Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. júlí 2006 ! Bandaríkjastjórn hefur boðað fjárstyrki til Kúbu í framtíðinni, eða nánar tiltekið þegar Fidel Castro er allur, gríðarlegar fjárhæðir sem eiga að fara í uppbyggingu á lýðræði á Kúbu og eru þeim skilmálum háðar að þær renna aðeins til þeirra afla sem vilja koma á fjölflokkakerfi – lýð- ræði – og laga stjórnarhætti á Kúbu að vestrænum siðum. Biðin eftir dauða leið- toga eina kommúnistaríkisins sem eftir er hefur tekið á sig nýja mynd með nýju loforðunum frá Washington en eftir að viðskipti við Sov- étríkin liðu undir lok hefur efnahags- ástandið á Kúbu versnað jafnt og þétt þótt nýlega tilkominn túrismi hafi verið honum lyftistöng. Kúbanar hafa sumir hverjir lengi haft á orði – í hálfkæringi – að þegar Fidel dæi tæki Raúl bróðir hans við stöðu hans. Raúl er nokkru eldri en Fidel. En hvernig er hægt að forsmá tilboð um að taka upp vestrænt lýðræði þegar miklir peningar eru í boði? Af skiljanlegum ástæðum vilja það tæpast margir. Ef til vill er það ekki aðeins spursmál um af- komu heldur líf eða dauða. Spurningin er: Ef hægt er að koma á lýðræði með peningum, væri þá ekki eins hægt að borga fyrir einræði eða harðstjórn? Ef til vill hefði það verið betri hugmynd að hreinlega kaupa Saddam Hussein burt úr Írak fremur en að ráðast inn í landið með skelfilegum árangri en gildi pening- anna er blint og kynni þá einhver að þakka fyrir að enginn virðist hafa bol- magn til að borga undir einræði í öðrum löndum. Það er einhver djúpstæð þversögn í til- boði Bandaríkjastjórnar sem ekki verður umflúin og kann að búa í sjálfri hug- myndinni um lýðræði. Ef til vill er þver- sögnin ekki ósvipuð stöðunni sem kom upp í Alsír þegar flokkur sem vildi af- nema lýðræði náði kosningu og kosning- arnar voru ógiltar; með öðrum orðum: Lýðræðið var afnumið til að koma í veg fyrir að lýðræðið væri afnumið. Hvað ef Kúbanar kjósa fremur kommúnisma Castros en lýðræði? Nú er það allt á huldu en spurning hvort lýðræðið sé ýkja lýðræðislegt ef þegnarnir kjósa það sér þvert um geð vegna augljósra hagsmuna sem í því vali felast, ef valkostirnir eru í raun engir valkostir. Sannarlega hefur stjórn Castros orðið uppvís að grófum mannréttindabrotum svo að ekki leikur neinn vafi þar á, kúgun menntamanna, skerðingu tjáningarfrelsis, ofsóknum á rithöfundum og hugsuðum, það er löngu staðfest af Amnesty International. Raun- in er þó sú að verstu mannréttindabrotin sem framin eru á Kúbu um þessar mund- ir eiga sér stað í Guantánamo, í fangelsi Bandaríkjamanna á eyjunni þar sem pólitískum föngum er haldið utan laga og réttar og látnir sæta ómannúðlegri með- ferð og pyntingum. Sísta lýðræðið á Kúbu er að finna þar innan veggja. Hvað ætli föngum í Guantánamo fyndist um lýðræðisáform Bandaríkjastjórnar? Kúbanska byltingin átti afmæli í vik- unni og nálgast fimmtugt. Lýðræði ætlar að reynast dýrt á eyjunni og jafnvel dýr- ara Bandaríkjastjórn en byltingin; hvert skyldi annars gangverðið á lénskerfi, stjórnleysi, menntuðu einveldi, sjálfstæði ríkis? Kúba var lengi draumaland vest- rænna menntamanna, fyrirmynd í Suð- ur-Ameríku, pólitískt viðmið – þar var menntakerfi og heilbrigðiskerfi efst á forgangslista og framar öllu öðru (þar með talið tjáningarfrelsi og mannréttindi og fleira). Bandaríkjamönnum hefur alla tíð verið Kúba þyrnir í augum. Óvinurinn var við bæjargaflinn í kalda stríðinu, inn- rás misheppnaðist, sjónvarpsstöð með áróðri var rugluð af Castro, sögusagnir eru um ótal morðtilraunir, viðskiptabann er seinvirkt tæki. Nú hefur George Bush ákveðið að best sé að kaupa lýðræði á Kúbu með peningum. Sniðugt, eða hvað. Tæpast stendur neitt í vegi