NT - 17.11.1985, Blaðsíða 14

NT - 17.11.1985, Blaðsíða 14
14 Sunnudagur 17. nóvember NT Hugleiðingar um íslenska menningu VII ■ Fortíðin er aldrei eitthvað sem er búið, heldur reynsla sem heldur áfram að niða í blóði okkar. Allt sem nú er, hefur orðið til og er eins og þaö er vegna þróunar; það líf sem við lifum nú er afleiðing og afrakstur af baráttu, striti og lífi fyrri kynslóða. Allur okkar hugsunarháttur og við- miðanir eru meira og minna skilyrt af sögulegum aðstæðum. Stressaður nútíminn hefur gleymt þessu og misst samband við uppruna hlutanna. Nú á dögum telja menn sig frjálsa, svo hrapalegur misskilningur sem það nú er. Fortíðin kemur okkur ekki við, og þetta fáránlega líf sem ein- hverjar hræður hafa dregið fram í landinu hér áður fyrr, er eitthvað allsendis óskylt okkur. Við erum nú- tímafólk með sífullan maga, sjónvarp og flugvélar. Hvílikur munur! Og við megum allt. Gjörsamlega. Svo agalega frjáls. Hvað ætli myndi gerast ef viö stæðum alltíeinu rafmagnslaus og bensínlaus og sjoppulaus og þyritum að lifa í sátt við þetta land einsog forieðrum okkar og frmæðrum var gert? Ég ætla bara ekki að hugsa útí það... En hver er kjarni málsins? Hver er þessi þjóð? Hvað kann hún og hvað kann hún ekki? Hver er máttur hennar og hvernig nýtir hún hann? Á tyllidögum er talað fjálglega um gullöld afturí fornöld, um upprétta menn og konur sem höfðu farið langan veg og háskalegan til að stofna frjálst ríki sem kallað var þjóðveldi. Svo er vitnað í Jónas sem orti um stund þíns fegursta frama, en hversdags er þetta eitthvað sem kemur málinu ekkert við. Hversdags erum við lítil Ameríka, með minni- máttarkennd gagnvart þeirri stóru. Það tekur víst þjóð sem hefur verið undir erlendum yfirráðum í meir en sjö aldir langan tíma að rísa á fætur pg finna sitt fyrra afl. Enn eiga íslendingar, - ekki bara sá sauðsvarti múgur, heldur einnig menntamenn, - langt í að geta kallast andlega sjálf- stætt fólk. Metnaðarlaus hugsunar- háttur nýlendubúans hefur reynst fjári lífseigur, með allri sinni vanmeta- kennd gagnvart hinum „stóru“ út- löndum og þvi sem þaðan kemur, og hér er gleypt gagnrýnislaust. Nú er heimurinn að smækka, breyt- ingar ganga hratt, yfir, og þegar svo er, þurfa þjóðir sem sífellt eru að nálgast hver aðra, að vera með sjálfar sig sæmilega á hreinu, eins og það er kallað. Ef allt draslið verður ekki gleypt í einu rosalegu sjálfseyð- ingarbáli einn kemískan veðurdag, má búast við að jarðarbúar muni mynda ’eina menningarlega heild sem, ef vel tekst, verður einhverskon- ar sambræðsla þess besta sem hefur þróast í hverju horni. Vilji íslendingar ekki láta gleypa sig, er menningarleg endurnýjun á þeim grunni sem hér hefur alltaf verið óumflýjanleg. Það væri hlálegur fjandi ef þessi þjóð, sem hefur lifað af hið ótrúlegasta mótlæti og hörmung- ar öld eftir öld, missti endanlega máttinn og sjálfsvitundina þegar ein- mitt kemur tækifærið til að hefja þá menningu sem hún hefur skapað til vegs. Hér er ekki verið að prédika einhverja þjóðrembulega afturúr- stefnu, heldur reynt að minna á að enginn getur flúið uppruna sinn án þess að gera sig að viðrini, og að styrkur manna felst einmitt í að gangast við upprunanum. Þetta eilífðar smáblóm eða vind- barið strá útá berangri; þetta líf, fíngert á sinn hátt en þó sterkt, - þetta er lífið sem víðast hvar er á undanhaldi á þessari jörð sem verk- smiðjur eru farnar að drottna yfir en ekki menn. Eyðisandar og jöklar; hrikaleg náttúra, í hverrar skauti við búum, þrælupptekin við að apa eftir hrunadansi vestrænnar siðmenning- ar, eru þau auðæfi sem eiga eftir að slá allar olíulindir út. Hvenær skyldu menn taka við sér og átta sig á, að óspjölluð náttúra er mikilvægasta