Lögberg - 01.01.1953, Page 6

Lögberg - 01.01.1953, Page 6
6 LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 1. JANÚAR, 1953 J GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALAI A JF I ÆSKULEIKIR OG ÁSTIR Skáldsaga NÆTURGESTUR Engum, sem farið hefur um Hrútadal, dylst það, að hann er með fegurstu sveitum landsins. Hann er grösugur og grjótlaus.. Veðursæld er þar mikil. Eftir dalnum rennur á, breið og straum- þung, samnefnd honum. Þar sem hún sameinast hafinu, er verzlun- arstaður dalamanna, sem heitir Djúpiós. Sjaldan kallaður annað en „Ósinn“. Fremstu bæirnir í dalnum eru Ásólfsstaðir að vestan, en Nauta- flatir að austanverðu. Það er stærsta, fallegasta og bezta jörðin í sveitinni. r í marga liði í beinan karlegg höfðu búið þar feðgar hver fram af öðrum. Þeir hétu Jakob og Jón. Þegar faðirinn hét J*ón, hét sonurinn Jakob, en þegar faðirinn hét Jakob, hét sonurinn Jón. Aldrei áttu þeir nema þetta eina barn, ef þeir eignuðust fleiri, dóu þau í æsku. Þeir voru stórríkir menn, áttu margar jarðir þar í sveitinni og víðar. Og auðurinn óx með hverjum mannsaldri, því alltaf kom konan með eitthvað í búið. Þeir voru vel metnir og aðgætnir í fjármálum, geðprýðismenn miklir og höfðu allir á hendi stjórn sveitarinnar. Það var eitthvað um 1860, að saga þessi byrjar. Þá hét bónd- inn á Nautaflötum Jakob. Hann var ógiftur. Faðir hans var þá nýlega dáinn. Jakob hafði að sjálfsögðu tekið við öllum eignum eftir hans dag og bjó með móður sinni, sem Ingibjörg hét. Hann var kominn yfir þrítugt og allir í dalnum voru fyrir löngu farnir að litast um eftir konuefni handa honum, en sjálfur gerði hann ekki svo mikið sem líta hýrlega til laglegústu heimasætanna, og aldrei heyrðist þess getið, að hann flangsaði í vinnukonurnar á heimilinu, sem voru þó sæmilega þriflegar sumar hverjar. — Skárri er það nú hreppstjórinn, ógiftur. Það var óviðkunnanlegt, sagði fólkið. Þegar hann hafði búið með móður sinni í tvö ár, andaðist hún. Nú vissu allir, að Jakob myndi sækja konuefni handa sér í nálægar sveitir, því tæplega var nokkur stúlka í sveitinni nógu efnuð handa honum. Það var hagfræðin, sem þá réð hjónaböndunum. Ástin var lítið þekkt olnbogabarn, sem sjald- an þorði að láta sjá sig í birtunni. En Jakob fór sér hægt eins og fyrr. Elzta vinnukonan á heimilinu hét Sigríður. Hún hafði eldað matinn og skammtað, eftir að húsfreyja lagðist banaleguna. Jakob bað hana að halda því áfram. Og það gerði hún. Einni vinnukonu var bætt á heimilið í staðinn fyrir hana. Svo var annað algerlega óbreytt. Ein kona í dalnum, sem átti harla myndarlega dóttur, gekk í veg fyrir Jakob einu sinni, þegar hann var á heimleið úr kaupstað og spurði hann, hvort hann vantaði ekki bústýru, því líklega gæti Sigríður ekki hugsað um heimilið, svo að nokkur mynd væri á. „Sigríður er alvön að skammta,“ svaraði hann, „og þetta gengur ágætlega.