Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 19
Morgunblaðið | Heimastjórn 100 ára | B 19 fána um of og hverjar fánagerðir aðrar gætu komið til álita. Nefndin auglýsti eftir tillögum um gerð ís- lenzka fánans og bárust 46 tillögur frá 35 einstaklingum; m.a. frá Jó- hannesi Kjarval, listmálara, en hann gerði einnig tillögu að skjald- armerkinu, þegar það var á dag- skrá. Af tillögunum voru 35 um krossfána, þar af 19 um bláan og hvítan lit eingöngu og 13 um blá- an, hvítan og rauðan lit. Þá bárust nefndinni áskoranir frá sjö fé- lögum um að halda fast við blá- hvítu krossfánagerðina óbreytta. Á endanum kom fánanefndin fram með tvær tillögur; aðra um tvílitan fána með bláum lit og hvít- um, en þó þannig að feldurinn verði hvítur og krossinn blár með hvítri og blárri rönd utan með beggja vegna. Hin tillagan var um þrílitan fána; hvítur kross á heið- bláum feldi og rauður kross innan í þeim hvíta. Skýrslu sinni lauk fánanefndin 17. júní 1914 með þessum orðum: „ … vjer trúum því, að þegar Ís- lands þjóðfáni er kominn á loft, muni allir menn á landi hjer bráð- lega fylkja sér undir honum, allir örugt samtaka sem einn maður, í baráttunni fyrir vexti og viðgangi þjóðarinnar, og á meðan hann er á lofti, muni enginn Íslendingur gleyma því, að láta hagsmuni ætt- jarðar sinnar sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru, þá muni jafnan ríkja ein- ing á Íslandi, en aldrei sundrung, ef sómi þjóðarinnar og sjálfstæði er í húfi.“ Kóngur bæði neitar og játar Ráðherra Hannes Hafstein gerði Alþingi á fyrsta degi þess 1914 grein fyrir fánamálinu og dreifði m.a. skýrslu fánanefndarinnar. Ætlaðist ráðherra til þess að málið yrði rætt í sameinuðu þingi og fyrir luktum dyrum fyrst a.m.k. Það varð þó ekki því Skúli Thoroddsen, Bjarni Jónsson frá Vogi, Benedikt Sveinsson, Jón Jónsson, Björn Kristjánsson og Sigurður Eggerz báru fram í neðri deild tillögu til þingsályktunar um kjör sérstakrar nefndar í fánamálið. Ráðherra lagðist gegn tillögunni en varð undir í atkvæðagreiðslu. Málið var þó rætt á lokuðum fundi í sameinuðu þingi, eins og hann hafði ætlast til. En efri deild kaus einnig fánanefnd og sameinuðust nefndirnar um nefndarálit og til- lögu í sameinuðu þingi. Menn vildu fá sérfána en deildu um lit- ina. Í tillögu nefndanna til þings- ályktunar um gerð fánans, var í fyrsta lagi mælt með bláhvíta fán- anum óbreyttum, í öðru lagi blá- hvíta fánanum að viðbættri stórri hvítri stjörnu í efra stangarreit og í þriðja lagi með þrílita fánanum, sem fánanefndin 1913 gerði tillögu um. Stjörnufáninn féll svo fyrir borð í atkvæðagreiðslu og því mælti Al- þingi einungis með bláhvíta fán- anum og þeim þrílita. Meðan þing sat urðu ráðherra- skipti og tók Sigurður Eggerz við af Hannesi Hafstein. Ráðherra skýrði kóngi frá gangi fánamálsins á ríkisráðsfundi í Kaupmannahöfn 30. nóvember 1914 og lagði til, að þríliti fáninn yrði staðfestur. En konungur neit- aði að afgreiða málið og gekk þar í raun á bak orða sinna. Til þess lágu deilur um fyrirvara við stjórnar- skrárfrumvarp Alþingis um að „uppburður sérmála Íslands fyrir konungi í ríkisráði Dana verði ís- lenzkt sérmál.