Morgunblaðið - 10.01.2005, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 10.01.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 10. JANÚAR 2005 27 MINNINGAR Sá ég samhljóðan í sögu þinni skörungsskapar og skyldurækni, skaps og stillingar, styrks og blíðu, vilja og varúðar, vits og dáðar. Þetta erindi Matthíasar Jochums- sonar kemur mér í hug við andlát Guðlaugar Einarsdóttur. Hún var skrifstofustjóri Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá því að skólastarfið hófst haustið 1975 til 1987 þegar eig- inmaður hennar, Guðmundur Sveins- son skólameistari, fékk leyfi frá störf- um. Guðlaug stjórnaði skrifstofu skólans alla tíð af mikilli röggsemi og það var engin lognmolla í kringum hana. Hún var ákveðin, glaðlynd og ógleymanlegur persónuleiki. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er fyrsti fjölbrautaskóli landsins og segja má að stofnun hans hafi valdið straumhvörfum í skólamálum okkar Íslendinga. Það var nýjung að unnt var að stunda verklegt og bóklegt nám í sama framhaldsskólanum og að verklegt nám væri talið jafn mikil- vægt og bóklegt. Margs konar for- dómar voru gagnvart nýja skólakerf- inu og stóð Guðlaug þétt við hlið eiginmanns síns og studdi hann dyggilega í erfiðri baráttu. Guðlaug átti þátt í að gera Fjölbrautaskólann í Breiðholti að þeim skóla sem hann er í dag. Undirstaðan var svo traust að nú er skólinn fjölmennasti og einn fjölbreyttasti framhaldsskóli lands- ins. Við í Fjölbrautaskólanum í Breið- holti eigum Guðlaugu mikið að þakka og sendum dætrum hennar og fjöl- skyldum þeirra innilegar samúðar- kveðjur. Kristín Arnalds, skólameistari. Við, bekkjarsystkinin í Bifröst vet- urna 1955-1957 viljum minnast Guð- laugar Einarsdóttur með virðingu og þakklæti. Við vorum fyrsti hópurinn sem stundaði nám í Samvinnuskólan- um þegar hann var fluttur til Bifrast- ar í Borgarfirði. Sr. Guðmundur Sveinsson, eiginmaður Guðlaugar var fyrsti skólastjórinn þar. Hann var mikill hugsjónamaður og frum- kvöðull í skólamálum. En við kom- umst fljótt að þeirri staðreynd að stoð hans og stytta í hverju sem hann kom að var Guðlaug, eiginkona hans. Hún var framkvæmdaaðilinn þegar hugsjónir hans urðu að veruleika. Hún studdi hann í öllum hans verkum og starfaði við hlið hans af mikilli röggsemi. Fyrsta veturinn í Bifröst voru aðeins 30 nemendur auk kenn- ara og starfsfólks. Allir tóku þátt í að móta skólastarfið sem ein fjölskylda. Guðlaug var húsmóðirin og stjórnaði heimilishaldinu með skörungsskap sem henni einni var lagið. Hún hjúkr- aði okkur í veikindum, leiðbeindi okk- ur, lét alla taka þátt í heimilisstörf- unum og var alltaf reiðubúin að aðstoða okkur ef eitthvað bjátaði á, eins og oft skeður á stórum heimilum. Hún skipulagði öll veisluhöld í skól- anum, sem urðu síðan að föstum lið- um í skólastarfinu, svo sem að bjóða heim Norðdælingum, skólunum í héraðinu og starfsmönnum kaup- félagsins í Borgarnesi. Árin okkar í Bifröst urðu okkur öll- um mikil mótunarár. Þau hjónin Guð- laug og Guðmundur áttu hvað stærst- an þátt í því og sendu okkur út í lífið með góðan undirbúning til að takast á við öll þau viðfangsefni sem lífið byði okkur upp á. Allar minningar okkar úr Bifröst eru tengdar þeim hjónum ásamt öllu því góða fólki sem starfaði þar með okkur. GUÐLAUG EINARSDÓTTIR ✝ Guðlaug Einars-dóttir fæddist á Hvanneyri 3. maí 1918. Hún andaðist á dvalarheimilinu Eir aðfaranótt 20. des- ember síðastliðins og var jarðsungin frá Dómkirkjunni 