Akranes - 01.02.1944, Blaðsíða 8

Akranes - 01.02.1944, Blaðsíða 8
20 AKRANES Jóhannes útgerðarmaður í Nýjabæ andaðist 9. des 1892, 70 ára gamall. 2. Geir, (eldri) fæddur 20. sept. 1823, dáinn 17. ágúst 1827. 3. Kristján Georg, fæddur 1. nóv. 1825, dáinn 10. ágúst 1827. Eins og sést á dagsetningum þessum, misstu þau hjón, Jóhannes glerskeri og Ingigerður, tvo unga sonu sína með viku fresti sumarið 1827. Um sama leyti dóu mörg börn í Reykjavík „úr andarteppu og brjóstþyngslum“, að því er kirkjubókin segir, og voru sveinar þessir þar á meðal. 4. Kristjana, fædd 4. maí 1828. Hún giftist Jónasi H. E. Jónassen verzlunarstjóra. Maður hennar var góðum hæfi- leikum búinn að ýmsu leyti, en drykkfelldur um of og laus á kostunum. Hann stjórnaði um skeið verzluninni Glasgow, stærstu og glæsilegustu verzlun Reykjavíkur á þeim árum. Glasgowhúsið var reist 1863 og lét smíða það enskur maður, P. L. Henderson að nafni. Hús þetta var þá stærsta bygging landsins og þótti mjög til fyrirmyndar vegna þess, hve öllu var þar vel raðað og haganlega fyrir komið. Þegar Jónassen hafði verið verzlunarstjóri þarna í nokkur ár, missti hann stöðuna vegna óreglu. Lenti hann í miklum og flóknum málaferlum við hina ensku eigend- ur verzlunarinnar, sem kærðu hann fyrir sviksamlegt at- hæfi. Mál þessi voru sótt og varin af hinu mesta kappi, vöktu allhörð blaðaskrif og óhemju umtal manna á meðal. Þau urðu endalokin, að Jónassen beið lægri hlut, og féllu málin á hann að mestu. Þá var hann þrotinn að heilsu og dó skömmu síðar.*) Kristjana, ekkja Jónasar, stóð nú uppi allslaus, eftir lát manns síns. Börn höfðu þau engin átt, enda var sambúðin ekki mjög löng. Eftir þetta hafði Kristjana einkum fyrir sér með matsölu, sem hún rak skörulega um fjölda ára. Þótti hún kvenkostur góður, en giftist þó ekki aftur. Voru henni flestir hlutir vel gefnir. Hún ól upp tvær eða þrjár munaðarlausar telpur, og kom þeim á legg. Kristjana and- aðist 22. nóv. 1890. 5. Geir, fæddur 22. sept. 1822. Um hann fjallar rit þetta. 6. Magdalena Margrét, fædd 2. nóv. 1833, dáin 13. apríl 1834. 7. Magdalena Margrét, yngri, fædd 3. okt. 1835. Hún fór til Kaupmannahafnar skömmu eftir fermingu og giftist þar dönskum skipstjóra, 21 árs gömul. Skipstjóri þessi hét Lichtenberg. Hann stýrði miklu og fríðu skipi og var í förum víða um höf. Var Magdalena löngum með hon- um á ferðum hans og kom á fjölmarga merkisstaði í öll- um heimsálfum. Má líklegt telja, að hún hafi verið einna víðförlust allra íslenzkra kvenna, sem sögur fara af, fyrr og síðar. Eftir ellefu ára hjónaband missti Magdalena mann sinn, ásamt börnum þeirra öllum, þremur að tölu. Létuzt þau öll á sama missirinu. Eftir fimm ára ekkjudóm, giftist Magda- lena öðru sinni, og nú íslenzkum manni, Helga skólastjóra, syni Einars snikkara Helgasonar, bróður Árna biskups í Görðum. Móðir Helga var Margrét Jónsdóttir, Snorrason- ar í Njarðvík. Helgi var fæddur 1832, gekk í prestaskólann og útskrifaðist þaðan 1858. Hann tók við stjórn barnaskól- ans í Reykjavík 1862, og gegndi því starfi til æviloka við góðan orðstír. Magdalena Helgason var mjög fríð kona á yngri árum, vel gefin, góðviljuð og prýðilega af guði ger að öllu leyti. Leituðu ýmsir eiginorðs við hana, er hún sat í Kaupmanna- höfn í ekkjudómi, en hún synjaði þverlega. Þá bað henn- ar Helgi skólastjóri, og gerði það bréflega, þar eð Atlants- hafið lá í milli. Svaraði hún þegar játandi, enda þótt þau hefðu ekki sézt um langt skeið. Magdalena missti Helga *)Um málaferli þessi má fá glöggar upplýsingar í 20. árg. Þjóðólfs (fjölda greina). Sbr. ennfremur Þjóðólf 23. árg. bls. 101. mann sinn árið 1890, en lifði sjálf allt til 1922, og varð nær 87 ára gömul.