Tíminn - 06.07.1989, Blaðsíða 10

Tíminn - 06.07.1989, Blaðsíða 10
10 Tíminn Fimmtudagur 6. júlí 1989 Fimmtudagur 6. júlí 1989 Tíminn 11 — Spánarkonungur í fyrsta sinn til Islands Eftir Sigrúnu S. Hafstein Fyrsta opinbera heimsókn spænsks þjóðhöfðingja til íslands hófst í gær er Jóhann Karl I Spánarkonungur og Soffía kona hans komu til landsins. Vigdís Finnbogadóttir forseti íslands fór í opin- bera heimsókn til Spánar 1985 og endur- geldur hún nú heimboðið. Mikill viðbúnaður var á Keflavíkur- flugvelli og ströng öryggisgæsla er forseti íslands tók á móti konungshjónunum við hátíðlega athöfn ásamt ráðherrum og eiginkonum þeirra og ýmsum hátt settum embættismönnum íslenska ríkisins. Flugvél spænsku konungshjónanna lenti um hádegisleytið eftir hálftíma seinkun. Konungshjónin gengu fyrst út úr vélinni en á hæla þeim fylgdi fjölmennt fylgdarlið. Frú Vigdís Finnbogadóttir tók á móti hinum tignu gestum og stúlka og drengur færðu Soffíu drottningu blómvönd. Því næst lék lúðrasveit þjóð- söngva landanna og síðan heilsuðu kon- ungshjónin íslensku fulltrúunum sem mættir voru til að taka á móti þeim. Sagt hefur verið að spænsku konungshjónin séu fremur látlaus í klæðaburði miðað við það sem gerist hjá öðru konungbornu fólki. Við komuna til íslands var Jóhann Karl í gráum jakkafötum, og með gult bindi en Soffía drottning var í dökkblárri dragt með hvítum röndum og má segja að sögurnar um látlausa klæðaburðinn hafi fengist staðfestar. Eftir móttökuna var ekið til Hótel Sögu þar sem konungshjónin munu búa meðan á dvölinni stendur. Laust eftir klukkan 13 lá leiðin til Bessastaða þar sem konungshjónin snæddu hádegisverð í boði forsetans. Þar var framreitt hleypt spínat með lárperumauki í forrétt, silung- ur í saffransósu í aðalrétt og í eftirrétt var rabarbarahringur með sabayansósu. í gærkvöldi hélt forsetinn hátíðar- kvöldverð til heiðurs konungshjónunum í Súlnasal Hótel Sögu. Þar var boðið upp á humar í villisveppasósu og taðreyktan lax með hrognaívafi í forrétt. Aðalréttur- inn var lambahryggur með íslenskum kryddjurtum og garðávöxtum. í eftirrétt var borin fram rabarbarakaka með skyr- og sveskjukuli. Konungbornir forfeður Jóhann Karl, eða Juan Carlos, konung- ur Spánar er fæddur 5. janúar 1938 og er af gamalli konungaætt á Spáni. Faðir hans var Don Juan greifi af Barcelona sem var þriðja barn Alfonso XIII Spánar- konungs og Viktoríu Eugeníu af Batten- berg sem var barnabarn Viktoríu Eng- landsdrottningar. Alfonso og Eugenía, sem kölluð var Ena, áttu saman sjö börn á sjö árum. Ena bar í blóði sínu hina „konunglegu bölvun" en það nafn fékk dreyrasýkin, haemophilia, sem er blóð- sjúkdómur af völdum arfgengs skorts á storknunarþætti í blóði. Sjúkdómur þessi kom fyrst fram í ensku konungsfjölskyld- unni með fjórða syni Viktoríu drottning- ar og kom fram eftir það nokkrum sinnum í næstu kynslóðum. Aðeins tveir af fimm sonum Enu og Alfonso sluppu undan „bölvuninni“. Örlögin höguðu því þannig til að sonurinn Jamie sem fæddist annar í röðinni missti nær heyrn og mál eftir að hafa fengið í tvígang svokallaða stikilsbólgu og því var það aðeins Don Juan, seinna faðir Juan Carlos, sem var hæfur til að erfa spænsku krúnuna. Undir verndarvæng Francos Á árunum eftir 1920 minnkaði stuðn- ingur Spánverja við krúnuna og árið 1931 sigruðu lýðveldissinnar í almennum kosn- ingum. Álfonso XIII kaus að fara í útlegð til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar og settist hann að í Frakklandi ásamt fjöl- skyldu sinni. Eftir ósigur lýðveldissinna í lok borg- Spánarkonungur kyssir á hönd forseta Íslands við komuna til landsins í gær. arastríðsins 1939 tók herforingjastjóm völdin á Spáni. Franco hershöfðingi neit- aði að endurreisa konungsveldið og fá stjóm þess í hendur Don Juan sem þá bjó í Sviss og var sem fyrr segir lögmætur erfingi krúnunnar eftir dauða Alfonso XIII 1941. Franco vildi ekki fá frjálslyndan kon- ung eins og hann ímyndaði sér að Don Juan myndi verða ef hann kæmist til valda. Því ákvað Franco að Jóhann Karl skyldi verða konungur og tók hann hinn tilvonandi konung undir sinn verndar- væng og hafði mikil ítök varðandi uppeldi hans í gegnum hálfgerðar hótanir við föður hans um að ella hlyti