Feykir


Feykir - 21.04.2011, Blaðsíða 9

Feykir - 21.04.2011, Blaðsíða 9
 16/2011 Feykir 9 Borce Ilievski þjálfari Tindastóls í Körfubolta Á þá ósk heitasta að fjölskyldan sameinist á Sauðárkróki Borce Ilievski, yfirþjálfari körfuknattleiksdeildar Tindastóls, hefur nú verið hér á Króknum síðan í ágúst í fyrra. Feyki lék forvitni á að vita hver reynsla hans væri eftir þetta fyrsta tímabil og hvernig honum líki lífið almennt í Skagafirði. „Ég verð að segja það að í upphafi var ég pínulítið einmana þar sem ég þekkti fáa og smá leiði í mér. Ég þekkti aðeins Karl Jónsson og hans fjölskyldu og Kára, en eftir því sem tíminn leið hef ég kynnst mörgu góðu fólki í kring um körfuboltann, leikmönnum, iðkendum, foreldrum, fólkinu sem starfar fyrir félagið og núna á ég marga góða vini og kunningja hér, sem gera lífið auðveldara,“ segir Borce. En hvernig fannst honum til takast fyrsta tímabilið? „Niðurstaða tímabilsins var vissulega fyrir neðan mínar væntingar, því ég var viss um að við kæmumst í úrslita- keppnina. En ýmislegt varð til þess að upphaf tímabilsins varð okkur mjög erfitt, undir- búningstímabilið var mjög lélegt hjá okkur, við vorum ekki með rétta útlendinga í upphafi og svo spiluðu þeir Rikki og Helgi Freyr ekki í tveimur fyrstu leikjunum og þeir sem fylltu þeirra skörð voru ekki alveg tilbúnir í slaginn“, segir Borce og bætir við: „Þetta var mjög erfiður tími fyrir mig, en til allrar hamingju náðum við að manna liðið með betri erlendum leikmönnum og smám saman fóru strákarnir að spila betur og betur. Desember og janúar voru okkar mánuðir og við vorum að spila mjög góðan körfubolta, en í febrúar fór liðið niður á við á nýjan leik, m.a. vegna meiðsla og ýmissa annarra þátta en við töpuðum samt leikjum aðeins með 2, 3 og 5 stiga mun. Það má segja að vendipunkturinn hafi verið Stjörnuleikurinn hérna heima sem við töpuðum, ef við hefðum unnið hann, hefðum við komist í úrslitakeppnina, en því miður þá töpuðum við þeim leik. Borce segir að liðið hafi þegar upp var staðið, bætt varnarleikinn mjög mikið og stóðu þeim bestu snúning hvað þann hluta leiksins varðaði. „En þó við höfum tekið fram- förum í varnarleiknum á síðasta tímabili, þurfum við að bæta okkur mun meira engu að síður. Nú hefur stór breyting orðið á starfinu í kring um meistaraflokkinn, en venjulega hafa þjálfarar hans aðeins verið ráðnir fram á síðasta dag keppnis- tímabilsins. Nú er hins vegar kominn þjálfari sem er í starfi allt árið og þá koma auknar kröfur á leikmenn og tíminn fyrir utan undirbúningstímabil og keppnistímabilið sjálft, verður allt í einu mjög dýrmætt. „Í mínum huga er þessi dauði tími, þegar keppnistímabilinu lýkur, engu minna mikilvægur en tímabilið sjálft,“ segir Borce og hann heldur áfram: „Á þessum tíma er mikilvægt að fara í hluti sem aflaga fóru á keppnistímabilinu hjá einstaklingunum. Við Kári erum að hjálpa strákunum með skotin sín, erum að vinna í stökkkrafti og þar fram eftir götunum og ef strákarnir sinna þessum æfingum vel, geta þeir komið eins og nýir leikmenn inn á næsta tímabili. Við erum hins vegar að berjast gegn þeirri hefð sem skapast hefur hér að æfingarnar hætti bara þegar tímabilinu lýkur. Ég vona að leikmennirnir skilji mikilvægi þessa dauða tímabils sem við erum í.