Morgunblaðið - 21.10.2001, Page 26
LISTIR
26 SUNNUDAGUR 21. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Já, ég fór á landsfund. Í fyrsta skipti í fimmtán ár. Ekki segi ég aðmér hafi verið tekið með kostum og kynjum. Sumir mældu migupp og niður og spurðu með svipnum: Hvað er hann að gerahér? Kristján vinur minn Ragnarsson í LÍÚ spurði: Ertu enn í
flokknum? og Halldór Blöndal, líka gamall vinur minn, stjórn-
aði fundi og kynnti tillöguna, sem ég átti aðild að, sem tillögu Ellerts
Schrams. Hann tók upp á að beygja ættarnafnið, blessaður, og vildi
hafa það í eignarfalli, þótt ég hafi ekki heyrt það áður. En svona er
Halldór, ótrúlegur húmoristi og góður í beygingum.
En almennt var mér tekið vel. Týndi sonurinn kominn heim. Gaml-
ir kunningjar heilsuðu kumpánlega og það var gaman að mæta aftur.
Enda hef ég ekkert nema ljúft um þessa landsfundi að segja. Þetta
eru stórir fundir og fólk úr öllum stéttum og öllum byggðarlögum,
menn og konur, sem eiga það sameiginlegt að vera gott fólk og vera
styrkur Sjálfstæðisflokksins.
Satt að segja dáist ég dálítið að þessu landsfundarfólki. Leggur á
sig að sitja þar heila helgi, klappa fyrir forystunni, pæla í tillögum,
sitja undir ræðum, vera með. Það er ekkert sjálfsagt nú á dögum
þegar allir eru innhverfir og sjálflægir og félagsmál
og stjórnmál eru ekki í tísku og oftast aðeins fyrir
hina, og þá fáu, sem stjórna.
Það ber að þakka að fólk skuli nenna að koma og
eyða heilli helgi í að taka ákvarðanir, sem í rauninni
er búið að taka ákvarðanir um, áður en komið er til
landsfundar.
Ég fór á fundinn, frómt frá sagt, í öðrum tilgangi.
Ég vissi svosum um, að búið var að taka allar mikilvægar ákvarðanir
um kvóta og fiskistjórn og hóflegt veiðleyfagjald, áður en ég mætti.
Að því leyti skar ég mig úr, þótt ég sé að öðru leyti eins og fólk er
flest og vel meinandi eins og allir góðir sjálfstæðismenn eru inn við
beinið. Það er auðvitað ókurteisi að hafa annan tilgang með komu
sinni en þann að klappa fyrir ákvörðunum, sem búið er að taka, en
svona var ég ungur og þetta hefur ekki elst af mér, því miður, og fór
ekki framhjá Halldóri Blöndali, fundarstjóra, og þess vegna var ég
hafður í eignarfalli. Fyrir að brúka munn.
En það er þessi déskotans sannfæring, sem sífellt er að þvælast
fyrir mér og varð þess valdandi á sínum tíma að ég hneigðist að Sjálf-
stæðisflokknum, því hann boðaði frelsi til skoðunar, frelsi til tján-
ingar, frelsi til að vera öðru vísi en hinir. Það var ekki alls staðar
leyft. Í sögu Solzhenitsyn um Gúlagið í Sovét segir frá því, þegar
hinn mikli foringi Stalín kom til fundar og hóf upp sína raust, þá var
venja að klappa inn á milli í ræðunni og þetta klapp gat tekið allt upp
í tuttugu mínútur. Það þorði enginn að hætta. En svo var það á einum
slíkum fundi í Gúlaginu, að gömul kona hætti að klappa í miðjum
fagnaðarlátunum, af því að það leið yfir hana. Hún var handtekin
daginn eftir.
