Helgarpósturinn - 21.01.1983, Blaðsíða 12

Helgarpósturinn - 21.01.1983, Blaðsíða 12
12 Föstudagur 21. janúar 1983 _Helgai — „posturinn Hann segist vera „viðloðandi“ Ðagsbrún ennþá, þótt hann hafi látið af formennsku síðastliðið vor. „Það þýðir ekki að leggjast í bælið, kominn á þennan aldur. Þá væri maður fljótur að fara.“ Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar í 23 ár, býður okkur inn á skrifstofuna og við setjumst andspænis stóra rauða fánanum með merki félagsins þar sem stendur: Verkamannafélagið Dagsbrún, stofnað 26. janúar 1906. Hann fæddist 18. júlí 1910 að Nýja-Bæ suður í Garði, á heimili móðurforeldra sinna, en fluttist nokkurra vikna gamall með móður sinni til Reykjavíkur þar sem faðir hans hafði keypt gamla torfbæinn Litlu-Brekku á Grímsstaðaholti árið 1906 - sama ár og Dagsbrún var stofnuð. Og í þessum litla bæ átti Eðvarð síðan heima lengst af, allt fram til ársins 1977 og árið eftir varð húsið að víkja fyrir breikkun Suðurgöt- unnar eftir að hafa staðið um hríð í veginum fyrir þeirri framþróun umferðarmenningarinnar og blikkbeljurnar urðu að krækja fyrir það á leið norður Suðurgötu. Kannski er þó réttara að segja, að Litla-Brekka hafi staðið vörð um fortíð Grímsstaðaholtsins. Sjálfur er Eðvarð Sigurðsson einn af fáum sem eftir standa af göml- um forystumönnum verkafólks, sem stofnuðu kommúnistasellu, slógust við auðvaldið og lögguna, sultu heilu hungri í kreppunni og neituðu að skríða fyrir erlendum her. HeigarpOslsvlftiailft: Eftvarð Signrftssftn - Yfirgafstu ekki Litlu-Brekkumeðeftirsjá eftir allan þennan tíma? „Eftirsjá? Ég veit það nú ekki. Ætli ég hafi ekki verið þarna mest af þrjósku. Og kannski líka út af rómantíkog íhaldssemi. Ég hef alla tíð verið talsvert íhaldssarr.ur!“, svarar Eðvarð og kveikir sér í pípu. En ég bið hann að segja frá æskuslóðum sínum þar sem nú eru Melarnir, Hagarnir og Reykjavíkurflug- völlur. Grím sstaðaholtið var afskekkt „Petta var ákaflega frjáls vettvangur, einkanlega fyrir unglinga, og mikið svæði að fara yfir. Þarna voru bæði sjórinn, fjaran og Vatnsmýrin, sem var geysilega rík af fugla- lífi. Vegur var ekki lagður þarna suðureftir fyrr en 1920. Þá voru melarnir mikill berangur, og þegar loftskeytastöðin var byggð, árið 1916, voru engar stiklur á leiðinni þangað, ekkert skjól. Þessi vegur hét bara Melavegurinn, Suðurgata endaði við hornið á Kirkjugarðin- um. Fálkagatan var aðalgatan á Holtinu, líf- æðin má segja. Eii hún var ekki byggð sem gata, var að miklu leyti troðningar þar til um eða eftir 1920. Fram að þeim tíma voru líka tiltölulega fá hús á Grímsstáðaholtinu og þetta var langt frá bænum, tiltölulega einangrað, en þó sóttu margir vinnu í bæinn og börnin gengu í Mið- bæjarbarnaskólann. Þetta var sérstætt samfé- lag, þarna þekktu allir alla og samgangur var mikill milli heimila. Margir voru bæði með búskap og útróðra og þarna voru nokkrar lendingar eða varir, aðallega þó Grímsstaðavör. Hún er enn við lýði, er þar sem nú heitir Ægissíða. Skammt frá var Garðavör, en þar fyrir austan bæirnir Þormóðsstaðir og Skildinganes. Ég byrjaði ákaflega snemma að vinna, ég held ég hafi ekki verið nema sex eða sjö ára þegar ég fór fyrst í fiskbreiðslu. Síðan fór ég í sendiferðir átta ára gamall, fyrst hjá klæðskeranum Rydelsborg, sem var á Lauga- vegi 6, en flutti seinna á Laufásveg 25. Eftír að ég hætti þar hélt ég áfram að vera í sendi- ferðumhjáklæðskerum, fór í sendiferðir hjá klæðskerunum G. Bjarnason og Fjeldsted og var hjá þeim þar til ég fór að vinna verka- mannavinnu. Það mun hafa verið um 1927 sem ég byrjaði á því, var fyrst á Þormóðsstoð- um. Þar var þá stór fiskverkunarstöð í eigu Alliance h.f.