Morgunblaðið - 23.03.2009, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 23.03.2009, Blaðsíða 25
Minningar 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. MARS 2009 ✝ Karólína Stein-unn Halldórs- dóttir fæddist í Súða- vík 29. mars 1927. Hún lést á hjúkr- unarheimilinu Skjóli í Reykjavík 10. mars 2009. Hún var dóttir Sigrúnar Jensdóttur, f. 1891, d. 1972, og Halldórs Guðmunds- sonar, f. 1885, d. 1968. Alsystkini hennar voru Jens Þorkell, f. 1923, d. 1993, Guðrún Ólafía, f. 1925, Anna Þorbjörg, f. 1929, Sig- rún Sigurdríf, f. 1930, og tvíbur- arnir Óskar Haraldur, f. 1932, d. 1944, og Guðmundur Magnús, f. 1932, d. 1977, en hálfsystir hennar samfeðra var Elísabet Halldórs- dóttir, f. 1910, d. 1937. Árið 1948 giftist Karólína Guð- mundi Ingólfi Gestssyni, mótasmiði og síðar verslunarmanni, f. 1925, d. 2001. Börn þeirra eru: 1) Sigrún, f. 1948, maki Jón Arnarr Einarsson, þau skildu. Synir þeirra a) Orri, f. 1970, maki Þórdís Valdimarsdóttir, börn þeirra Eyja, Kári og Flóki. b) Arnarr Þorri, f. 1975, d. 2001, barn Salka (móðir Svanhvít Tryggva- dóttir). 2) Guðrún, f. 1949, maki Einar B. Kristjánsson. Börn: a) Kar- ólína, f. 1971, maki Guðmundur H. Jónsson, dóttir þeirra Guðrún Em- ilía, b) Kristján Freyr, maki Katrín Erlingsdóttir, börn Darri (móðir Björg Sveinbjörnsdóttir) og Erling- ur. 3) Gestur, f. 1951, maki Kristín Ólafsdóttir. Börn: a) Rúnar Páll, f. 1970 (móðir Málfríður Lor- ange), barn Birta, b) Ólafur Steinar, f. 1989, c) Anna Karól- ína, f. 1991. Karólína ólst fyrst upp í Súðavík en frá átta ára aldri á Ak- ureyri hjá móð- ursystur sinni Önnu Jensdóttur körf- umublusmið og Karli Einarssyni hús- gagnabólstrara. Kar- ólína gekk í Menntaskólann á Ak- ureyri en lauk síðar sveinsprófi í hárgreiðslu. Þá flutti hún til Reykjavíkur og starfaði á hár- greiðslustofu Kristínar Ingimund- ardóttur. Þau Guðmundur stofnuðu við hjúskap sinn heimili á Ásvalla- götu 16, fyrstu árin var Karólína heimavinnandi húsmóðir, hóf síðan hárgreiðslu að nýju og rak um skeið hárgreiðslustofu í kjall- aranum heima. 1968 hóf hún störf á Landakoti, lauk síðar sjúkraliða- prófi og starfaði sem sjúkraliði, lengst af á hjúkrunarheimilinu í Hafnarbúðum, allt þar til hún fór á eftirlaun 67 ára. 1982 fluttu þau hjónin að Fjölnisvegi 6 og bjuggu þar ásamt dætrum sínum og fjöl- skyldum þeirra, en frá 2001 dvaldi Karólína í sambýlinu Laugaskjóli og á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Útför Karólínu fer fram frá Dóm- kirkjuunni í Reykjavík í dag, 23. mars, kl. 15. Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð. Þú vaktir yfir velferð barna þinna, þú vildir rækta þeirra ættarjörð. Frá æsku varstu gædd þeim góða anda, sem gefur þjóðum ást til sinna landa, og eykur þeirra afl og trú, en það er eðli mjúkra móðurhanda að miðla gjöfum – eins og þú. (Davíð Stefánsson.) Ég vil minnast tengdamóður minnar, Karólínu, nokkrum orðum. Margs er að minnast frá liðinni tíð. Fyrir hart nær fjórum áratugum kom ég fyrst á heimili þeirra hjóna Karólínu og Guðmundar á Ásvalla- götu í Reykjavík þegar við Guðrún, dóttir þeirra, kynntumst. Þangað var gott að koma og dvelja. Oft var setið í eldhúskrók, drukkið kaffi og skrafað um allt milli himins og jarðar, ekki síst þjóðfélagsmál og pólitík sem ungt fólk hafði mikinn áhuga á í byrj- un áttunda áratugar síðustu aldar. Við vorum jú 68-kynslóðin. Karólína hafði margt og mikið til málanna að leggja, enda áhugasöm um velferð al- þýðu manna og kvenna til sjós og lands. Hafði hún ákveðnar skoðanir eins og faðir hennar, gamall