þess að veita veita einstaklingum fjárstyrki til að kjósa þann stjórnmálaflokk sem lýðræðisleg- astur reynist. Stundum dettur manni í hug að gjald lýðræðisins séu leiðindin sem stjórnmálum geta fylgt í daglegu pexi en gjaldið er eitthvað allt annað. Gjald lýð- ræðisins Eftir Hermann Stefánsson hermannstefansson- @yahoo.com Áundanförnum vikum hafa for-vitnilegar greinar um kalda stríðiðbirst á síðum Lesbókarinnar. Nú síð-ast spurði Björn Bjarnason í grein sinni, „Undan köldu stríði“: „Hvernig við kom- um undan kalda stríðinu? Umræðuhefðin – hef- ur hún breyst?“ Björn segir átakamálin önnur en á tímum kalda stríðs- ins, nú sé „deilt um mis- munandi útfærslur á kapítalisma. Á hinn bóg- inn skiptast menn enn í fylkingar, hart er deilt og ekki alltaf vandað til vopnaburðar“. Þar sem deilurnar snúast nú um mismunandi útfærslur á kapítalisma mætti ætla að aðgreiningin í vinstri og hægri sem um árabil sligaði alla þjóðfélagsumræðu á Íslandi væri loks úr sögunni. Því fer fjarri. Björn segir að á tímum kalda stríðsins hafi vinstri sinnaðir menntamenn talið sig hafa und- irtökin í umræðunni, ekki hafi spillt að sjálfur nóbelsverðlaunahafinn Halldór Laxness var í þeirra liði: „Enn eimir eftir af slíku yfirlæti í op- inberum umræðum hér og tilraunum til að beita frekar stílbrögðum og ofsa en málefna- legum rökum, þegar öryggismál þjóðarinnar ber á góma“. Svo bendir Björn á fimm atriði úr samtímanum þar sem vinstri sinnuð sjónarmið ríki ofar hverri kröfu. 1) Orðaleppum er enn beitt. Björn var kall- aður „laumufasisti“ og „hægriöfgamaður“ af tveimur dálkahöfundum Fréttablaðsins, eftir að hann kynnti matsskýrslu um hryðjuverka- varnir. Ég sé illa hvað umræða um hryðju- verkavarnir segir okkur um vinstri stefnu í samtímanum. Kommúnistar voru mjög upp- teknir af öryggismálum og rök með eða á móti leynilegri eftirlitsmiðstöð má auðveldlega hefja yfir pólitíska flokkadrætti. Og varla telur Björn dónaskap sérstakt einkenni á tungutaki svo- kallaðra vinstri manna? Eitt sinn skrifaði ég pistil í Lesbók Morgunblaðsins þar sem ég gagnrýndi Jakob F. Ásgeirsson fyrir skort á mannasiðum og þá túlkuðu Jakob og Björn orð mín sem pólitíska árás vinstri manns. 2) Björn segir andúð á Bandaríkjunum merki um vinstri sinnuð sjónarmið. Í sumum tilvikum er það eflaust rétt en varast ber að að leggja gagnrýni sem beinist að framferði ríkisstjórnar George W. Bush að jöfnu við almenna andúð á Bandaríkjunum. Einnig má ekki gleyma að ýmsar ákvarðanir Bandaríkjastjórnar á und- anförnum árum í baráttunni við hryðjuverka- ógnina vega að frelsishugmyndum hægri sinn- aðra einstaklinga. Við stöndum ekki vörð um vestrænt frelsi með því að horfa framhjá mann- réttindabrotum pólitískra samherja. 3) Björn segir að leitast sé „við að grafa und- an trausti í garð stjórnvalda með ómaklegum árásum á ríkislögreglustjóra og starfsmenn embættis hans.“ Hér er ég sammála Birni en get sem fyrr ekki séð hvað þetta hefur með vinstri sinnuð sjónarmið að gera. Fulltrúar nýja auðvaldsins aðhyllast ekki sósíalíska hug- myndafræði, ekki frekar en lögfræðingarnir sem reka mál þeirra. Ef í orðum Björns býr sá skilningur að íslenskir milljarðamæringar mis- beiti fjölmiðlum í eigu sinni er vandamálið einn- ig af öðrum toga en svo að hægt sé að rekja það til arfleifðar kalda stríðsins. 4) Næsta fullyrðing Björns er illskiljanleg: „Fámennur hópur forystumanna sætir árásum þeirra, sem þola illa ríkjandi ástand. Í stað þess að verja hagsmuni stórveldis gætir þess helst, að menn telji sig þurfa að halda fram málstað stórfyrirtækja til að bæta mannlífið á Íslandi.