Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. mars 2006 | 7 „Ég er hetja. Það er auðvelt að vera hetja. Ef þú hefur hvorki hendur né fætur ertu hetja eða dauður. Ef þú ert foreldralaus, verður þú að treysta á hendur þínar og fæt- ur. Og að vera hetja. Ef þú hefur hvorki hendur né fætur, og ert þar að auki mun- aðarlaus þá er það ákveðið. Þú ert dæmdur til að vera hetja eins lengi og þú lifir. Eða geispa golunni. Ég er hetja. Það er enginn önnur leið. Ég er lítill drengur. Það er nótt. Vetur. Ég þarf að fara á klósettið. Það er tilgangslaust að kalla á umsjónarkonuna. Eina lausnin er að skríða sjálfur á klósettið. Fyrst þarf ég að klifra niður úr rúminu. Það er til aðferð, ég komst að henni sjálfur. Ég skríð bara fram að rúmkantinum, rúlla mér á bakið og dett niður á gólf. Fall. Sársauki. Ég skríð að hurðinni út að ganginum, ýti henni upp með höfðinu og skríð út úr volgu herberginu í kuldann og myrkrið. Á nóttunni eru allir gluggar í ganginum opnir. Það er kalt, mjög kalt. Ég er nakinn. Það er langt að skríða. Þegar ég skríð framhjá herberginu þar sem fóstrurnar sofa reyni ég að kalla á hjálp, banka með höfðinu á dyrnar þeirra. Ekkert svar. Ég öskra. Þögn. Kannski öskra ég ekki nógu hátt. Þeg- ar ég kem að klósettinu verður mér í alvör- unni kalt. Inni á klósettinu eru gluggarnir opnir, snjór á kistunum. Ég kem mér að koppnum. Hvíli mig. Ég verð að hvíla mig áður en ég held tilbaka. Á meðan ég hvíli mig frýs yfirborð hlandsins í koppnum. Ég skríð til baka. Dreg teppið frá rúminu með tönnunum. Einhvern veginn tekst mér að komast upp í það og reyni að sofna aftur. Morguninn eftir er ég klæddur og færður í skólann. Í sögutímanum segi ég nákvæmlega frá hörmungum á tímum fasista í útrýming- arbúðum. Ég fæ bestu einkunn. Það fæ ég alltaf í sögu. Ég er hetja.“ Hinn þekkti Ignacio Gallego Blm.: Hafði afi þinn, hinn þekkti Ignacio Gallego, aldrei samband við þig? RG: „Eitt sinn horfði ég á sjónvarpið og sá Ignacio Gallego óska Gorbatjov til hamingju með að hafa verið kosinn aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Þá sagði strákur við mig: „Heyrðu er þetta ekki hann afi þinn?“ Og ég svaraði; „Ef þetta væri afi minn, held- ur þú að ég sæti hérna og æti þetta sull með þér?““ Þegar Ruben var sautján ára mútaði hann starfsmanni með einni vodkaflösku til þess að fá að skoða skjölin um sig. RG: „Þá komst ég að því að Ignacio var afi minn. Ég á aldrei eftir að skilja hvers vegna hann yfirgaf mig.“ Þá var Ruben orðinn of gamall fyrir barnaheimili og var komið fyrir með öldr- uðum. Hann vissi eins og allir aðrir að elli- heimilið væri endastöð. Þangað voru fötluð börn send sem ekki gátu unnið „eitthvað nyt- samlegt“. Á elliheimilinu voru allir hræddir við að lenda á þriðju hæðinni. Þangað voru þeir fluttir, sem voru taldir hafa lifað of lengi, til að deyja. Ruben bjó í fjögur ár á elliheim- ilinu innan um deyjandi, gamalt fólk áður en honum tókst að komast í burtu. Blm.: Ferð þú oft til Rússlands? RG: „Nei ég hef ekki farið lengi og fer aldrei þangað. Ástæðan er sú að ég er veikur og ef eitthvað kemur upp á get ekki fengið þá hjálp sem ég fæ í Þýskalandi. En ég aðstoða eins og ég get þá sem hjálpa fötluðum börnum í Rússlandi.