Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2006, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2006, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 23. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók | bækur Í þessu veðri væri gott að vera í frakka. Í þessu reykvíska slag- viðri og grenjandi rigningu. Kannski vaxbornum Aquascut- um-frakka af þeirri gerð sem Sturla Jón Jónsson, ljóðskáld og húsvörður, festir sér í upphafi nýrrar sögu eftir Braga Ólafsson. Upp frá þeirri stundu hefjast kostuleg vand- ræði söguhetjunnar með frakka, stutt og löng ferðalög, ásakanir og yfirhylmingar. Á sama hátt og enskur lesandi sagði einu sinni að Sjálfstætt fólk eftir Laxness væri í rauninni „mjög löng bók um kindur“ mætti kannski halda því fram að Sendiherrann eftir Braga Ólafsson sé saga um mann í frakka. En rétt eins og Sjálfstætt fólk er margslungnari en lýsingin fjallar Sendiherrann um margt annað og meira en manninn og frakkann. Að öðrum kosti væri ekki búið að tilnefna hana til Ís- lensku bókmenntaverðlaunanna. Þá væri held- ur ekki verið að senda mann af stað til þess að taka opnuviðtal við höfundinn. Sér í lagi ekki í svona veðri. Efi, innra með manni Þegar inn er komið á heimili Braga Ólafssonar og hluta fjölskyldunnar hefur brugðið fyrir í eldhúsinu bendir Bragi út í slagviðrið. „Veistu, það er skrýtið, það var snjór í morgun og þegar ég kom fram sá ég fótspor í snjónum sem lágu þaðan og í þessa átt,“ segir hann og við rýnum út í myrkrið. „Dularfullt, finnst þér ekki? Kannski einhver í leit að, eða á leið með, þýfi.“ Ég hugsa með mér að hann sé auðvitað far- inn að þjófkenna alla, í kjölfar þessarar sögu, en hún fjallar um ýmiss konar stuld, að minnsta kosti meintan þjófnað, á stórum og smærri skala. Allt frá því að ræna bita af disk sessunautar í matsal, til þess að … Við erum nýsest við borðstofuborðið þegar bankað er ákveðið á útihurðina. Bragi lítur spyrjandi upp. Okkur verður hugsað til fót- sporanna í snjónum. Hann er kallaður til dyr- anna. Borðstofan er sem snöggvast tóm. Þetta hefst allt saman fremur undarlega. Stuttu seinna kemur Bragi glaðlegur til baka. Í dyrunum voru fulltrúar bóksala og tökulið frá Kastljósi; Sendiherrann hefur verið valin besta skáldsaga ársins af starfsfólki bókabúða. Appelsínugul blóm fylgja heiðrinum og í skamma stund safnast heimilisfólk saman í borðstofunni; eiginkonan Sigrún Pálsdóttir með pínulitla, fagureygða tveggja mánaða dótturina – og sá unglingur hússins sem í augnablikinu er heima. „Þú fékkst þessi verðlaun líka í hitteðfyrra,“ rifjar Sigrún upp kát. Og kollum er kinkað. Bragi skiptir blóm- unum á borðinu út fyrir kaffi og aftur kemst kyrrð á. Jæja, þá liggur beint við að spyrja þig fyrst um vegtyllur. Tilnefning til Íslensku bók- menntaverðlaunanna og nú þessi verðlaun bóksala. Hvernig líður þér með þetta? „Fyrst fer maður svolítið hjá sér, eins og núna – þetta kom alveg flatt upp á mig – og maður verður vandræðalegur. Og inni í manni alltaf þessi efi, og það er engin uppgerð, um hvort maður eigi þetta skilið,“ segir Bragi. „En um leið veit ég að þetta hjálpar alltaf bók- inni. Ég er því mjög þakklátur.“ Hann hefur sínar skoðanir á stóru bókmenntaverðlaun- unum, hlynntur þeim sem slíkum en bendir á að alltaf megi rökræða tilhögunina og bæta formið. „Ég fer samt ekki að tala nánar um það, með tilnefningu á bakinu,“ segir hann kankvís. „En bóksalaverðlaunin eru, ef eitt- hvað er, best því þau eru ákveðin af ástríðu- fólkinu sem sýslar með bækurnar.