“ Telur Björn forystusveit Sjálfstæðisflokksins sæta árásum þeirra svokölluðu vinstri manna sem áður studdu Sovétríkin en styðja nú Baugsveldið? Ætti það ekki fremur að vera markmið slíkra manna að þjóðnýta Baug í al- mannaþágu? Hversu djúpt ristir líka sú hugsun að sá sem græði pening fyrir Baug sé vinstri maður en sá sem græði pening fyrir Bakkavör, KB-banka eða Íslandsbanka sé hægri maður? Væri ekki nærtækara að greina þessi fyrirtæki sem ólíkar valdablokkir í kapítalísku hagkerfi samtímans? 5) Að lokum segir Björn „ofsafengin og ósanngjörn viðbrögð við ævisögu Halldórs Lax- ness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson“ dæmi um sósíalisma í verki. Vinstri sinnaðir menntamenn í samtímanum líti á Hannes sem „boðflennu“ í „menningarlegu samfélagi“. Björn telur pólitískar ástæður búa að baki gagnrýninni á ævisögu Hannesar og neitar með því að ræða þau rök sem koma fram í 70 síðna grein prófessors Helgu Kress í tímaritinu Sögu árið 2004 og enn fremur 270 síðna skýrslu hennar, „Eftir hvern? Skýrsla um meðferð texta og tilvitnana í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Halldór. Ævisaga Halldórs Kilj- ans Laxness 1902-1932“ (http://www.hi.is/ ~helga/skyrsla.htm). Nú ætla eflaust ein- hverjir að 270 síðna skýrsla um heimilda- meðferð Hannesar sanni pólitískan ofsa andmælenda hans. En hvernig má skera úr um meðferð Hannesar á heimildum málefnalega og af heilindum án þess að rekja nákvæmlega hvernig sú vinna fer fram? Ef lesendur sækja sér skýrslu Helgu geta þeir sjálfir gert upp við sig hvort viðbrögðin hafi verið á rökum reist eða pólitískt áróðursstríð svokallaðra vinstri manna. Björn Bjarnason segir að í skrifum vinstri sinnaðra menntamanna eimi enn eftir af yf- irlæti, stílbrögðum og ofsa, fremur en málefna- legum rökum. Ég hefði haldið að slíkar lynd- iseinkunnir væru persónubundnar og get illa fellt mig við þá hugmynd að þær stjórnmála- skoðanir sem viðurkenndar eru í lýðræð- isríkjum stýri hátterni fólks á þann djúpstæða hátt sem Björn gefur til kynna. Með því að of- urselja mannlega hugsun hinu pólitíska múl- bindur Björn umræðuna á gamalkunnum nót- um. Öll gagnrýni verður marklaus vegna þess að í henni búa pólitísk sjónarmið þegar nánar er skoðað. Slíkar forsendur koma stjórn- málamönnum eflaust vel, en samfélags- umræðan skaðast fyrir vikið. Svo telja menn hægri, vinstri, hægri, vinstri. Er ekki kominn tími til að ýta þessari pólitísku bókhaldshugsun út úr almennri umræðu? Undan köldu stríði. Orðalagið er forvitnilegt. Höfum við skriðið undan kalda stríðinu? Eða liggur það enn á okkur eins og mara? Heptú vinstri snú Fjölmiðlar Eftir Guðna Elísson gudnieli@hi.is ’Með því að ofurselja mannlega hugsun hinu pólitískamúlbindur Björn umræðuna á gamalkunnum nótum.‘ I Það fer furðuhljótt um þá frétt úr menning-arlífinu sem spurðist í vikunni, að ríkið, Reykjavíkurborg og Portus, sem sér um fram- kvæmd byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfn hafi átt í óformlegum viðræðum um að hægja á framkvæmdunum við bygging- arnar í þeim tilgangi að „hægja á þenslunni“ í samfélaginu og gera „stöðugleikann var- anlegan“ eins og það var orðað. Tónlistarfólk hefur nefnilega alla jafna verið fljótt að orða hugsanir sínar hátt þegar tal hefur borist að langþráðu Tónlistarhúsi. II Ef til vill má skrifa þögnina á almennadeyfð í menningarlífinu þessa dagana. Á landsbyggðinni verða þó nokkrir stórir tónlist- arviðburðir um helgina; í Reykholti, Skálholti, á Borgarfirði eystra og víðar, og vera má að tónlistarfólk hafi einfaldlega nóg fyrir stafni að leika á sumartónleikum á landsbyggðinni. III Sumarhátíðirnar taka nú við hver afannarri, meðal annars á Ólafsfirði – þar sem Berjadagar eru haldnir árlega og á Kirkjubæjarklaustri