“ Þessu hafnaði kóngur, en ráðherra hélt fast við fyrirvarann og kvaðst myndu segja af sér annars. Konungur neitaði þá líka að gefa út úrskurð um gerð fánans og sagðist Sigurður Eggerz þá enn staðráðnari í að segja af sér ráðherradómi og gerði það þarna á ríkisráðsfundinum. Fánamálið var þar með komið í gíslingu fyrirvarans, en það stóð reyndar ekki lengi. Þegar Einar Arnórsson tók við af Sigurði Eggerz sem ráðherra, sagði hann það meginhlutverk sitt að fá staðfestingu á stjórnarskránni og koma fram fánamálinu. Hvort tveggja tókst 19. júní 1915, þá staðfesti kóngur stjórnarskrár- frumvarpið og gaf út úrskurð um þrílitan sérfána Íslands; „Heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.“ Svo drögum vér hann að hún Björn Þórðarson segir, að flestir hafi verið því fegnir, að þessum tveimur málum væri lokið að sinni. „Þó var úrskurðinum um gerð fán- ans fyrst í stað tekið með fálæti. Það fór fjarri því, að með þessum fána væri orðið við óskum þjóð- arinnar. Öllum var ljóst, að sjálfu fánamálinu var eftir sem áður ólokið, það var fullkominn fáni, siglingafáni, óbundinn af land- helgismörkum, sem þjóðin krafð- ist. Þá átti almenningur og erfitt með að sætta sig við það, að blá- hvíti fáninn, sem hann hafði tekið ástfóstri við, var nú úr sögunni. Í byrjun var það almannarómur, að hinn fengni fáni væri meinlaus og gagnlaus.“ Matthías Þórðarson, þjóðminja- vörður, og höfundur þrílita fánans, skrifaði grein í Ísafold 23. júní 1915, þar sem hann sagði svo sem enga furðu, þótt ekki væri mikið um dýrðir út af nýja fánanum. „Vér kunnum samt að meta hann, og vér megum vera þess vissir, að hann vekur smámsaman helgar og sterkar tilfinningar með þjóð vorri. Þess verður ekki langt að bíða, að þeir finnist meðal vor, sem ekki þoli, að honum sé nokkur ósómi eða óréttur sýndur, heldur vildu verja hann með lífi sínu og blóði.“ Heimafáninn var bara hálfur sig- ur; enn vantaði siglingafánann og hið þráða fullveldistákn. Fánamálið kom því að vonum aftur á dagskrá og fengu menn kröfunni um siglingafána aukinn byr í heimsstyrjöldinni; grennd Danmerkur við Þýzkaland meðan Íslendingar áttu til Bretlands. Ís- lendingar tóku upp tormerki þess að sigla undir dönskum fána til að ýta enn betur undir kröfuna um ís- lenzkan farfána. Jón Magnússon forsætisráð- herra þreifaði fyrir sér hjá dönsk- um stjórnvöldum vorið 1917 um möguleikana á siglingafána, en fékk neikvæð viðbrögð. Ráðherra skýrði Alþingi frá þessu um sumarið. Nú höfðu veð- ur skipast svo í lofti, að allir flokkar á Alþingi voru komnir með sigl- ingafána í stefnu sína og voru reiðubúnir til þess að taka mál hans upp sérstaklega, öfugt við það sem var fjórum árum áður, þegar tillaga um slíkt var felld. Um- ræðum á Alþingi lauk með ein- róma samþykkt þingsályktunartil- lögu um „að skora á ríkisstjórnina að sjá um, að Íslandi verði þegar ákveðinn fullkominn siglingafáni með konungsúrskurði og ályktar að veita heimild til þess að svo sé farið með málið.“ Jón Magnússon bar tillögu um siglingafána upp í ríkisráði 22. nóv- ember 1917, en konungur synjaði. Hins vegar lýstu bæði kóngur og Zahle forsætisráðherra vilja til við- ræðna um samband Íslands og Danmerkur. Þær viðræður fóru svo fram í Reykjavík sumarið 1918 og lauk með Sambandslögum Íslands og Danmerkur, sem voru samþykkt af Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu og Ríkisþingi og staðfest af kon- ungi 30. nóvember 1918. Með fullveldinu varð íslenzki fáninn fullgildur þjóðfáni og einnig fylgdi ákvæði um að stjórnin og opinberar stofnanir skyldu nota fána klofinn að framan. Fullveldisfáninn var dreginn að hún við Stjórnarráðshúsið