Heimskringla - 22.08.1934, Síða 6

Heimskringla - 22.08.1934, Síða 6
6. StÐA H EIMSKRINGLA WINNIPEG, 22. ÁGÚST, 1934 Jane Eyre eftir CHARLOTTE BRONTE Kristján Sigurðsson, þýddi “Nú hvað er erindi hans?” “Rétt það, að segja þér að Mr. Eyre, móð- urbróðir þinn í Madeira, er fallinn frá, hefir ánafnað þér alt eftir sig og að þú ert auðug, rótt það og ekki annað.” “Eg auðug?” “Já, þú, auðug.” Svo þögðum við bæði nokkra stund, þar til hann segir: “Vitanlega verður þú að sanna hver þú ert, sem er engum vanda bundið, og þegar það er búið, geturðu strax tekið við arfinum. — Briggs hefir erfðaskrána í sínum vörzlum og öll skjöl, en eignir þínar eru í brezkum ríkis- skulda skírteinum”. Nú var nýtt uppi á baugi! ‘Garnan er, lesari sæll, að hefjast úr skorti til auðs á einu vetfangi, bæði gott og gaman, en torvelt að átta sig á, og því erfitt að njóta til fulls, alt í einu. Miklu meiri unun og dælli fögnuð- ur er til en þetta, þó áþreifanlegt sé og gott til værðar og stillingar. Maður hoppar ekki né hrópar húrra, þegar hann eignast auð fjár, heldur fer að hugsa um vandann og íhuga hvað gera skuli. Úndir niðri er honum gott og glatt í skapi, en þó með áhyggjum og nýtur sælu sinnar með íbyggnum og hátíðlegum svip. Nú var móðurbróðir minn fallinn frá, eini ættinginn minn, sem mig langaði til að sjá, og sú von mátti aldrei rætast. Og þessi gæfa var mér einni veitt og engum öðrum af ættinni, mikil gæfa fanst mér það vera, dýrðlegt fann eg það vera, að þurfa ekki að sækja til annara, heldur taka hjá sjálfum sér, það sem mann langaði til. Af þeirri tilhugsun fyltist eg fögnuði. “Það glaðnar þá yfir þér, loksins,” mælti Mr. Rivers. “Eg hélt að Medúsa hefði litið á þig og þú orðið að grjóti. Hver veit nema þú viljir vita, hve auðug þú ert?” “Hvað á eg mikið til?” “Það er nú ekki stórt. Varla nefnandi. rétt tuttugu þúsund pund, trú eg þeir segi — en hvað er það?” “Tuttugu þúsund pund?” Nú gekk alveg yfir mig, eg hafði ekki búist við meiru en fjórum þúsundum eða sex. Mér varð svara fall um stund. Þá heyrði eg Mr. St. John hlægja, í fyrsta sinn. “Nú, ef eg hefði hryllileg tíðindi að segja þér, þá hefðir þú varla sett upp meiri hrellingar svip.” “Stór upphæð er það, heldurðu ekki að þú hafir lesið skakt úr tölunum?” “Hún var skrifuð með bókstöfum, ekki tölum.” Mér fór líkt og manni með magamál í meðallagi, er sezt einn að matborði með næg- um réttum handa hundrað manns. Mr. Rivers fór í yfirhöfn sína og gekk til dyra. “Bíddu við eitt augnablik,” sagði eg. “Hvernig stóð á því, að Mr. Briggs skrifaði þér til um mig, átti hann von á, að þú, á svona afskektum stað, gætir hjálpað til að finna mig?” “Ó, eg er eins og aðrir prestar, okkar er oft leitað með skrítilegum erindum,” svaraði hann og tók til lokunnar. “Nei, ekki er mér það nóg, mér finst það undarlegt og er forvitin.” “Þú skalt fá að vita það seinna,” sagði hann og leit út eins og honum væri ekki um sel. • Eg gekk milli hans og dyranna og mælti: “Þú skalt ekki héðan fara, fyr en þú segir mér alt eins og er.” “Eg vildi síður gera það rétt núna.” “‘Þú mátt til — þú skalt.” “Eg vildi heldur, að María eða Diana segðu þér eins og er.” Vitanlega ólu þessar viðbárur á forvitni minni, svölun varð hún að fá og svo sagði eg honum. “Eg hefi sagt þér eins og er, að eg er harðger og torsóttur.” “Eg er harðger líka og ekki vön því, að láta af mínu.’’ “Og svo þar á ofan er mér svalt, hefi eng- an hita í haldinu.” “En mér er funheitt og hiti bræðir klaka. Eldurinn þarna hefir brætt snjóinn af yfir- höfn þinni, svo að mitt sandi stráða gólf er blautt eins og troðin gata; ef þú vonast til að fá fyrirgefning fyrir aðra eins meðferð á sandbornu eldhús gólfi, þá segðu mér það sem eg vil vita.” “Jæja, það er þá bezt að eg láti undan. Þú verður að fá þetta að vita einhverntíma, hvort sem er. Þú heitir Jane Eyre?” “Vitaskuld.” “Þér er væntanlega ókunnugt, að eg ber sama nafn, eg var skírður St. John Eyre Riv- ers. Móðir mín bar það nafn; hún átti tvo bræður, annar var prestur og giftist Miss Jane Reed í Gateshead, hinn var kaupmaður og dó í Madeira fyrir skömmu. Hans löglærði full- trúi var sá Briggs sem skrifaði okfeur til í sumar, að frændi okkar hefði ánafnað systur- dóttur sinni, prestsdótturinni, allar eigur sínar. Hann skrifaði okkur aftur fyrir nokkrum vikum, til að segja okkur að sá erfingi væri týndur og spurðist fyrir hjá okkur, hvort við vissum nokkuð til hans. Nú veiztu hvernig í öllu liggur. Nafnið þitt sá eg af hendingu á auðu pappírsblaði í gær, þá þóttist eg vita, hvernig á þér stæði.” Nú leitaði hann ti.1 dyra á ný. “Lofðu mér að tala og átta mig 'á þessu sagði eg. Hann stóð frammi fyrir mér, með hattinn í hendinni, stiltur eins og vant var. “Móðir þín var þá föðursystir mín?” “Já”. “Jón föðurbróðir minn var þá móðurbróðir þinn?” “Óneitanlega.” “Þið systkinin og eg erum þá systkina börn. “Svo er, já.” Eg virti hann fyrir mér. Þessi maður, sem hafði fundið mig nær dauða en lífi fyrir dyrum sínum, var þá náfrændi minn, maður sem eg gat virt og elskað, og systur hans voru stúlkumar sem mér strax þóttu elskuleg- ar og aðdáanlegar, frá því að eg kyntist þeim fyrst. Þetta var sannlega dýrðlegt fyrir ves- alan einstæðing. Mér hitnaði um hjartað, mér vaknaði hrein og fagnaðarrík ástúð, skír, fjörug, kætandi; sú blessun var ólík gjöf höf- ugs gulls, þó mikil og velkomin væri sú stillandi veig svalra seima. Eg klappaði sam- an lófunum, yfirkwmin af kæti og segi: “Nú er gaman — þetta þykir mér nú vænt um!” Presturinn brosti og kvað mig verða mis- jafnt við: “Þegar eg tjáði þér, að þú ættir auð fjár, settir þú upp alvörusvip, en nú uppveðr- ast þú af því, sem lítils er vert hjá því.” “Þér kann að lítast svo, þú átt systur og þykir lítið koma til þess að eignast frænku, en eg átti ekkert skyldmenni, en nú koma þrjú — eða tvö, ef þú vilt ekki láta telja þig með — fulltíða inn í minn heim. Eg segi aftur: eg er sannarlega fegin!” Eg tók dl að ganga um gólf, því að mér var mikið niðri fyrir. Þeir sem höfðu bjargað mér allslausri og eg elskað án þess að geta sýnt það í verkinu, gat eg nú orðið að liði. Þau voru undir oki — því gat eg létt af þeim, þau voru aðskihn, eg gat heimt þau aftur til sam- búðar það sjálfstæði sem mér var veitt, mátti eg gefa þeim með mér og hlutdeild í minni velmegun. Vorum við 'ekki fjögur? Tuttugu þúsund pund, ef skift var í jafna parta milli okkar, gæfi hverju okkar fimm þúsund í hlut, sem var nóg og meir en nóg; með því móti væri öllum gert rétt og gerðir ánægðir. Nú fann eg ekki lengur til þunga af auðnum, — Nú var arfurinn meir en tómir peningar, fjör- gjafi var hann og vongjafi, sannur gleðigjafi. Ekki veit eg hvemig eg var útlits, meðan þessar hugsanir byltust í mér, en eg varð þess brátt vör, að Mr. Rivers var kominn með stól og reyndi að fá mig til að setjast, réði mér líka til að vera stilt. Eg forsmáði, allar dylgj- ur eða ávæning um að eg þyrfti hjálpar við eða væri trufluð á sálinni, hristi hönd hans af mér og dikaði fram og aftur sem áður, og segi við hann: “Skrifa þú Díönu og Maríu til á morgun og segðu þeim