“ Blm: Hvert geta Íslendingar sem lesa þetta og vilja leggja eitthvað af mörkum snú- ið sér? RG: Það er hjálparstofnun sem vinur minn rekur. www.murzik.ru Þeir kynna sér að- stæður á heimilum vel og setjast síðan niður til þess að ræða það hvernig best er að hjálpa þessum börnum. Síðan er bæði á ensku og rússnesku. Það er mikilvægt að vera skipulagður og vita hver markmiðin eru. Ekki bara að kaupa eitthvert dót – en svo breytist ekkert. Nú lifa mörg fötluð börn betra lífi, hafa fengið tölvur og menntun, vegna þessara samtaka. Aðstæður barna í Rússlandi er þó enn langt á eftir því sem fötluð börn í Evr- ópu lifa við. Sem betur fer eru sumir af þeim ofurríku í Rússlandi tilbúnir til að aðstoða. Peningar eru mikilvægir en mikilvægastar eru þó alltaf góðar manneskjur,“ segir Rub- en og við ákveðum að það verði lokaorð hans í þessu viðtali. Þó ekki alveg, heldur tökum við síðustu orðin úr formála hans að bókinni Hvítt á svörtu. „Persónur bókarinnar eru sterkar, mjög sterkar. Manneskjan þarf oft að vera sterk. Og góð. Það eru ekki allir sem geta leyft sér að vera góðir, það eru ekki allir sem geta klifrað yfir hinn almenna múr skilningsleys- isins. Allt of oft er góðmennska talin veikleiki, það er sorglegt. Það er erfitt, mjög erfitt að vera manneskja, en það er algerlega mögu- legt. Til þess er ekki nauðsynlegt að rísa upp á afturfæturna. Alls ekki. Það er mín trú.“ Á tveimur málþingum með fólki sem lætur sig menningarmál varða hef ég nýlega heyrt því slegið fram að stefna Íslend- inga sé að virkja náttúruna en vernda menninguna, og spurt var hvort þetta ætti ekki að vera öfugt. Með fullyrðingunni er gefið í skyn að ráðandi öfl á Íslandi vilji hvorki vernda náttúruna né virkja menninguna. Ég ætla ekki fjalla um náttúruna, þótt ég telji hér um fullmikla einföldun að ræða á því sviði, en láta mér nægja að tala um menninguna. Í umræðu um menninguna held ég að hér sé á ferð sambland af hugsunarskekkju og áróðri, enn eitt dæmið um að orðaleppar taka völdin frá hugsuninni, fordómar völdin af viljanum til að skilja. Menningin er ekki aðeins sjálfbær auðlind heldur er hún þeim eiginleikum gædd að því meiri auður sem sóttur er til hennar því meira eflist hún. Ýmsir þeirra sem á síðustu vikum hafa tjáð sig um menningarmál, menningararf og íslenska tungu hafa látið að því liggja með fleiri orðum en ég vitnaði til í upphafi að ríkjandi sé hér sú stefna að loka menningar- arfinn og tunguna inni, vernda fyrir sam- skiptum við umheiminn og jafnvel íbúa lands- ins sjálfa. Við hefur borið að nefnd hefur verið fyrirhuguð rannsóknastofnun í íslenskum fræðum og hús henni ætlað sem eins konar tákn um undarlega stefnu stjórnvalda, og jafn- vel hefur fólk nefnt Árnastofnun, þá stofnun sem ég veiti forstöðu, sem eins konar dæmi um þessa stefnu. Ástæðan til að ég finn mig knúinn til að taka þátt í umræðunni er þó ekki eingöngu umhyggja fyrir viðgangi stofnana heldur fyrir menningunni yfirleitt og auðugra mannlífi í þessu landi, og reyndar heiminum öllum. Hið táknræna upphaf Þegar um menningarverðmæti er að ræða er engin andstæða milli þess að vernda og virkja. Til að skýra þetta skal ég taka dæmi af starf- semi á sviði íslenskra fræða. Flestir Íslend- ingar hafa heyrt talað um handritin Konungs- bók eddukvæða og Flateyjarbók. Flutningur þeirra til Íslands og afhending til Háskóla Ís- lands og Handritastofnunar, nú Árnastofn- unar, 21. apríl 1971 var táknrænt upphaf á skilum íslenskra handrita úr