þar sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona hefur tekið við keflinu sem listrænn stjórnandi af Eddu Erlends- dóttur, stofnanda hátíðarinnar. Á hátíðinni á Klaustri í ár verður flutt uppáhaldsverk Atla Heimis Sveinssonar tónskálds, en það er Horntríó eftir Györgi Ligeti, að sögn Atla. Þetta kemur fram í grein hans í Lesbók í dag, en þar fjallar hann um þennan nýlátna meist- ara tónlistarinnar. IV Talandi um landið og tónlistina og stöð-ugt vaxandi áhuga fólks á að njóta tón- listar sem næst mold og móum. Eitt mesta verk Þorsteins Haukssonar tónskálds, er Bells of Earth, Klukkur jarðar. Hluti af því er í raun leikinn af náttúrunni, og með virkjanafram- kvæmdum á Austurlandi gæti einmitt verið runninn upp rétti tíminn fyrir frumflutning þess. Verkið er fyrir umhverfi, tölvu, manns- rödd og hljóðnema, sem stillt er upp úti í nátt- úrunni. Hljóðin fara eftir ákveðnum reglum tónskáldsins í gegnum tölvuforrit og eru svo aftur mögnuð upp út í umhverfið. Þar með er náttúran orðin virkur þátttakandi í flutningi tónlistarinnar. Þorsteinn sá fyrir sér einn möguleika í flutningi verksins, að það yrði flutt þegar land- ið fyrir austan færi undir vatn, og að manns- röddin færi þá um leið með þau örnefni sem hverfa í lónið. Þar sem hljóðnemum og hátöl- urum væri komið fyrir í landinu sjálfu myndi verkið sjálft sökkva með landinu. V Verk Þorsteins er fullkomlega í anda um-hverfisumræðunnar sem heldur áfram í Lesbók í dag. Í tónlistinni má bæði njóta og trega og upplifun hennar er jafn einstaklings- bundin og tilfinningar fólks til náttúrunnar. Neðanmáls Ef fyrirbærið fegurðarsamkeppni er ekki raunveruleg keppni, hvað er það þá? Líkistþetta frekar fórnarathöfn? Því það er áreiðanlega bara hægt að fórna lambi einusinni. Það er samt aðeins of dramatískt að líkja þessu við fórnarathöfn, þessar stúlkur deyja ekki þótt þær verði fegurðardrottningar. En það er samt eitthvað sorglegt við að vera fyrrverandi fegurðardrottning. Þetta hafa margir sagt á undan mér. Það væri reyndar alls ekkert sorglegt ef einhver væri fyrrverandi fegurðardrottning og núverandi seðlabanka- stjóri! En talandi um valdamiklar stöður og vald fegurðarinnar, þá koma upp í hugann orð ís- lensks kvenbrautryðjanda sem ég kynntist nýlega. Þegar ég hitti hana í fyrsta skipti spurði ég hana hvort hún hefði alltaf verið svona mikil skvísa (hún er gasalega lekker og það geislar af henni) í þessu valdamikla embætti. Hún sagðist sko ekki hafa verið það til að byrja með, heldur var hún vísvitandi þéttari í holdum og púkalegri í klæðnaði. Ég spurði hana hvers vegna hún hefði verið að leggja það á sig og hún svaraði svo eftirminnilega: „Þú getur ekki bæði verið object og subject!“ Hér er gott að rifja upp dálitla setningarfræði: Objectið (andlagið) ræðst af subjectinu (frumlaginu). Og hvort skyldu nú stúlkurnar í fegurðarsamkeppnunum vera frumlag eða and- lag? Við fyrstu sýn gæti manni virst þær vera einmitt aðalmálið í fegurðarsamkeppninni, það sem allt snýst um. En þegar formið er steingelt, þegar vegið er og metið út frá einhverjum til- búnum fegurðarstöðlum, þegar allar eru steyptar í sama mótið með brjálaðri líkamsrækt og vaxmeðferð og þegar bannað er að vera fegurst allra í meira en eitt ár, þá fer mann að renna í grun um að keppnin sjálf sé aðalatriðið, en stúlkurnar lagi sig svo að hennar lögmálum. Þetta frestar því að konan sjálf sé gerandi og því skil ég ekki hvað ungar og hæfileikaríkar konur eru tilbúnar að gerast object og fresta því glæsilega lífi sem þær gætu átt sem subject. Eva María Jónsdóttir www.tikin.is Frumlag og fegurð Spegill, spegill... Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.