Morgunblaðið - 26.06.2010, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 26.06.2010, Blaðsíða 32
32 Minningar MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. JÚNÍ 2010 Þegar við minnumst Binna kemur orðið sposkur mjög sterkt upp í hugann og „hvað – ég ?“-svip- urinn sem spjaldaður knattspyrnu- maður setur upp þegar hann þykist ekkert skilja í dómgæslunni. Hver kannast ekki líka við hnussið og sem síðan fylgdi: „er ekki allt í lagi með þig“ ef honum fannst þú fara með fleipur, en hann var fljótur að sjá spaugilegu hliðarnar á málunum, sérstaklega á andstæðum skoðun- um. Þetta varð til þess að nánast var ógerningur að telja honum hughvarf í dægurkarpi um menn og málefni. Menn urðu að játa sig sigraða af sannfæringu hans og stríðni. Það er einhvern veginn ekki hægt annað en að brosa að tilhugsuninni um Binna, enda alltaf einhver sposk- ur glampi í augunum. Þó að fráfall hans sé okkur þyngra en tárum taki er eins og þessi glettni hans og óbærilegur léttleiki tilverunnar yfir- taki alla hugsun um hann, jafnvel yf- ir því hryggilega verki að skrifa um hann minningargrein. Við saumaklúbbsvinkonur Lúllý- ar, jafnöldrur og skólasystur Binna, erum búnar að þekkja hann nánast frá barnæsku, hann verið í okkar hópi og aldrei borið þar skugga á, enda Binni traustur félagi og vinur. Hann hafði af þessum sökum þá sér- stöðu meðal eiginmanna sauma- klúbbshópsins, að hafa þekkt allar stelpurnar lengur, og að hans sögn, með púka-stríðnisglampa, betur en hinir eiginmennirnir. Binni var því ekki bara maðurinn hennar Lúllýar vinkonu okkar heldur var hann líka hann „Binni okkar“ allra stelpnanna í saumaklúbbnum, skólabróðir okkar og vinur. Binna var margt til lista lagt og ber sumarbústaður þeirra Lúllýar þess órækt vitni, en bústaðinn smíð- aði Binni eigin höndum að mestu. Þar er allt án málamiðlana og enginn afsláttur gefinn af bestu vinnubrögð- um og fullkominni fagmennsku niður í smæstu smáatriði. Það var auðvitað honum líkt því allt sem hann um- gekkst naut natni hans og snyrti- Brynjar Þór Hafdal ✝ Brynjar Þór Haf-dal fæddist í Keflavík 7. september 1951. Hann lést á heimili sínu 17. júní 2010. Brynjar Þór var jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju 24. júní 2010. mennsku og gat því ávallt sýnt sínar bestu hliðar. Hópurinn okkar hefur víða farið frá fjallaskálum í fegurð íslenskra fjalla til menningarborga heimsins þar sem mik- ið var brallað og hleg- ið, margt markvert skoðað, en aðallega til að vera saman og njóta lífsins. Meðal þeirra minninga á Binni stóran sess þar sem andrúms- loft hvers staðar og tíma litast af kærkominni nærveru hans. Á næsta ári verðum við skólafélag- arnir í saumaklúbbshópnum 60 ára og vorum byrjuð að huga að ferð saman af því tilefni eins og við gerð- um bæði þegar við urðum fertug og fimmtug. Nú hefur hópurinn á tæpu ári þurft að sjá á eftir tveimur góðum mönnum á besta aldri og verða þess- ar ferðir aldrei eins eftir svona mik- inn missi. En lífið heldur áfram og minningin um Binna mun halda áfram að hlýja okkur hið innra um ókomna tíð. Þó okkur sé þungt í huga og sökn- uður okkar sár verður okkur þó enn þyngra að hugsa