SunnudagsMogginn - 06.11.2011, Blaðsíða 14

SunnudagsMogginn - 06.11.2011, Blaðsíða 14
14 6. nóvember 2011 Hafið gefur og hafið tekur. Þaðvitum við Íslendingar beturen flestir. Þegar GunnarPálmason, sautján ára háseti, varð fyrir því óláni að hrasa á dekkinu á vélbátnum Vísi á kaldri og dimmri vetr- arnóttu fyrir hálfri öld og steypast á höf- uðið beint í sjóinn, hugsaði hann líka með sér: „Þetta átti þá fyrir mér að liggja.“ Enginn varð vitni að óhappinu og þegar Gunnar kom úr kafi sá hann bátinn fjar- lægjast. „Og þótt ég öskraði af öllum lífs- og sálarkröftum heyrðu þeir ekki til mín um borð. Ég sá bátinn sigla frá mér út í myrkrið,“ sagði hann í samtali við Morg- unblaðið daginn eftir. Þar sem Gunnar tróð marvaðann í sjón- um varð honum hugsað heim til foreldra sinna og systkinanna sjö og hvernig þeim myndi líða vissu þau hvernig ástatt væri fyrir honum. En þær hugsanir stóðu ekki nema örstutt. „Allan tímann, sem ég svamlaði í sjónum, tókst mér að halda bjargfast í þá trú að mér yrði bjargað,“ sagði hann við Morgunblaðið 1961. „Ég sá bátinn allan tímann nema nokkrar mín- útur er hann var lengst í burtu.“ Gleymdi ullarsokkunum Gunnar var vel syndur enda þótt hann hefði ekki komið í vatn í hálft annað ár. Hann byrjaði á því að klæða sig úr loð- úlpunni og klofháum stígvélunum. Það varð honum til happs að hafa gleymt að fara í ullarsokka fyrir róðurinn en fyrir vikið reyndist Gunnari, sem að eigin sögn er ógurlega fótstór, auðvelt að losa sig við stígvélin. „Ég barmaði mér þegar ég áttaði mig á því á bryggjunni fyrir róðurinn að ég hafði gleymt ullarsokkunum, af ótta við fótkulda, en mögulega varð það mér til lífs,“ rifjar Gunnar upp nú hálfri öld síðar. Hann velti fyrir sér hvort hann ætti að losa sig við armbandsúrið en gerði það ekki. „Mér fannst ekki muna um það,“ segir Gunnar en úrið stoppaði eftir 25 mínútur í sjónum. Gunnar reyndi ekki að synda til lands, á að giska 20-30 kílómetra, heldur tróð marvaðann á staðnum, þar sem hann mat stöðuna svo að einasta vonin til björgunar væri að bátsverjar áttuðu sig fljótt á hvarfi hans og fyndu hann. Það mat reyndist rétt. Það var undiralda og sjórinn skolpaðist yfir höfuð Gunnars. Hann fann ekki að neinu ráði fyrir kulda en hendurnar stífn- uðu fljótt, „urðu hálfgerðar kræklur í lok- in“. Svo heppilega vildi til að skömmu áð- ur hafði Gunnar lesið bók um raunir erlends manns sem lenti í sjónum og varð honum strax hugsað til ráðlegginga hans. „Hann lagði áherslu á, að halda ró sinni og það gerði ég. Lesturinn kom tvímælalaust að gagni,“ segir hann nú. Manns innri styrkur Spurður hvort hann hafi leitað styrks í trúnni veltir Gunnar vöngum eitt augna- blik. Síðan segir hann: „Ég trúi ekki endi- lega á himnaríki og helvíti en móðir mín var trúmanneskja og eflaust hef ég beðið Guð um hjálp meðan ég svamlaði þarna í sjónum.“ Hann gerir stutt hlé á máli sínu. „Annars held ég að það sé fyrst og fremst manns innri styrkur sem bjargar manni út úr erfiðleikum, hvort sem það er æðri máttur eða eitthvað annað,“ heldur hann svo áfram. „Það er gott að trúa því að hægt sé að leita á náðir æðri máttar. Hver hann er eða hvaðan hann kemur skiptir ekki öllu máli.“ Annar háseti, Hallgrímur Sigurðsson, var með Gunnari á dekkinu þegar hann féll í sjóinn en varð óhappsins ekki var. Fljótlega fóru þeir Sigurður Árnason skip- stjóri þó að undrast um Gunnar. Hall- grímur hélt hann hafa brugðið sér fram í til að klæða sig betur. Gunnar var ekki þar. Rann þá upp fyrir þeim að hann hefði að öllum líkindum fallið fyrir borð. „Ég skar þegar á línuna og sneri til baka, stöðvaði vélina og kölluðum við nú á Gunnar eins og við máttum,“ sagði Sig- urður í samtali við Morgunblaðið daginn eftir. „En við fengum ekkert svar. Varð ég þá fremur vonlítill um að við myndum geta fundið hann í náttmyrkrinu, ekki sízt þar sem ég vissi ekki hvenær hann hafði fallið fyrir borð. Ég sagði þó við sjálfan mig: „Það vildi ég að Guð gæfi að mér tækist að finna Gunnar.“ […] Líkurnar til þess að finna Gunnar voru mestar með því að halda til baka nákvæmlega eins og við höfðum lagt línuna. Hins vegar óttaðist ég að það myndi taka of langan tíma og sigldi því eftir dýptarmælinum, þar sem fyrr segir ekki löngu eftir að fjögur bjóð voru komin í sjóinn. Línuna höfðum við lagt í nærfellt hálfhring á þessum tíma.