að koma strax heim. Diana sagði að þær þættust auðugar ef þær ættu sitt þúsundið hvor, svo að fimm þúsund áfettu að duga.” “Segðu mér hvar eg get náð í vatnsdrykk handa þér,” sagði St. John, “þú verður að taka á því sem þú hefir til og stilla þig.” “Hvað ertu að fara með! og hvernig verð- ur þér við að fá þinn arfahlut? Heldur hann þér kyrrum hjá Miss Oliver og laðar þig í hjú- skap eins og hvern annan dauðlegan mann?” “Þú ferð með rænulaust tal. Eg sagði þér víst of skyndilega frá tíðindum, þér hefir orðið of mikið um.’’ “Mr. Rivers! Eg er með fullu ráði, þú skilur ekki eða læzt ekki skilja hvað eg á við.” “Hver veit nema mér tækist að skilja, ef þú segðir skýrara til.” “Hvað er að skýra? Ef tuttugu þúsund gullpeningum er skift milli bróðúrsonar og þriggja systradætra hins látna, þá koma fimm þúsund í hvers hlut, það skilurðu víst. Eg vil að þú skrifir systrum þínum strax til og segir þeim hvaða happ hefir hent þær.” “Hent þig, vildirðu sagt hafa.” “Eg er búin að segja til minnar skoðunar og get ekki af henni látið. Eg er hvorki grimmlega sínk né smánarlega vanþakklát. Þar á ofan vil eg hafa heimili og gott fólk að umgangast. Mér fellur vel í Moor House og þar vil eg eiga heima; mér fellur prýðilega við Díönu og Maríu og vil festa við þær æfi- langa vináttu. Mér er bæði gagn og gaman að því, að eiga fimm þúsund pund en af tutt- ugu þúsundum hefði eg áhyggjur og vanda, ætti heldur ekki sanngjarnt tilkall til þeirra, þó forsvaranlegt kunni að vera eftir lögum. — Ykkur læt eg þess vegna eftir, það sem eg hefi alls engin not af. Það er algerlega ó- þarft, að koma með mótbárur eða jafnvel ræða um þetta efni; við skulum koma okkur saman um það strax.” “Þetta er að fara eftir því sem manni dettur fyrst í hug, gefðu þér tómstundir að hugsa þig um, áður en þú afgerir nokkuð.” “Ó, ef þú gerir ekki nema efast um ein- lægni mína, þá er alt auðveldara: þú sérð hvað réttast er í þessu efni?” “Eg sé hvað réttast er að vissu leyti, þó gagnstætt sé öllum venjum. Allur arfurinn er þín eign, móðurbróðir minn eignaðist þann auð af sjálfs sín ramleik og mátti gefa hverjum sem honum þóknaðist, hann gaf þér alt eftir sig; þess vegna mátt þú, með góðri samvizku, eigna þér allan arfinn með fullum rétti.” Eg svaraði: “Eg fyrir mitt leyti fer fult svo mikið eftir því sem mér bezt líkar, eins og því sem sam- vizkan segir mér. Tilfinningum mínum má eg til með að láta eftir, því að það hefi eg svo sjaldan getað hingað til. Þó þú kapp- ræddir, kæmir með mótbárur og skapraun- aðir mér í heilt ár, þá gæti eg ekki hafnað þeirri dæilegu unaðssemd, sem eg sé nú fyrir mér, að endurgjalda mikinn greiða og eign- ast trausta vini æfilangt.” “Svo sýnist þér nú sem stendur,” svaraði St. John, “af því að þú veizt ekki enn hverju það líkist, að eiga mikinn auð og mega njóta hans. Þú rennir ekki grun í, hve mikil met leggur af tuttugu þúsund gullpeningum, á þann sem er eigandi þeirra, né hver staða í þjóðfélaginu er samfara slíkri eign, né hvers þú mættir vænta —.” Hér tók eg fram í og segi: “Og þú getur ekki gert þér í hug, hve mikið mig langar í bróður og systur kærleik. Eg hefi aldrei átt neitt heimili, né bræður og systur, en nú vil eg þetta alt eignast. Þér er væntanlega ekki móti skapi, að kannast við mig og veita mér viðtöku, eða er svo?” “Jane, eg vil vera bróðir þinn, systur mín- ar skulu vera þínar systur, þó þú afsalir þér ekki lögmætum arfL” “Bróðir? Já, í þúsund mílna fjarlægð! Systur? Já, í þrældómi hjá ókunnugum! Eg auðug — fleytifull af gulli, sem eg vann