til þess hve mikið þið hafið misst, elsku Lúllý okkar, strákarnir ykkar, makar þeirra og afastelpurnar. Við vonum að ljúfar og bjartar minningar um þennan góða dreng og glettna afa verði ykk- ur nokkur huggun er fram líða stundir. Ljúf minning lifir. Fríða, Sigríður og Guð- mundur, Dröfn og Árni, Árn- heiður og Jónas, Guðbjörg og Árni Þór, Kristín og Hall- ur, Marta og Jón. Kæri vinur, þú kvaddir allt of fljótt og óvænt. Kátur og hamingju- samur eftir yndislegt kvöld með Lúllý þinni og nýju vinnufélögunum, lagðist þú á koddann þinn og sofn- aðir svefni sem þú vaknaðir ekki af. Það er ótrúlegt að þú sért farinn. Ég heyri enn hláturinn þinn og sé stríðnisglampann í augunum þínum. Þessi minning mun fylgja mér alltaf. Minningarnar koma ein af annarri, við vinkonurnar kynntumst þér þeg- ar við vorum öll í fyrsta bekk í Gaggó í Keflavík. Þú labbaðir með okkur á hverjum degi heim úr skólanum. Þú vannst hjörtu mæðra okkar og varst alltaf hann Binni þeirra. Fimmtán ára vissir þú að Lúllý væri sú rétta fyrir þig og vannst hjarta hennar og hönd. Þið voruð fallegt par sem fór saman í gegnum lífið í blíðu og stríðu, stolt af sonum ykkar og barnabörnum. Þú varst ekki bara of- urmontinn pabbi og afi, þú varst líka besti vinur þeirra, enda alltaf svo stutt í barnið í þér og stríðnispúk- ann. Ég minnist nýársboðanna okkar, sem byrjuðu á nýársdag 1985, þá komuð þið Lúllý í heimsókn til okkar Axels með strákana ykkar á snjó- þotu. Þegar þið ætluðuð heim var komið brjálað veður svo ekki sá á milli húsa. Við Axel töfruðum fram veislu úr afgöngum og við sátum við kertaljós og nutum kvöldsins þar til veðrið gekk niður. Þá var ákveðið að gera þetta á hverju ári til skiptis hjá okkur og ykkur, alltaf voru strák- arnir ykkar með. Svo fjölgaði í hópn- um, tengdadóttir bættist við og barnabarnið hún Lovísa Sif. Aldrei mátti ég breyta um forrétt þegar boðið var hjá okkur Axel, sniglar à la Fríða skyldi það vera og aðalréttur- inn hjá ykkur varð að vera gæs à la Binni, sem þú hafðir skotið og þið Lúllý eldað af tærri snilld. Ég minn- ist ferðanna með saumaklúbbnum á hálendi Íslands, til útlanda og heim- sókna okkar Axels í sumarbústaðinn ykkar. Líka heimsóknir ykkar Lúllý- ar til okkar Axels þegar við bjuggum í Belgíu. Það var aldrei lognmolla í kring- um ykkur vinina, mikið hlegið og tal- að hátt. Fyrir ellefu mánuðum síðan barst þú kistu Axels míns og besta vinar þíns til grafar, það voru þung spor. Nú stöndum við æskuvinkon- urnar og fjölskyldur við kistuna þína, dofin og döpur. Annað stórt skarð er höggvið í vinahópinn okkar. Ég þakka þér fyrir elsku þína og um- hyggju. Þín verður sárt saknað, elsku vinur. Ég bið góðan Guð að varðveita þig og gefa Lúllý, Einar, Georg, Möggu og Arnaud og litlu afastelpunum þínum þeim Lovísu Sif og Jónu Kristínu styrk í þeirra miklu sorg. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þín vinkona, Sigurfríð. Þegar sorgartíðindi berast er eng- inn þeim viðbúinn. Hversdagslegar áhyggjur eru í flestum tilfellum sak- lausar og lítilfjörlegar samanborið við skilaboð sem lama mann og skilja mann orðlausan eftir með hugann fullan af spurningum. Það var þann- ig símtal sem vakti mig upp að morgni 17. júní og mun seint fara mér úr minni. Ég fékk þau skilaboð að hann Brynjar Hafdal væri látinn. Maður á besta aldri, alltaf hress og kátur og hvers manns hugljúfi. Þegar ég hugsa til baka um hann Binna þá get ég ekki annað en bros- að þótt tár falli á kinn. Hann Binni tengdist mínu lífi á marga vegu. Hann var mágur hans pabba og því voru fjölskylduböndin sterk, hann var faðir besta vinar míns og frænda og svo vann hann hjá Símanum í Keflavík og því þurfti hann að þola mig hringjandi og kvabbandi í sér í tíma og ótíma í tengslum við rekst- urinn og var alltaf jafn hjálpsamur. Þar sem ég og Georg sonur hans vorum mjög mikið saman kom ég oft á Heiðargarðinn til þeirra Brynjars og Lovísu, stundum í mat og drykk eða í spjall í stofuna og áttum við þar ógleymanlegar stundir. Það kom einnig fyrir að ég ætlaði mér bara að renna við og sækja hann frænda minn og lagði því bílnum í innkeyrsl- una og flautaði. Þá kom það oftar en ekki fyrir að Binni rauk út á plan til þess að sækja mig enda með öllu ómögulegt, að hans mati, að ég kæmi ekki inn í spjall og færi yfir stjórn- málaviðhorfið fyrst ég var mættur á annað borð. Þetta þótti mér mjög vænt um og rauk auðvitað inn til þess að fara yfir málin. Já, þannig var hann Binni, alltaf með eindæm- um hress og fjörugur maður og það þótti mér gaman. Hann var einnig jákvæður og hvetjandi og stappaði í mann stálinu þegar á þurfti að halda. Ég hitti hann síðast um jólin og þá áttum við gott spjall um námið og framtíðina. Ég er þakklátur yfir að hafa kynnst honum Binna og mun varð- veita þær mörgu góðu minningar sem við áttum saman. Í minningu Brynjars Þórs Hafdal: Þakkir vér berum til vinar, sá vinur er horfinn oss frá. Minningar áfram þó lifa og blómlegum fræjum þær sá. Nú sólin hún sumarið vermir og varlega vindurinn blæs, er haustgolan hvín yfir hæðir frá hólmunum upp flýgur gæs. Hún flýgur í minningu þína, sú minning er okkur svo hlý. Í bili við kveðjum þig vinur. Uns hressir við hittumst á ný. (JFF) Elsku vinir, við vottum ykkur okk- ar dýpstu samúð. Jóhann Friðrik, Erla og Guðrún Elfa. Stundum finnur maður ótrúlega til vanmáttar, sér í lagi þegar eitt- hvað skeður snöggt. Maður skilur ekki hvers vegna slíkir hlutir koma svo óvænt og ófyrirséðir inn í líf okk- ar. Þannig var það að morgni sautjánda júní, þegar síminn hringdi og okkur var tjáð að hann Binni hefði orðið bráðkvaddur. Hvernig mátti það vera? Það hafði ríkt gleði og hamingja hjá þeim hjónum nokkrum klukkustundum áður, og allt í einu er sem hendi sé veifað og sá er öllu ræð- ur stöðvar hjartað hans og skilur okkur eftir með spurningar, sem við fáum ekki svarað. Þau voruð bara unglingar þegar ástin knúði dyra í lífi þeirra. Mamma og Pabbi sáu ekki sólina fyrir þeim, hvort sem um var að ræða í gleði eða sorg, þau sam- glöddust yfir velgengni þeirra og drengjanna. Nú eru kaflaskil og Binni hefur sest við borðið hjá þeim eins og hann gerði árum saman á Suðurgötunni og mamma dekrar við hann í mat og drykk eins og henni einni var lagið. Þau hjónin byggðu sér fallegt einbýlishús uppi í Heið- argarði, og þegar þeim fannst tími til