Vísbending


Vísbending - 12.11.2012, Blaðsíða 2

Vísbending - 12.11.2012, Blaðsíða 2
2 V Í S B E N D I N G • 4 5 T B L 2 0 1 2 Hvor kommer pengene fra? Svavar Gestsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins hefur skrifað endurminningar sínar, Hreint út sagt. JPV útgáfa 2012, 426 bls. Hann segir meðal annars frá sendiherratíð sinni í Kaupmannahöfn: Við komum í lok október 2005 til Danmerkur. Ég skynjaði strax að það var meira en lítið að gerast í viðskiptalífinu. Varla leið svo vika að ekki væri opnuð útibússkrifstofa einhvers íslensks fyrirtækis. Sendiherrann var stundum með af því tilefni en stundum ráðherrar og jafnvel forsetinn. Í maí 2007 opnaði forsetinn útibússkrifstofu FL-group og það voru eiginlega seinustu forvöð áður en spilaborgin hrundi. Hann kom ásamt á annað hundrað manns; blómanum úr bisnessliðinu á Íslandi og öllum sturtað inn á D‘Angleterre sem Íslendingar áttu ekki þá en áttu eftir að „eignast“. FL-group tók þetta glæsihótel á leigu eins og það lagði sig. Á hverjum kodda var iPod handa gestunum og um kvöldið var boðið til kvöldverðar, þess flottasta – les dýrasta – sem hugsast gat – og þangað voru keyptir skemmtikraftar alls staðar að úr heiminum. Hávaðinn frá heimshljómsveitunum var svo mikill að það var ekki hægt að tala saman. Það gekk ekki upp Fljótlega eftir að ég kom til Kaupmanna- hafnar í vetrarbyrjun 2005 var ég beðinn um að tala um íslenskt efnahagslíf úti um alla Danmörku og svara spurningunni: „Hvor kommer pengene fra?“ sem ég reyndi, eins og aðrir íslenskir sendimenn um þessar mundir, að svara eftir bestu getu. Peningarnir eru ekki rússneskir mafíupeningar, eins og áheyrendur héldu gjarnan. Peningarnir eru fengnir að láni, mest frá Danska Bank, sagði ég – og þá spurðu Danirnir ekki frekari spurninga. Íslendingar „keyptu“ meðal annars verslunina Magasin du Nord. Þeim tókst reyndar að reisa Magasin úr öskustónni. En það dugði því miður ekki. Íslenskir aðilar keyptu fasteignafyrirtæki þannig að um tíma var varla hægt að litast um í miðborg Kaupmannahafnar án þess að sjá hús í eigu íslenskra fyrirtækja. Margt virtist orka tvímælis en það var ekki nokkur leið að átta sig á þessum ósköpum. Ég spurði kunningja mína í hópi íslensku fjárfestanna, eins og Skarphéðin Berg Steinarsson, og hann greiddi út spurningum sem best hann gat. En margt var algerlega óskiljanlegt. Það undarlegasta af öllu var þó þegar dagblaðið Nyhedsavisen var stofnað. Forsendan var sú að auglýsingar eigin fyrirtækja dygðu til þess að hjálpa blaðinu af stað. Það gekk að sjálfsögðu ekki upp. Það streymdu milljarðar og milljarðar aftur í verkefnið eins og ekkert væri. Allir sáu að það var eins og nota pen- inga fyrir klósettpappír. Hvor komer pengene fra? Nokkrir Danir skrifuðu greinar um að íslenska viðskiptaævintýrið væri froða. Og forystu- menn þess asnar. Að spilaborgin myndi hrynja. Svör Íslendinga voru: Efnahags- lífið er sterkt, einkavæðingin hefur skilað miklum hagvexti, kvótakerfið sömu leiðis, lífeyrissjóðirnir eru þeir sterkustu í heimi. Og svo framvegis. Og skrif Dananna voru kölluð öfund sem stafaði af samkeppishagsmunum. Það var líka oft