dönskum söfnum, og fyrir mörgum Íslendingi á þeim tíma var sá dagur til marks um lokasigur í viðleitni Íslend- inga til að verða sjálfstæð þjóð. Allt frá því að þessar bækur komu til lands- ins hefur mikið kapp verið lagt á að vernda þær og varðveita sem best. Þær eru nú báðar á sýningu Árnastofnunar í Þjóðmenningarhúsi ásamt fleiri gersemum úr söfnum stofnunar- innar. Þar er þeirra gætt dag og nótt, og að- búnaður er slíkur að hvorki tímans tönn né óhöpp eða illvirki eiga að geta grandað þeim. Ætli allir geti ekki verið sammála um að slík verndun sé sjálfsögð þótt hún kosti talsvert fé? Ég tek þetta sem dæmi, en á söfnum um allt land eru nær óteljandi munir sem flestum finnst tilheyra menningararfleifð okkar, og vörslumenn þeirra leggja allt kapp á að varð- veita þá og vernda sem best. En er þetta allt sem við gerum og allt sem við ættum að gera? Auðvitað ekki, og auðvelt er að sýna fram á að svo er ekki. Þótt Kon- ungsbók eddukvæða sé tryggilega lokuð inni í glerbúri er samt hægt að sjá hana, þúsundir skólabarna koma í Þjóðmenningarhúsið á hverju ári og fá að sjá þessa bók, fræðast um hana og forna bókmenningu okkar af Svan- hildi Gunnarsdóttur safnkennara Árnastofn- unar. Auk þess koma líklega allt að tuttugu þúsund manns, íslenskir og erlendir, í húsið árlega og sjá þá handritasýningu meðal ann- ars. Fyrir átta árum bjó einn af starfsmönnum Árnastofnunar, Gísli Sigurðsson, kvæðin í þessari bók til prentunar með nútímastafsetn- ingu og skýringum. Útgáfa hans eða úrval úr henni er oft á metsölulista íslenskra ljóðabóka. Árið 2001 kom út ný ljósprentun handritsins ásamt tveimur textum, annar líkir nákvæm- lega eftir stafsetningu handritsins, hinn sem prentaður er á sömu opnu birtir hverja línu með nútímastafsetningu. Þessari útgáfu var fylgt úr hlaði með inngangi um sögu bók- arinnar og sérstöðu hennar. Hún var prentuð í 500 eintökum og seldist upp á einu ári. Nú vinnur hópur ungra fræðimanna að því á Árnastofnun að gera rafræna útgáfu bók- arinnar sem mun stórbæta aðstöðu fræði- manna um allan heim til rannsókna á þessu einstæða handriti, máli þess og efni. Fleira af svipuðu tagi mætti nefna, en Árnastofnun sinnir ekki bara því sem fyrir er frægt. Nýlega gaf stofnunin út verk ungrar fræðikonu, Að- alheiðar Guðmundsdóttur, Úlfhams sögu – ævintýrasögu sem á rætur á miðöldum og hef- ur varðveist sem rímur og sögur ritaðar á seinni öldum – og rækilega rannsókn á sög- unni. Þetta efni, sem áður var mjög lítið þekkt, tók Hafnarfjarðarleikhúsið til meðferðar og vann á þeim grunni rómaða sýningu. Árna- stofnun varðveitir fleira en handrit; þar eru til á hljóðböndum meira en 2000 klukkustundir af efni sem tekið hefur verið upp eftir fólki um allt land. Við reynum að varðveita böndin vel, vernda þau frá skemmdum, en jafnframt eru þau þannig skráð að hægt er að leita í safninu og finna á augabragði það sem leitað er að. Í samvinnu við Bjarka Sveinbjörnsson og fleiri eldlega áhugamenn um tónlistarsögu er nú verið að gera sumt af efninu aðgengilegt á Netinu. Við höfum í samvinnu við Smekkleysu gefið út diskinn Raddir með efni úr safninu, annar diskur með efni handa börnum er vænt- anlegur. Hámenntaðir tónlistarmenn, eins og t.d. Snorri Sigfús Birgisson, Pétur Grétarsson og Sigurður Flosason, en einnig popparar og almennir áhugamenn, sækja í þetta safn inn- blástur