Vísbending


Vísbending - 19.11.2012, Blaðsíða 3

Vísbending - 19.11.2012, Blaðsíða 3
V Í S B E N D I N G • 4 6 T B L 2 0 1 2 3 Þá ríktu Gunnar og Geir - úr bókinni Í bókinni Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör, útg. Veröld, veitir Styrmir Gunnarsson lesendum ein- staka innsýn í það sem gerðist á bak við tjöldin í Sjálfstæðisflokknum, einkum á árunum 1970 til 1985. Þar byggir hann að miklu leyti á minnispunktum sínum af lokuðum fundum í innsta hring flokksins og trúnaðarsamtölum þar sem rætt var tæpitungulaust um viðkvæm mál. Hér á eftir fylgja tveir kaflar úr bókinni sem birtir eru með leyfi útgefandans. Geir forsætisráðherra 1974 Ný ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar tók við völdum 28. ágúst 1974. Tvennt veikti hana í upphafi, þótt þeir veikleikar væru ekki sjáanlegir með berum augum í fyrstu. Annað var að Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, sem var dómsmálaráðherra í hinni nýju ríkisstjórn, virtist ekki eiga auðvelt með að sætta sig við að annar maður kæmi í hans stað í forsætisráðuneytið. Óánægja hans birtist í fyrstu í því að hann sjálfur og aðrir héldu því fram, að hann hefði myndað þessa ríkisstjórn „fyrir“ Geir. …Síðar, og það var alvarlegra, reyndi Ólafur að nota aðstöðu sína, sem dómsmálaráðherra og yfirmaður Landhelgisgæzlunnar, til þess að bregða fæti fyrir tilraunir til að ná samkomulagi við Breta í 200 mílna deilunni. Sú útfærsla var ótvírætt mál Sjálfstæðisflokksins, sem lagði línur um þá útfærslu sumarið 1973 eftir að 50 forystumenn í sjávarútvegi höfðu birt opinbera áskorun þar um. … Með því að hafa frumkvæði að skýrri stefnumörkun um útfærslu í 200 mílur hristi Sjálfstæðisflokkurinn af sér mistökin frá 1971. Aðrir flokkar gátu aldrei fyllilega sætt sig við þá forystu sjálfstæðismanna. Lengst gekk Ólafur í þessari viðleitni sinni, þegar hann gaf fyrirmæli um að láta klippa á togvíra brezks togara á sama tíma og forsætisráðherra Íslands sat á fundi með brezkum ráðamönnum í London í janúar 1976. Sú gerð Ólafs vakti, eins og við mátti búast, spurningar í hugum brezkra ráðamanna um það hver staðan væri innan ríkisstjórnar Íslands. Hinn veikleikinn, sem hin nýja ríkisstjórn lagði upp með, var að Gunnar Thoroddsen, sem varð iðnaðarráðherra, beið færis, þótt þess sæjust lítil sem engin merki framan af. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins litu reyndar svo á að það hefði verið veikleikamerki hjá Geir Hallgrímssyni að láta kjósa um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hverjir skyldu verða ráðherrar flokksins. Hann hefði átt að ákveða það sjálfur og tilkynna þingflokknum eins og alltaf hefði verið gert. Það er óneitanlega athyglisvert að það skuli vera lagt formanni stjórnmálaflokks í lýðræðisríki til lasts og talið veikleikamerki að hann vilji fylgja leikreglum lýðræðisins. Sama gagnrýni kom upp á Geir við stjórnarmyndunina 1983, þegar hann lét aftur kjósa um hverjir skyldu verða ráðherrar flokksins og hvort forystan í þeirri ríkisstjórn skyldi vera í höndum Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks eins og síðar verður vikið að. Raunar voru uppi þau sjónarmið að hann hefði ekki átt að hleypa Gunnari Thoroddsen í ríkisstjórnina. Það var auðvitað fráleitt. Gunnar hafði sýnt bæði á landsfundum og í prófkjörum að hann naut verulegs fylgis meðal sjálfstæðismanna og augljóslega var það ekki til þess fallið að skapa samstöðu innan flokksins að útiloka svo öflugan stjórnmálamann frá ráðherradómi. Í stjórnmálaflokki, sem hefur á stefnuskrá sinni að berjast fyrir lýðræði, verða menn að þola leikreglur lýðræðisins og þær niðurstöður sem þær leiða til. Gunnar forsætisráðherra 1980 Það er stundum sagt að sá einn hafi rétt fyrir sér sem sigri. Gunnari Thoroddsen var um skeið hampað fyrir það að hann hefði leyst erfiða stjórnarkreppu. En eftir því sem tíminn hefur liðið hefur smátt og smátt orðið ljóst að hann bauð höfuðandstæðingum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi, upp á að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn gegn því gjaldi að hann sjálfur gæti um skeið setið á stól forsætisráðherra. Þetta var sá flokkur sem hafði borið hann á höndum sér. Á hans vegum hafði hann starfað sem borgarstjóri í Reykjavík og síðar fjármálaráðherra. Á hans vegum varð hann sendiherra í Kaupmannahöfn og síðar hæstaréttardómari og aftur prófessor í lögum við Háskóla Íslands og síðan iðnaðarráðherra. Þessa stjórnarmyndun var ekki hægt að réttlæta með málefnalegum árangri. Þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens fór frá vorið 1983 var verðbólgan á ársgrundvelli komin yfir 100%. Stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Geir Hallgrímsson persónulega. Hann hafði nú tvisvar sinnum á einu og hálfu ári orðið fyrir þungu pólitísku áfalli, fyrst með kosningaúrslitunum vorið 1978 og nú með stjórnarmyndun Gunnars. Þótt samstarf okkar Matthíasar við Geir Hallgrímsson og Eyjólf Konráð, sem aldrei var langt undan í þessum samtölum, væri mjög náið, var ég búinn að gera mér grein fyrir því, að Geir sagði okkur ekki allt sem hann hugsaði um pólitíkina. Viðhorf okkar Morgunblaðsmanna var mjög skýrt, þegar þessir atburðir höfðu gerzt. Við vorum þeirrar skoðunar að á Geir Hallgrímssyni hvíldi skylda sem væri öllum æðri, þ.e. að halda Sjálfstæðisflokknum saman, hvað sem á gengi, og koma í veg fyrir að þessi neikvæða þróun leiddi til klofnings flokksins til frambúðar. Þess vegna vorum við frá upphafi andvígir öllum hugmyndum um að reka ætti Gunnar Thoroddsen og þingmennina, sem honum fylgdu, úr Sjálfstæðisflokknum. Og aldrei varð ég var við að Geir tæki undir slíkar hugmyndir, þótt þær bærust að honum úr mörgum áttum og jafnvel talið til marks um veikleika í fari hans sem formanns að stíga ekki það skref. Það er merkilegt hvað fólk túlkar það oft sem veikleika í fari stjórnmálamanna, þegar þeir hafa þrek og styrk til þess að láta ýmislegt yfir sig ganga til þess að ná því fram sem mestu skiptir. Það er ekki styrkleikamerki að þjóna lund sinni, þótt freistingin til þess sé kannski sterk.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.