“ „Þá fór maður að hugsa málin“ - Hvenær fórstu að taka þátt í verka- lýðsbaráttunni? „Ég komst í snertingu við verkalýðs- hreyfinguna strax og ég fór að vinna verka- mannavinnu. Það var þannig á þessum tíma, að kaupið var lægra í fiskvinnslustöðvunum en annarsstað: r og það líkaði þeim ekki vel sem þar unnu. .’að var svo ekki fyrr en 1930 sem það breyttist, að settur var einn taxti yfir allt. Það ár gekk ég í Dagsbrún og hef verið þar síðan, og á sama tíma gekk ég í Félag ungra jafnaðarmanna. Afskipti mín af verkalýðsmálum byrjuðu þá strax. Þegar árferðið tók að breytast og kreppan skall á fór maður náttúrlega að hugsa málin, og það leiddi til þess að ég gerð- ist róttæklingur eins og það var kallað þá. Við stofnuðum með okkur félagsskap nokkrir unglingar á Holtinu, fyrst út úr Félagi ungra jafnaðarmanna, en síðan stofnuðum við kommúnistasellu. Margir okkar urðu síðan félagar í Félagi ungra kommúnista og Kom- múnistaflokknum. Það er þarna sem afskipti mín af verkalýðsmálum eiga upptök sín, og ég held að það séu ekki margir fundir í Dags- brún sem hafa fallið niður hjá mér síðan“. - Kreppuárin. Hvernig upplifðir þú þau? „Ég upplifði kreppuárin eins og flestir vinnandi menn í Reykjavík. Þetta voru hörmuleg ár, atvinnuleysið gífurlegt, og eftir að hafa reynt það sjálfur tel ég það eitt al- mesta böl sem yfir alþýðuna getur komið. Á þessum tíma voru engar atvinnuleysistrygg- ingar og ekki um neitt annað að ræða en atvinnubótavinnu og ígrip í.annarri vinnu. Eða beinlínis sveitarstyrkinn, sem. allir reyndu að forðast í lengstu lög. Á þessum árum var ég orðinn vel virkur í verkalýðsbaráttunni, og þá voru hér eins og kunnugt er æði mikil stéttaátök, og það kom oft til átaka. Þar ber hæst 9. nóvember 1932, slaginn við Góötemplarahúsið, þar sem ég var þátttakandi. Handtökur og fangelsanir En um áramótin 1931-’32, urðu átök við Góðtemplarahúsið sem leiddu til þess að menn voru handteknir og fangelsaðir. Eins urðu átök 7. júlí ’32. Eftir það voru æði mikil fundahöld, margir útifundir, og nokkur átök af og til. 9. nóvember lá svo fyrir bæjarstjórn- inni krafa frá verkalýðsfélögunum og atvinn- uleysingjum um að fjölgað yrði í atvinnubót- avinnunni. En fyrir fundinum lá líka tillaga um að Iækka kaupið, sem þá var 1.36 krónur á tímann. Það átti að fara niður í krónu. Við vissum að hjá atvinnurekendum voru uppi áætlanir um að fá kaupið niður, og þessi bæjarstjórnarfundur var einskonar general- prufa, það átti að láta bæjarstjórnina ríða á vaðið. Þetta endaði eins og menn vita með átökum, Gúttóslagnum. Lögreglan var gjör- sigruð og bæjarstjórnarfundurinn leystist upp. Síðan var aftur haldinn fundur morgun- inn eftir þar sem var fallið frá kauplækkunar- kröfunni, og upp úr því var fjölgað í atvinnu- bótavinnunni“. - Lentir þú ekki sjálfur í átökum við lögregluna? Eðvarð brosir og vill lítið gera