6. jan- úar. Að leiðarlokum þökk- um við Guðlaugu og Guðmundi alla vináttu í samferð okkar í lífinu og biðjum þeim Guðs blessunar á nýjum slóð- um. Einnig sendum við dætrum Guðlaugar og Guðmundar ásamt fjöl- skyldum þeirra okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Nemendur Samvinnuskólans í Bifröst útskrifaðir 1957. Það fer fyrir mér eins og mörgum öðrum að minnast Guðlaugar Einars- dóttur fyrst og fremst fyrir störf hennar við Samvinnuskólann að Bif- röst í Borgarfirði. Guðlaug kom ung að Bifröst ásamt manni sínum séra Guðmundi Sveinssyni um miðbik síð- ustu aldar. Verkefni Guðmundar var að skipuleggja og hefja skólarekstur Samvinnuskólans í Bifröst eftir að skólinn hafði verið starfræktur í tæpa fjóra áratugi í Reykjavík. Guðmund- ur Sveinsson lagði m.a. á það ríka áherslu að sérstök húsmóðir yrði ráð- in að Samvinnuskólanum, sem ætlað væri það hlutverk að gera mennta- setrið að myndarlegu skólasetri, en fyrirmyndin var sótt til heimavistar- skóla samvinnusamtakanna á Norð- urlöndum. Erfiðlega gekk að ráða í starfið og röð tilviljana réð því að Guðlaug tók að sér húsmóðurstarfið að Bifröst, sem hún rækti af sérstakri alúð og samviskusemi, enda var um- hyggja hennar fyrir nemendum og starfsliði skólans ósvikin og eftir- minnileg. Eftir nær tveggja áratuga upp- byggingarstarf á Bifröst flutti Guð- laug til Reykjavíkur. Guðmundur Sveinsson tók þá við starfi skóla- meistara Fjölbrautaskólans í Breið- holti, þar sem Guðlaug starfaði einn- ig. Samband þeirra hjóna var einstakt í alla staði enda stóð Guðlaug samhliða manni sínum og veitti hon- um mikinn stuðning og skjól í störf- um hans. Bjart er yfir minningu Guðlaugar Einarsdóttur. Ég minnist hennar á skemmtilegum samverustundum að Bifröst hér á árum áður. Ég minnist hennar einnig á sólríkum sumardög- um á jörð þeirra hjóna að Jafnaskarði í Stafholtstungum og ekki má gleyma ófáum ferðum okkar Guðlaugar vest- ur í Odda þar sem við nutum þess að fræðast um Íslendingasögurnar. Þrátt fyrir að Guðlaug væri þá komin hátt á áttræðisaldur, lét hún aldeilis ekki deigan síga frekar en fyrri dag- inn. Nú síðustu misserin fór heilsu Guðlaugar hrakandi. Síðasta árið bjó hún á Hjúkrunarheimilinu Eir við gott atlæti. Við Kristín sendum dætr- unum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning mætrar konu. Hrafn Magnússon. Árið 1955 var Samvinnuskólinn fluttur frá Reykjavík að Bifröst. Var það umdeild ákvörðun innan sam- vinnuhreyfingarinnar en að mínu mati mikið gæfuspor. Ég leyfi mér að fullyrða að gæfusporið hafi verið enn stærra vegna þess að úr varð að séra Guðmundur Sveinsson tók að sér stjórn skólans með þá mætu konu frú Guðlaugu Einarsdóttur sér við hlið. Höfðu þau kynnt sér starfsemi sam- bærilegra skóla, m.a. utan þéttbýlis í Finnlandi, en þar var sá háttur hafð- ur á að sérstök húsmóðir var ábyrg fyrir heimilinu, en orðið heimili var án efa réttnefni fyrir skólann okkar á Bifröst. Mun Guðlaug hafa tekið þetta vandasama verkefni að sér með nokkurra daga fyrirvara árið 1955. Mikið og gott orð fór strax af skól- anum og vorum við, þáverandi Borg- firðingar, að ég held langflestir afar stoltir af þessu menningarsetri sem Guðmundur, Guðlaug og þeirra ágæta samstarfsfólk kom upp í hraunrjóðrinu fallega í landi Hreða- vatns. Samvinnan í sinni bestu mynd kom svo sannarlega fram í samvinnu þeirra hjóna við skólastjórn og heim- ilishald á Bifröst og þau voru sannir merkisberar skólans. Mér er enn í