Skólavarðan - 01.09.2006, Blaðsíða 5

Skólavarðan - 01.09.2006, Blaðsíða 5
5 GESTASKRIF SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 6. ÁRG. 2006 Í minni heimasveit ku barnaskólinn hafa verið mörg ár að ná sér eftir að skólagöngu okkar Laugarásvillinganna lauk, minni, Gríms á Lindarbrekku og Ragga Sverris. Það er því síst á bæt- andi að ég skuli svo nú áratugum síðar ætla að skrifa um þennan skóla sem heitir nú Grunnskóli Bláskógabyggðar. Hét í minni tíð einfaldlega Barnaskólinn í Reykholti eða Reykholtsskóli eftir því hvernig lá á mönnum. Nafnbreytingin ein sér er efni í grein sem ég vonandi skrifa síðar. En ég ætla að skrifa um þennan skóla sem mig minnir að hafi verið stofnaður árið 1925. Ekki þó svo að ég muni svo langt aftur. Man það aðeins af bókum. En man þá tíð að í honum voru um 100 börn á aldrinum frá sjö ára og upp í fjórtán og skólastjórinn var einhentur Vestmannaeyingur. Hann hét Þórarinn Magnússon og sannaði fyrir okkur krökkunum að með viljastyrk og dugnaði var allt hægt. Kenndi teikningu með sinni vinstri hendi sem hann hafði þjálfað upp eftir að hafa misst þá réttu. Og það var gott fyrir okkur krakkana. Þessi leiðsögn sem ekki var sögð heldur túlkuð með raunverulegri hegðun í raunverulegu lífi varð okkur mikilsverðari en mörg orð. Ég nefni Þórarinn hér einan því hann stendur á vissan hátt upp úr þegar ég hugsa til þessara barnaskólaára en aðrir kennarar sem voru við þessa góðu stofnun eru alls góðs maklegir. En það eru samt ákveðnir hlutir í þeirri sögu sem voru uppeldislega ekki eins hollir og skrifast fráleitt á reikning þeirra sem tóku við af Þórarni og hans áhöfn heldur á almenna tilhneigingu í samfélaginu. Mér hefur samt á þeim árum sem liðin eru lærst að sýna örlitla varkárni og ætla því svolítið í kringum þetta umfjöllunarefni eins og köttur í kringum heitan graut. Það sem er sagt og það sem er gert Seinna lá nefnilega fyrir mér að setjast á skólabekk að Laugarvatni þar sem Kristinn Kristmundsson veitti menntaskóla forystu og þótti um margt farast það vel úr hendi. Það er mér samt eftirminnilegt að hafa sem hálffullorðinn lært að skólameistari þessi væri nokkuð gamaldags og talinn þar efra sá seinasti í röð embættismanna sem alveg misskildi sitt hlutverk þegar kom að samskiptum við ríkisvaldið. Kristni var nefnilega keppikefli að sýna aðhaldssemi og gætni í sínum rekstri, halda í við allar tilhneigingar til aukinnar eyðslu og gerði ekki meiri kröfur á ríkissjóð heldur en hann nauðsynlega þurfti. Þetta þótti þá, á áttunda áratug síðustu aldar, giska úreltur hugsunarháttur og ekki vænlegur til þess að efla hag skólans sem hann veitti forstöðu. Það sem er sagt og það sem er gert. Það er þetta tvennt sem hefur mest áhrif á óharðnaða barnssálina og það fór auðvitað ekki hjá því að um skóla væri talað í bændasamfélaginu þar sem ég ólst upp. Og þó svo að það hafi alls ekki verið orðið almennt á þeim árum að hnjóða í kennara, enda að mestu fyrir tíma kennaraverkfallanna, þá hafði fólk eðlilega skoðun á því sem gerðist í þessum stofnunum og ekki síður hinu sem ekki var gert. Um það leyti sem ég gekk fyrir gafl man ég eftir að hafa heyrt um það talað að nú þyrfti að fjölga starfsfólki við skólann og eitt með öðru að ýmis smá viðvik sem tengdust rekstrinum kölluðu nú á starfskrafta sem kennarar höfðu sjálfir haft á sinni hendi, einni eða tveimur eftir ástæðum. Fullorðna fólkið dæsti yfir að kennarar gætu nú ekki sjálfir séð um að skipta um perur á göngum heldur þyrfti í það verk sérstakan starfsmann! Og það læddist inn hjá mér að þær dygðir sem skólinn annars var duglegur að innprenta okkur í ræðu og riti næði ekki nema að takmörkuðu leyti þar inn. Slíkar efasemdir urðu samt aldrei mjög íþyngjandi þar eð skólamennirnir sem við Tungnakrakkarnir umgengumst voru undantekningalítið vammlausir menn. En tíðarandinn lagði þeim nauðugum viljugum í hendur að gera í vaxandi mæli kröfur á aðra og þá einkum hið opinbera fremur en sjálfa sig. Slíkur andi í uppeldisstofnun er óheppilegur að ekki sé dýpra í árinni tekið. Tvöfaldað og þrefaldað Og það var í þessum anda sem fundið var upp á því að skólahúsið í Reykholti hlyti að vera alltof lítið enda var svo komið þegar ég lauk grunnskólanámi að síðasta veturinn vorum við í læri hjá Heimi heitnum Steinssyni í Skálholti og hans fólki. Nær ómögulegt var að koma þessum síðasta bekk skólans fyrir í gamla skólahúsinu í Reykholti sem byggt var um miðja öldina og við þær þrengingar AF SÓUN OG RÁÐDEILD Kristni var nefnilega keppikefli að sýna aðhaldssemi og gætni í sínum rekstri, halda í við allar tilhneigingar til aukinnar eyðslu og gerði ekki meiri kröfur á ríkissjóð heldur en hann nauðsynlega þurfti. LJ ó sm yn d f rá h ö fu n d i

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.