á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra gegndi störfum forsætisráðherra í fjarveru Jóns Magnússonar í Kaup- mannahöfn. Sigurður talaði af tröppum stjórnarráðsins og sagði m.a.: „Íslendingar! Hans hátign konungurinn hefur staðfest sambandslögin í gær, og í dag ganga þau í gildi. Ísland er orð- ið viðurkennt fullvalda ríki … Og í gær hefur konungurinn gefið út úr- skurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir hinu ís- lenska ríki … Fáninn er tákn full- veldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans. Hvort sem það er unnið á höfunum, í barátt- unni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vís- indum og fögrum listum. Því göf- ugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor … Vér biðjum al- föður að styrkja oss til að lyfta fán- anum til frægðar og frama. Gifta lands vors og konungs vors fylgi fána vorum. Svo drögum vér hann að hún.“ Um leið og fáni hins fullvalda ís- lenzka ríkis var dreginn að hún, kvað við tuttugu og eitt fallbyssu- skot frá varðskipinu „Islands Falk.“ Má mikið vera, ef danska varðskip- ið hefur ekki mitt í púðurreyknum minnzt dagsins fyrir fimm árum, þegar léttbátur þess elti uppi ís- lenzkan róðrabát með bláhvítan fána í skutnum. Og væri grannt hlustað barst gegnum aldarmúr ómur skotanna frá Margareta & Anne til heiðurs Íslands fyrsta fána. Fyrstu lögin sem forseti staðfesti Ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi sumarið 1941 frumvarp til laga um þjóðfána Íslendinga, þar sem fjallað var um notkun fánans og gerð. Nokkrar umræður urðu um gerð fánans og bar Hvítbláinn þar enn á góma sem þjóðfána. Í alls- herjarnefnd þingsins var litalýsing- um breytt frá orðalagi konungsúr- skurðarins til þess að vera heiðblár með mjallhvítum krossi og eld- rauðum krossi innan í hvíta kross- inum. Fánafrumvarpið dagaði uppi í neðri deild og aftur á 59. löggjaf- arþinginu 1942, en lýsing þess á fánalitunum er sú sama og í gild- andi fánalögum. Tólfta júní 1944 lagði ríkisstjórn- in fyrir Alþingi frumvarp til laga um þjóðfána, að mestu sama frumvarp og kom fram 1942. Nú átti Hvítblá- inn bara einn vin á Alþingi, en eng- in breytingartillaga um hann var lögð fram. Frumvarpið var afgreitt sem lög frá Alþingi 15. júní 1944 og fánalögin voru fyrstu lögin sem ný- kjörinn forseti Íslands, Sveinn Björnsson, staðfesti á ríkisráðs- fundi á Þingvöllum 17. júní 1944. Skátar á Íslandi hafa alltaf sinnt íslenzka fánanum sérstaklega; m.a. haft meðferð hans sem dagskrár- verkefni í verkefnagrunni skáta og á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins 1994 var skátahreyfingin með sér- stakt fánaverkefni undir heitinu; „Íslenska fánann í öndvegi.“ Auður Stefánsdóttir, fyrrverandi bankamaður, skrifaði grein í Morg- unblaðið 9. október 2003: Ábend- ingar til Alþingis. Auði fannst meira en nóg um virðingarleysi gagnvart þjóðfánanum. Í greininni segir m.a.: Eitt það fyrsta er skátar læra er saga og meðferð fánans. Þetta lærði ég er ég gerðist skáti í æsku minni fyrir mörgum árum og hef ætíð borið mikla virðingu fyrir honum. Ég sat í stjórn Bandalags íslenskra skáta í mörg ár. Sumarið 1965 er við rædd- um sameiginleg verkefni skátafé- laga á landinu 1965–66, bar ég fram þá hugmynd að eitt af verkefnum yrði helgað fánanum. Þessu var mjög vel tekið og málið vel rætt í stjórninni og samþykkt. Hugmynd- in varð að veruleika. Okkur þótti