baráttu- jaxl og verkalýðsforkólfur vestan af fjörðum. Karólína var hreinskilin og afdráttarlaus, en umfram allt réttsýn kona. Hún þoldi ekki órétt. Af henni lærði ég margt, óreyndur ungur mað- ur. Söng- og tónelsk var hún með af- brigðum og hafði unun af mörgu því sem út kom af íslenskri alþýðutónlist á þessum árum sem hljómaði oft úr hljómflutningstækjum heimilisins. Ógleymanlegar eru ferðir og tjaldúti- legur sem fjölskyldan fór í á sumrin og voru þá barnabörnin með í för. Ár- ið 1981 festi fjölskyldan, tengdafor- eldrar mínir, Sigrún mágkona mín, ásamt okkur Guðrúnu, kaup á sann- kölluðu fjölskylduhúsi við Fjölnisveg í Reykjavík. Þaðan eiga barnabörnin góðar minningar um samveru með Bóa afa og Kallí ömmu. Fyrir um ára- tug greindist Karólína með ólækn- andi sjúkdóm, Alzheimer, sem smátt og smátt svipti hana ráði og rænu. Aðdáunarvert var að sjá hvernig hún brást við örlögum sínum af reisn og myndugleika og lét aldrei hugfallast. Að leiðarlokum er mál að standa upp og þakka fyrir sig. Þakka fyrir að hafa fengið að kynnast og umgangast þá góðu konu, Karólínu. Blessuð sé minning hennar. Einar Kristjánsson. Flauelsmjúk og djúp. Falleg, list- ræn, fyndin og gáfuð. Svo hlý. Grimm, þegar gengið var á hlut lít- ilmagnans – einkum þó barna. Það var hrein nautn að njóta ná- vista við Karólínu tengdamóður mína og vinkonu og alltaf átak að rífa sig út úr hlýju og björtu geislaflóði hennar. Í þeim heimi kúrðum við öll á mjúku skýi og tilfinningin var sú að ekkert illt gæti hent. Það undrar engan að öll börn löðuðust umsvifalaust að Karól- ínu. Hún var stór kona í litlum álfkonu- kroppi, með fisléttan kvenlegan lima- burð og mjúka, hljómþýða rödd. Og alltaf fallega klædd; í mjúkri bómull, silki eða fínlegri ull. Ég hef svo oft furðað mig á því og reynt að skilja, hvernig brostin æska, full af sársauka og óskiljanlegum skilnaðarstundum gat skilað af sér svo heilagri konu. Karólína fæddist í Súðavík þar sem faðir hennar Halldór var í forsvari verkalýðsfélagsins. Átök verkalýðs- forkólfa og atvinnurekenda leiddu til þess að Halldór var gerður útlægur sem vinnuafl og þurfti því að leita at- vinnu í nágrannabyggðarlögum. Fót- gangandi yfir fjöll og firnindi heim á laugardagsnóttum náði hann aðeins að heimsækja fjölskyldu sína í nokkr- ar klukkustundir áður en hann aftur þurfti að reima á sig skóna á sunnu- dagkvöldum. Sigrún móðir Karólínu sat eftir með barnafjöld og rýra hýru og andlegt og líkamlegt álag sem þessi viðkvæma, listræna sál réð ekki við. Fjölskyldan splundraðist. Karól- ína var komin á vergang. Hin langa ganga fá einni fósturfjölskyldu til annarrar hóf hér göngu sína og tvisv- ar var henni skilað í tengslum við að fósturforeldrar eignuðust sitt eigið barn. Í einu þessara tilvika hafnaði Karólína, sjö ára gömul, á sjúkrahús- inu á Ísafirði því engan annan stað var að hafa. Sjúkrahúsið var hennar heimili í hálft ár og starfsfólk sjúkra- hússins hennar fósturforeldrar. Þar leið henni vel. Samt saknaði hún sárt skruddnanna tveggja marglesnu sem voru hennar eina veraldlega eign og eina huggun í ókunnum húsum, en þeim var í ógáti ekki skilað með Kar- ólínu litlu þegar hún var látin af hendi til hreppsyfirvalda aftur. Að endingu bauðst móðursystir Karólínu til þess að taka hana inn á heimili sitt á Ak- ureyri en þangað flutti líka öldruð, sjúk amma hennar sem náði á sinn hátt að veita henni einhverja sárabót fyrir öll árin þar sem síendurtekin höfnun hafði verið aðalþemað í lífi Karólínu. Þar dvaldi Karólína þar til hún flutti að heiman til Reykjavíkur 