auðlind sem fyrirfinnst? íslendingar geta lyft grettistaki og gert land sitt að alþjóðlegum sælureit ef þeir líta upp- úr lágkúru hversdagsins og skynja það sem þeir eiga þrátt fyrir allt sameiginlegt. En hér sjá menn ein- tóm tormerki. Það er til dæmis tóm bábilja að ferðamennska geti ekki þrifist nema tvo mánuði á sumrin. Með samstilltu átaki má koma hér up blómlegri atvinnugrein í móttöku ferðamanna svo að segja allan ársins hring, því hingað kemur fólk tilað leita að tvennu: upprunalegri menningu og óspilltri náttúru, í hvaða ham sem hún kann að vera. Bæru íslendingar gæfu tilað sýna menningararfi sínum tilhlýðilega virðingu, færa tilaðmynda söfn hér í nútímalegt horf og standa einusinni saman, mætti vinna stór- virki. Ekkert þarf annað en viljann og kostnaður við slíkt er ekki lengi að skila sér í auknum straumi ferða- manna. En þetta kallast víst bjartsýni og á ekki við á tímum sem þessum. Hér er þetta splundraða þjóðfélag með allri sinni óáran og kveini, kynslóðabili og stressi, þar sem listamenn og menntamenn eru úr kallfæri, pólitísk sundrung og átök um alla hluti. Hver höndin upp á móti annarri, eins og gamla fólkið segir. Hvaö er að Kibbi? Menntamenn kvarta yfir því að þeir nái ekki til fólksins. Listamenn kvabba um einangrun. Reynt er að klóra í bakkann með útgáfu tímarita, Ijóðlist- arhátíðum, ráðstefnum og uppákom- um. En allt er á sömu bókina lært: menn eru að rotta sig saman í litlum hópum sem hver um sig ætlar aö gera stórt. Allir gera þeir minna en efni standa til og ástæða væri til. t. Sú gerjun sem er í menningu og listum í þessu þjóðfélagi þarf að finna sér sameiginlegan farveg til útrásar; það sem til þarf að koma er samstill- ing krafta þar sem listamenn og menntamenn koma saman og beina spjótum sínum að einhverju ákveðnu. Hér er uppástunga um samfylking- araxjón, og þóað framkvæmd hennar sé kannski háð töluverðum tæknileg- um örðugleikum sét ég hana fram samt sem áður og minni á að öll stórvirki eru tæknilega örðug. Þetta er alténd hugmynd. I Straumsvik, beint á móti álverinu, eru rústiraf gömlu bænahúsi þarsem menn áðu hérfyrrum á lestarferðum. Á sínum tíma fann Kristján Eldjárn merkan grip þar: litla styttu af heilagri Barböru, sem er verndardýrlingur gegn jarðeldum og náttúruhamförum, og vonandi líka álverum. Þetta er því symbólísk staðsetning. Austur af rústunum má koma fyrir því verki sem hér verður lýst: Fyrst er tekin ein feit og frjósöm Venus úr fornöld, hún stækkuð uppí líkams- stærð og henni stillt útí hraun. Síðan tökum við Botticelli-verkið þar sem Venus er að fæðast í skel, stækkum það uppí u.þ.b. tvær mannhæðir, stillum því upp nokkru fjær, og svo að síðustu: eitt risavaxið egg úr ís, sem bráðnar í vorsólinni (því svona hug- mynd er best að framkvæma að vori, sbr. vorhugur) uns í Ijós kemurstytta: Venus hin nýja sem biðja mætti góðan skúlptúrista að gera. Þetta yrði endurfæði og Venusar og framlag íslendinga til upphafs þeirrar menningarlegu endurfæðing- ar sem i aðsigi er í heiminum. í kringum þetta gætu síðan lista- menn gert hvað þeir vilja, framið músík, Ijóð og gjörninga, og sagn- fræðingar gætu frætt okkur um margt, t.d. Jón Arason endurreisnarmann og lífsspeki hans. Aðalatriðið er, að hér myndu koma saman þeir sem telja endurreisn gott mál og vilja rjúfa þá einangrun og niðurbásun sem hamlar allri framþró- un. íslendingum er alltaf í mun að vekja heimsathygli, og það má full- yrða að fyrirtekt sem þessi myndi vekja sanna hrifningu víða um hrjáð- an heim, og örugglega verka sem sterkari land- og þjóðarkynning en allar gljáprentaðar falsmyndir af land- inu til saman. Þorgeir Kjartansson

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.