Það var enginn handtekinn á landsfundinum, ekki einu sinni ég,
enda lýðræðislegur flokkur og fólk fær að hafa skoðanir, þótt ekki sé
alltaf mikið gert með þær. Og það var meira að segja klappað fyrir
ræðunni minni, enda þótt lítið væri gert með hana. Ég fékk hins veg-
ar þau vinsamlegu skilaboð, að auðlindin, sem felst í fiskinum í sjón-
um, sé ekki lengur eign þjóðarinnar, heldur útgerðarinnar, og allir
þeir sem tala um þjóðareign eru sameiningarsinnar og sósíalistar og
það samrýmist ekki grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins að tala
um auðlindina sem þjóðareign. Þetta sagði Tómas Ingi, sem er al-
þingismaður að norðan og klár karl, og ég uppgötvaði allt í einu, að
ég hef misst af heilmiklu, í þau fimmtán ár, sem liðin eru frá því ég
kom á landsfund síðast.
Enda var það samþykkt á fundinum, með yfirgnæfandi meirihluta,
að kvótinn væri eign útgerðarinnar, eftir að hún væri búin að borga
hóflegt veiðileyfagjald. Með því að borga tíkall fær hún milljón. Og
svo er allt klappað og klárt fyrir hagræðinguna. Þjóðin verður að
skilja þetta, enda um sáttargjörð að ræða, höfðinglega boðin af út-
gerðinni og þeim stjórnmálamönnum, sem hafa pælt mest í málinu,
og komist að þeirri niðurstöðu að það sé í samræmi við grundvall-
arstefnu flokksins að þjóðin eigi ekkert í þessari auðlind. Ekki baun í
bala.
Ég er auðvitað kjaftstopp. Og hefði betur verið kjaftstopp strax.
Nú er maður kominn í hóp kverúlanta og kjaftaska, sem hafa alla tíð
verið til ama á fundum, sem haldnir eru til að fólk mæti án þess að
tala. Á öllum þeim landsfundum og Varðarfundum og málþingum,
sem ég hef sótt um dagana, hefur þótt hin mesta prýði að því fólki,
sem talar minnst. Helst ekki neitt. Sumir voru þar, sem aldrei skildu
þennan tilgang með fundahöldunum og voru sífellt í pontu, og fund-
argestir dæstu og fóru út og tóku í nefið og töluðu um þetta djöfuls-
ins málæði, sem gerði ekki annað en að tefja fundinn. Þessir ræðu-
menn, sem ekki voru kannske margir, en sífellt þeir sömu, voru „pain
in the ass“.
Allt í einu upplifði ég mig í þessum hópi og var ekkert hissa á því
þegar Halldóri Blöndali blöskraði og ákvað að beygja ættarnöfn. Eða
þegar Kristján útgerðarkóngur spurði hvort ég væri enn í flokknum!
Það eru alveg rosaleg mistök að leyfa sér að hafa skoðun. Hvað þá ef
hún er á skjön við grundvallarstefnu flokksins. Sjálfstæðismenn eiga
ekki að tala um þjóðareign. Ekki um sameign. Það er ljótt orð og
sósíalismi og eitur í beinum sannkristinna.
En að öðru leyti var þetta góður og glæsilegur landsfundur. Davíð
fékk 98% atkvæða og þeir í gamla Sovét hefðu glúpnað af minnimátt-
arkennd frammi fyrir þessari kosningu, og þó var enginn rekinn út
og enginn handtekinn og ég fékk jafnvel að kjósa, þótt ég hefði nærri
því verið búinn að eyðileggja fundinn með ótímabærum og asnaleg-
um athugasemdum. En ég gerði þó það gagn, að nú er þetta komið á
hreint, hver eigi kvótann. Sjálfstæðisflokkurinn getur þakkað mér og
mínum fáu skoðanabræðrum, að línurnar eru skýrar. Kristalskýrar.
Ekki baun í bala
HUGSAÐ
UPPHÁTT
Eftir Ellert
Scram
ebs@isholf.is
YFIRLITSSÝNING á verkum
Kristjáns Guðmundssonar prýðir nú
vestursal Kjarvalsstaða. Satt best að
segja er salurinn á mörkunum að geta
talist nægilega stór þótt það hái ekki
verkunum beinlínis sökum þess hve
látlaus þau eru. Þó hefði það óneit-
anlega verið magnað að sjá Kristján í
öllu húsinu því hann er meðal þeirra
fáu íslensku listamanna sem eru
nægilega stórbrotnir til að þola húsið
allt eins og það leggur sig.
