Fréttablaðið - 02.11.2009, Blaðsíða 37

Fréttablaðið - 02.11.2009, Blaðsíða 37
MÁNUDAGUR 2. nóvember 2009 21 Skattabæklingur KPMG hefur verið uppfærður vegna lagabreytinga. Sjá á kpmg.is © 2009 KPMG hf., íslenski aðilinn að KPMG International, svissnesku samvinnufélagi. Öll réttindi áskilin. Skráning og allar upplýsingar um námskeiðin ásamt námskeiðsgjöldum er að finna á kpmg.is 6. nóvember CFC reglur. Ný ákvæði um afdráttarskatta. 9. nóvember Samrunar, skiptingar og slit félaga. Kostir og gallar mismunandi rekstrarforma. 12. nóvember Skattskuldbindingar, samsköttun og skattaleg meðhöndlun gengismunar. 17. nóvember Virðisaukaskattur og fjármálafyrirtæki. 19. nóvember Virðisaukaskattur og bókhald. 20. nóvember Skattleg áhrif af niðurfellingu krafna og kaup á kröfum með afföllum. 23. nóvember Reikningsskil og skattskil í erlendum gjaldmiðlum. 26. nóvember Virðisaukaskattur og fasteignir. 30. nóvember Nýjar og fyrirhugaðar breytingar á skattalögum. Skattar og atvinnulífið Röð námskeiða um skattamál Bókmenntir ★★★ Svörtuloft Skáldsaga eftir Arnald Indriðason Vaka Helgafell. 326 bls. Þrettánda sagan Í Svörtuloftum, þrettándu skáld- sögu Arnalds Indriðasonar, rætist sú spá sem sett var fram í dómi mínum um Vetrarborgina fyrir fjórum árum að þar væri kimi í sögunni sem Arnaldur ætti eftir að leiða okkur lesendur sína inn í. Sagan gerist nær samtímis Myrká og þar eins og nú er Erlendur á fjöllum og tekið að óttast um hann. Þar fór Elínborg fram í rannsókn máls, hér leiðir Sigurður Óli okkur um kimana, því þeir eru nokkrir samliggjandi. Við fylgjumst með örlagasögu stráks sem lendir í höndum misindismanns samhliða upprifjun Sigurðar á fortíð sinni, ástlitlu hjónabandi foreldra, skóla- árum og hvernig hann rekur frá vinum og eiginkonu, á sama tíma og hann flækist inn í tvö mál vandamanna. Annað er skoplítið, hitt stærra og víkkar fljótt út. En það eru þessir tveir drengir sem eru fókusinn í frásögninni. Arnaldur heldur að vanda vel um skipan frásagnarinnar, stíllinn svipaður í verkum sem Erlendur og Elínborg hafa verið sporar í og lesandi spyr sig: hafa skipti á aðalpersónu engin áhrif á frásagnartökin? Það er ekki að sjá. Arnaldur greinir ekki milli stílþreifinga eftir því hvert þeirra leiðir frásögnina; Erlendur, Elínborg eða Sigurður Óli. Sá hversdagsmaður sem hann leiðir fram sem geranda í rannsókn sögunnar verður fyrir bragðið nokkuð keimlíkur. Metnaðarmál skáldsins að þessu sinni er að setja pólitíska lífsskoðun í stærra samhengi. Lengi vel er sagan samin eins og hrunið hafi ekki orðið en svo áttar lesandi sig á að hann er leiddur inn í forsöguskýringu á efna- hagslegum hamförum þótt niðurstaða verksins verði önnur en blasir við í raunveruleikanum: hér eru óreiðumenn dæmdir, makleg málagjöld falla á brotamenn. Arnaldur er siðboðandi, hann er móralskur höfundur, meðlíðan hans er ekki áköf, en stillileg, sett fram af alvöruþunga, stundum full dulin finnst mér svo mikið sem honum býr í brjósti. Sagan er lengi að síga fram og á köflum reynir á þolinmæði lesanda sem hefur þann starfa þessar vikur að lesa þúsundir blaðsíðna, en svo fer hann að dvelja í sögunni. Arnaldur er í mörgum verka sinna að lýsa tilfinninga- kulda, fáskiptni, hvernig sakleysi er barið inn í þumbaralega framkomu og harðýðgi. Það er lítil birta í skáldskap hans og það má velta fyrir sér þeirri dimmu heimsmynd sem hann skapar: líður okkur raunverulega svona? Þúsundir lesenda munu leita í þessa sögu: Arnaldur stendur vel fyrir sínu, þaulhugsaður innan þess ramma sem hann kýs sér, en þar kemur að óþolinmóður lesandi spyr: hvenær lýkur ferli Arnalds Indriðasonar innan spennu- og sakamálasögunnar og hann tekur til við hina breiðu þjóðlífs- skáldsögu sem kallar á krafta hans, stílgáfu, aðgát og innsýn í fólk, aðstæður og átök? Páll Baldvin Baldvinsson Niðurstaða: Meitluð og þaulhugsuð saga með nýjan og forvitnilegan sjón- arhól Sigurðar Óla. Leiklist ★★★ Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu eftir Tracy Letts. Þýðing: Sigurður Hróarsson. Leikstjóri: Hilmir Snær Guðna- son. Leikmynd: Börkur Jónsson. Lýsing: Björn Bergsteinn Guð- mundsson. Búningar: Margrét Einarsdóttir. Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Sigur sjónvarps- myndarinnar Rétt tveggja ára gamalt fjölskyldu- drama af sléttum Oklahoma hefur verið markaðssett af mikilli hind af þeim hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það á að vera til marks um þá stefnu leikhússtjórans að byggja öflugan leikhóp öfugt við þjóðleikhússtjóra og menntamálaráðuneytið sem ætla að reka flaggskip íslenskrar leiklistar með lausamönnum. Ágúst í Osage-sýslu er verk samið fyrir leikhóp. Það er gamaldags, stendur raunar langt að baki mörgum stærri fjölskylduverkum bandarískra leik- skálda frá liðinni öld frá O´Neill til Shepards. Fjölskyldan, sundurtætt, hefur verið afar áberandi í banda- rískri leikritun. Hjónin í húsinu, komin á eft- irlaunaaldur, minna um margt á Mörtu og Georg í Hver er hrædd- ur … Hann menntamaður, útbrunnið vígi húmanisma og hinnar klassísku hefðar, Eliot er hans maður; hún lyfjasjúklingur, pillukerling. Saman hafa þau átt ár í myrkri í húsi sínu, útlagar í eigin lífi. Og þegar hann lætur sig hverfa kemur fjölskyldan saman: móðirin reynist þá vera harðstjóri, Lér konungur í kjól, en Cordelíulaus. Og þá hefst uppgjörið. Nú skal það viðurkennt að ætl- unarverk leikhússtjórans er hárrétt hugsað. Líka að verk af þessu tagi, natúralísk, með snoturlega samin samtöl, kvikar hópsenur, eru um margt vel til þess fallin að sýna styrk leikhópsins, falli leikstjóri – og leik- hússtjóri ekki í þá gildru að skipa í hlutverk eftir fyrri frammistöðu. Það er markmið með ensemble-skipan að þroska með leikurum fjölhæfni, ekki einhæfni. Byrjum á þeim sem brjóta mótið sitt: Jóhönnu Vigdísi og Theódór Júlíussyni. Bæði í meðalhlutverkum skulum við segja. Fara bæði fram úr sér: hún með óvæntum dempuðum litlitlum stíl, hann með elskulegum blæ sem er unninn í þaula og skilar fyllilega persónunni. Þau standa undir væntingum og betur. Margir eru svo á sínu róli: halda sig við leistann sinn af öryggi vanans, Ellert Ingimundarson, Þröstur Leó í hóf- stilltum leik, Hanna María, Hallgrím- ur. Svo enn aðrir sem fara verr af týpukastinu: Rúnari Frey er misboðið með gamalkunnugu viðfangsefni. Nínu Dögg verður að frelsa frá leikstjórum sínum sem skella henni alltaf í sama magabeltið. Hún getur meira en þessa einu rullu sem hún er alltaf látin leika! Nýliðinn Guðrún stendur sig bærilega þótt ekki heyr- ist orðaskil þegar hún brýnir röddina og æpir. Stóru kanónurnar eru þær Margrét Helga og Sigrún Edda: hvenær sáum við þær leika þessi hlutverk síðast? Fegurðardrottningin frá Línakri? Og bættu þær sig núna? Það kemur ein- kennilegur munur í ljós á þeim stöll- um í þessari sýningu: báðar reynast þær afar styrkar innan þeirrar tækni sem þær ráða yfir: Margrét bætir sig, fyrsti þátturinn sýnir að hún er enn skapandi listamaður, annar þátturinn færir hana í kunnuglegu formi og sá þriðji líður fyrir það að miðjun höfundarins, brennidepillinn hefur færst til, en það er engum blöðum um það að fletta að hún vinnur afrek í þessari rullu. Magga er enda stjarna fyrir þúsundum gesta LR í hartnær aldarfjórðung þótt erfitt hafi mönnum reynst að finna henni nægilega stór hlutverk til að sanna það oft. Meira hefur verið látið með Sigrúnu Eddu. Hún er afburðatækni- maður í leik, nákvæm, samviskusöm með styrka stjórn á geislun sinni en hörfar oft í örugg vígi – að því að hún heldur. Og í því falska öryggi fatast henni alltaf. Þá grípur hún gamla hami, notuð tól, og hvergi mátti það greina betur en í loka- þætti þessa verks. Og þá verður hún skelfing yfirborðskennd. Raunar gerist það í lokaþætti verks að hið fyrirsjáanlega blasir við í úrvinnslu fléttunnar. Melódramað styrkist, grunnfærnar lausnir opnast og ekki bætir hin skelfilega og ofsagða tónlistarábót sýningarinnar. Hvað er að gerast, hugsar maður þegar á skilnaðarstund hjóna byrjar kliðmjúkur gítarleikur að hljóma: fullnaðarsigur ameríska sjónvarps- dramans er staðfestur. Örfá orð um leikmynd: hálfri öld eftir síðustu slitur hins lýriska natúralisma er hann mættur aftur. Húsgrindin er þarna á sviðinu af því það var tæknileg lausn í Ameríku: það er ekkert í verkinu sem kallar á margskipta sviðsmynd. Þvert á móti er verkið alveg hólfað í atburðarás og byggir meira á innilokun persóna og rýma en opnun á milli þeirra. Að lokum: mórallinn er þessi. Ameríka er skítahola. Græðgin er enn sterkasta aflið og líf víkur fyrir auði. Þar eru allir siðlausir og skemmdir – nema sá sem verður að berjast fyrir lífinu: indjánastúlkan – húshjálp Unnar Aspar – eina góða manneskjan, hrein og með mann- gildi í hjarta. Hinn göfugi frumbyggi. Er eitthvað nýtt í þessu – er þessi einföldun rétt? Hvaða fréttir um mannlegt eðli er söluskrifstofan hjá LR að selja okkur? Páll Baldvin Baldvinsson Niðurstaða: Gamaldags og ofmetið verk með leikhóp sem fær ekki nema takmörkuð tækifæri til að bæta sig.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.