“ Skáldsaga þín á undan þessari, Samkvæm- isleikir frá 2004, er í hópi „frægra bóka sem ekki voru tilnefndar“ og um það skapaðist tals- verð umræða á sínum tíma. Fannst þér það óþægilegt, að verið væri að tala um þig úti í bæ og taka upp hanskann fyrir bókina óumbeðið? „Nei, mér fannst það bara gott. Það er betra en ekki að verið sé að ræða bækurnar manns. Reyndar finnst mér að fjölmiðlar mættu nota þetta frenetíska bókaflóð meira, sem efni, því það er fjöldi fólks sem hefur áhuga á að lesa og heyra um bókmenntir – eða við höfundarnir stöndum í það minnsta í þeirri trú!“ Söguhetja stelur grein Já, það er mikið af stöffi í heilu bókaflóði. En áður en fram er haldið grípur Bragi aftur orð- ið, því verðlaunatalið er ekki tæmt. „Það er reyndar ekki rétt hjá gagnrýnanda Kastljóss að Samkvæmisleikir sé frægasta ótilnefnda bókin. Það er náttúrlega Englar alheimsins,“ bendir hann á, en sú bók Einars Más Guð- mundssonar hlaut engar tilnefningar hér við útkomuna árið 1993, en gerði sér svo lítið fyrir og hreppti Bókmenntaverðlaun Norðurlanda- ráðs tveimur árum síðar. Og er ein af ástsæl- ustu íslenskum skáldsögum síðari tíma. Bragi, aftur: „En í sambandi við þetta vil ég bæta við, að af bókunum sem ég hef lesið fyrir þessi jól, þá finnst mér að Eiríkur Guðmunds- son hefði átt að fá tilnefningu núna. Og Óskar Árni.“ Bækur þeirra eru Undir himninum og Loftskip. „En það er sjálfsagt ekkert að marka, þetta eru menn sem ég þekki.“ Þá er rétt að hefja spjallið um Sendiherr- ann, þessa lúmsku bók sem fjallar m.a. um baráttu söguhetjunnar „við glæpamanninn sem býr í okkur öllum“, eins og segir á kápu. Byrjum þetta þá eins og yfirheyrslu: Ég hef öruggar heimildir fyrir því að þú, Bragi Ólafsson, hafir verið á ljóðahátíðinni í Druskininkai 5.–9. október í fyrra. Og enn- fremur hefurðu játað að hafa fengið hugmynd- ina að Sendiherranum þar. Bókin var prentuð innan við ári síðar, og er næstum 400 síður. Ertu svona snöggur að vinna? „Ég var bara svona snöggur að skrifa þessa bók,“ svarar hann, eins og saklaus maður. „Hún kom einhvern veginn þannig til mín. Reyndar var ég búinn að skrifa einn kafla áð- ur, það var grein Sturlu Jóns um hátíðina, áð- ur en hann fer þangað. Hún er nánast óbreytt – ég átti að skrifa grein fyrir Tímarit Máls og menningar og datt í hug að skrifa um þessa há- tíð, sem ég var ekki búinn að fara á.“ Þannig að Sturla stal henni frá þér? „Já, það má segja það,“ svarar Bragi og lýs- ir því hvernig önugi karakterinn, sem var höf- undarrödd greinarinnar, hafi orðið kveikjan að Sturlu Jóni. Svo hafi hann sjálfur, Bragi, séð blautan blett á teppi hótelherbergis síns, þeg- ar hann tékkaði sig inn á Ambassador Hotel í Vilníus, á leið á hátíðina, og það hafi endanlega startað sögunni. „Það hefur stundum gerst að eitt ákveðið atriði verður kveikjan að sögu. Eins og Samkvæmisleikir, hún kviknaði þegar ég sá skópar fyrir utan dyr. Þá er eins og kjarninn komi.“ Sendiherrann raðaðist fljótt niður í kafla, Bragi bjó til skema og átti tiltölulega auðvelt með að skrifa inn í það. „Kannski af því ég var að skrifa um ljóðskáld, sem ég er sjálfur,“ íhugar hann. „Það er náttúrlega margt stolið frá mér, í þessari sögu, þótt ég reyni að fela mig. Þegar maður samsamar sig karakternum að slíku marki rennur frásögnin mjúklega.“ Hann skilaði fyrsta hluta sögunnar til útgef- anda síns snemma í sumar, svo næsta hluta og koll af kolli. „Ég gerði alltaf ráð fyrir að ég yrði sendur heim með söguna og sagt að vinna meira í henni, en það gerðist ekki. Þannig að seinni hluta sumars var ég bara að fínpússa.