fersku minni koma mín í Bifröst haustið 1962, þegar ég hóf nám í Samvinnuskólanum, og á móti mér tók húsmóðir skólans, sú tígulega kona frú Guðlaug Einars- dóttir. Samskipti okkar urðu mikil og náin, sérstaklega veturinn 1963 til 1964, þegar mér var trúað fyrir stjórn skólafélagsins og með okkur Guðlaugu tókst góð vinátta sem hélst alla tíð og ég met mikils. Nú eru þau hjón bæði fallin frá, en séra Guðmundur lést árið 1997. Ég leyfi mér fyrir hönd bekkjarfélaga minna á Bifröst, veturna 1962 til 1964 að þakka þeim fyrir allt það sem þau voru okkur og fyrir allt sem þau kenndu okkur. Dætrum þeirra hjóna og fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Guðlaugar Einarsdóttur, húsmóður á Bifröst. Hún var jafnaldri Samvinnu- skólans, sem stofnaður var í Reykja- vík árið 1918. Táknræn tengsl, þykja mér. Óli H. Þórðarson. Aðeins tvo vetur lágu leiðir okkar saman, en þá var ég líka heimilismað- ur Guðlaugar á hennar stóra skóla- heimili að Bifröst. Rösk, snör í snún- ingum, með þessi leiftrandi augu sem aldrei gleymast hélt hún utan um rúmlega 70 manna heimili kennara, nemenda og starfsfólks svo dagarnir þar gleymast aldrei. Það gustaði um gangana í Bifröst þegar Guðlaug gekk á milli herbergja nemenda sem ekki skiluðu sér í tíma vegna „sjúk- dóma“, huggunarorð og hóstasaft dugðu svo vel að flestir skiluðu sér í skólastofu morguninn eftir. Guðlaug var ekki bara móðir, kona, meyja, hún var Húsmóðir, Eigin- kona, Vinur. Minning hennar mun lifa. Dætrum hennar og fjölskyldum þeirra sendi ég samúðarkveðjur. Ágústa Þorkelsdóttir. Guðlaug Einarsdóttir fæddist inn í vorið og lifði vorið í íslensku þjóðlífi. Hún kvaddi sitt jarðneska líf í myrku íslensku skammdegi, 86 ára að aldri. Söknuður býr nú í mörgum og ásökun um að betur hefði mátt rækta vinsemd, þakklæti og virðingu. Guðlaug Einarsdóttir unni frelsi til orðs og æðis. Hún var ekki sú er hljóp frá ábyrgð heldur tók á sig ótrúlegar skyldur við eiginmann og dætur. Hún hóf sjálfstætt vor í lífi sínu þegar hún gekk í heilagt hjónaband lýðveldisár- ið 1944 með æskuunnasta sínum, sr. Guðmundi Sveinssyni. Ungu prests- hjónin setjast að á Hvanneyri í Borg- arfirði og eignast dætur sínar þrjár. Húsmóðurstörfin og það að vera prestsfrú í sveit hafa eflaust tekið á, auk þess sem hún hefur veitt bónda sínum skjól, sem ekki einungis þjón- aði söfnuði sínum heldur kenndi, las og skrifaði, sífellt í leit að meiri menntun og þekkingu hérlendis og erlendis. Tíminn á Hvanneyri hefur verið tími ástkærrar móður til barna sinna og manns, en því þó aldrei gleymt að lífinu skyldi lifa lifandi. Þáttaskil verða í lífi fjölskyldunnar er hún flytur að Bifröst í Norðurárdal árið 1955 til að taka við og móta skóla samvinnumanna er flyst úr borg í sveit. Húsbóndinn sem skólastjóri, húsfreyjan – húsmóðir skólans. Segja má með sanni að Guðlaug skapaði þar með manni sínum ógleymanlegt skólaheimili, sem trúlega verður aldrei til aftur í íslenskri skólasögu. Þar var starf hennar hugsjón og fórn. Bifrastarárin voru Guðlaugu tími vorsins – en þótt uggur og vetrar- kvíði sæktu að, á stundum, varð hrifningin yfir lífinu – sumargrænni jörð – dýrð sólarinnar og hjómfalli náttúrunnar, til að auka á starfsork- una og staðurinn varð hennar para- dís. Eftir nær aldarfjórðung er Sam- vinnuskólinn Bifröst kvaddur. Haldið er til stórra verkefna, stofnaður er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, sem verður fjölmennasti framhaldsskóli landsins á