kominn, skiptu þau um og fóru í íbúð. Jafnhliða því byggðu þau sér glæsi- legt sumarhús, þar sem þau hugðust gleðjast með vinum og fjölskyldu. Það var gaman að koma til þeirra og sjá gleðina í augum þeirra yfir unnu verki, en á hverju hausti komum við saman systkinin og makar til að halda upp á lífið og tilveruna. Brynjar vann næstum allan sinn starfstíma hjá Símanum en síðustu mánuðina hjá Keili, þar sem hann naut sín vel og var mjög ánægður í starfi. Við Binni áttum af og til gott spjall yfir kaffibolla síðustu mánuð- ina og röktum fyrri tíma og framtíð- ina, sem ekki verður rakið hér. Um leið og við Anna biðjum góðan Guð að styrkja syni hans og fjölskyldur viljum við, elsku Lúllý mín, þakka ykkur Binna fyrir allar góðu stund- irnar sem við höfum átt saman. Við biðjum hann sem öllu ræður að halda verndarhendi yfir litlu fjölskyldunni þinni. Guð blessi minningu Brynjars Þórs Hafdal. Friðrik Georgsson. Í daglegu lífi verða margvíslegar manngerðir á vegi okkar. Sumir fanga meiri athygli en aðrir. Fyrir mörgum árum átti sá er þetta ritar tíð samskipti við þjónustufyrirtæki nokkurt. Fulltrúi þess gagnvart mín- um vettvangi vakti athygli fyrir lif- andi áhuga á verkefni sínu en ekki síður fyrir þægilega návist – skemmtilegar athugasemdir um líð- andi stund en ekki síst hið einkar fal- lega bros sem ekki gat annað en kall- að fram hið jákvæða. Svo skiptu báðir um vettvang en heilsuðust á förnum vegi og ávallt birtist brosið milda og góða. Leiðir okkar lágu svo saman sl. haust þegar Binni kom til Keilis og bauð fram krafta sína. Sagðist einfaldlega vera að leita sér að vinnu og fannst hið unga fyrirtæki, Keilir, spennandi vettvangur. Og enn kom brosið milda. Það reyndist gæfa okkar Keil- isfólks að fá Binna í liðið. Lifandi áhugi og trúnaður við skapandi verk- efni var aðalsmerki hans í starfinu. Hann naut þess að móta og skapa og ekki síður að vinna í návist unga fólksins. Daginn fyrir hið óvænta andlát hans hafði næsti yfirmaður Binna orð á því hversu lánsöm við hefðum verið að fá Binna til okkar – stutt mörgum sögum af frumkvæði hans og natni í starfi. Ekki síður vann hann sér strax væntumþykju og virðingu allra starfsmanna Keilis – þar sem ljúf lund og lipurð með brosinu góða laðaði fram hið já- kvæða í umhverfinu. Og svo var hann hrifsaður frá okkur – svo snöggt og svo óvænt. Skarð hans verður aldrei fyllt en glæsileg verk hans munu standa og minna okkur lengi á frábæran sam- starfsmann og góðan fagmann. Við sendum Lovísu, konu Binna, og fjölskyldu allri okkar dýpstu hlut- tekningu. Blessuð sé minning Brynj- ars Hafdal. F.h. starfsfólks Keilis, Hjálmar Árnason. Að morgni 17. júní var ég við störf mín í lögreglunni þegar samstarfs- maður minn spyr hvaða útkall hafi verið í Pósthússtræti 3. Skoðaði ég útkallið í dagbókinni og sá að þú varst dáinn. Að maður sem hefur hugsað um heilsu sína jafn sam- viskusamlega og þú í yfir 30 ár sért farinn, verður til þess að maður skil- ur enn verr en áður hvernig þetta allt er skipulagt. Já, Binni minn, það er óhætt að segja að samviskusemi hafi verið einn þinn helsti kostur. Því verki eða verkefni sem þú tókst að þér skilaðir þú bæði