Lesbók Morgunblaðsins - 24.04.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 24.04.2004, Blaðsíða 5
texta Beethovens: „Ó, vinir, ekki þessa tóna!“ Héðan í frá gengur allt eins og í sögu. Boð- skapurinn er fundinn, en það þurfti hálf- gerða byltingu til, því að kór og einsöngvarar áttu ekki „heima“ í sinfóníu árið 1824. Nú taka við önnur sex tilbrigði um gleðistefið, þar af eitt í „tyrkneskum“ stíl, með slagverki tyrknesku herlúðrasveitanna sem höfðu ver- ið eftirlæti Vínarbúa allt frá tímum Mozarts (bassatromma, málmgjöll, þríhorn). Eftir hraða hljóðfærafúgu stöðvast tónlistin á ný. Nú tekur við hægur kafli, með nýju stefi sem karlaraddirnar kynna til sögunnar („Seid umschlungen, Millionen!“). Hér er sjónar- hornið annað: gleðin sem guðsgjöf, sem lyftir huganum upp í æðstu hæðir. Eins og í fyrsta kaflanum er eitthvað kosmískt við tónlist Beethovens í þessum hluta verksins. Hann krefur söngvarana um að syngja á hæsta tónsviði, eins og raddirnar eigi beinlínis að teygja sig upp í himinhvolfið, og síendur- teknir flaututónarnir glitra eins og stjörnur. Orð Kants koma ósjálfrátt upp í hugann: „hinn alstirndi himinn yfir mér og siðalög- málið í brjósti mér“. Ekki erum við fyrr lent á fastri jörð en Beethoven teflir fram sínu stærsta trompi, og lætur tvö aðalstef kaflans („Seid umschlungen“ og gleðistefið) hljóma á sama tíma, sem fúgu. Nú verður ekki lengra komist, en fjörugt niðurlagið teygir sig sífellt lengra, eins og Beethoven eigi erfitt með að segja skilið við gleðivímuna sem hann hefur byrlað sjálfum sér og öllum þeim sem hlusta. Lengi hefur verið deilt um hvernig sé best að túlka hið margbreytilega form lokaþátt- arins. Hann er sannarlega óhefðbundinn lokaþáttur í sinfóníu, öllu frekar eins og konsert fyrir einsöngvara og kór, jafnvel smækkuð útgáfa af óratóríu eða franskri kantötu frá byltingartímanum. Hann kallast bæði á við sónötu- og tilbrigðaform, og þótt margt beri á milli í öðrum atriðum virðast flestir sammála um að hægt sé að telja átta tilbrigði við gleðistefið. Lokaþátturinn end- urspeglar líka heildarform sinfóníunnar: inn- gangskafli; scherzo; hægur kafli; niðurlag. En þó er mest um vert að í tónunum býr upphafning sem engin orð fá almennilega skýrt. Viðtökur og áhrif Níunda sinfónían var frumflutt í Kärtn- ertor-leikhúsinu í Vínarborg 7. maí 1824, ásamt forleiknum Vígsla hússins og þremur köflum úr hátíðarmessunni Missa solemnis (sem voru raunar kallaðir „lofsöngvar“ í efn- isskránni, þar sem stjórnvöld höfðu bannað að messutónlist væri flutt á tónleikum). Sam- kvæmt venju á fyrri hluta 19. aldar stóð kór- inn fyrir framan hljómsveitina en ekki fyrir aftan hana eins og tíðkast nú. Þetta gerði það að verkum að kórhljómurinn barst mun betur út í salinn, en gat átt á hættu að skapa vandræði þar sem hinn fjölmenni kór kom í veg fyrir að allir hljóðfæraleikarnir sæju hljómsveitarstjórann. Því var fenginn „auka- stjórnandi“, fiðluleikarinn Ignaz Schupp- anzigh, sem bar ábyrð á hljómsveitinni og að koma „skilaboðum“ aðalhljómsveitarstjórans Michael Umlauf (sem stóð fyrir framan kór- inn) áleiðis til félaga sinna. Það sem þó var ekki síst óvenjulegt við frumflutninginn var að Beethoven sjálfur sat við hægri hönd Um- laufs, gaf honum inn réttu tempóin og