örfáum árum. Húsbóndinn vinnur að undirbúningi og stofnun skólans og er skipaður skólameistari. Guðlaug er samt ekki langt undan, hún fylgir manni sínum með sama krafti og áður og gerist forstöðumað- ur skrifstofu skólans. Enn lifir Guð- laug vorið, þó sjálfsagt með öðrum hætti en í íslenskri sveit. Hún hrífst með uppbyggingu Breiðholtshverfis, hinu margbreytilega mannlífi hinnar ungu byggðar og skóla í mótun. Hún er þar í starfi – sverð og skjöldur – og vinnur af hugsjón og fórn. Árið 1988 kveður Guðlaug Fjöl- brautaskólann og lýkur þar anna- sömu 14 ára starfi. Við taka erfið ár veikinda eiginmannsins sem standa allt til dánardægurs 16. febr. 1997. Hún stóð þó enn sem klettur í vörn og sókn lífsins þar til fyrir um það bil ári að hún þurfti á líkn að halda þeirri sömu sem hún hafði gefið öðrum. Nú er vorið þitt úti í hinu jarðneska lífi – megi sumarið héðan í frá fylgja þér. Hafðu heila þökk fyrir það sem þú varst mér og fjölskyldu minni. Höskuldur Goði. Í birtu nálægrar jólahátíðar kvaddi mín góða vinkona og samstarfsmaður til margra ára, Guðlaug Einarsdóttir, okkar jarðneska tilverusvið, södd líf- daga eftir langan og farsælan ævifer- il. Aldurinn var orðinn hár, krankleiki líkamans hafði um skeið hamlað lif- andi og þróttmikilli þátttöku hennar í leik og starfi lífsins sem löngum hafði verið hennar aðalsmerki, en hugur- inn var enn virkur og starfandi og andlegur þróttur óbilaður. Kynni okkar Guðlaugar hófust, er við haustið 1955 hófum störf við Sam- vinnuskólann að Bifröst, ég sem kennari, en hún húsmóðir skólans við hlið eiginmanns síns, Guðmundar Sveinssonar skólastjóra. Starfið sem hún þá tók að sér var nýjung við ís- lenskan heimavistarskóla, en átti fyr- irmynd í norrænum lýðskólum, þar sem „lýðskólamóðirin“ gegndi hlut- verki sem líkja mátti við starf hús- móður á stóru íslensku sveitaheimili fyrri tíma. Í því fólst ekki aðeins stjórnun og umsjón þeirra verkefna er snertu skólaheimilið; í mötuneyti, við þrif og hirðing húss og búnaðar og þjónustu við nemendur, heldur einn- ig að fylgjast með heilsu og líðan nemenda og fylgja því eftir að móta þægilegan og reglubundinn heimilis- brag og leggja með því grunn að far- sælu skólastarfi og góðum aðstæðum til náms. Jafnframt var hún stjórn- andi símstöðvar staðarins og þannig helsti tengiliður hans út á við. Því voru þeir ófáir sem hún þurfti að eiga samskipti við og mörg og fjölbreytt viðfangsefni sem komu til hennar kasta. Hún gætti þess vel að heim- ilishættir væru virtir og reglum fylgt. Með hlýlegri og glaðri framgöngu og hæfilegri ákveðni fylgdi hún eftir hlutverki sínu í samskiptum við nem- endur og starfsfólk og hún vissi mætavel, hvaða aðferð hentaði hverju sinni, því að hún hafði góðan skilning á því að lög og reglur þurfa að eiga ákveðið þanþol, ekki síst í samskiptum við ungt fólk, sem er að þroskast og læra að fóta sig í nýju umhverfi, fjarri skjóli foreldra og heimilis, en einnig hinu að persónu- legur trúnaður er sá grundvöllur lög- hlýðni og virðingar er mestu máli skiptir. Það var einnig lærdómsríkt að fylgjast með hvernig hún og þau hjón bæði hófu sig yfir ýmiss konar þvarg sem fylgt getur samskiptum einstaklinga í miklu nábýli, en gengu af einurð og hreinskilni fram í öllum samskiptum við nemendur og starfs- menn. Má fullyrða, að lagni Guðlaug- ar, manngæska hennar og umburð- arlyndi hafi átt stóran þátt í að skapa það andrúmsloft meðal nemenda og starfsfólks, sem tengdi fólk þeim traustu