“ Faðir skipstjórans drukknaði Vakti það Hallgrími og Sigurði ugg að þeir vissu ekki hvort Gunnar væri yfir höfuð syndur. Enda þótt hann væri frá Skaga- strönd hafði Gunnar um tíma verið á skipum fyrir sunnan, og fór bara í þennan róður fyrir þær sakir að bróðir Sigurðar skipstjóra hafði gengið úr skaftinu vegna meiðsla á hendi. Eflaust hefur atvikið ýft upp vondar minningar í huga Sigurðar en sama dag þrettán árum áður féll faðir hans með sama hætti úr bát í sjóinn – og drukknaði. Sigurður var sjálfur um borð. Gunnar getur ekki lýst tilfinningunni sem greip hann þegar hann áttaði sig á því að báturinn var að nálgast. „Skyndilega fór ég að heyra skrúfuhljóðið gegnum sjó- inn en beið með að kalla þangað til ég var viss um að þeir heyrðu í mér. Þá var öskr- ið líka ógurlegt,“ segir hann. Báturinn stefndi beint á Gunnar og um tíma var hann hræddur um að lenda í skrúfunni eða soginu. Hann synti því stutta leið frá bátnum. Þegar bátsverjar urðu Gunnars varir hentu þeir um- svifalaust bjarghring til hans. „Ég greip þéttingsfast um hringinn og það hefði þurft mikið til að losa takið,“ segir Gunn- ar brosandi. Honum var borgið. Gunnar ber lof á Sigurð skipstjóra og áhöfnina alla. „Til allrar hamingju var skipstjórinn klár maður og gerði allt hár- rétt.“ Það voru snör handtök og ekkert fálm þegar félagarnir voru búnir að hífa Gunn- ar upp á dekkið. Þá fyrst byrjaði hann að skjálfa og átti erfitt um mál. Bátsverjar óttuðust að hann hefði drukkið sjó en það var ekki. Kabyssan var kynt rauðglóandi, Gunnar færður úr blautum fötunum og klæddur í ný. Því næst var dregin upp for- láta landaflaska, innihaldinu blandað í heitt vatn með sykri og því sullað í dreng- inn. „Flaskan var frá Tóta móðurbróður mínum. Ég held mér sé óhætt að segja frá þessu sakamáli hér enda er það löngu fyrnt,“ segir Gunnar við Sunnudags- moggann nú og hlær með bakföllum. Óþarfi að fara í land Eftir þennan viðurgjörning sofnaði Gunn- ar eins og ungbarn og svaf í þrjá tíma. Þegar hann vaknaði var hann eins og ný- sleginn túskildingur og hélt því sem leið lá upp á dekk til að aðstoða félaga sína við að leggja það sem eftir var af línunni og ljúka túrnum. „Þeir vildu fara strax í land en mér fannst það óþarfi.“ Fjölskylda Gunnars fagnaði honum að vonum ógurlega þegar hann kom í land en hann minnist þess ekki að mikið hafi ver- ið gert úr volkinu. Í dag hefði honum án efa verið boðin fjölþætt áfallahjálp en slíkt þekktist ekki þá. „Þetta voru aðrir tímar og óþarfi að setja allt úr skorðum út af þessu óhappi. Allir voru glaðir að sjá mig og að ekkert amaði að mér en ég minnist þess ekki að nokkur maður hafi dregið úr mér að fara aftur á sjó.“ Það gerði hann líka strax daginn eftir – hvergi banginn. „Auðvitað var þetta mikil lífsreynsla fyrir ungan mann en þetta þvældist aldrei fyrir mér – ekki þannig. Maður gekk bara til sinna verka.“ Gunnar var heppinn. Sama verður ekki sagt um tvo móðurbræður hans, Hjört og Svein Hjartarsyni, sem fórust með Skíði HU frá Skagaströnd á Húnaflóa rúmum tveimur vikum síðar. Það er skammt stórra högga á milli á sjónum. Ætlaði alltaf á sjóinn Gunnar Pálmason fæddist á Skagaströnd 1944 en flutti til Reykjavíkur tólf ára gam- all með foreldrum sínum, Pálma Sigurðs- syni og Hólmfríði Hjartardóttur. Enda þótt Gunnar hafi aðeins verið sautján ára þegar hann féll útbyrðis af Vísi var hann þegar orðinn reyndur sjómaður. „Ég byrj- aði á Ingólfi Arnarsyni 22. maí 1959, fjór- Sjómaðurinn sem hafið hafnaði Fimmtíu ár verða á morgun liðin frá því Gunnar Pálmason, 17 ára háseti á Vísi HU, féll útbyrðis um miðja nótt á Húnaflóa. Enginn bátsverja varð hans var í fyrstu og svamlaði Gunnar í 25 mín- útur í ísköldum sjónum áður en honum var bjargað um borð í Vísi. Gunnari varð ekki meint af volkinu, lagði sig í þrjá tíma áður en hann mætti aftur upp á dekk til að klára róðurinn. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Mynd: Árni Sæberg saeberg@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.