hann ekki krúnuna. Prinsinn kom fyrst til Spánar er hann var tíu ára gamall en faðir hans vildi stuðla að því að hann missti ekki tengsl við ættjörðina. Eftir að hafa lokið menntaskóla í Madrid innritaðist Jóhann Karl í herakademíuna í Zaragoza og loks í flug- og sjóherskóla. Árið 1960 hlaut hann lautinantstign í land-, flug- og sjóher. Þá hóf hann nám við Háskólann í Mádrid og lagði stund á lögfræði, heimspeki og bókmenntir með meiru. Jóhann Karl er kvæntur Soffíu prins- essu af Grikklandi (systur Konstantíns sem er giftur Önnu Maríu systur Margrét- ar Danadrottningar). Þau kynntust fyrst árið 1954 í skemmtisiglingu um grísku eyjarnar með grískum milljónamæringi og giftu sig rúmum sjö árum síðar, árið Tímamynd Pjetur. 1962, í Aþenu. Árið 1969 kom að því að Franco útnefndi með formlegum hætti Jóhann Karl sem væntanlegan konung Spánar. Jóhann Karl bjó á þeim tíma tiltölulega einangraður í Zarzuelahöllinni í Madrid en fylgdist þó náið með gangi spænskra þjóðmála og á síðustu árunum sem Franco lifði vann Jóhann Karl að því að undirbúa Spán undir væntanlegt lýðræði. Franco lést 1975 og tveimur árum síðar hlaut konungsveldið endanlega viður- kenningu þegar þingið samþykkti nýja stjómarskrá. Mönnum ber saman um það að Jóhann Karl sé farsæll konungur sem hafi al- mennan stuðning þegna sinna. Árið 1981 fól í sér eldraun fyrir hið þingbundna konungsveldi á Spáni. En í febrúar það ár hertók hópur þjóðvarðliða þingið undir forystu Antonio Tejera. Þing- mennirnir voru hafðir í haldi heila nótt en valdaránstilraunin mistókst. Jóhann Karl er sagður hafa átt stóran hlut í því að það tókst að koma á lögum og reglu á nýjan leik og treysti hann stöðu sína meira en nokkru sinni fyrr eftir þessa atburði. Það orð fer af Jóhanni Karli Spánar- konungi að hann sé ábyrgðarmikill og látlaus og er hann vel liðinn af þegnum sínum en hann er fyrst og fremst samein- ingartákn þjóðarinnar. Segja má að hlut- verk hans sé svipað og forseta íslands. Konungurinn staðfestir og setur lög, kallar saman þingið og slítur því. Einnig skipar hann forsætisráðherra eða leysir þá frá störfum að höfðu samráði við fulltrúa stjórnarflokkanna, hann gefur út lagasetningar ríkisstjórna. Konungurinn hefur á höndum æðstu stjórn hersins og er jafnframt æðsti fulltrúi spænska ríkis- ins í alþjóðlegum samskiptum. Með talstöð í höllinní Áhugamál Spánarkonungs eru mjög mörg og fjölbreytileg. Skíðaíþróttin og siglingar eru í sérstöku uppáhaldi og hefur hann unnið til verðlauna fyrir hið síðarnefnda. Einnig má nefna að Jóhann Karl hefur mikinn áhuga á fjarskiptum og hefur hann komið sér upp talstöð í Zarzuelahöllinni, aðsetri konungsfjöl- skyldunnar í Madrid. Auk þess hefur konungurinn áhuga á hestamennsku, flugi og ljósmyndun. Jóhann Karl er mikill málamaður og talar reiprennandi auk spænskunnar: frönsku, ensku, portúgölsku og ítölsku. Einnig er hann vel að sér í þýsku og grísku. Spænsku konungshjónin eiga þrjú börn; Elenu sem fædd er 1963, Christinu sem fædd er 1964 og ríkiserfinginn Felipe sem fæddur er 1968. Framhald heimsóknarinnar í dag fara konungshjónin ásamt fylgd- arliði til Vestmannaeyja þar sem farið verður í skoðunarferð um Heimaey, auk þess verður frystihúsið og höfnin skoðuð. Heimsókninni til Vestmannaeyja lýkur um hádegisbilið. Um klukkan hálftvö hefst hádegisverður að Kjarvalsstöðum sem borgarstjórahjónin halda konungs- hjónunum til heiðurs. Þar munu kon- ungshjónin skoða sýningu á verkum Jó- hannesar Kjarval. Þar næst verður haldið á Stofnun Árna Magnússonar en að þeirri heimsókn lokinni verður móttaka kon- ungshjónanna á Hótel Sögu fyrir Spán- verja sem búsettir eru hér á landi. í kvöld munu konungshjónin bjóða til kvöld- verðar að Hótel Loftleiðum til heiðurs forseta íslands. Á morgun, sem er lokadagur heim- sóknarinnar, munu konungshjónin heimsækja Nesjavelli og fara til Þingvalla og snæða hádegisverð í Valhöll í boði Steingríms Hermannssonar forsætisráð- herra. Að honum loknum halda konungs- hjónin til Keflavíkurflugvallar og er áætl- að að þau haldi af landi brott klukkan 16. ........ ................. ................-----------.—------ ■ - ............. —i _

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.