og efnivið í nýja listsköpun, nýja ís- lenska menningu sem verður arfur komandi kynslóða. Í handritunum er mikið af myndlist, og væntanlega er hjá stofnuninni á allra næstu árum ljósprentuð útgáfa Íslensku teiknibók- arinnar með rækilegri rannsókn Guðbjargar Kristjánsdóttur sem varpar nýju ljósi á ís- lenska og evrópska listasögu. Tenging nútíðar og fortíðar Ég skal ekki einskorða mig við mína stofnun. Á Orðabók Háskólans og Örnefnastofnun Ís- lands hefur um langt skeið verið unnið að því að safna íslenskum orða- og nafnaforða, skrá og varðveita. En starfið stefnir ekki að því að loka orðin inni eða vernda þau fyrir notkun. Báðar þessar stofnanir nota Netið til að veita almenningi aðgang að söfnum sínum, starfs- mennirnir rita greinar og gefa út bækur með rannsóknum á þessu efni, og á Orðabók er nú unnið að nýju norrænu orðabókarverkefni, Orðabókin tekur einnig þátt í samstarfi um nýja fræðigrein, tungutækni, og allar þessar stofnanir taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi. Sams konar dæmi mætti taka af öðrum stofnunum, og er skemmst að minnast nýrrar grunnsýningar Þjóðminjasafns og stór- fróðlegs rits sem gefið var út í tilefni af sýning- unni. Þá má nefna sýningu úr myndlist síðari alda frá í fyrra og tengt henni rit Þóru Krist- jánsdóttur, Mynd á þili, sem birtist í fyrra með nýjum uppgötvunum um íslenska listasögu. Um allt land eru söfn, byggða- og héraðasöfn eða sérsöfn. Flest eiga þau sér rætur í starfi áhugamanna sem vildu bjarga minjum um at- vinnu- og lifnaðarhætti sem voru að hverfa. Þau gátu þess vegna orðið nokkuð einsleit og sýningarstefnan ógagnrýnin, aðalatriðið að sýna sem flesta gripi. Nú eru runnir upp tímar fagmennsku og sérhæfingar á þessu sviði, fag- mennsku sem þó hvílir á samstarfi við áhuga- menn og leiðir til aukinnar fjölbreytni og lífs í þessari starfsemi. Mikilvægi hennar felst ekki síst í því að hún varðveitir og virkjar menning- ararf ákveðinna byggðarlaga og tengir saman nútíð og fortíð átthaganna jafnframt því sem hún laðar að ferðamenn. Mikilvægt er að hafa í huga að starf þeirra stofnana sem varðveita menningararf og rann- saka getur ekki og má ekki snúast eingöngu um kynningu, um starf sem hefur áhrif sam- stundis. Á rannsóknastofnunum fer mest orka í grunnrannsóknir sem taka langan tíma og skila afrakstri fyrst og fremst til fræða- samfélagsins. Röng eða óheppileg stefna í menningarmálum stafar oft af því að menn skilja menningu sína ekki nógu vel, fylgjast ekki nógu vel með alþjóðlegum rannsóknum og viðhorfum. Þess vegna eru grunnrann- sóknir mikilvægar og þarfnast öruggra og öfl- ugra stofnana sem geta verið aðilar að al- þjóðlegu samstarfi. Ég fullyrði að þótt Árnastofnun sé og vilji vera þjóðleg stofnun er hún jafnframt ein alþjóðlegasta fræðastofnun landsins. Nafn hennar og verk er þekkt um all- an heim þar sem svo kölluð germönsk fræði og önnur evrópsk miðaldafræði eru stunduð, og fræðimenn úr öllum heimshlutum sækjast eft- ir starfsaðstöðu og samvinnu við stofnunina. Á stofnuninni hefur skapast góð og aðlaðandi rannsóknaaðstaða, stofnunin varðveitir ómet- anleg rannsóknagögn, og verk sem frá henni koma eru viðurkennd að gæðum. Mér leiðist skrum og sjálfshól, en svo oft hef ég að undanförnu heyrt vikið að Árnastofnun eða fyrirhuguðu húsi yfir nýja stofnun eins og eins konar tákni um gamaldags