraðvaxandi og fáar þjóðir veittu hlutfallslega jafnmikið fé til atvinnumála og Ís- lendingar á fyrstu áratugum aldarinnar. Ríkisafskiptastefnu 20. aldar má því að miklu leyti rekja til heimastjórnartímans. Stjórnmálaflokkar þess tíma ætluðu ríkinu stórt hlutverk í uppbyggingu hins nýja Íslands. Sterk þjóðernisstefna ýtti undir jákvæð viðhorf til ríkisumsvifa og tilhneigingu til að leita póli- tískra úrlausna í efnahagsmálum. Þessi viðhorf tóku síðan hinir nýju „stéttaflokkar“ sem mynduðust í og eftir fyrri heimsstyrjöld, í arf frá flokkum heimastjórnartímans. Heimildir: 1. „Stefnuskrá þingflokkanna“, Eimreiðin IX (1903), 7 2. Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ). Skjalasafn Stjórnarráð Ís- lands II. Db. 1, nr. 9. 3. Álitsgerðirnar eru varðveittar í ÞÍ. Skjalasafn Stjórn- arráð Íslands II. Db. 1, nr. 9. Samgöngubætur | Sogsbrúin á vígsludegi árið 1905. m efnahagsframfarir Fiskvinnsla | Starfað við saltfiskverkun í fiskreit í Reykjavík. ’Þessar stórstígu framfarir í efnahagsmálum hafa menn gjarn-an tengt heimastjórninni 1904 enda hefur það lengi verið trúa manna að órofa samband sé á milli efnahagslegra framfara og sóknar Íslendinga til sjálfstæðis. Þegar nánar er að gáð eru tengslin flóknari. ‘ ’Ísland var í óðaönn að taka upp markaðsbúskap. Framleið-endur seldu æ stærri hluta afurða sinna á markaði, ekki síst í útlöndum, og hömlur á atvinnu- og búsetufrelsi landsmanna voru afnumdar með lögum.‘ Höfundur er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.