“ Svo kvaddi hann húsfreyju og reið leiðar sinnar. „Það lítur út fyrir að hann ætli að láta ættina deyja út með sér,“ sagði fólkið í sveitinni. Það var komið fram á einmánuð um veturinn, þegar kvenmaður kom að Nautaflötum og beiddist gistingar. Hún hét Jóhanna Andrésdóttir, uppalinn þar í sveitinni, en hafði verið mörg ár í vistum í annarri sýslu, aldrei lengur en árið í sama stað. Nú var hún á leiðinni að finna foreldra sína og svipast eftir vist. Hún var dugnaðarkvenmaður mikill. Allt kvöldið var hún á hælunum á Sigríði og aðgætti nákvæm- lega allt innanbæjar. Sagði hún henni frá því, hvernig þetta og hitt væri haft þarna vestur í sýslunni. Þar væri allt svo myndar- legt. Hún komst að því, að það vantaði vinnukonu. Þá gerði hún sig heimakomna og settist inn í hjónahús á tal við Jakob og býður honum að fara til hans vinnukona á næstu krossmessu. „Ég hef hingað til verið talin sæmilegt hjú. Mér hefir ekki boðizt vist, sem ég er ánægð með. En hér lízt mér vel á mig.“ Jakob sá, að konan var hraustleg og líkleg til að geta tekið til höndunum um kláru og hrífuskaft; hann beit því á agnið og réð hana til sín. Hún fluttist svo þangað á krossmessunni. Hún byrjaði strax á aðfinnslum við Sigríði og vildi láta hana breyta ýmsu, en Sigríður var vanaföst og fór sínar götur. „Ég hefi það eins og Ingibjörg heitin hafði það,“ var hún vön að segja. „Hún var nú orðin á eftir tímanum fyrir löngu,“ sagði Jóhanna. „Ég er nú búin að sjá svo margt þarna vestur í sýslunni. Þar er svo mikill myndarskapur, að þeir geta ekki trúað því, sem alltaf hafa kúrt heima eins og álfar í hól.“ Og hún hrifsaði með frekju og ráðríki ráðsmennskuna úr höndum Sigríðar að mestu leyti. Jakobi féll það illa, en hann var friðsemdarmaður og hikaði við að fara í orðakast við Jóhönnu, sem honum fannst heldur aðsúgsmikil. Samt bar hann það í mál við hana, að Sigríður ætti að hugsa um matinn. „Ég er nú svo- leiðis gerð, að ég get ekki séð að heim'ilið líti ekki sómasamlega út. Fyrst ég er hér á annað borð, ætla ég að reyna að laga það,“ svaraði hún. „Ég er búin að sjá svo margt fyrir mér. Þú ættir nú bara að sjá allan þann myndarskap, sem er á Felli hjá honum séra Helga, síðan dætur hans komu frá Reykjavík. Og það hafa margir sniðið sig eftir því, sem þeir sjá þar.“ „Hefur þú verið þar?“ spurði hann. „Nei, ónei, en ég hef komið þar oft til kirkju. Hún er svolítið falleg, hún Lísibet, elzta dóttirin, sem heima er, og eftir því láta allir vel af henni. Hún er lifandi eftirmyndin hans föður síns. Það er nú elskulegur maður.“ „Já, hann er það. Ég hef oft séð hann. Þeir voru kunningjar, faðir minn heitinn og hann. Hann hefur ekki komið hingað á heimilið, síðan hann dó,“ sagði Jakob og gekk burtu. Jóhanna var fegin, að samtalið hafði tekið aðra stefnu. En Jakob kom bráðlega aftur inn í búrið. „Hvað sagðirðu hún héti þessi dóttir séra Helga, sem er ný- komin frá Reykjavík?“ spurði hann. Nú varð Jóhönnu ekki sama. Hvern fjandann hafði hún verið að þvaðra. „Mikil ósköp, þær eru nú fleiri en ein og fleiri en tvær. Það vantar nú ekki barnafjöldann þar,“ gegndi hún hægt og vand- ræðalega. „Þessi, sem þú sagðir að væri svo lagleg.“ „Hún heitir Lísibet. Það er nú sagt margt um hana, drósina. Hún þykir heldur ráðrík og merkileg. Svo á hún að vera trúlofuð fyrir sunnan einhverri búðarloku. Þeir eiga að liggja þrír efnileg- ustu mennirnir í Fellssókninni fyrir fótum hennar. Hún er sögð jafnvökur við þá alla, en ekki vill hún víst giftast neinum þeirra.