ekki fyrir og á ekki skilið, og þú öreigi! Afbragðs jöfnuður og bræðralag! Bærilega náinn kunningsskapur og umgengni!” “En þú getur náð þeim heimilishögum og ættarböndum gem þig langar í, Jane, með öðru móti, — þú getur gifst.” “Hvaða fjarstæða! Eins og mig langi til að giftast! Því fer fjarri, eg ætla mér aldrei að giftast.” “Nú tekur þú ofmikið af, svona gífurmæli sanna, að þú ert æst um of.” “Eg tek ekki of mikið af. Eg veit bezt sjálf hvað mér býr í skapi og hve afhuga eg er giftingu; eg má ekki einu sinni til giftingar hugsa. Enginn myndi biðja mín ástar vegna og síður en ekki vil eg að braskarar eða gróða- menn leiti ráðahags við mig í gróða skyni. Og ókunnan mann vil eg ekki og mér ólíkan eða jafnvel ógeðfeldan. Eg vil vera með mér skyldum og geðþekkum. Seg þú aftur, að þú viljir vera bróðir minn, einlæglega ef þú getur, því að þar af verður mér glatt í skapi.’’ “Eg hugsa að eg geti það. Eg veit, að mér hefir altaf þótt vænt um systur mínar og það af því, að eg met mikils þeirra innræti og dáist að því hvað vel gefnar þær eru. Þú hefir líka stöðuglyndi og vit, ert lík þeim í háttum og að smekk, eg hefi ánægju af tali þínu og nærveru. Mér finst eg vel geta fundið rúm í hjarta mínu fyrir eina systur til, og það er bezt að þú sért sú þriðja og yngsta.” “Þetta er vel sagt og nóg í kveld. Nú er best þú farir, ef þú stendur lengur við, þá get- ur skeð þú egnir mig með tortrygni og við- bárum.” “Og hvað um skólann, Miss Eyre? Eg býzt við að það verði að loka honum?” “Nei, eg held því starfi þangað til önnur fæst til að taka við.” Þá brosti hann, því það líkaði honum vel. Við kvöddumst með handabandi og svo fór hann sína leið. Eg ætla ekki að lýsa þeirri rekistefnu, sem eg átti í við systkinin, en á endanum fengust þau til að leggja málið í tveggja manna gerð, Mr. Olivers og lagamanns nokkurs. Þeir komust að þeiri niðurstöðu sem eg vildi, enda hugsa eg, að systkinin ætluðu þetta sanngjarnt vera og hefðu farið eins að í mínum sporum. XXXIV. Kapítuli Um það öllu þessu var til lykta ráðið, var komið að jólum. Eg lokaði skólanum þegar fríið byrjaði og gætti þess, að skilja ekki gjafa- laust við börnin. Happ opnar hjarta ekki síður en hönd, og að gefa af því sem manni hefir verið örlátlega og ríkulega veitt, er að veita tilfinningum sínum indælt eftirlæti. Skóla- meyjarnar höfðu látið mig vel og eg fann, þegar við skildum, að þeim þótti vænt um mig. Þær létu það skírt og kröftulega í Ijós, þegar við skildum. Mér þótti mjög vænt um, að eiga traust ítak í þeirra falslausa hjarta. Eg lofaði þeim, að ekki skyldi nein vika líða svo, að eg segði þeim ekki til í eina stund eða svo. Að svo búnu lét eg þær fara, lokaði skólanum og stóð með lykilinn í hend- inni og talaði við þær að skilnaði, sem mér féll bezt við (en alls voru þá sextíu í skólan- um), siðugar, látprúðar, vel innrættar og vel gefnar stúlkur. Þá kom presturinn að og segir: “Finst-þér þú hafa uppskorið umbun fyrir erfiði þitt þetta misseri? Er þér ekki ánægja að því, að hafa unnið nokkuð þarflegt á æf- inni?” “Víst svo.” “Og þú hefir erfiðað aðeins fáa mánuði! Ætli þeirri æfi væri ekki vel varið, sem beitt er á að endurfæða þitt kyn?” “Jú”, svaraði eg; “en því gæti eg ekki farið fram án afláts. Eg má til að njóta minna hæfileika ekki síður en rækta annara. Nú er kominn tími til þess fyrir mig. Skólanum skaltu ekki snúa að sál minni né líkama, eg er búin í skólanum og ætla að létta mér upp.” Hann setti upp alvöru svip. “Hvað nú? Hvaða ákefð er nú yfir þig komin, alt í einu? Hvað