18 ára gömul. Stuttu síðar kynntist hún Guðmundi sínum. Falleg hjón og 3 yndisleg börn. Og manngæsku foreldranna var miðlað til þeirra ríkulega. Það hefur verið unun að fylgjast með hvernig þær Sigrún og Guðrún, og Gestur þegar hann hefur verið á landinu, hafa sinnt móður sinni eftir að hún fékk Alz- heimer fyrir meira en áratug. Dag- lega í mörg ár hefur eitthvert þeirra eða einhver á þeirra vegum, setið hjá Karólínu og sinnt henni af einstakri alúð og ást líkt og hún hafði sinnt þeim. Með djúpri virðingu og sárum söknuði þakka ég Karólínu fyrir sam- veruna, son hennar og ómetanlegt framlag til uppeldis barna okkar. Kristín Ólafsdóttir Við söknum ömmu okkar. Við minnumst stundanna okkar saman á Fjölnisvegi 6 þar sem maður ávallt fann fyrir hlýju og ást. Amma skammaði aldrei, heldur talaði hún við okkur sem jafningja. Við gleym- um aldrei dögunum með henni; ferð- irnar í Mál og menningu sem oftast enduðu með heitu súkkulaði og Ball- erínukexi heima á Fjölnisveginum, föndurdagarnir í skotinu og bíltúr- arnir í litla gráa bílnum hennar. Amma hafði þann eiginleika að lýsa upp umhverfi sitt með gleði og kærleika. Hún var amma okkar og góður vinur. Við munum alltaf sakna hennar og elska hana. Ólafur Steinar Gestsson og Anna Karólína Gestsdóttir. Elsku besta amma mín. Allar tilfinningar mínar og hugs- anir fara á flug. Mér finnst svo stutt síðan ég horfði á þig setja skeið af sykri í vatnið hjá blómunum og þú horfðir á mig dansa og tína rifsber af runnanum í fallega sumarkjólnum mínum sem Sifa barnið þitt saumaði. Allir segja að lífið sé stutt, en mér finnst það ekki stutt heldur gott og fallegt. Sumir eiga erfitt með að sjá það. Ég veit að þú ferð hátt upp til himins. Þér mun líka himnaríki. Svo ekki kvíða því að fara þangað. Þú verður að ungum og fallegum engli sem mun dansa undir fallegu guðs- spili. Ég mun elska þig og mun ávallt sakna þín, minnast þín og biðja fyrir þér. Þín elskandi besta Eyja. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í síðhippakommúnunni á Fjölnisvegi 6. Fjölnó var gangvirki sem gekk fyrir lambalærum, rifs- berjasultu, marmarakökum, og suðu- súkkulaði og var miðstöð þess eldhús- borðið á miðhæðinni þar sem hún amma mín og afi bjuggu. Rifsberja- sultan var soðin á staðnum úr berjum úr garðinum okkar sem var krökkur af rifsberjarunnum og rabbabara. Í sama garði voru stundum bakaðar vöfflur á járni sem þáði rafmagn í gegnum sláttuvélarsnúru. Þá vappaði hún amma mín í sólskininu, fyrst í kringum okkur ömmubörnin og síðar langömmubörnin og ekki förlaðist henni sá dans þótt árin liðu. Amma var nefnilega á sér mála hjá raun- veruleikanum; alltaf svo létt á fæti og í skapi og skipti þá engu máli þó á móti blési. Hún hafði afskaplega sjarmerandi lag á því að lifa lífinu, hún kunni svo sannarlega að njóta þess. En ekki nam hún staðar við sjálfa sig heldur úðaði hún sjarma sínum og jákvæðni á allt umhverfið, beggja vegna Atlantshafsins. Amma átti lipran farskjóta sem hét Gráni og á honum útréttaði hún heilu aspirnar, timburstoðir og aðrar nauð- synjar þegar framkvæmdir stóðu yfir og svo skutlaðist hún með okkur krakkana þegar einhver þurfti að komast út fyrir miðbæinn. Á morgn- ana breyttist Gráni í skólarútu sem flutti okkur ömmubörnin í grunn-, mennta- og leikskóla og varð þá morgunþunglyndið og skammdegið heldur betur fyrir barðinu á sjarm- anum hennar ömmu. Göturnar breyttust þá í skíðabrekkur þar sem Gráni brunaði niður Þingholtin á leið sinni á Brekkukot undir söng ömmu; „Ke Ke Kerlingarfjöll, í Kerlingar- fjöll í hvelli….