úr þætti sínum í slagsmálum kreppuáranna. „Ég hef nú aldrei verið slagsmálahundur. Þó kom það fyrir að ég lenti í slagsmálum, og við skulum segja að ég eigi mínar minjar. Menn hirtu lögreglukylfur og lögreglumerki. Hinsvegar var ég aldrei'handtekinn í þessum átökum. Ég kalla það ekki handtöku þótt ég hafi stundum verið færður inn á stöðina til yfirheyrslu". Kommúnistar og nasistar - Hvernig var að vera „kommi“ á þessum árum? „Afstaða fólks var misjöfn eins og hún hef- ur alltaf verið. En við sem vorum fremstir í flokki guldum þess fyrst og fremst á þann hátt, að við vorum útilokaðir frá vinnu. Á þessum árum voru ákaflega skörp skil í þjóðfélaginu. Annars vegar Kommúnista- flokkur íslands, sem var driffjöðrin í atvinn- uleysisbaráttunni, en á hinum kantinum bar mest á þjóðernissinnum eða nasistum, og það lenti nokkrum sinnum í handalögmáli milli þessara hópa. Við í Kommúnistaflokknum náðum verulegri fótfestu í verkalýðsfélögun- um. Þó ekki á þann veg að við hefðum stjórn- artaumana. En fylgi verkamannanna við bar- áttu okkar jókst verulega, og uppúr 1935 var mikil samstaða um kjörorð kommúnista, bæði í verkalýðsbaráttunni og hinni pólit- ísku. Kjörorðið fólst í samfylkingarbaráttu, sem einkum beindist að því að Kommúnist- aflokkurinn og Alþýðuflokkurinn ættu að taka höndum saman í þessum stéttaátökum, og það var beinlínis sett á stefnuskrá að sam- eina þessa flokka. Þá voru Alþýðuflokkurinn og Alþýðusam- bandið skipulagsleg heild og aðrir en Al- þýðuflokksmenn gátu ekki komist til trún- aðarstarfa í Alþýðusambandinu. Sameiningin Allt hafði þetta býsna mikil áhrif bæði á hina faglegu og pólitísku baráttu, og gerði það að verkum að Héðinn Valdimarsson, sem þá var aðalforingi Alþýðuflokksins og formaður Dagsbrúnar, flutti tillögu á Dags- brúnarfundi um að Kommúnistaflokkur Is- lands og Alþýðuflokkurinn tækju upp við- ræður með það fyrir augum að sameina flokkana í einn alþýðuflokk - með litlum staf. Nafnið var ekki ákveðið. Þessar tilraunir urðu ekki að veruleika, en hinsvegar var stofnaður haustið 1938 Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, með samruna vinstri arms Alþýðuflokksins, undir forystu Héðins, og Kommúnistaflokksins. Með stofnun Sósíalistaflokksins gjör- breyttust styrkleikahlutföllin í verkalýðs- hreyfingunni, því langsamlega flestir þeirra sem Héðni fylgdu voru í verkalýðshreyfing- unni“. - Hvað er af þínum eigin högum á þessum árum að segja? „Líf mitt samtvinnast svo mikið verka- Iýðsbaráttunni, að það er erfitt að greina á milli. Ég vann hér í Reykjavík alla tíð sem verka- maður þótt stopult væri um vinnu þessi ár. Fljótlega fór ég að vinna nokkuð í járn- iðnaðinum, var af og til í Stálsmiðjunni. Tvö sumur, 1938 og ’39, var ég í síldarvinnu norður á Siglufirði og reyndar hluta sumars- ins 1933. Það má segja að maður hafi haft sæmilegt uppúr sér, en þetta var stutt tímabil hverju sinni, tveir eða þrír mánuðir. Síðan breyttist þetta náttúrlega allt saman með her- námi landsins. Herinn tók strax til sín hundr- uð manna í atvinnu hér í Reykjavík og atvinnuleysið hvarf. Það þrúgaði nú ekki Iengur verkalýðinn, svo hann gat rétt úr sér og hugsað sér til hreyfings. Atvinnuleysið gerði það að verkum að það var erfitt um vik með kaupgjaldsbaráttu, enda má