En vissulega var tími til kominn að
efna til svona sýningar á verkum
Kristjáns þótt það væri ekki nema til
að ítreka þróun listamanns sem ekki
fer tilfinningalega braut í listsköpun
sinni. Við eigum ekki mjög marga
slíka listamenn, og einhvern veginn
vefst það fyrir almenningi að viður-
kenna list sem sprottin er af annars
konar viðmiði en fagurfræðilegri til-
finningahyggju.
Einhverra hluta vegna eigum við
örðugra með að meðtaka list sem
byggð er á rökvísum og hugmynda-
legum grunni en hina sem aðeins lýt-
ur að einfaldri smekkvísi og fegurð.
Þótt ætíð sé verið að vara okkur við að
taka útlitið fyrir innrætið, til dæmis í
mannlegum samskiptum – við eigum
ekki að láta glæsilegt útlit manna yf-
irskyggja það sem undir býr – breytir
það litlu um afstöðu okkar til lista. Við
setjum ytra útlit hennar ofar inn-
takinu, og látum jafnvel að því liggja
að inntakið skipti engu máli.
Jafnvel þegar hún virðist sem
glannalegust er list Kristjáns byggð á
alvöru þess spurula. Þríhyrningur
hans í ferningi, frá 1971–72 – 4x4
metrar af mold – er ósýnilegur þrí-
hyrningur sökum þess að vígð moldin
í honum skilur sig ekki sjónrænt frá
ferningnum utan um. Það er einfald-
lega ekki hægt að greina vígða mold
frá óvígðri hversu grannt sem menn
rýna. Auðvitað skellum við okkur á
lær, hlæjum og hristum hausinn yfir
þessari bannsettu vitleysu. Það breyt-
ir því þó ekki að Kristján sannar það
óvéfengjanlega með þessu verki að
táknheimur okkar nær lengra en til
þess sem við skynjum.
Þannig er list Kristjáns annað og
meira en eintómur grallaraskapur.
Um leið og við skellum upp úr læðist
að okkur sá grunur að þetta sé ein-
mitt lóðið og listamaðurinn hafi lög að
mæla. Þannig er það með jafntímalín-
urnar – bleklínur sem dregnar eru
eftir gljúpum pappír – sem grennast
og fitna, allt eftir tímanum sem lista-
maðurinn gefur sér við gerð þeirra.
Með því að aga sig við drög á línum
sem tekur nákvæmlega eina mínútu
að setja á blað með bleki, penna og
skeiðklukku gat Kristján gert tíma-
lengd sýnilega sem ómögulegt var að
nema með öðru móti.
Hann gerir okkur kleift að skynja
og skilja óravídd lengstrar nætur á
Norðurlandi við vetrarsólhvörf og
ómælisleið þeirrar vegalengdar sem
tekur jörðina að fara umhverfis sólu.
Með 31.556.926 sekúndupunktum
fyllir fyrra bindi bókverksins Once
around the Sun heilar 724 blaðsíður.
Síðara bindið sýnir með láréttum lín-
um, á 720 blaðsíðum, þá 29.771 metra
af geimnum sem jörðin klýfur hverja
sekúndu. Með því að fletta bindinu
ógnarhratt má gera sér nokkra grein
fyrir þeim hraða og vegalengd sem
jörðin fetar um sólu.
En eru verk Kristjáns þá eingöngu
myndbirtingar ómælisvídda, rök-
hvöss og rúin allri fegurð? Það er öðru
nær. Á níunda áratugnum tók Krist-
ján að efnisvæða list sína á nýjan leik
með ýmsu móti. Hápunktur þess ferl-
is varð undir lok þess áratugar þegar
hann komst í kynni við finnskar papp-
írsrúllur sem vógu um 1.300 kíló-
grömm, og grafíthellur, stengur og
kubba frá verksmiðju í Nürnberg,
þaðan sem endurreisnarmeistarinn
Albrecht Dürer – þekktasti teiknari
norðan Alpafjalla – var upp runninn.
