Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚLÍ 2001 9 hljómsveitarstjóri, útsetjari, tónskáld, kennari og fræðimaður. Vel má vera að slíkt sé ekkert einsdæmi en þó er ekki hægt annað en undrast hæfileika hans og starfsþrek, sérstaklega þegar litið er til þess hversu vel hann leysti af hendi öll þau verkefni sem hann tók sér fyrir hendur. Sem hljómsveit- arstjóri óx hann við hvert nýtt viðfangsefni. Hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum sveitarinnar 9. mars 1950 og hafði þá stjórnað forverum hennar (Hljómsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Reykjavík- ur) á fjölmörgum tónleikum um árabil. Eftir ótímabært fráfall Victors Urbancic tók Róbert við tónsprotanum á óperusýningum Þjóðleik- hússins og stjórnaði þar m.a. Rakaranum í Se- villa 1958 og Don Pasquale 1960. Hæfileikar hans sem hljómsveitarstjóra vöktu einnig at- hygli á alþjóðlegum vettvangi. Veturinn 1956-57 hlaut hann fasta starfsráðningu sem aðstoðar- hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Berlín- arborgar og árið 1962 hélt hann í tónleika- og fyrirlestraferð til Ísraels. Fræðistörfin voru ekki síður snar þáttur í lífi Róberts á þessum árum. Árið 1959 varði hann fyrstu (og einu) doktorsritgerðina í tónvísindum sem lögð hefur verið fram við Háskóla Íslands og fjallaði hún um tíðasöng heilags Þorláks. Ró- bert tókst að finna fyrirmyndir að tónlist tíða- söngsins í enskum handritum dómínikana- munka frá 13. öld. Einn þekktasti Gregor- söngsfræðingur eftirstríðsáranna, dr. Bruno Stäblein, kom til landsins sem andmælandi Ró- berts við doktorsvörn hans. Hann lauk miklu lofsorði á verk Róberts og var honum æ síðan innan handar þegar spurningar vöknuðu sem erfitt var að svara með takmörkuðum bókakosti og rannsóknaaðstöðu norður í Dumbshafi. Ró- bert naut mikillar virðingar á alþjóðlegum vett- vangi fyrir fræðistörf sín og er hans enn minnst af starfsbræðrum sínum víða um heim fyrir vönduð vinnubrögð og yfirgripsmikla þekkingu. Honum voru síðar falin ýmis störf sem tengdust tónlistarrannsóknum á alþjóðlegum vettvangi, m.a. að skrifa greinar um norræna kirkjutónlist í „Kulturhistorisk leksikon for nordisk middel- alder“ og hluta greinarinnar um íslenska tónlist í Grove-tónlistarorðabókina. Sama ár og Róbert varði doktorsrit sitt stofn- aði hann Söngsveitina Fílharmóníu. Söngsveit- inni var frá upphafi ætlað að vera samstarfskór Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gefa þannig kost á að flytja hér á landi stórvirki tónbók- menntanna fyrir kór og hljómsveit. Með Fíl- harmóníukórnum vann Róbert gríðarlegt starf við kynningu á mörgum stærstu verkum tón- bókmenntanna, sem flest heyrðust í fyrsta sinn á Íslandi undir hans stjórn. Meðal verkanna sem flutt voru undir hans stjórn voru sálumess- ur Mozarts og Verdis, Þýska sálumessan eftir Brahms, Magnificat eftir Bach, Messías Händ- els og Sálmasinfónía Stravinskys. Þá frumflutti kórinn á Íslandi 9. sinfóníu Beethovens árið 1966 og var flutningnum svo vel tekið að tón- leikana þurfti að endurtaka fjórum sinnum, ávallt fyrir fullu húsi. Ekki var þó alltaf auðvelt að fá íslenska söng- fólkið til að temja sér þau öguðu vinnubrögð sem Róbert krafðist jafnan af samstarfsfólki sínu. Meðal þeirra sem sungu með í 9. sinfóní- unni var Árni Björnsson þjóðháttafræðingur. Í ræðu á sextugsafmæli Róberts minntist hann æfingar þar sem allt virtist ganga á afturfót- unum – jafnvel atriði sem komu söngnum sjálf- um ekkert við: „Eins og menn muna, þá átti kór- inn á vissum hljómi í 4. þætti að standa upp – allir sem einn. Það tók undir það hálft kvöld að æfa þetta í sjálfu sér ómúsíkalska atriði hér úti í Melaskóla, aftur og aftur. Menn gátu ómögu- lega staðið upp samtímis, heldur var þetta líkt og öldusjór. Hvað eftir annað brýndi stjórnandinn okkur, en sumir snýttu sér áður en þeir komust á lapp- irnar, aðrir spruttu upp eins og stálfjöður, svo að næstu stólar ultu um koll. Loks reif Róbert í hár sér og faldi sig á bak við sviðið. Ekki man ég hversu lengi hann dvaldi þar, og ekki veit ég hvaða bæn hann bað þar, en þegar hann kom aftur mælti hann nokkurnveginn á þessa leið: Ég kem frá landi sem hefur mikið á samvisk- unni, tvær heimsstyrjaldir með meiru. En þetta land ykkar, það er blessað land, enginn her, enginn heragi. Hér eru engar járnbrautarlestir sem leggja af stað á sekúndunni, og skipin sigla eftir veðrinu. En þetta þýðir líka að hér er ekki til neitt sem heitir Präzision. – Jæja, einu sinni enn, vinir mínir. Og loksins tókst að fá okkur til að standa upp nokkurnveginn í takt, svo að það varð reyndar eitt af því sem mörgum óvönum tónleikagestinum þótti minnisstæðast eftir að hafa „séð“ þá Níundu, eins og maður heyrði það gjarnan orðað.“ Óvæntur dauðdagi Þótt Róbert hefði samið töluvert af tónlist á sínum yngri árum urðu tónsmíðarnar ekki stór hluti af lífsstarfi hans. Þó samdi hann nokkur verk eftir komuna til Íslands, m.a. sönglag við Svarkinn eftir Grím Thomsen, og kórverkið Miskunnarbæn við texta úr íslenskum miðalda- kvæðum. Róbert var aftur á móti afkastamikill útsetjari og hafa margar raddsetningar hans orðið víðkunnar. Þar má bæði nefna útsetningar hans á íslenskum þjóðlögum fyrir blandaðan kór (Vinaspegill, Björt mey og hrein), sem og sálmalagaútsetningar hans sem hafa verið fast- ur liður á söngskrám íslenskra kirkjukóra æ síð- an (Tuttugu og tveir helgisöngvar). Róbert var bóngóður maður og tók að sér raddsetningar fyrir kóra og sönghópa um allt land ef til hans var leitað. Enn hefur ekkert yfirlit verið gert yf- ir þann gífurlega fjölda útsetninga sem eftir hann liggur og því engin leið að gera sér grein fyrir heildarumfangi þess starfs að svo komnu máli. Enn er ótalið hið mikla starf Róberts til efl- ingar kirkjusöngs í landinu. Hann tók við emb- ætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar 1961 og var skömmu síðar einn af stofnendum Tónskóla þjóðkirkjunnar. Árið 1966 var hann skipaður dósent í sálma- og messusöngfræði og tónflutn- ingi við guðfræðideild Háskóla Íslands en þar hafði hann áður starfað sem aukakennari um fimm ára skeið. Jafnhliða komu Róberts í guð- fræðideildina var gerð sú breyting á tilhögun námsins að stúdentum var gert kleift að stunda sérnám í tónlist. Með starfi sínu innan guðfræði- deildarinnar átti Róbert ríkan þátt í að glæða smekk fyrir tónlist meðal nýrrar kynslóðar af prestum og leikur ekki á því nokkur vafi að þeirra áhrifa hans hefur gætt í starfi kirkjunnar æ síðan. Þá ritstýrði hann nýrri útgáfu af Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar sem kom út í fyrsta sinn 1972. Í mars 1974 var Róbert staddur í fyrirlestra- ferð í Svíþjóð þegar hann fékk skyndilega hjartaáfall. Hann lést í Lundi eftir stutta sjúkra- húsvist 10. mars 1974, aðeins 61 árs að aldri. Sviplegur dauði hans batt enda á glæstan feril sem hefði að óbreyttu átt að standa mun lengur. Hann var enn í fullu fjöri og með fjölmörg járn í eldinum, bæði í tónlistarrannsóknum sín- um og starfinu með Söngsveitinni Fílharmóníu. Hefði honum orðið lengri lífdaga auðið væri ís- lenskt tónlistarlíf vafalaust enn auðugra