þó vissara að hafa allt rétt er kennsla hæfist. Gekk ég því á fund Jóhanns Hafstein dóms- málaráðherra og Baldurs Möller ráðuneytisstjóra og skýrði þeim frá áætlun okkar og bað þá um fána- reglur ráðuneytisins til að nota við kennsluna. Kom þá heldur vand- ræðaleg þögn, því engar opinberar notkunarreglur ríkisins voru til. Bað nú ráðherra okkur skáta að semja fánareglur til almennrar notkunar, byggðar á fánalögunum sem við gerðum. Voru þær gefnar út af dómsmálaráðuneytinu í byrj- un vetrar 1965 …“ Hvítbláinn hjá ML og UMFÍ Við útför Einars Benediktssonar var kista hans sveipuð bláhvíta fán- anum og var Jónasi Jónssyni frá Hriflu falin varðveizla fánans og ráðstöfun. Í sögu Menntaskólans að Laug- arvatni er frá því sagt, að við stofn- un skólans 12. apríl 1953 færði Jón- as honum þennan fána að gjöf. Sveinn Þórðarson skólameistari ákvað að Hvítbláinn skyldi vera í merki skólans og að „Til fánans“ skyldi vera söngur skólans. Árið 1955 spunnust deilur milli Sveins skólameistara og stjórnar Ung- mennafélags Íslands vegna fánans; Sveinn barðist gegn þeim fyrirætl- unum UMFÍ að vígja Hvítbláinn sem fána og merki félagsins, en fékk ekki að gert. Í sögu Landsmóta UMFÍ segir, að Hvítbláinn hafi verið lögfestur sambandsfáni 1949 og 1955 hafi verið búið að taka af öll tvímæli um rétt UMFÍ til að nota fánann og var hann vígður við setningarathöfn landsmótsins á Akureyri það ár. Heimildir: Skýrsla fánanefndarinnar 1913. Reykjavík 1914. Jón Jónsson: Saga íslenska fánamálsins. Fylgirit með skýrslu fánanefndar 1913. Birgir Thorlacius: Ágrip af sögu íslenska fánans. Forsætisráðuneytið 1991. Kristján Albertsson: Hannes Hafstein – ævisaga. Almenna bókafélagið 1961, 1963,1964. Júlíus Hafstein: Samtal við greinarhöf- und. Einar Benediktsson: Íslenski fáninn. Dag- skrá 13. marz 1897. Guðjón Friðriksson: Einar Benediktsson – ævisaga I. Iðunn 1997. Þjóðólfur, 11., 18., 25. janúar Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi ís- lenskra kvenna. Bókrún 1984. Einar Arnórsson: Fánamálið. Andvari 1913. Einar Arnórsson: Þjóðréttarsamband Ís- lands og Danmerkur. Hið íslenzka bók- mentafélag. 1923 Björn Þórðarson: Alþingi og frelsisbarátt- an 1874–1944. Saga Alþingis III Einar Laxness: Íslandssaga. Alfræði Vöku-Helgafells. 1995. www.heimastjorn.is Gils Guðmundsson: Öldin okkar og Öldin sem leið. Iðunn 1950, 1955, 1956. Illugi Jökulsson: Ísland í aldanna rás – 1900–2000. JPV útgáfa 2003. Margrét Guðmundsdóttir/Þorleifur Ósk- arsson: Menntaskólinn að Laugarvatni – forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Sögusteinn 2001. Viðar Hreinsson, Jón Torfason og Hösk- uldur Þráinsson: Saga Landsmóta UMFÍ. Jóhann Sigurðsson og Sigurður Viðar Sig- mundsson 1992. Ólafur Ásgeirsson: Íslenska fánann í önd- vegi 1994. Morgunblaðið 11. marz 1994. Auður Stefánsdóttir: Ábendingar til Al- þingis. Morgunblaðið 9. október 2003. Morgunblaðið/RAX Fánarnir | Í tilefni fullveldisdagsins 1992 voru dregnir að húni við gamla Geysishúsið í Reykjavík íslenzkir fánar að fornu og nýju. Hér blakta íslenzki fáninn, Hvítbláinn, fálkafáninn og Jörundarfáninn, en Dannebrog er ekki með. Einar Benediktsson | Höfundur Dagskrárgreinarinnar og Hvítbláins. Jörundur hundadagakóngur | Hann færði Íslendingum fyrsta fánann. Sigurður Guðmundsson | Hann var maðurinn á bak við fálkann. freysteinn@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.