segja, að framundir stríð hafi kaupmáttur tíma- kaupsins verið býsna mikill og hafði farið vaxandi. En það var útaf fyrir sig ekki nægj- anlegt. Til þess að geta lifað urðu menn að hafa vinnu. Á stríðsárunum fór verkalýðsbaráttan að þróast í takt við aðstæðurnar í þjóðfélaginu, aukna vinnu og þensiu. Verðbólgan eða dýr- tíðin, einsog það hét þá, fór að segja til sín. Svo gerðist það í fyrsta sinn árið 1940, að ríkisvaldið greip inn í kjarabaráttuna. Þá voru sett svonefnd gengislög og kaupgjaldið jafnframt sett fast. Að vísu voru ákveðnar smávegis bætur á kaupið, en engan veginn í takt við verðhækkanirnar, þannig að kaupgetan var ekki mikil. Bannið við kauphækkunum rann út í lok ársins, og þá vorum við þeir róttæku farnir að hafa tölu- vert að segja í Dagsbrún. Að tillögu okkar var ákveðið að fara í verkfall 1. janúar 1941. Stjórn Dagsbrúnar með Sigurð Halldórsson sem formann var mótfallinn verkfallinu, en það var samþykkt á fjölmennum félagsfundi með miklum meirihluta. Verkfallið varð al- gjört nema að því leytinu, að hernum tókst að skipa upp vörum til hersins. Breska hernum storkað En við gáfum út dreifibréf sem var dreift meðal hermannanna. Þar voru þeir hvattir til þess að taka ekki upp vinnu verkamannanna sem voru í verkfalli. Það var beinlínis skorað á þá að hlýðnast ekki skipunum yfirboðara sinna. Út af þessu varð svo heilmikið fjaðrafok, sem leiddi til þess að breski herinn lét hand- taka fjóra menn. Meðal þeirra var ég, en hinir voru þeir Ásgeir Pétursson, Eggert Þor- björnsson og Hallgrímur Hallgrímsson sem nefndur var Spánarfari eftir að hann tók þátt í Spánarstríðinu 1937. Við vorum fluttir í fangelsi hersins á Kirkjusandi þar sem við vorum við illa vist og lentum í ströngum yfirheyrslum. Þeim þótti það nefnilega sýnt, að Breti hefði skrifað dreifibréfið og vildu fá að vita hver það var. En náttúrlega komust Bretarn- ir ekki neitt með okkur, þótt þeir hótuðu því, að sprengjurnar í London skyldu fá okkur til að tala. Við sögðum aldrei neitt, og ég ætla ekki að skýra frá því meðan ég lifi hver skrif- aði bréfið. Eftir viku var okkur skyndilega skipað að raka okkur og þvo, sem við höfðum ekki fengið að gera fram að þessu. Við áttum ekki von á öðru en að við yrðum fluttir um borð í breskt skip eins og hótað hafði verið. En það kom í Ijós að það átti að afhenda okkur íslenskum yfirvöldum, og við vorum fluttir í tugthúsið við Skólavörðustíg 9. Það þótti okkur vera einsog að komast á fínt hó- tel, svo mikil voru viðbrigðin! Við vorum mánuð í tugthúsinu meðan við biðum eftir að íslenskir dómstólar fengju niðurstöðu í málinu. Loksdæmdi Hæstiréttur migogÁsgeir í fjögurra mánaða fangelsi en hina tvo í fimmtán mánuði. Við Ásgeir tókum dóma okkar út á Litla-Hrauni, en hin- um voru gefnar upp sakir að nokkru leyti skömmu eftir að Þjóðverjar réðust inn í So- vétríkin um mitt ár 1941. En það er af verkfallinu að segja, að þegar búið var að fangelsa okkur var það orðið forystulítið og eins og ég sagði var stjórn Dagsbrúnar alla tíð á móti því. Þessu lyktaði því á þann veg, að sáttasemjari lagði fram tillögu um nánast óbreytta samninga. Þessi tillaga var lögð undir allsherjar atkvæða- greiðslu og samþykkt með naumum meiri- hluta. Verkfallinu var þar með aflýst. En síðan gerðist