“ „Hvaða von er til þess, ef hún er trúlofuð fyrir sunnan,“ sagði Jakob. „Blessaður vertu. Það er nú eins og hver önnur flugufregn, sem enginn veit sönnur á. Svo í fyrra sumar reið Márus^gamli á Auðkeldu til hennar í bónorðsför, teymdi með sér glófextan gæðing, sem hann vildi skenkja henni; því hún er þessi óskapa reiðgikkur, alveg eins og blessaður presturinn; en hún vildi hvor- ugan þiggja. Hún er víst reglulegur hrokagikkur.“ „Hún er þá ekki lík föður sínum, ef hún er stolt.“ „Nei, hún er ekki lík honum nema í sjón. En svo er nú karlinn hann Márus óttaleg herfa og kominn fast að sextugu. En hann á þessa indælu jörð, Auðkeldu. Samt er hún ekki neitt á við jörðina þína, Nautaflatir.“ Jóhanna brosti ánægjulega framan í hann. „Var það ekki hún, sem þú varst að hæla áðan?“ spurði Jakob. „Ég tala nú bara eins og ég heyrði aðra segja, en sjálfri hefur mér ekki litizt á hana.“ Hann fór og spurði einskis framar. Það liðu þrjár vikur. Sigríður var algerlega sigruð og fékk engu að ráða. Hún varð að sætta sig við að láta Jóhönnu segja sér fyrir verkum, eins og hún væri þegar orðin húsmóðir á heim- ilinu. Samt fékk hún að hafa hönd yfir öllu skæðaskinni ennþá. En það var af því, að Jóhönnu þótti leiðinlegt að hugsa um það. Allir gestir, sem komu á heimilið og þáðu góðgerðir, þökkuðu Sig- ríði þær. Það féll Jóhönnu illa. En það stafaði af því, að þeir kunnu sig ekki, sagði hún. Það var haldið uppboð á einhverju drasli viðvíkjandi verzlun- inni á Ósnum. Jakob fór þangað. Hreppstjórana má aldrei vanta á uppboðin. Jóhanna vakti um kvöldið eftir honum. Það gerði Sigríður líka. Jóhanna var eitthvað að þrifa í eldhúsinu, þegar Sigríður kom inn og bað talsvert fyrir sér. „Hann er nú bara kominn með honum hann séra Helgi frá Felli. Hann kom hingað stundum, meðan hann Jón heitinn lifði. Það er varla fyrir hann að gista hér núna,“ sagði hún. Jóhanna snerist snúðugt á móti henni. „Heldurðu að ég kunni ekki að bera fram mat fyrir almenni- lega menn og það því fremur mann, sem ekkert er nema gæðin og lítillætið. Láttu mig um það,“ sagði hún drembin. Jakob kom inn og kastaði á þær kveðju. „Það er kominn nætur gestur, en hann vill ekkert í kvöld nema mjólk,“ sagði hann og beindi talinu að Sigríði. „Það verða víst engin vandræði með að framreiða það,“ sagði hún grgmjulega. „Svo látið þið hann sofa í stofurúminu,“ bætti hann við og fór fram aftur til gests síns. Jóhanna skipti um föt. Hún var þrifleg kona og feit. Séra Helgi var víða þekktur, gleðimaður mikill og vínhneigður fram úr hófi. Enginn þóttist sjá eins fallega hesta og hann átti, enda kunni hann manna bezt með þá að fara. Á yngri árum hafði hann verið glæsi- menni mikið. Nú var hann silfurhærður öldungur, en snar og fjörugur sem unglingur. Jóhanna setti könnuna á borðið og heils- aði virðulega. Hann fór að sötra mjólkina, en horfði á hana gegnum drykkjumannsglýjuna. Hún krosslagði hendurnar á kviðn- um og brosti dálítið framan í kennimanninn, sem hafði fengið órð fyrir að vera heldur góður við kvenfólkið. „Ég þekki yður,“ sagði hann. „Þér voruð hjá honum Gvendi í Járnhrygg í hitteðfyrra.“ „Hjá honum Guðmundi á Járngerðarstöðum,“ leiðrétti hún. „Já, ég fer nærri um það, hvað hann heitir en ég brá þessu svona fyrir mig. Hann ísak gamli kallar hann þessu nafni svona stundum.