Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 3
K alda stríðið snerist um stjórn- málastefnur og var háð milli tveggja þjóðfélagskerfa. Marxískir leiðtogar í Moskvu trúðu á það, sem þeir töldu vísindaleg sannindi kenninga Marx, að hinn kapítalíski heimur myndi líða undir lok vegna innanmeina, nýrrar kreppu og innbyrðis átaka. Framtíðin væri þeirra. Draumurinn varð að engu, eftir að lýðræð- isríkin undir forystu Bandaríkjanna tóku höndum saman gegn vígvæðingu og útþenslu Sovétríkjanna á fimmta áratugnum, stofnuðu Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 1949 og efldu samstöðu sína sem mest þau máttu. Sanntrúaðir kommúnistar og sósíalistar vildu Sovét-Ísland og börðust fyrir því leynt og ljóst. Þeim þótti óbæri- legt, að íslensk stjórn- völd skipuðu þjóðinni í sveit vestrænna lýðræðisþjóða með stofnaðild að NATO. Reiðin braust út 30. mars 1949 með óeirðum á Austurvelli í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, að alþingismenn samþykktu NATO- aðildina. Engin mótmæli hér á landi síðan hafa jafnast á við þessa aðför að lýðræðislegum stjórnarháttum. Eftir innrás sovéska hersins í Ungverjaland árið 1956 gegn friðsamri frelsishreyfingu landsmanna, sáu ýmsir vinstrisinnar villu síns vegar og snerust á sveif með stuðnings- mönnum vestrænnar samvinnu. Hið sama gerðist eftir að Sovétmenn réðust inn í Prag árið 1968 til að kæfa „vorið“ þar með hervaldi. Í ljósi sögunnar var þó með ólíkindum að fylgj- ast með viðbrögðum þeirra sósíalista hér, sem töldu sér sæma að taka upp hanskann fyrir Leonid Brezhnev, leiðtoga sovéska komm- únistaflokksins, og samherja hans vegna inn- rásarinnar. Þá kom Brezhnev-kenningin til sögunnar en henni var ætlað að hafa fæling- argildi gagnvart öðrum þjóðum undir sósíal- isma – þær yrðu að sætta sig við hernaðarlegt íhlutunarvald Kremlverja, færu þær út fyrir þann hugmyndafræðilega ramma, sem þeir settu. Innan Sovétríkjanna sjálfra voru ein- staklingar kúgaðir á þann veg, að hópum sam- an reyndu þeir að flýja þaðan. Sumum tókst það og þeirra á meðal var Vladimir Ashkenazy píanóleikara, sem varð íslenskur ríkisborgari. Síðar söfnuðum við nokkrir undirskriftum undir bréf til Brezhnevs með ósk um að faðir Ashkenazys fengi leyfi til að heimsækja son sinn og Þórunni Jóhannsdóttur konu hans og börn þeirra á Íslandi. Árið 1987 hitti ég frægasta sovéska and- ófsmanninn, nóbelsverðlaunahafann Andrei Sakharov og konu hans Jelenu Bonner, á heim- ili þeirra í Moskvu. Það er ógleymanleg stund. Sakharov leit ekki á mannréttindabaráttu sína aðeins sem mannúðarmál heldur sem lið í að styrkja alþjóðlegt öryggi. Hann sagði: „Ríki, sem virðir ekki rétt eigin borgara, virðir ekki rétt nágranna sinna.“ Sakharov sagði einnig, að heimurinn gæti ekki treyst á leiðtoga, sem sæktu ekki traust til eigin þjóðar. Fyrir skoð- anir á borð við þessar var hann dæmdur í stofufangelsi í borginni Gorkí og þeim hjónum var meðal annars refsað með því að neita Je- lenu að leita sér lækninga í Bandaríkjunum. Andrei Sakharov lifði ekki upplausn Sov- étríkjanna og sovéska kommúnistaflokksins. Upprifjun um heimsókn mína til þeirra Sakha- rov-hjónanna og þessi ár vekja þakklæti til manna eins og þeirra, manna, sem risu gegn ofríkinu á heimavelli þess og létu ekki bugast. Þótt víða væri barist fyrir frelsi og lýðræði andspænis kúgunarvaldi heimskommúnism- ans, jafnaðist sú barátta ekki á við það, sem einstaklingar bak við hin lokuðu landamæri al- ræðisins lögðu í sölurnar. Íslendingum er fjarlægt að ræða um hern-aðarleg málefni