Kirkjuritið


Kirkjuritið - 01.04.1955, Page 22

Kirkjuritið - 01.04.1955, Page 22
164 KIRKJUROTÐ trú eina saman hafði mikla þýðingu fyrir seinni tíma þróun kenningarinnar um fyrirgefningu syndanna. Frumkristnin hafði aldrei látið sér til hugar koma, að nýjar kynslóðir manna mundu fæðast og lifa á jörðinni löngu eftir daga Jesú. En þegar þetta gerðist, kom fram þörf fyrir það, að laga friðþægingarkenninguna þannig, að unnt gæti orðið fyrir óborna að öðlast fyrirgefningu, ef þeir tækju trú. Annað kom einnig til greina. Meðan menn trúðu því, að heimsendir væri á næstu grösum, gat það vel dugað að fá einu sinni í skírninni fyrirgefningu fyrir drýgðar syndir. Þá var einhver vegur að þrauka síðan syndlaus til heimsloka. En þegar útlit var fyrir, að menn þyrftu að lifa langa ævi í syndum spilltum heimi, þá þurfti kirkjan helzt að sjá mönnum fyrir fyrirgefn- ingu eins oft og þeir syndguðu. Þetta var ekki vandalaust. Samkvæmt upprunalegri merk- ingu sinni þýddi skírnin ekki annað en fyrirgefningu fyrir drýgðar syndir, og þessu eðli hennar varð ekki breytt. Kom þá fram spurningin um, hvort unnt væri að fyrirgefa syndir drýgðar eftir skírn. Svarar höfundur Hebreabréfs, sem ritað er milli 70 og 80, þessu hiklaust neitandi (Hebr. 6, 4—6). Þá vildi svo vel til í byrjun annarrar aldar, að engill í hirðis- búningi kom til Rómverja nokkurs, sem Hermas hét. Tilkynnti engillinn Hermasi, að Guð sé af miskunn sinni viljugur að fyrirgefa trúuðum, þó að þeir hrasi eftir skírn, ef þeir einungis iðrist synda sinna á ný. Sá nú kirkjan sér fært, að fengnum þessum upplýsingum, að taka á ný á móti iðrandi syndurum, er hún hafði útilokað, og varð hún þessu harla fegin. Hér er farið inn á alveg nýjar leiðir. Friðþægingardauði Jesú átti sér ekki stað nema einu sinni, og hið sama er að segja um þá fyrirgefning, er hann afrekaði. Þegar því kirkjan tekur að gera ráð fyrir, að fyrirgefning geti átt sér stað eftir skírn, þá hefir hún um leið viðurkennt, að fyrirgefningin geti lotið öðrum lögmálum. Hún geti komið beint frá Guði. Og menn geti gert sig verðuga þessarar fyrirgefningar með iðrun og yfirbótarverkum. Þessi kenning fékk kaþólsku kirkjunni mikið vald í hendur. Því að sjálfa sig gerði hún að miðlanda þessarar náðar. Hún úrskurðaði, hvað syndarinn varð á sig að leggja vegna iðrunar sinnar og leit eftir því, að hann gerði það, sem honum bar.

x

Kirkjuritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Kirkjuritið
https://timarit.is/publication/443

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.