“ Um þessar mundir eru strákarnir að lyfta tvisvar í viku og vinna með bolta þrisvar, en í næsta mánuði breytist þetta yfir í lyftingar þrisvar í viku og bolta tvisvar. En barna- og unglingastarfið mun einnig taka breytingum í sumar, að sögn Borce. Hann hefur nú sett saman 15 manna úrvalshóp frá 8. flokki og upp í drengjaflokk sem kemur til með að vinna saman fram að körfuboltabúðunum sem verða 12. – 19. júní. „Frá 1. maí verðum við með æfingar 2 sinnum í viku fyrir bæði stráka og stelpur frá 12 ára aldri og upp úr, auk þess sem ein kennslustund verður í körfuboltaskólanum. Eftir körfuboltabúðirnar kemur þriggja vikna frí, en æfingar hefjast aftur 11. júlí með áherslu á þátttöku í Unglingalands- mótinu á Egilsstöðum. Í ágúst förum við síðan aftur í sama prógram og verður í maí.“ En hvað felst í því að vera yfirþjálfari? „Sem yfirþjálfari ber ég ábyrgð á meistara- flokknum og starfi hans, en annað hlutverk mitt er líka að aðstoða aðra þjálfara við sín störf, gefa þeim góð ráð og miðla til þeirra af minni reynslu og kunnáttu. Núna er ég t.d. að vinna að gerð þjálfaraprógramms sem allir þjálfarar munu fá í hendurnar fyrir næsta tímabil. Þar verður búið að búa til A, B og C prógrömm, ásamt því að setja niður á blað einar 150 æfingar, sem hægt er að nota til að ná þeim markmiðum sem sett eru í þessum stigs-prógrömmum,“ segir Borce og bætir við að þjálfarar hafi eftir sem áður ákveðið frjálsræði til að móta sínar eigin aðferðir og æfingar, en þetta þjálfaraprógramm sé það sem allir eigi að styðjast við, til að tryggja það að allir iðkendur Tindastóls fari í gegn um sama prógrammið. „Barna- og unglingastarfið er hjartað í félaginu og við höfum marga hæfileikaríka krakka í starfinu. Hlutverk okkar þjálfaranna er að tryggja það að allir iðk- endurnir fái þá þjálfun sem þarf svo krakkarnir geti orðið lykilmenn í meistaraflokkunum og staðið sig þar.“ Eins og fram hefur komið verða hér stórar körfubolta- búðir í heila viku í sumar frá 12. – 19. júní. Hvað getur þú sagt okkur um þær? „Þessar körfuboltabúðir eru í raun hluti af okkar barna- og unglingastarfi. Ég byrjaði með svona búðir á Ísafirði fyrir tveimur árum síðan og nutu þær mikilla vinsælda. Núna erum við í þessum sporum hér og ég vonast til þess að við getum boðið upp á magnaðar körfuboltabúðir á heimsmælikvarða. Fyrir- myndin eru viðlíka búðir í Serbíu sem taldar eru einar þær allra bestu í Evrópu. Prófessor Aleksandar Nikolic, sem margir kalla föður nútíma körfuboltans í Evrópu, kom þeim búðum á koppinn. Hjá okkur verða fjórir erlendir körfuboltaþjálfarar frá Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum og Serbíu og ég er viss um að krakkarnir okkar eiga eftir að læra mjög mikið af þeim. Fyrir búðirnar verðum við með þjálfaranámskeið fyrir íslenska þjálfara og ég á von á því að þeir komi til með að fjölmenna á það.“ Borce er giftur og tveggja stúlkna faðir. Eiginkona hans Biljana Ilievska, starfar á Ísafirði og hefur gert það síðan Borce flutti á Krókinn. En er ekki erfitt að vera aðskilinn frá fjölskyldunni? „Það hefur ekki verið auðvelt að vera án þeirra hérna í vetur, ég sakna fjölskyldunnar mjög mikið og þetta hefur líka verið erfitt fyrir stelpurnar. Ég vonast til þess að þær komi hingað í sumar, en til þess að það gangi þarf Biljana að fá starf við sitt hæfi. Hún er menntaður efnafræðingur og starfar í rannsóknarfyrirtæki á Ísafirði. Ég á mér þá ósk heitasta að hún fái hér vinnu og fjölskyldan geti sameinast hér á Sauðárkróki, í því frábæra og rólega umhverfi sem hér er að finna,“ segir Borce að lokum. Biljana og Borce. Borce og stelpurnar.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.