og vígbúnaðarmál.Stundum mætti halda af umræðum sam- tímans um kalda stríðið, að hér hefði það snúist um eitthvað allt annað en baráttu gegn ofríki alræðisins af hálfu okkar lýðræðissinna. Hvað sem því líður er víst, að deilur á innlendum vettvangi snerust oft upp í innantómt karp og slagorðaflaum eða ofsafengna NATO- og Bandaríkjaóvild. Samanburðarfræði sósíalista í uppgjöri á milli risaveldanna byggðist á því að sanna, að Bandaríkin væru að minnsta kosti ívið verri en Sovétríkin. Öll kalda stríðs árin stóðu Sjálfstæðisflokk- urinn og Morgunblaðið vörð um varnarsam- starfið við Bandaríkin og aðildina að NATO. Frásögnum blaðsins af því harðræði, sem gerðist innan sovéska heimsveldisins var ein- faldlega mótmælt sem lygi og til varð hugtakið „Moggalygi“. Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur hefur skráð ævisögu Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og birtir þar lista yfir helstu skammaryrðin, sem Valtýr og aðrir málsvarar vestrænnar samvinnu fengu yfir sig á síðum Þjóðviljans: landráðamenn, auðvaldsleppar, kvislingar, lygarar, skósveinar, bullur, þjóðn- íðingar, landsölumenn, vesalmenni, leiguþý, mútuþegar, svikarar, agentar, æsingamenn, falsarar, hyski, böðlar, níðingar, hræsnarar, kúgarar, illþýði, rindlar, fantar, utanveltube- sefar, ragmenni, leppar Bandaríkjaauðvalds- ins, fól, ærulaus ræksni, meinsærismenn, fífl, arftakar Júdasar, úrhrök þjóðfélagsins. Magnús Kjartansson var ritstjóri Þjóðvilj- ans á tímum innrásarinnar í Tékkóslóvakíu og ritaði á þessum árum pistlana Frá degi til dags í blað sitt undir dulnefninu Austri og voru þeir síðan gefnir út á bók Elds er þörf. Matthías Jo- hannessen, skáld og ritstjóri, sagði í grein vegna bókarinnar: „Þegar ég nú les Austra-pistlana aftur spyr ég sjálfan mig: getur verið að maður hafi sóað hluta ævi sinnar í þetta einskisverða rutl? Ó – já, ekki ber nú á öðru. En kannski var þetta karp ekki alveg einskis virði, þegar öllu er á botninn hvolft....Af nafnaskrá Frá degi til dags má sjá, að Magnús hefur lengst af einkum haft þrjá menn að skotspæni, Bjarna Benediktsson, Gylfa Þ. Gíslason og mig. Ég er upp með mér af þessum félagsskap. Það er ekki amalegt að vera í hópi slíkra forystumanna lýðræðissinna á Íslandi. Og það er í slíkum eldi sem ungir menn herðast.“ Útlegging Magnúsar á innrásinni í Prag var í anda samanburðarfræðanna. Þótt Kremlverj- ar væru slæmir væru Morgunblaðsmenn þó verri: Matthías hefði heimtað, að Rússar réð- ust inn í Tékkóslóvakíu, hefði hann verið rit- stjóri í Prag. Um þetta segir Matthías: „Magn- ús leggur að jöfnu að stuðla að vörnum og öryggi Íslands í samfélagi vestrænna lýðræð- isþjóða og vera sovézkur leigupenni landráða- manna í Prag. Ég hef ekki andlegt þrek til að ræða þennan fíflaskap.“ Þannig var á þessum árum leitast við að bera blak af Sovétríkjunum. Forðast var að ræða mál á skynsamlegan hátt, öllu var strax snúið á haus, málefnalegum rökum var hafnað og þau afbökuð með slagorðum og orðaleppum. Skammir í íslenskum fjölmiðlum og ástjórnmálavettvangi hafa oft verið alls-vakalegar, frá því að nútímastjórnmál hófust í byrjun 20. aldar. Þær hafa gengið í bylgjum. Hart var barist á heimastjórnarár- unum og Jónas Jónsson frá Hriflu var oft heift- úðugur í garð andstæðinga sinna. Hitann í ís- lenskum stjórnmálum í kalda stríðinu má skýra með vísan til umræðuhefðar, skylming- arnar þá eru ekki einangraðar í sögulegu ljósi. Bylgjan gekk yfir og vissulega er ástæða til að skoða, hvað hún skildi eftir sig. Um leið og það er gert