það í janúar sama ár, þegar stjórnar- kjör fór fram í Dagsbrún, að Héðinn Valdi- marsson varð formaður að nýju, þá í banda- lagi við Sjálfstæðismenn. Árið eftir fór fram nýtt stjórnarkjör og þá kom til valda í fé- laginu svokölluð einingarstjórn verkamanna, undir stjórn Sigurðar Guðnasonar. Þá náðu saman róttækir menn og Alþýðuflokksmenn í félaginu, en Héðinn var felldur og kom ekki síðan við sögu í stjórn þess. Það er freistandi að fara nokkrum orðum um Héðin. Ég kynntist honum hvorttveggja sem öflugum andstæðingi og samstarfsmanni og hef ekkert nema gott um hann að segja. Það var alltaf gott á milli okkar“. Langur mánuður Það er ekki ofsögum sagt, að líf og starf Eðvarðs Sigurðssonar er svo samtvinnað verkalýðsbaráttunni, og sérstaklega Dags- brún, að þar verður ekki skilið á milli. Þegar hér er komið sögu hafði hann í mörg ár ýmist unnið í Stálsmiðjunni eða Héðni, en árið 1942 markaði tímamót í ævi hans. Þá var hann í fyrsta sinn kjörinn í stjórn Dagsbrúnar, og tveimur árum seinna varð hann ritari stjórnarinnar. Því starfi gegndi hann óslitið til ársins 1961, þegar hann tók við formennsku af Hannesi M. Stephensen. Haustið 1944 tók hann líka að sér að vera starfsmaður Dagsbrúnar í einn mánuð, en sá mánuður varð langur. Eðvarð var launaður starfsmaður félagsins allt til 1959 þegar hann tók sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið. „Þá hætti ég að taka laun hjá Dagsbrún. Ég hef alltaf verið á móti margföldum launum", segir Eðvarð. En á sama tíma og Eðvarð fór inn í stjórn Dagsbrúnar setti ríkisstjórn Ólafs Thors ný lög um efnahagsmál, sem fengu strax nafnið „þrælalögin". Ástæðan var sú, að með þeim voru allar kauphækkanir bannaðar, og jafn- framt því voru verkföll bönnuð, að viðlagðri refsingu. „Eftir þetta komu til nýjar baráttu- aðferðir“, heldur Eðvarð áfram. „Við gátum ekki staðið fyrir verkföllum á löglegan hátt og því var gripið til þess sem nefnt var skæruhernaður. Það var í því fólgið, að menn bundust hópsamtökum á vinnustöð- um og gerðu verkföll. Þetta var sérstaklega áberandi við höfnina, en Eimskipafélagið var langstærsti vinnuveitandinn innan Vinnu- veitendasambandsins, sem Eggert Claessen var þá framkvæmdastjóri fyrir. Svartur listi Sem dæmi um viðbrögð sambandsins má nefna, að það gaf út svartan lista yfir rösklega 300 verkamenn sem unnu hjá Eimskip og höfðu lagt niður vinnu, og öllum öðrum atvinnurekendum innan Vinnuveitendasam- bandsins var bannað að taka þá í vinnu. Þannig tókst verkamönnum á fjölda vinn- ustaða að ná fram kauphækkun. Jafnframt leitaði stjórn Dagsbrúnar eftir viðræðum við Vinnuveitendasambandið. Nokkrir fundir voru haldnir, en öllu lauk þessu með því að samningar tókust 22. ágúst 1942 fyrir milli- göngu ríkissáttasemjara, sem þá var Björn Þórðarson lögmaður. Þessir samningar eru með þeim merkustu í sögu félagsins. Helstu breytingarnar voru þær, að vinnudagurinn byrjaði eftir það klukkan átta á morgnana í stað sjö og dag- vinnunni lauk klukkan fimm í stað sex. Þar með var átta stunda vinnudagur kominn í samninga. Þá var líka samið um 50% álag á eftirvinnukaup og 100% álag á næturvinnu, og dagvinnukaupið hækkað nokkuð þrátt fyrir styttingu vinnutímans um tvær stundir.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.