og betra að gæðum en það er í dag. Hitt er þó einn- ig ljóst að án áhrifa hans væri tónlistarlíf á Ís- landi tæpast á því stigi sem það hefur nú náð. Metnaður hans og gáfur voru innblástur heilli kynslóð af íslensku tónlistarfólki sem lærði und- ir leiðsögn hans og eru fjölmargir af fremstu tónlistarmönnum landsins þeirra á meðal. Róbert var margslunginn persónuleiki, enda sameinuðust í honum hinn strangi agi vís- indanna og upphafin sköpunargleði listarinnar. Eitt einkenndi þó öll störf hans öðru fremur: hin djúpa virðing sem hann bar fyrir listinni sem hann hafði helgað krafta sína allt frá barnæsku. Halldór Halldórsson prófessor komst svo að orði í minningargrein um Róbert: „Hljóðfæri sín – hvort sem þau voru kór og hljómsveit eða flyg- illinn einn – hafði hann fyllilega á valdi sínu, og úr varð dýrlegur trúaróður, sem hreif áheyr- endur og veitti þeim fullnægju. Þeir, sem með- tóku boðskapinn, gengu frá hljóðir og hógværir, ef til vill ekki betri menn, en að minnsta kosti þess vísir, að þeir höfðu tekið þátt í þakkargjörð til þess, sem þeim var heilagt, hver svo sem skoðun þeirra á trúmálum kunni annars að vera. Mér virtist afstaða Róberts til tónlistar alltaf vera öðrum þræði trúarleg. Tónlistin var honum heilög á sama hátt og guð er heilagur trúuðu fólki“. Victor Urbancic, Heinz Edelstein og Róbert Abraham Ottósson – þessir þrír tónlistarmenn sem flúðu til Íslands undan oki og ofsóknum nasismans – voru ólíkir menn með ólíka hæfi- leika og bakgrunn. Það sem sameinaði þá voru viðbrögð þeirra við þeirri stöðu að vera skyndi- lega óæskilegir í eigin heimalandi vegna kyn- þáttaofsókna nasista. Þeir settust að í fjarlægu landi þar sem menningarlífið var fábreytt og mikið verk að vinna. Hér byggðu þeir upp feril sinn að nýju, með ekkert að vopni nema eigin menntun, hæfileika og óþrjótandi eljusemi. Sem útlendingar áttu þeir ekki greiðan aðgang að pólitískum bitlingum eða smákóngaklíkuskap íslenska menningarlífsins og þeir fóru heldur ekki varhluta af útlendinga- og kynþáttahatri. Íslenskir tónlistarmenn lyftu mörgu grettis- takinu á síðustu öld og gera enn. En þeir Victor Urbancic, Heinz Edelstein og Róbert A. Ottós- son áttu meiri þátt en flestir aðrir í að opna augu manna fyrir hinni sönnu miðevrópsku tónmenn- ingu sem þeir höfðu lifað og hrærst í allt frá fæð- ingu. Með óeigingjörnu starfi sínu hér á landi áttu þeir ríkan þátt í að fleyta íslensku tónlistarlífi fram langa vegu á stuttum tíma og hlúðu hver á sinn hátt að gróðrarsprotum þess blómstrandi tónlistarlífs sem nú er orðið eitt af höfuðein- kennum íslenskrar menningar. Heimildir: Árni Björnsson: Minningargrein um Róbert Abraham Ottósson, Þjóðviljinn 20. mars 1974. Árni Heimir Ingólfsson: „Róbert Abraham Ottósson“, í New Grove Dictionary of Music and Musicians, 2. útgáfa (London, 2001). Björgvin Guðmundsson: Saga Kantötukórs Akureyrar (handrit á Landsbókasafni Íslands-Háskólabóksafni). Halldór Halldórsson: Minningargrein um R.A.O., Morg- unblaðið 20. mars 1974. Kveðjuorð frá Söngsveitinni Fílharmóníu, Morgunblaðið 17. maí 1974. „Samtal við Robert Abraham“, Útvarpstíðindi 28. októ- ber 1940. „Það er gaman að lifa á þessum þroskaárum íslenzkrar tónlistar“ (viðtal við R.A.O.), Heimilispósturinn maí-júní 1951. Ljósmynd: Sigurhans Vignir óber 1959. Í pontu er dr. Bruno Stäblein, prófessor við nn í Erlangen. Róbert að stjórna Útvarpskórnum. sinni og Grétari Ottó syni þeirra. Höfundur stundar doktorsnám í tónvísindum við Harvard-háskóla.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.