má spyrja: Hvernig við komum undan kalda stríðinu? Umræðu- hefðin – hefur hún breyst? Átakamálin eru vissulega önnur og sjálf- stæði ríkja og frelsi þjóða ekki í húfi. Í stjórn- málum innanlands er ekki tekist á um, hvort frekar eigi að fylgja stefnu kapítalista eða kommúnista. Nú er deilt um mismunandi út- færslur á kapítalisma. Á hinn bóginn skiptast menn enn í fylkingar, hart er deilt og ekki allt- af vandað til vopnaburðar. Á tímum kalda stríðsins gætti þess, að vinstrisinnaðir menntamenn töldu sig oft hafa undirtökin í umræðunum og flíkuðu þeir því jafnvel, að þeir væru í senn gáfaðri og meiri Ís- lendingar en andstæðingar þeirra. Þótti þeim ekki lítils virði að vera í liði með nóbels- verðlaunahafanum Halldóri Laxness í þessum átökum, á meðan hann lét þau sig skipta. Enn eimir eftir af slíku yfirlæti í opinberum um- ræðum hér og tilraunum til að beita frekar stíl- brögðum og ofsa en málefnalegum rökum, þeg- ar öryggismál þjóðarinnar ber á góma. Þegar litið er á samtímaátök má nefna: 1. Orðaleppum er enn beitt. Eftir að ég hafði kynnt matsskýrslu sérfræðinga Evrópusam- bandsins í hryðjuverkavörnum var ég kall- aður „laumufasisti“ af Þráni Bertelssyni og „hægriöfgamaður“ af Guðmundi Stein- grímssyni dálkahöfundum Fréttablaðsins. 2. Andúð á Bandaríkjunum. Í nýlegri blaða- grein segir Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Við- skiptaháskólans á Bifröst, Bandaríkin hafa „svo gott sem breyst í lögregluríki“. 3. Leitast er við að grafa undan trausti í garð stjórnvalda með ómaklegum árásum á rík- islögreglustjóra og starfsmenn embættis hans. 4. Fámennur hópur forystumanna sætir árás- um þeirra, sem þola illa ríkjandi ástand. Í stað þess að verja hagsmuni stórveldis gætir þess helst, að menn telji sig þurfa að halda fram málstað stórfyrirtækja til að bæta mannlífið á Íslandi. 5. Ofsafengin og ósanngjörn viðbrögð við ævi- sögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólm- stein Gissurarson. Hannes var sagður „boð- flenna“ í menningarlegu samfélagi, sem taldi sig ekki þurfa að þola slíka gesti. Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðiðstanda enn fyrir sínu og komu vel undankalda stríðinu. Moggalygin reyndist sönn og stefna flokks og blaðs í varnar- og ör- yggismálum skilaði því, sem að var stefnt. Frelsi og öryggi þjóðarinnar var tryggt og hún náði markmiðum sínum í utanríkismálum, en þar skipti útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur mestu. Þróun þjóðmála frá 1991 hefur verið á þann veg, að Sjálfstæðisflokkurinn getur vel við un- að. Sjálfstæðismenn hafa verið í ríkisstjórn öll árin síðan, lengst undir farsælu forsæti Davíðs Oddssonar. Þrír stjórnmálaflokkar hafa horfið á þessu tímabili, Alþýðubandalag, Alþýðu- flokkur og Kvennalisti, og þrír nýir komið í þeirra stað, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylk- ingin og vinstri/græn. Lyktir kalda stríðsins drógu erfiðari dilk á eftir sér fyrir vinstrisinna á Íslandi en okkur, sem hvikuðum aldrei og héldum okkar striki. Tilraunir vinstrisinna til að mynda eina fylk- ingu gegn Sjálfstæðisflokknum runnu út í sandinn. Með brotthvarfi Alþýðubandalags og Alþýðuflokks hurfu málgögn þeirra Þjóðviljinn og Alþýðublaðið. Þegar Matthías Johannessen lét af störf-um ritstjóra 3. janúar 2001 sagði í for-ystugrein Morgunblaðsins: „Á dimmum dögum kalda stríðsins átti Matthías Johannessen manna mestan þátt í að opna Morgunblaðið fyrir skáldum og rithöf- undum, sem voru ekki allir tilbúnir til að láta draga sig í dilka. Kalda stríðið var