Pappírsrúllurnar og grafítblakkirnar
gerðu Kristjáni kleift að setja saman
þyngstu teikningar í heimi.
Skömmu síðar var hann þó jafn-
framt farinn að gera smærri verk
með pappírsrúllum úr reiknivélum og
0,7 millimetra blýi sem hann límdi
upp á vegg sem áþreifanlegar línur.
Hér er þó einungis tæpt á broti af
þeirri hugvitsamlegu list sem Krist-
ján hefur látið frá sér fara á rúmum
þremur áratugum og gerir hann að
einhverjum einarðasta og marksækn-
asta myndlistarmanni okkar.
Eins og áður sagði er sýningin í það
smæsta að umfangi. Hún hefði gjarn-
an mátt vera helmingi stærri og ná til
allra Kjarvalsstaða. Hún er þó prýði-
lega upp sett og sem sárabót fylgir
henni sýningarskrá sem mun standa
eftir sem framúrskarandi heimild eft-
ir að sjálfri sýningunni lýkur. Ég
minnist þess ekki að hafa fyrr séð
sýningarskrá fylgja íslenskri sýningu
þar sem engu er til sparað, enda telur
hún rúmar þrjú hundruð blaðsíður og
fyllir vel í þær eyður sem eru í sjálfri
sýningunni.
Æviágrip Sólveigar Nikulásdóttur
og megintexti Ólafs Gíslasonar,
ásamt upplýsandi viðtali við lista-
manninn, veita skránni prýðilega fyll-
ingu. Myndefnið er framúrskarandi
og fylgir vel eftir þróun Kristjáns frá
1967, þegar hann sýndi á hinni mjög
svo umdeildu sýningu, UM ’67, í
Laugardalshöllinni. Vonandi er sýn-
ingarskráin til marks um það sem
koma skal í upplýsingastarfsemi
kringum íslenskt sýningahald. Hér er
á ferð sýning og sýningarskrá sem
ættu ekki að fara fram hjá neinum
listunnanda.
Listin í sjálfri sér
MYNDLIST
K j a r v a l s s t a ð i r
Til 16. nóvember.
Opið daglega frá kl. 10–18.
BLÖNDUÐ TÆKNI
KRISTJÁN
GUÐMUNDSSON
Halldór Björn Runólfsson
Morgunblaðið/Einar Falur
„En vissulega var tími til kominn að efna til svona sýningar á verkum
Kristjáns þótt það væri ekki nema til að ítreka þróun listamanns sem
ekki fer tilfinningalega braut í listsköpun sinni.“
ÞRÍR feðgar efna til útgáfu-
kvölds í Kaffileikhúsinu annað-
kvöld, mánudagskvöld, kl.
20.30 og kynna ljóða- og tóna-
diska sína. Eyvindur P. Eiríks-
son kynnir bók sína Óreiðum,
augum, heiðin ljóð; Eyjólfur B.
Eyvindarson kynnir tónadisk
sinn Sesar A. Stormurinn á eft-
ir logninu og Erpur Þ. Eyvind-
arson kynnir tónadisk sinn
BlazRoca, XXX Rottweiler.
Gestir verða G. Rósa, Steinþór
Jóhannsson og fleiri. Tónlist er
eftir Hilmar Örn, Sesar A og
XXX Rottweiler.
Útgáfukvöld
í Kaffileik-
húsinu
SNEGLA-listhús er tíu ára um
þessar mundir og af því tilefni
var opnuð sýning á verkum lista-
kvennanna sem standa að listhús-
inu á föstudaginn var í húsnæði
þess á horni Klapparstígs og
Grettisgötu.
Á sýningunni er að finna fimm-
tán verk listakvennanna sem
standa að listhúsinu, en það var
opnað 12. október árið 1991.
Sýningin stendur til 10. nóv-
ember og verður opin daglega
um leið og listhúsið frá klukkan
12–18 virka daga og frá kl. 11–15
á laugardögum.
Morgunblaðið/Kristinn
Frá opnun tíu ára afmælissýningar í Sneglu-listhúsi á föstudaginn var.
Afmælissýning í Sneglu