böndum tryggðar og trúnað- ar við staðinn, sem enn vara. Maður hennar ávarpaði hana stundum sem „mömmu“ og var ekki laust við að þeir sem nýkomnir voru brostu að, en þetta nafn varð verð- skuldað heiðursheiti hennar í munni allra sem skólann sóttu. Hún var í raun og sanni sem móðir nemenda og annarra er staðinn byggðu. Hennar stóra hjarta átti rúm fyrir alla, ekki síst þá sem erfitt áttu og skilnings og umhyggju þurftu við. Öðru fremur voru það þó börn hennar og eiginmaður sem stóðu hjarta hennar nærri. Samband þeirra hjóna var sérlega fagurt og traust, byggt á gagnkvæmri ást og virðingu. Í samstarfi og til stuðnings við hann tók hún að sér erfið og vandasöm ábyrgðarstörf, fullkomlega meðvituð um þann vanda sem því fylgir að hjón eigi sama vinnustað. Mun það öðru fremur hafa verið hennar mark og mið í lífinu að stuðla að velgengni hans á öllum sviðum og helsta keppi- kefli að styðja hann til árangurs í því uppbyggingarstarfi er hann var frumkvöðull í, bæði að Bifröst og í Breiðholti. Hún studdi hann í starfi og einkalífi þar sem og þegar hann þurfti stuðnings við og sá til þess að þeir þættir í fari hans og hæfileikum sem sterkastir voru nytu sín sem best og er alvarleg veikindi sóttu hann heim var hún sá bjargvættur sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu allt þar til yfir lauk. Hlutur hennar í lífs- starfi hans og árangri, en um leið að uppbyggingu þeirra stofnana er hann stýrði, verður seint ofmetinn. Guðlaug Einarsdóttir var glæsileg kona, svipmikil og fríð og bar sig jafn- an vel. Hún hafði sterkan persónu- leika sem dró að sér athygli hvar sem hún fór. Hún var hreinskilin og op- inská, viðræðugóð og fylgdist af áhuga með því sem gerðist í sveitinni hennar, þó að hún væri flutt burtu. Á síðari árum, er annir lífsins höfðu minnkað og tími gafst, átti hún ynd- isstundir með börnum og barnabörn- um að Jafnaskarði. Hún naut þess að hlúa þar að gróðri, fara á hestbak og fagna góðum gestum. Mun hugur hennar að lokum hafa staðið til þess staðar öllum öðrum fremur. Við Eygló og fjölskyldur okkar minnumst hennar með hlýrri þökk fyrir samstarf, einstæða alúð og margar glaðar, góðar og gefandi stundir, sem ljúft er að minnast, nú þegar hún er horfin. Við sendum dætrum hennar og af- komendum öllum einlægar samúðar- kveðjur og biðjum henni blessunar Guðs og góðrar heimkomu á landi lífsins. Snorri Þorsteinsson. Tengdafaðir minn og félagi til tuga ára er fallinn frá, eftir baráttu við veikindi sín. Hann lést á nýársnótt. Þegar ég hugsa til baka minnist ég hans sem ákaflega vandaðs manns, sem hugsaði vel um fjölskyldu sína, var alltaf til staðar þegar til hans var leitað. Hann var alvörugefinn, þó SKÚLI BJÖRGVIN SIGHVATSSON ✝ Skúli BjörgvinSighvatsson fæddist á Karlsskála við Reyðarfjörð 27. september 1920. Hann andaðist á heimili sínu að morgni nýársdags og fór útför hans fram frá Keflavíkur- kirkju 7. janúar. kímnin væri aldrei langt undan. Skúli var vel lesinn og fróður um landið sitt. Hann og Anna tengdamamma ferðuð- ust mikið um landið og lengi vel voru börnin með. Nokkra veiðiferð- ir fór ég með honum, er mér minnistætt hve fiskinn hann var. Skúli var mikill áhugamaður um knattspyrnu og studdi sína menn. Nú þegar Skúli er horfinn á braut er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vera í nálægð hans í svona mörg ár. Blessuð sé minning tengdaföður míns, Skúla Sighvatssonar. Karl Taylor.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.