Samvinnan - 01.04.1984, Page 26

Samvinnan - 01.04.1984, Page 26
Gunnar Stefánsson bókmenntafræðingur Kveikt eru á borði kertaljós Um vesturíslensku skáldkonuna Jakobínu Johnson Allt sem unni ég heitt á æsku morgni er mér unaðskært í endurminning: árdegis roði, regnbogi í skýjum, fyrstu vorblómin, fjólur í laut. Haustlitir skógar, hélurósir, lampaljós um kvöld og lestur sagna. -Líður að jólum, ljúfust gleði! Kveikt eru á borði kertaljós! Þannig hefst upphafsljóð í kvæða- bókinni Kertaljós eftir vestur- íslensku skáldkonuna Jakobínu Johnson. Það var ort þrem árum eftir að hún vitjaði í fyrsta sinn landsins þar sem hún var fædd og átti heima fyrstu ár ævinnar. Kannski er það í minningu þeirrar ferðar sem hún biður þrá sína að svífa með sig yfir úthöfin; draumur- inn um ættlandið í austri fléttast saman við fegurðarþrá skáldkonunnar. En í seinni hluta kvæðisins segir: Þú mikla vald, þú vængjabreiða þrá, ó, veit mér far um úthöf djúp og blá! Ég heyrði snemma þinna vængja þyt sem þægan gleðisöng við dagsins slit. Mér var ei gefin stælt né stórvirk mund né ströng og valdbjóðandi hetjulund er brýtur veg um björgin dimm og hrjúf. - Ég ber í hendi grannan kertisstúf. • Uppruni og æskuár Jakobína Johnson fæddist 24. október 1883 á Hólmavaði í Aðaldal í Suður- Þingeyjarsýslu. Á síðasta hausti var því öld liðin frá fæðingu hennar og má það verða tilefni þess að segja dálítið frá henni hér. Foreldrar Jakobínu voru Sigurbjörn Jóhannsson og seinni kona hans, María Jónsdóttir frá Höskuldsstöðum í Reykjadal. Sigur- björn var jafnan kenndur við bæinn Fótaskinn í Aðaldal sem nú heitir Helluland. Hann var þekkt skáld á sinni tíð og urðu ýmsar lausavísur hans landfleygar, en ljóðasafn hans kom út 1902, ári fyrir andlát hans. Bæði voru þau hjón, Sigurbjörn og María, af þingeyskum ættum, en móðurætt Jak- obínu skáldkonu má rekja til hinna nafntoguðu austfirsku skálda, Einars í Eydölum og niðja hans.

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.