“. Amma var þannig botnlaus veita gleði fyrir okkur öll á Fjölnisveginum og fyrir þá sem þangað lögðu leið sína. Öllum var tek- ið með opnum örmum og boðið upp á kaffi og suðusúkkulaði eða eitthvað annað í svanginn. En hún amma var mér auk þess mikil stoð í lífinu og bakland sem ávallt var hægt að treysta á ef á móti blés. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur henni og mun ég áfram leita í þann trygga sjóð, svo mikið er víst. Amma er nefnilega sú albesta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér þegar þrautir lífsins verða á vegi. Hvernig hún brást við og vann úr sín- um raunum hefur haft mikil áhrif á mig. Það er nefnilega mikill styrkur í því að hafa hana ömmu með í ráðum þegar á reynir. Þá er gott að spyrja sig: hvað myndi amma gera, hvernig myndi hún bregðast við? Það er með miklu þakklæti og stolti sem ég kveð hana ömmu mína, hún mun ætíð fylgja mér í hjarta og minningarnar um hana verða mér uppspretta um ókomna framtíð. Góða ferð, amma mín. Kristján Freyr Einarsson. Nú hefur Kallý frænka mín fengið hvíldina. Mér finnst sem hún hafi ver- ið leyst úr fjötrum því síðustu ár hef ég upplifað hana sem fanga í eigin lík- ama. Hún var alltof ung þegar svo var komið fyrir henni. Þá kom sér vel hennar létta lund til að komast betur frá þessu. Aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkurn mann og tók hún oft nærri sér ef hún heyrði fólk tala á nei- kvæðum nótum. Ég var komin vel á unglingsárin þegar ég fór að kynnast Kallý að ráði og varð okkur strax vel til vina. Á skólaárum mínum í Reykjavík var gott að fara í heimsóknir á Ásvalla- götuna og fann ég svo vel hvað ég var velkomin þangað og ekki var verra að fá alltaf eitthvað gott í gogginn. Þótt Kallý ætti dætur á mínum aldri stílaði ég ekkert frekar upp á að þær væru heima því ég var fyrst og fremst að heimsækja Kallý. Ekki leiddist okkur Stínu vinkonu minni er Kallý og Bói komu óvænt og buðu okkur í bíó. Kallý hafði þann hæfileika að laða fljótt að sér börn og unglinga. Tel ég að þar hafi, fyrir ut- an hennar elskulegheit, haft mikið að segja hvað hún kunni að hlusta vel og tala við þau sem jafningja. Ég sé líka vel fyrir mér að hún hafi hugsað vel um eldra fólkið í Hafnarbúðum, hennar gamla vinnustað. Börnin mín minnast hversu hlýlegt viðmót þau fengu alltaf er við fórum að heimsækja Kallý frænku. Eftir eina heimsóknina hafði Vilborg á orði að þegar hún yrði gömul ætlaði hún að vera svona hress og skemmtileg eins og Kallý frænka. Ekki leiddist mér að geta tekið Kallý tvisvar með mér vestur þegar ég bjó í Bolung- arvík og haft hana hjá okkur í viku ásamt Ollu (mömmu) systur hennar. Þær nutu þess svo vel að vera saman þessa daga. Þessar vikur gáfu mér mikið. Mér fannst ég geta aðeins borgað fyrir mig frá unglinsárunum í Reykjavík. Ekki urðu orlofsdagarnir á Ísafirði sumarið 2001 leiðinlegri þar vorum við Daði, mamma, Kallý og Gunna. Þá var t.d. ekið um nágrenni Ísafjarð- ar, baldursbrá tekin upp með rótum á Flateyri, áð undir steini fram í Hey- dal og horft yfir svæðið sem Karólína amma bjó forðum. Enduðum við þessa daga á að aka Ísafjarðardjúp að Staðarskála þar sem leiðir skildust, þær mæðgur fóru með rútu suður, við ókum til Akureyrar. Ég þakka þér, Kallý mín, fyrir alla þína gæsku. Hvíl þú í friði. Elsku Sigrún, Gunna, Gestur og fjölskyldur, mamma, Rúna og Anna, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megið þið ylja ykkur við góðar minn- ingar um góða konu. Ráðhildur Stefánsdóttir. Á milli Kallýjar og fólksins á Öldu- götu 25A var