Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 19

Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 19
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir „Líf okkar allra á bláþræði“ Ágætu samherjar! Ég hitti fyrir skömmu konu. Hún var ófrísk. Þessi kona sagði mér að það hefði tekið sig mörg ár að gera það upp við sig hvort hún vildi fæða barn í þennan heim, svo mikil óvissa ríkti um framtíð hans. Innst inni bar þessi kona þó von í brjósti, von sem sagði henni að hún mætti ekki gef- ast upp. Hugarangur þessarar konu er ekkert einsdæmi. Hræðslan við að móðir jörð verði ekki byggileg börnum okkar um ókomna framtíð verður sífellt áleitnari og hefur leitt til þess að þúsundir manna þyrpast út á göturnar og hrópa á frið. Horfurnar eru ógnvænlegar. Sú helstefna sem einkennir nú heimsmálin hefur orðið til þess að þriðja og ægilegasta heimsstyrjöldin verður æ óumflýjanlegri. Tortíming alls lífs á jörðunni er orðinn óhugnalega nálæg- ur möguleiki. Enn eru þeir þó til að ypta öxlum og segja það ástæðu- laust að hafa áhyggjur. Enginn þori að leggja út í kjarn- orkustyrjöld og því verði vopnunum aldrei beitt. En til hvers þá að framleiða öll þessi morðtól og eyða í það millj- örðum milljarða á sama tíma og helmingur jarðarbúa sveltur? Eru það vopnin eftir allt sem verja friðinn? Nei, staðreyndin er sú að til þess er.u vopnin framleidd að þeim verði beit. Það hefur sagan margsinnis sagt okkur. Auk þess er málum svo komið í okkar tæknivædda heimi, að kjarnorkustyrjöld gæti verið hrundið af stað af einskærri slysni. Bilanir í tölvubúnaði — Rangar upplýsingar inn á tölvuheila. Meira þarf ekki til. Og slíkt hefur þegar gerst oftar en okkur grunar. Flugvélar búnar kjarnorkuvopn- um hafa nokkrum sinnum verið búnar að hefja sig til flugs, tilbúnar að spúa eldi yfir saklaust fólk, þegar upp- götvast hefur að um misskilning var að ræða. Rangarrök- in áttu ekki að hefjast strax. Á þeim stundum hefur líf okkar allra hangið á bláþræði. Við getum vissulega stungið höfðinu í sandinn og leyft riddurunum í austri og vestri að fara frjálsum höndum um líf okkar. Það er það sem þeir vilja. En hverjum er ekki meira annt um líf sitt en svo? Meðvitundin um yfirvofandi tortímingu heimsbyggðar- innar virðist vera meiri nú en nokkru sinni. Því er það" sorglegra en orð fá lýst að á sama tíma og milljónir manna berjast gegn auknum hernaðarumsvifum út um heim all- an, skulu íslensk stjórnvöld komast upp með að veita Bandaríkjamönnum leyfi til að stórauka hernaðarumsvif sín hér á landi og gera landið þar með að enn meira víg- hreiðri en það þegar er. En kæru félagar, við skulum ekki gefast upp. Það er til alls að vinna — engu að tapa. Breytum sverðum í plóga og notum tæknina í þágu mannkynsins en ekki gegn því. Beinum þeirri miklu hugarorku sem fer í að finna upp og þróa ný drápstæki til að þróa betra samfélag þar sem kjörin eru jafnari og vinnutíminn styttri. Styttri vinnu- dagur er forsenda þess að allur sá fjöldi atvinnulausra sem er á Vesturlöndum í dag endurheimti frelsi sitt til vinnu. Styttri og sveigjanlegri vinnudagur er forsenda frelsunar kvenna, forsenda þess að jöfn foreldraábyrgð og sam- vinna innan veggja heimilisins fái þrifist. Tökum höndum saman hvar í flokki sem við stöndum og komum í veg fyrir valdagræðgi stórveldanna leiði okk- ur til glötunar. Ef sprengjan fellur, hvort sem hún kemur fyrst úr austri eða vestri, munum við öll deyja, hvort sem við erum kommúnistar eða kapitalistar. Því er það sameiginlegur hagur okkar allra að spyrna gegn þessu víti. Krefjumst niðurrifs kjarnorkubúnaðar stórveldanna og það strax. Það er forsenda þess að börnin okkar eigi sér framtíð.

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.