ætlarðu fyrir þér?” “Að starfa — koma eins miklu af og eg get. Eg verð að biðja þig að láta Hönnu lausa og fá einhverja aðra til að þjóna þér.” “Þarftu á henni að halda?” “Já, til að koma með mér til Moor House. Systurnar koma eftir viku tíma og eg vil að alt sé vel við komu þeira búið.” “Nú skil eg. Mér datt í hug, að þú ætlaðir að þjóta eitthvað til skemtunar sjálfri þér. — Þetta er betra, Hanna skal fara með þér.” “Segðu henni þá að vera til í fyrra málið; og hér er lykillinn að skólahúsinu, lykillinn að íbúðinni skaltu fá á morgun.” Hann tók við og svaraði: “Með mikilli kæti afhendir þú hann. Þá léttúð á eg bágt með að skilja, því að eg veit ekki hvert það starf er, sem þú ætlar þér í stað þess, sem þú hættir við. Hvert er nú þitt augnamið og ásetningur í lífinu?” “Minn fyrsti ásetningur er sá, að hreinsa (skilurðu það til fulls: hreinsa) Moor House frá kvisti til kjallara, annar sá, að strjúka það með vaxi og óteljandi tuskum þangað til það glóir og glitrar, sá þriðji, að setja hvem stól, borð, rekkju og gólfdúk á sinn stað, fjórði að gera svo heitan eld í hverri stofu, að kúfinn taki af þínum kolabyng og móhraukum, og enn sá, að verja tveim seinustu dögunum fyrir komu sýstra þinna til þess, með aðstoð Hönnu, að þeyta egg, tína kúrennur, mala krydd og ket í snúða og fremja margan matar seyð, miklu margvíslegri en unt er að segja með orðum, eins fávísum manni og þú ert. Mitt augnamið og ásetningur er í stuttu máli sá, að hafa alla hluti sem bezt búna við komu systranna og bjóða þær velkomnar með sem mestri rausn. Hann brosti aðeins við þessu en var samt ekki ánægður. “Þetta má vel svo' vera að sinni, en eg ætla að vona, þegar mesti f jörgáll- inn er af runninn, að þú þá leitir nokkurs æðra en heimilis blíðu og húsverka gamans.” “Sem er það bezta, sem veröldin hefir að bjóða.” “Nei, Jane, nei. Þessi veröld er ekki til nautna ætluð — reyndu ekki að gera það úr henni; ekki heldur til hvíldar — vertu ekki hvíldrækin.” “Þvert á móti, eg ætla mér að vera vel að.” “Jane, þú skalt hafa tveggja mánaða und- anþágu til að njóta þinna nýju sældarkjara og nýfenginna frænda, en að þeim tíma liðnum vil eg mega treysta því, að þú farir að líta lengra en til Moor House og systurlegrar ást- úðar í umgengni og sérgóðrar værðar og holdsins glaðningar við allsnægtir í siðfáguðu samfélagi. Þá vona eg að þér fari að verða óvært af áleitni þeirrar orku sem í þér býr.” Eg varð hissa, leit við honum og sagði: “St. John, eg held það sé fast að því synd- samlegt, að tala svona. Þegar eg hefi helzt hug til að láta mér alt eins vel líka og drotn- ing, þá reynir þú að vekja í mér óró! í hverju skyni gerir þú slíkt?” “í því skyni að venda til gagnsmuna þeim gáfum, sem guð hefir þér til umráða gefið; um þær mun hann vafalaust heimta af þér strangan reikning einhvern tíma. Eg mun hafa vandlegar gætur á þér, Jane, og áhyggjusam- legar, það máttu eiga víst. Og reyndu til að hafa hemil á hug þínum til hvundagslegra heimaláta og ákefð í ánægju af þeim. Þú mátt ekki loða svo fast við holdsins fjötra; geymdu þitt stöðuglyndi og fjör til þess að beita þess- um sálargáfum á nokkuð sem er þeim sam- boðið; sóaðu þeim ekki á hégómlega og hverf- ula hluti. Heyrirðu hvað eg segi, Jane?” “Já, álíka og þú talaðir grísku. Eg þykist hafa fullgilda ástæðu til að vera ánægð og farsæl vil eg vera. Vertu sæll.”

x

Heimskringla

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heimskringla
https://timarit.is/publication/129

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.