vel og samvisku- samlega. Ávallt átti maður góðan að þar sem þú varst þegar maður var stopp í verki heima við og gat þá hringt í þig og málið var leyst. Því handalagnari maður var vandfund- inn. Undanfarna daga hefur maður verið að hugsa til baka og upp í hug- ann koma bara jákvæðar hugsanir um atburði og samskipti og er það gott. Í gær þegar við Inga fórum með strákana okkar og tengdadóttur til Lúllý var margt rifjað upp og meðal annars sögur um þig og Einar Orra síðan hann var lítill strákur. Börn hafa sótt í návist þína og barn- gæska þín og elska hefur alltaf sést á þér og hafa mín börn notið þess sem og önnur. Kæri bróðir, að bera þig til grafar á afmælisdaginn minn eru örlög sem engan gat órað fyrir. En enginn mannlegur máttur gat komið í veg fyrir fráfall þitt og því verður maður að una. Nú er það okkar sem eftir er- um að veita hvert öðru styrk en á móti þér tekur mamma og hugsar um þig. Einar Helgi og fjölskylda. Hann Binni vinur minn er farinn. Mín fyrstu kynni af Binna, sem var verkstjóri hjá Pósti og síma hf. voru að hann hringdi í mig í morgunkaffi- tíma vorið 1976 og vildi fá mig í vinnu, en við hjónin stofnuðum véla- fyrirtæki árið 1974. Upp frá þessu samtali urðu með okkur margar og góðar stundir. Mér fannst gott að vinna fyrir Binna, hann var drífandi og vissi vel um allt sem varðaði símalagnir á svæðinu. Okkar leiðir hafa legið saman alla tíð síðan. Sonur Binna, Einar Friðrik, var í vinnu hjá okkur og reyndist okkur vel. Svo dimmdi yfir þegar Binni missti vinnuna haustið 2009 eftir 40 ára starf hjá símanum og þá misstum við sem er- um í verktakabransanum mikið. Að missa Binna úr þessari vinnu gerði það eiginlega að verkum að allt fór úr skorðum í sambandi við símalagn- ir og fleira á svæðinu. Ég hitti Binna nokkrum dögum fyrir andlátið og var hann alsæll yfir vinnu sem hann var kominn með hjá Keili og það var bjart yfir Binna. En svo kom kallið, alltof fljótt, maður á besta aldri. Hann var farinn að njóta lífsins með bústað í Þrast- arskógi sem þau hjónin voru svo ánægð með og góða íbúð að Póst- hússtræti 3, Reykjanesbæ. Þegar við hjónin fréttum af and- láti Binna þann 17. júní vorum við í lausu lofti og algerlega tóm. Þetta var erfiðasti 17. júní sem við höfum upplifað. Elsku Lovísa, Einar Friðrik, Georg, barnabörn og vinir, megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Við vottum ykkur samúð. Sigurjón, Sigrún og fjöl- skylda – Pósthússtræti 1, Reykjanesbæ. ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför, SIGRÍÐAR DAVÍÐSDÓTTUR, Engjaseli 65, Reykjavík. Runólfur Runólfsson, Gerður H. Hafsteinsdóttir, Sigríður Hafdís Runólfsdóttir, Ólafur Tryggvi Sigurðsson, Davíð Arnar Runólfsson, Jamilla Johnston, Atli Freyr Runólfsson og langömmubörn. ✝ Innilegar þakkir til allra er studdu okkur í veikindum og sýndu samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns, föður, tengdaföður og afa, ÞÓRARINS SIGURÐSSONAR, Heiðvangi 28, Hafnarfirði. María Sif Sveinsdóttir, Gunnar Þór Þórarinsson, Eva Gunnarsdóttir, Sveinn Bjarki Þórarinsson, Kolbrún Kristínardóttir, Egill Örn Þórarinsson og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.