Vera - 01.12.1982, Blaðsíða 10

Vera - 01.12.1982, Blaðsíða 10
FríðaÁ. Sigurðurdóttir vakti athyglisem rithöfundur með fyrstu bók sinni, smásagnasafninu ,,Petta er ekkert alvarlegt" árið 1980. Skáld- saga Fríðu, „Sólin ogskugginn“ kom út 1981. Þetta kvöld — ferlega skrítið. Nei annars, ekki skrítið, en ein- hvern veginn eins og — eins og — æ, ég veit ekki. Eins og það væri eitthvað sérstakt. Já. Samt gerðist ekkert. Ekki þannig. Ekkert merkilegt, meina ég. Nema FJranda, við fundum hana ekki. En samt... Við leituöum og leituðum áreiðanlega í klukkutíma eða meira. Fórum um allt og hrópuðum og kölluðum, og mér fannst ég vera alveg eins og asni. En það var svipurinn á ömmu — og afa — annars hefði ég bara farið heim. Og auðvitað fundum við hana ekki. Mér var líka skítsama. Nema náttúrlega út af ömmu. En Branda, iss, þetta var leiðindakvikindi, alltaf síklórandi mann ef maður kom við hana. Nei, við fundum hana ekki. Mér datt það heldur aldrei í hug. Ég veit hver hann er gaukurinn í næsta stigagangi. Villi. Hann var í áttunda í fyrra. Alveg snargeggjaður. Og kaldur. Töff gæi! A eftir labbaði ég heim. Það er ferlega langt, en mér fannst ég bara þurfa að labba. Og á leiðinni var ég alltaf að hugsa um ömmu og Bröndu, og afa og greinina í blaðinu. Og Villa. Og um gær- kvöldið. Það snerist allt inni í hausnum á mér og gerði mig alveg ruglaðan, og ég sagði hvað eftir annað við sjálfan mig: ,,Það þýðir ekkert að vera að pæla í svona, maður!“ En svo fannst mér eins og ég væri alveg að skilja — skilja eitthvað — eitthvað sem — nei, ég veit ekki. Það hvarf alltaf þegar mér fannst ég vera alveg að ná því. Og ég hugsaði um hvernig við stóðum þarna öll þrjú úti í myrkr- inu, og hvernig afi tók um hendina á ömmu og sagði: „Það þýðir ekkert að vera að þessu lengur." Og amma sagði: „Nei, líklega þýðir það ekkert.“ Og ég sá að þau héldust fast í hendur. Ég hafði aldrei séð þau haldast í hendur fyrr eða neitt svoleiðis, en samt var það ekkert skrítið. Eða asnalegt. Nei, það var einhvern veginn svo eðlilegt, eins og þau hefðu alltaf haldist í hendur þó ég hefði aldrei séð það. Og allt í einu fann ég hendina á Soffíu á kinninni á mér eins og um kvöldið þegar við hittumst í bíó og ég fylgdi henni heim. Við stóðum þarna fyrir framan heima hjá henni og ég vissi ekkert hvað ég átti að segja eða gera. Þorði ekki einu sinni aö líta á hana. Og þá — þá lagði hún hendina á kinnina á mér. Og ég leit á hana. Ég gat ekki hreyft mig, stóð bara eins og staur og horfði á hana. Svo dró hún að sér hendina og leit undan og tlýtti sér að útidyrunum og ég sá hana veifa til mín um leið og hún opnaði þær. Og allt í einu var ég farinn að hlaupa og stökkva eftir götunni og mig langaði til að gera eitthvað algjörlega brjálað. Syngja eða öskra eins hátt og ég gæti. Eða bara eitthvað. En ég gerði það ekki. Ég horfði á afa og ömmu leiðast hægt að dyrunum, og ég mundi eftir Soffíu og hvernig hún sat í fanginu á Óla í gærkvöldi, og ég heyrði að amma sagði svona lágt eins og hún væri að tala við sjálfa sig: „Það er bara af því hún bar líf. Einhvern veginn finnst mér það svo miklu verra af því hún bar líf.“ Og afi sagði: „Þeim hefði hvort sem er veriö lógað, við höfum ekkert pláss lengur fyrir kettlinga." „Onei, þeir hefðu fengið að lifa eins og hinir kettlingarnir hennar Bröndu, ég hefði komið þeim einhvers staðar fyrir eins og alltaf," sagði amma. Og afi muldraði eitthvað sem ég heyrði ekki. Bar Iíf. Amma notar oft svona einkennileg orð. Ég hefði heldur átt að fara til Didda. Þrátt fyrir gærkvöldið. Það var svo skrítið að sjá þau leiðast svona og heyra ömmu segja: „Hún bar líf.“ Mér leið eitthvað svo einkennilega innan í mér. Ég hafði aldrei hugsað um það svoleiðis. Já, ég hefði heldur átt að fara til Didda. „Blessaður komdu, maður, ég er með nýja plötu með Madness," sagði hann. En ég vissi að hann langaði bara til að yfirheyra mig um kvöldiö í gærkvöldi svo ég sagði: „Æ, ég nenni því ekki núna.“ „Ertu ekki alveg að drepast úr móral?" spurði hann eins og fífl. „Móral? Út af hverju?“ „Út af hverju? Nú út af þessu öllu, maöur, drekka sig blindfullan og . ..“ „Ég má ekki vera að þessu, bæ,“ sagði ég og ætlaði að leggja á. „Bíddu, bíddu,“ orgaði hann. „Maður gæti bara haldið að þú værir að fara að hitta Soffíu,“ sagði hann og hló eins og geðveikur asni. Hélt víst hann væri ofsalega fyndinn. Ég skellti á. Einhvern veginn gat ég ekki verið kyrr inni á eftir. Það var ekkert hægt að gera. Allir aö horfa á sjónvarpið. Svo ég fór til afa og ömmu. Ég hafði ekki komið til þeirra lengi. Það er fínt að koma til þeirra. Aldrei nein læti. Ekki eins og heima. Eða í skólanum. Þau eru ekkert að skipta sér af manni. Ekki þannig. Þau tala bara við mann. En það gerist ekkert. Þau búa í lítilli tveggja herbergja íbúð og amma dró mig strax inn í stofu. Svo settist hún aftur í stólinn sinn og tók upp prjónana. Hún er alltaf að prjóna eitthvað. Afi var að lesa í einhverju blaði. Þau spurðu um þetta vanalega, hvernig gengi í skólanum og svo- leiðis eins og fólk gerir alltaf. En það er eins og þau meini meira með því en hinir. Eins og þau vilji í alvöru vita hvernig mér gengur.

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.