rétt en sagði ekki alla söguna. Utanríkis ráðuneytið fékk upplýsingar frá bönkunum, frá fyrirtækjunum – það var eins og að biðja leikarana að skrifa gagnrýnina, rithöfunda ritdómana. Ráðuneytið ræddi líka við fjármálaeftirlitið og við Seðla bankann. Allt kerfið blessaði útrásina. Ein hverjir vissu betur; meðal annars þeir sem lugu upp verðið á hlutabréfunum, eins og komið hefur í ljós. Aðrir vissu ekki betur, eins og utanríkisþjónustan. Utanríkisráðherra efndi til fundar um ástandið fyrir okkur sendi- herrana snemma árs 2008. Fyrir svörum sat unga líkamsræktaða rándýrtklædda jakka - fata liðið frá bönkunum og opinberum íslenskum stofnunum. Markmið fundarins var að heilaþvo okkur og síðan hef ég velt því fyrir mér hvort þetta unga lið vissi kannski ekki betur. Eða var einhver einhvers staðar vísvitandi að blekkja okkur? Málflutningur þeirra, sem voru að kaupa fyrirtæki í Danmörku, var ekki alltaf til að hreinsa andrúmsloftið og vakti stundum reiði í garð Íslendinga. Þið, Danir, getið ekki rekið svona fyrirtæki, en við getum það, ha, ha, ha! Við erum klárari en þið! Og málflutningur forsetans endurómaði oft þessa hugsun: Að við værum betri en aðrir af einhverjum eðlis- ástæðum hinna framsæknu, kjarkmiklu, gáfuðu, óttalausu, handritaskrifandi vík- inga. Útbelgdur hrokagikksháttur bjó til jarðveginn fyrir þórðargleðina sem við mættum þegar allt hrundi. Steingrímur og Davíð Þegar kom fram á árið 2008 hækkaði skuldatryggingarálagið stöðugt. Nú dugði ekki lengur að vísa til öfundar og samkeppnishagsmuna. Sumir sendiherrar höfðu tekið eftir málflutningi Steingríms J. Sigfússonar sem var óhugnanlega nærri lagi. Við Davíð Oddsson hittumst undir lok ársins 2007 á Hotel D‘Anglaterre þar sem hann var á fundi seðlabankastjóra Norðurlandanna. Hann rakti fyrir mér skuldir sumra fyritækjanna og bankanna á Íslandi. Það var hrikalegur lestur. Og ótrúlegur. ... Forsetinn gekk lengst Og enn er sendiherrann farinn af stað og nú er ekki spurt: „Hvor kommer pengene fra?“ heldur: „Hvad er det for noget sem sker i Island?“ Og sendiherrann reyndi að útskýra. Mín svör voru: Veikar eftirlitsstofnanir. Mín svör voru: Þetta þurfti ekki að fara svona. Og einkavæðingin gekk allt of hratt fyrir sig. Mér gekk betur að skýra hrunið en svara því hvaðan allir peningarnir voru ættaðir, fannst mér sjálfum. Eins fannst mér stundum eins og margir Danir teldu að það væri eðlilegra ástand að við værum fátæk heldur en rík. Flestallir Danir sýndu okkur samúð, samstöðu og skilning en nokkrir sögðu: Sagði ég ekki! Einn þeirra, Leif Bech Fallesen, ritstjóri Børsen, hafði flutt erindi árið 2006 um efnahagslífið á Íslandi og hversu veikt það væri. Ég á erindið. Hann hafði andstyggilega rétt fyrir sér. Sumir sögðu: Ykkur var nær; það sagði danski forsætisráðherrann sem hafði yfir sér ískalda áru ef svoleiðis er til. En er ekki hreinlegast að viðurkenna að nær allir Íslendingar voru bullandi meðvirkir á þessum útrásarárum? Menn gengu misjafnlega langt; forseti landsins auðvitað lengst af öllum og hann hefur aldrei viðurkennt að honum hafi orðið á mistök.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.