*) Auk þeirra systkina Geirs Zoega, sem nú hafa verið tal- in, átti hann tvo hálfbræður, Tómas og Einar. Voru þeir launsynir Jóhannesar glerskera, og skal nú sagt frá þeim lítið eitt, hvorum um sig. Tómas var sonur Elínar Tyrfingsdóttur. Hvenær hann er fæddur og hvar, hefur ekki fengizt upplýst að svo stöddu. Snemma er hans þó getið uppi á Akranesi. Bjó hann þar fyrst í Garðhúsum, en síðar á Bræðraparti. Kona hans hét Sigríður Kaprazíusdóttir. Tómas var greindur maður, dug- legur -til starfa og hinn ágætasti smiður. Smíðaði hann cjölda róðrarbáta og skipa, bæði fyrir Akurnesinga og menn í öðrum verstöðvum við Faxaflóa. Þótti honum jafn- an vel takast, enda var hann hagur í bezta lagi, kappsam- ur og fylginn sér. Bendir til þess dálítið atvik, sem Hall- grímur Jónsson, hreppstjóri frá Miðteig, segir frá. Það var á þann veg, að hinn 20. júní 1859 lóðsaði Tómas tvö kaupskip á sama flóði inn Lambhússund, og var það í fyrsta skipti, sem slík skip áræddu þar inn. Þótti þetta djarft tiltæki, en heppnaðist ágætlega og varð til þess, að sundið var notað meira eftir en áður.**) Tómas Zolga varð maður skammlífur. Hann dr.kknaJ við 13. mann í nóvembermánuði 1862. Sá atburður varð á þá leið, er nú skal greina: Hans Peter Tærgesen kaupmaður í Reykjavík, hafði brugðið sér norður til Skagastrandar um haustið. Ætlaði hann að komast utan með briggskipinu „William“, sem þar lá og skyldi sigla, er það væri tilbúið. Svo illa vildi til, að skömmu eftir miðjan október gerði storm, og slitnaði skipið upp af höfninni. Rak það á land skammt innan við Hólanes og brotnaði. Menn komust af, en mikill hluti farmsins skemmdist og ónýttist. Þegar svona var komið, þurfti Tærgesen kaupmaður að komast aftur suður til Reykjavíkur, svo að hann gæti tekið sér fari með miðs- vetrarskipinu þaðan (póstskipinu). Fékk hann mann til fylgdar, en það var Stefájn Gíalason frá Keldufandi í Skagafjarðarsýslu. Urðu þeir samferða norðanpósti, Sig- urði Magnússyni, bónda á Hallgilsstöðum í Hörgárdal. Héldu þeir suður heiðar og gekk ferðin vel allt til Borg- arfjarðar. Komu þeir á Akranes og ætluðu nú að stytta sér leið með því að fara sjóveg síðasta spölinn til Reykja- víkur. Var þeim sagt, að einn fremsti formaður á AJkra- nesi væri í þann veginn að bregða sér í kaupstaðinn. Það var Tómas Zoega. Héldu þeir á fund hans og báðu um far. Var það auðsótt, því Tómas vildi hverjum manni greiða gera. Á tilsettum tíma var lagt af stað á skipi Tómasar. Voru þeir saman þrettán á skipi, flestir með nokkurn farangur. Hinn fjórtándi var gerður afturreka, vegna þess hve hlað- ið var orðið. í för þessari hlekktist skipinu á og drukknuðu menn allir- Það var ætlun flestra, að skipið hefði komizt klakklaust mikinn hluta leiðarinnar, en orðið fyrir áfalli á Akureyjarrifi og sjóar skolað út öllum mönnunum. Hitt var víst, að aldrei hafði skipið af kjölnum farið. Fannst það rekið á Seltjarnarnesi, milli Gróttu og Bygggarðs, en var þá mikið brotið. Þar fundust einnig koffort öll og bréfataska, er póstur hafði meðferðis, og glataðist ekkert af þeim hlutum. Var það allt lí-tt skemmt og komst í hend- ur réttra eigenda. Slys þetta þótti hið hörmulegasta, enda fórust þarna margir nýtir drengir. Að Tómasi þótti mikill mannskaði. Hann átti allmargt barna og voru sum í ómegð, en önnur á legg komin. Meðal barna hans voru Ingigerður, er giftist Benedikt skáldi Gröndal, og Geir, síðar rektor Mennta- skólans í Reykjavík og þjóðkunnur orðabókahöfundur. Geir var aðeins fimm ára gamall er faðir hans drukknaði. ___________ Framhald. *)ísl. í Danm. éftir J, H. bls. 230—231. **)„Akranes“ I. árg. 6 tbl. bls. 4.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.