ekki síður háð á vettvangi menningarlífsins en stjórnmál- anna. Þegar Morgunblaðið birtist sem öflugur málsvari frjálsrar menningar beindu andstæð- ingarnir ekki sízt spjótum sínum að hinum unga ritstjóra, sem hafði rekið fleyg í raðir þeirra. Það voru erfiðir tímar fyrir skáld, sem um skeið var ekki dæmdur af verkum sínum heldur á pólitískum forsendum. Samt var það svo við lok kalda stríðsins, þeg- ar yngri samstarfsmenn Matthíasar höfðu til- hneigingu til að láta kné fylgja kviði, að hann hvatti til umburðarlyndis og sátta gagnvart þeim, sem höfðu hvað harðast vegið að honum sjálfum á vettvangi menningarlífsins.“ Ég er sammála þessum orðum um hlut Matthíasar og afstöðu hans. Ég lét af störfum á Morgunblaðinu um svipað leyti og Sovétríkin hurfu. Á tímum kalda stríðsins ríkti ekki sá andi á blaðinu, að kné væri látið fylgja kviði í umræðum um andstæðinga stefnu blaðsins. Að það sé gert að því loknu með því að ræða opið og af hreinskilni um hlut þeirra, sem urðu und- ir í stríðinu, er að sjálfsögðu fráleitt. Í eftirmála Í hita kalda stríðsins, safns greina eftir mig, sem kom út árið 2001, sakna ég þess, að Morgunblaðið hafi ekki fjallað um kalda stríðið á sama veg og um öryggismál þjóðarinnar á níunda áratugnum, það er brjóta atburði þess til mergjar og ræða þá. Hverjum stendur nær en Morgunblaðinu að benda á sannleikann, sem kallaður var „Moggalygi“ í kalda stríðinu? Ígrein um Valtý Stefánsson á aldarafmælihans 1993 sagði Matthías Johannessen,að það gæfi augaleið að stærsta blað þjóð- arinnar, Morgunblaðið, hlyti að taka stakka- skiptum hvað varðar þjóðfélagsumræður og af- stöðu til einstakra flokka og málefna við lyktir kalda stríðsins. Í tíð Valtýs hefði Morgunblaðið átt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en nú væri slíku samstarfi ekki til að dreifa, þótt sjálf- stæðisstefnan væri sameiginlegt hugsjónamál blaðs og flokks, það er frelsi einstaklingsins og olnbogarými fyrir athafnamenn í aðbún- aðargóðu þjóðfélagi. Að vísu virtust nú flestir flokkar fylgja þessari stefnu að einhverju leyti, þó blæbrigðamunur væri á stefnumörkun. Morgunblaðið hefur ekki síður en Sjálfstæð- isflokkurinn orðið að berjast hart síðustu 15 ár. Ein harðasta orrahríðin á stjórnmálavettvangi hefur einmitt staðið um það, hvort setja eigi löggjöf til að tryggja skoðanafrelsi með dreifðu eignarhaldi á fjölmiðlum. Morgunblaðið er nú eina dagblaðið, sem leitar eftir áskrifendum. Þeir halda ekki hollustu við blað frekar en kjósendur við flokk, nema það höfði til þeirra á skýran og ótvíræðan hátt. Kapítalismi getur snúist í andhverfu sína, ef ekki er staðinn öflugur vörður um réttarríkið og lýðræðislega stjórnarhætti. Varðstaða frjálshuga manna er enn og ávallt nauðsynleg og baráttu þeirra er ekki lokið, þótt þeir hafi komið sterkir undan kalda stríðinu. Undan köldu stríði Morgunblaðið Uppþot „Draumurinn varð að engu, efir að lýðræðisríkin undir forystu Bandaríkjanna tóku höndum saman gegn vígvæðingu og útþenslu Sovétríkjanna á fimmta áratugnum, stofnuðu Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 1949 og efldu samstöðu sína sem mest þau máttu,“ segir Björn Bjarnason meðal ann- ars í grein sinni. Lögreglumenn búnir kylfum og svörtum stálhjálmum hrekja andstæðinga aðildarinnar að NATO frá Austurvelli 30. mars 1949. Eftir Björn Bjarnason bjorn@centrum.is Höfundur er dóms- og kirkjumálaráðherra. Hversu kalt var stríðið? Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. júlí 2006 | 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.