ævinlega traust og gott samband sem átti rætur að rekja, sagði Kallý mér, til þess hvað amma Jódís hafði tekið henni opnum örm- um þegar hún kom í fjölskylduna. Með móður minni og Kallý tókst ævi- vinátta með reglulegum samgangi því Kallý var um árabil hárgreiðslu- dama og rak stofu á heimili sínu. Þangað skundaði móðir mín hvenær sem hún þurfti að láta „leggja á sér hárið“ og kom aftur með þennan lakkhjúp sem þá þótti ómissandi – og nýjustu tíðindi af Ásvallagötunni. En eftir að Kallý og Bói fluttu á Fjöln- isveginn hittust þær vinkonur oft í miðbænum þar sem móðir mín starf- aði um árabil. Kallý var glæsileg kona, fasið allt og sérkennilega falleg rödd og svo þessi aldrei skilgreinanlegu boð sem berast frá augunum. Fundir við hana voru umvafðir hlýju sem nærðist af rótum sem stóðu djúpt. Manni skild- ist að það hefði ekki verið mulið undir hana í uppvextinum, gott ef hún átti ekki að baki erfiðleika sem voru með einhverjum þjóðsagnablæ. Þaðan var áreiðanlega komið næmi hennar, mannskilningur og réttlætiskennd sem gerði henni kleift að miðla hlýju og mildi til svo margra. Ekki síst kyn- slóðanna sem voru að vaxa úr grasi. Góðs af því naut sonur okkar Hrafn- hildar, Dagur, þegar vinátta tókst með honum og dóttursyni Kallýjar, Orra. Músiktilraunir þeirra félaga í skúrnum á Fjölnisvegi stóðu árum saman og meðfylgjandi atlæti í eld- húsinu hjá Kallý. Vinátta sem vex og dafnar um fjóra ættliði er dýrmæt og ekki er annað að sjá en fimmtu ættliðirnir séu byrjaðir að krunka sig saman í börnum Orra og Dags. Óafvitað munu þau efalaust búa að ættmæðrum sínum, þeim Mundu og Kallý, konum sem fáir hafa lýst betur en William Heinesen í Glötuðum snillingum: „Það eru konur á borð við hana sem standa í miðdepli heimsins. Geisla frá sér hlýju til allra átta, norð- urá pól allaleið. Þær tákna með ein- hverjum hætti stefnuna og tilganginn í mannlífinu. Þær eru heilli en nokkur guðfræði eða heimspeki getur verið. Ekkert nema gerðir sínar…“. Pétur Gunnarsson. Nú er hún Karólína búin að kveðja. Hún hvarf inn í græna landið fyrir nokkrum árum og nú er hún farin þaðan. Með henni kveður kona sem ég þekkti í rúm fjörutíu ár, eða frá því vinskapur varð með okkur Gesti. Þá bjó hún í fjölskylduhúsi við Ásvalla- götu með tengdamóður sína á loftinu og unglingana í kjallaranum. Þar kynntist ég þessum elskulegu hjón- um, Karólínu og Guðmundi, sem voru ekki síðri ástæða til að skreppa í heimsókn á Ásvallagötuna en að hitta Gest. Síðan hefur Karólína verið föst stærð í lífi mínu. Hún flutti úr einu fjölskylduhúsi í annað. Á Fjölnisveg- inum voru þau Bói eftir sem áður miðpunkturinn en nú tóku að bætast við tengda- og barnabörn sem þau söfnuðu í kringum sig. Við Fjölnisveg eru einhverjir stærstu og fegurstu garðar í gömlu Reykjavík og þar undi Karólína sér vel. Eina sólskinsstund datt ég þar inn í barnaafmæli og þá mynd ætla ég að geyma: Kallí í garð- inum sínum, umvafin hópi afkom- enda, ljómandi í kappi við sólina og mátti ekki milli sjá hvor var fegurri. Um leið og ég þakka Karólínu sam- fylgdina votta ég þeim systkinunum, Sigrúnu, Guðrúnu og Gesti og fjöl- skyldum þeirra samúð mína. Þröstur Haraldsson. Karólína S. Halldórsdóttir Elsku amma mín. Ég kom til þín þegar þú varst sofandi alla daga. Ég hefði ekki getað hugs- að mér betri ömmu en þig. Ég elska þig. Kveðja, Kári. Hæ elsku amma mín. Þú varst alltaf alveg frá- bær amma og verður það alltaf. Ég elskaði þig alveg síðan ég var í maganum á mömmu minni. Ég elska þig. Salka. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.