þjóðern- isverndarstefnu að ég fæ ekki orða bundist, en hef þó ekki sagt nema fátt eitt af starfsemi stofnunarinnar og ekki ýkt neitt af því sem ég hef sagt. Ekkert er hættulegra viðgangi menningar- og fræðastofnana en þröngsýni og öfund sem veldur því að menn sjá ofsjónum yf- ir öllu sem gert er til að styðja aðra starfsemi en þá sem menn sjálfir fást við. Óbeint tengist þetta allt umræðunni um ís- lenska tungu. Þeir sem drótta því að áhuga- fólki um velferð hennar að það vilji vernda tunguna en ekki virkja sköpunarmátt hennar virðast ekki skilja um hvað málið snýst. Málið snýst um það að í þessu tungumáli eigum við ómetanlegan menningararf. Hann eyðist ekki heldur eflist þegar við notum hann. Okkur má ekki vera sama um hann, þess vegna viljum við reyna að tryggja það að óslitinn þráður í notk- un málsins liggi frá einni kynslóð til annarrar. Sigrar íslenskrar tungu eru margir í nútíman- um. Hún hefur haft sköpunarmátt til að laga sig að nýjum samfélagsháttum og nýrri menn- ingu. Á tærri og fagurri íslenskri tungu yrkja nú skáld eins og Þorsteinn frá Hamri, sem ég tel að sé með nýjustu bók sinni í Nób- elsverðlaunaflokki, þótt hann fái naumast slík verðlaun, amk. ekki meðan landar hans taka ekki eftir því sem frá honum kemur. Af ís- lensku leiksviði hljómar íslenska oft kröftug og skýr af vörum ungra leikara sem stundum hafa sótt menntun sína að hluta til annarra landa og bera ófeimnir list sína á borð fyrir heiminn. Um allan heim er fólk sem vill læra íslensku, ýmist vegna áhuga á tungunni sjálfri eða bókmenntum okkar og menningu. Menn- ingin er auðvitað miklu meira en tungan og bókmenntirnar; hún verður sífellt fjölbreyttari og finnur sér æ fleiri tjáningarleiðir í myndum og formum, tónum og hreyfingu, athöfnum og skipulagi. Vernda og virkja Er þetta sjálfshól og skrum? Ég held ekki. Við erum ekkert betri eða merkilegri en aðrar þjóðir, afrek forfeðranna hjálpa okkur ekkert ef við erum ekki fær um að skapa sjálf; tungan okkar er bara er ein af fjölmörgum menning- artungum heimsins, og bókmenntirnar eru góðar en lítið þekktar utan Íslands, aðrar menningarafurðir nánast óþekktar. Umfram allt er Ísland gott fyrir okkur sem hér búum, íslenskan er gott mál fyrir okkur sem eigum hana að móðurmáli og verður vonandi líka smátt og smátt gott mál fyrir fólk með önnur móðurmál sem sest hér að eða lærir hana ann- ars staðar. Við höldum henni á lífi og eflum hana með því að nota hana og vanda okkur við notkun hennar. Íslensk menning er góð fyrir Íslendinga. Hún hefur alltaf átt sér bæði inn- lendar og erlendar rætur og verið sterkust og frjóust þegar hið íslenska og aðkomna hafa mæst og tekist á. Ég trúi því að íslensk tunga og íslensk menning muni verða til eftir hundr- að ár, en ég get ekki séð fyrir hvernig tungan og menningin verða, því að hvort tveggja mun breytast. Hitt er ég sannfærður um að bæði tungan og menningin í heild verða auðugri og virtari af Íslendingum sjálfum og öðrum ef við berum gæfu til að vernda frá glötun það sem verðmætast er og kostum kapps um að virkja það til að auðga okkur sjálf og heiminn. Að vernda eða virkja? Hugleiðingar um menningu, tungu og stefnu Eftir Véstein Ólason vesteinn@hi.is Höfundur er forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. Vésteinn Ólason

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.