að- stoðaði með bendingum eftir því sem honum fannst þurfa. Þó er óvíst hversu mikla hjálp tónskáldið hefur getað veitt, því að Beethov- en var orðinn gjörsamlega heyrnarlaus þeg- ar hér var komið sögu. Þegar tónleikunum lauk tóku við langvinn fagnaðarhróp áheyr- enda, en Beethoven tók ekki eftir neinu fyrr en einn einsöngvaranna sneri honum við til að sjá fram í salinn. Vínarbúar kunnu vel að meta hina nýju sinfóníu og klöppuðu milli kafla eins og venja var þegar nýtt verk féll í kramið. Hljóm- sveitin var aftur á móti illa undirbúin og heildin því ekki eins áhrifamikil og annars hefði verið. En að Vínarborg undanskilinni áttu áheyrendur í mestu vandræðum með að átta sig á risavaxinni tónsmíð Beethovens. Hún þótti einfaldlega of erfið, hvort sem var fyrir söngvara, hljómsveit eða áheyrendur. Þegar Níunda sinfónían var fyrst flutt í London, í mars 1825 af London Philharmonic Society (sem hafði upphaflega pantað verkið hjá Beethoven) voru margir gagnrýnendur yfir sig hissa. Einn skrifaði í tónlistarblaðið The Harmonicon að það væri „ómögulegt að skilja, hvernig lokaþátturinn tengist hinum þremur, stefnuleysið í verkinu var algjört. Við verðum að láta í ljósi þá von okkar að þetta nýja verk Beethovens verði fært í ein- faldara horf, að endurtekningarnar verði styttar og kórnum sleppt alfarið; þá verður hægt að hlýða á sinfóníuna með óblandinni ánægju“. Aðrir sögðu verkið vera „óheyri- lega firru“ og „síðustu neista deyjandi snilli- gáfu“ Það var ekki fyrr en rúmum tveimur áratugum síðar að gagnrýnendur hættu að kvarta yfir lélegum undirbúningi og að flytj- endur stæðu ekki undir kröfum Beethovens. Richard Wagner bar hvað mesta ábyrgð á hugarfarsbreytingunni. Árið 1846 var hann „kapellmeister“ í Dresden og stjórnaði verk- inu á vel heppnuðum tónleikum, en aðeins eftir áður óhugsandi æfingafjölda; sagt er að hann hafi haft tólf æfingar fyrir selló og kontrabassa eingöngu. Útkoman varð, að sögn eins sjónarvotts, að gleðistefið í síðasta þættinum var leikið „afar blíðlega og með tónblæ áþekkum mannsrödd; kliður stefsins hljómaði eins og himneskur innblástur, rís- andi og hnígandi þar til það sameinaðist allri hljómsveitinni“. Þegar upp var staðið varð tónlist 19. aldar ekki söm eftir Níundu sinfóníuna. Wagner átti stóran þátt í að breiða út boðskapinn um mikilfengleik verksins, bæði sem stjórnandi og rithöfundur, en skrif hans um verkið spanna þrjátíu ár, frá smásögunni „Píla- grímsferð til Beethovens“ (1840) til ritsins Beethoven (1870). Hugmyndir Wagners um músíkdramað, sem sameina átti helstu kosti leikhúss og tónlistar, endurspegla að miklu leyti túlkun hans á sinfóníu Beethovens. Í huga Wagners var Níunda sinfónían sönnun þess að sinfóníska formið hefði gengið sér til húðar og að héðan í frá ætti söngur og hljóð- færaleikur að vera óaðskiljanlegur hluti af stærri heild. Þetta varð útgangspunkturinn fyrir alla hans óperusmíði, „heildarlistaverk- ið“ svokallaða. „Með innkomu raddanna skín ljós þar sem áður var kaos; skýr og ákveðin framsetning söngsins hefur sigrað hina óræðu tjáningu hljóðfæranna,“ segir Wagner á einum stað. Áhrifin voru ekki síðri á önnur tónskáld 19. aldar. Hvert einasta tónskáld sem fékkst við sinfónískt form á rómantíska tímabilinu stóð að vissu leyti í „skugga“ hinnar Níundu. Öll leituðu þau svara við spurningunni hvernig hægt væri að nálgast mikilfengleik Beethovens, en útkomurnar urðu um margt ólíkar. Brahms vísar greinilega til gleðióðs- ins í fyrstu sinfóníu sinni, en án þess að nota kór; hér eru skilaboðin þau að þegar öllu sé á botninn hvolft sé hljómsveitin fullfær um að standa á eigin fótum. Önnur tónskáld sömdu „kórsinfóníur“ sem urðu sífellt viðameiri – í „Lobgesang“ sinfóníu Mendelssohns skyggja risavaxnir söngkaflarnir algerlega á hljóm- sveitarkaflana þrjá sem koma á undan, og í áttundu sinfóníu sinni sleppir Gustav Mahler inngangsköflunum alfarið, en teflir þess í stað fram tveimur risavöxnum kórköflum í röð. Níunda sinfónían var stórbrotin fyrir- mynd hinna sífellt útblásnari stórforma róm- antíkurinnar, þar sem sinfóníska formið bar vitaskuld hæst. Níunda og nútíminn Níunda sinfónía Beethovens er stórfeng- legt listaverk, hvort sem metið er út frá mús- íkölskum eða hugmyndafræðilegum forsend- um. Hún er tónverk með háleitan tilgang. Friedrich Nietzsche segir um verkið í bók sinni Fæðing harmleiksins: „Nú birtist þrællinn okkur sem frjáls maður; allir þeir fjandsamlegu múrar sem ýmist nauðsyn eða harðstjórar hafa reist manna á milli eru möl- brotnir. Nú, þegar guðspjall hins guðlega samhljóms hefur opinberast okkur í tónum, mun hver einstaklingur ekki aðeins sættast við náunga sinn heldur sameinast honum í anda.“ Enn finnst þó hvort tveggja í heim- inum, þrælar og múrar. Kannski er raun- verulegur boðskapur Níundu sinfóníunnar á 21. öldinni einmitt að sofna ekki á verðinum, láta ekki smitandi gleðivímuna sem fylgir tónunum sljóvga vitund okkar, heldur standa vörð um hugsjónirnar sem aldrei fyrr. Ní- unda sinfónía Beethovens er ljós í myrkrinu; hún talar til okkar ofar stund og stað og minnir okkur á hvernig heimurinn gæti orðið ef mannkynið bæri gæfu til að koma sér sam- an um þá hluti sem raunverulega skipta máli. Helstu heimildir Nicholas Cook: Beethoven – Symphony no. 9 (Cam- bridge University Press, 1993). Maynard Solomon: Beethoven, 2. útgáfa (Schirmer Books, 1998) Lewis Lockwood: Beethoven – The Music and the Life (W.W. Norton, 2003). Drög að lokaþætti Níundu sinfóníunnar. Skissubók Beethovens að verkinu seldist á metverði hjá uppboðshaldaranum Sotheby’s fyrir tæpu ári. Höfundur er kennari í tónlistarfræðum við Listaháskóla Íslands. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. APRÍL 2004 5 Fagra gleði, guða logi, Gimlis dóttir, heill sé þér! í þinn hásal hrifnir eldi, heilög gyðja, komum vér. Þínir blíðu töfrar tengja, tízkan meðan sundur slær; allir bræður aftur verða yndis-vængjum þínum nær. Hver þann dýrgrip hefir hlotið, hjartans vin að eiga sér, hver, sem festi fríðan svanna, fagran, syngi nú sem vér, – já, hver aðeins eina sálu eignar sér um víða storð, – hinn, sem enga á, skal kveðja angurstárum þetta borð! FRIEDRICH SCHILLER Friedrich Schiller (1759–1805) samdi Óðinn til gleðinnar (An die Freude) árið 1785 og kom hann út á prenti ári síðar. Schiller endurbætti kvæðið 1803 og það er sú útgáfa sem Ludwig van Beethoven notar í Níundu sinfóníu sinni. Íslensku þýðinguna gerði sr. Matthías Jochumsson (1835–1920). TIL GLEÐINNAR (brot)

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.