“ En þú ert ánægður með bókina? „Ég hef góða tilfinningu fyrir sögunni, þeg- ar ég les hana. En eftir á sér maður alltaf ýmislegt sem hefði mátt hnykkja á, svona smærri atriði, en mér finnst að það megi vera hnökrar á texta, líka í ljóðum.“ Þú hneigist t.a.m. til þess að klára ekki tákn eða vísanir, að skilja alltaf eitthvað eftir. „Já, en það geri ég hins vegar mjög með- vitað, að skilja eftir lausa enda,“ segir hann og rifjar upp að lausu endarnir hafi verið jafnvel enn fleiri í síðustu sögu, títtnefndum Sam- kvæmisleikjum. Og hér skilur hann eftir laus- an enda, því talið hefur allt í einu borist að stað Sendiherrans í samhengi hlutanna. Bragísk landafræði „Þessi bók er í raun númer tvö í seríu sem mig langar til að skrifa, sem ég kalla í bili Handri- takvartettinn. Jafnvel Handritakvintettinn. Ég var nefnilega byrjaður á bók um föður Sturlu Jóns, Jón Magnússon, og vin hans Örn Featherby, en gerði hlé á henni þegar hug- myndin að Sendiherranum kviknaði. Nú er ég að hlaða utan á þá bók. Svo verða hugsanlega tvær í viðbót með þessum karakterum og sögusviði.“ Téður Jón Magnússon er menntað- ur kvikmyndaleikstjóri, og í Sendiherranum er stuttlega sagt frá kvikmyndahandriti sem hann vinnur að ásamt vini sínum Erni. „Bæk- urnar sem ég sé fyrir mér fjalla allar um fólk um og yfir fimmtugt sem vinnur með texta eða myndir. Einn þráðurinn í Sendiherranum er ljóðahandrit, sagan um Jón og Örn hverfist þá um kvikmyndahandrit.“ Þannig að lesendur geta strax farið að hlakka til? Bragi yppir öxlum. „Ég sé samt af reynslu annarra höfunda að það er varasamt að tala um trílógíur sem kannski aldrei verða og gera ekki annað en íþyngja manni. Svo þetta er allt opið hjá mér. Sendiherrann nægir í bili.“ En þótt það virki íþyngjandi getur samt ver- ið gott að vita hvert maður er að fara? „Já, einmitt. Síðasti kaflinn í Sendiherran- um kom til dæmis snemma og þá var fremur þægilegt að spinna þráðinn að honum,“ lýsir hann. Því textinn sé eins og vefnaður: „Til þess að geta leyft þér að vera frjáls þarftu að þekkja fasta formið, stóru myndina.“ Talandi um vefnað og uppdrætti. Endur- tekið þema í textum hjá þér eru götuheiti, skipan og borgarkort. Mér dettur í hug ljóðið um stystu leiðina frá Ingólfsstræti að Nönnu- götu og annað sem hefst á horni Bayswater Road og Lækjargötu. Og á einum stað í Sendi- herranum er engu líkara en götukort af Vil- níus sé lagt ofan á götukort af Reykjavík. Vís- ar þetta í stærra samhengi, að rata í tilverunni, eða ertu haldinn þráhyggju í garð gatnakerfa? Hann kinkar kolli. „Ég held að þetta götutal sé leiðarvísir fyrir mig, og þá væntanlega les- andann líka, í gegnum söguna – til þess að gefa okkur betri festu. Þetta er ekki endilega með- vitað, en það er rétt að íslenskur og erlendur veruleiki mætast í mörgum af bókum mínum. Líklega er þetta hugarfar eyjarskeggjans, að hugsa mikið yfir hafið.“ Hann íhugar málið. „Og þetta með göturnar, þú nefndir ljóðið Blue Hawaii, þar sem gata í London mætir götu í Reykjavík. Það er í því einhver ljóðlist sem Maður í frakka Realisminn „Þú nefndir ljóðið Blue Hawaii, þar sem gata í London mætir götu í Reykjavík. Það er í því einhver ljóðlist sem mér er mikilvæg. Þetta eru mestmegnis svo realískar sögur, sem ég skrifa, að ég verð að hafa í þeim einhver skrýtin element.“ „Sumir eru svo brattir að þeir segjast hvorki taka mark á gagnrýnendum né mið af les- endum, en ég tel mig ekki í þeim hópi,“ segir Bragi Ólafsson, höfundur Sendiherrans. Skáldsögur Braga hafa notið umtalsverðrar lýðhylli og það gleður hann mjög. Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.