“ „Já, ég get vel trúað því, að ísak sé ekki vel við Guðmund, síðan hann vísaði honum út í hríðina á laugardagskvöldið fyrir páska.“ Hún hló hreykin. „Voruð þér hjá Guðmundi?“ „Já.“ „Og þér gátuð séð það, að auminginn væri rekinn út í hríðina á hátíðisnóttina, án þess að reyna að hjálpa. Gátuð þér ekki skotið honum inn í fjósbásinn eða eitthvað? Þér lítið þó út fyrir að fara það, sem þér komizt.“ „Svoleiðis menn eins og ísak flækingur finna ekki náð fyrir mínum augum. Ég hef alizt upp við að vinna og hef skömm á let- ingjum,“ svaraði hún og hnykkti til höfðinu. „Ojá, það er náttúrlega gott og blessað, en óviðkunnanlegt hefði það verið fyrir heimilið, ef hann hefði orðið úti. En hann komst fram að Felli. Hún lét sig ekki muna um að gefa honum að borða um hátíðina, húsmóðirin þar, þótt hún hafi vanalega um tuttugu manns í heimili. Það er nú kona, sem um er talandi. Hún er ekki lík kerlingarnánösinni á Járngerðarstöðum, sem ekki tímir að gefa umrenningi spón eða bita, heldur lætur matinn verða ónýtan hjá sér, hef ég heyrt sagt. Ekki hef ég skoðað í búrið hjá henni.“ „Það er of mikil sparsemi hjá henni. En konan yðar fær al- mennings lof,“ sagði hún hálf dræmt. „Hún hefur alið upp tólf börn, sem hún er móðir að og sex fósturbörn. Tvö eru enn ófermd. Annað er ekki nema nokkurra vikna. Samt hefir sjaldan verið búsvelta í Felli.“ „Það eru nógu há launin prestanna,“ sagði Jóhanna og brosti. „Launin mín hefðu hrokkið skammt, hefði ég ekki haft góðan fjármann og haft gott kúabú; að ég ekki nefni konuna, sem stjórnar heimilinu af snilld.“ „Já, það er mikið, að taka að sér öll þessi börn og ganga þeim í foreldra stað. Ég álít það nú meira góðverk en að venja á sig flækinga, sem ekki nenna að vinna.“ „Það eru auðnuleysingjar, sem ekki má ganga fram hjá, kona góð. Þeir eru einir þeirra smæstu. Dugnaður vill gleymast, ef hann er algerlega munaðarlaus.“ Hann setti frá sér kpnnuna og horfði á hana athugull. „Eruð þér búnar að vera hér lengi?“ spurði hann svo. „Nei, ónei, ekki nema þrjár vikur.“ „Fellur yður sæmilega við hreppstjórann?“ „Já, það fellur öllum vel við hann. Hann er geðprýðismaður mikill og sérlega vinsæll eins og forfeður hans hafa jafnan verið,“ sagði hún. Það var auðheyrt á málrómnum, að hún var nákunnug öllum feðgunum, sem búið höfðu á Nautaflötum. Hann brosti dálítið glettnislega. „Fer hann sæmilega í rúmi,“ spurði hann svona alveg fyrir- varalaust. „Ég get nú lítið sagt um það,“ svaraði hún hikandi og roðnaði út undir eyru. „Ekki ennþá, en þér hafið kannske von um að geta það með tímanum.“ Hún flutti hendurnar aftur á mjaðmirnar og bíosti ánægju- lega. „Enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði hún spekingslega. Presturinn hallaðisf upp að þilinu og lygndi augun- um þreytulega. „Nei, það veit enginn. Tímar kraftaverkanna eru ekki enn liðnir,“ tautaði hann. Sigríður vaknaði snemma morguninn eftir. Hún læddist í fötin og fór hljóðlega fram í eldhús, setti upp hangikjötspott, sem farið var að sjóða í, þegar Jóhanna kom ofan. „Hvað ertu svo sem farin að malla þarna?“ spurði hún allt annað en mjúkmál. „Ég setti þarna upp hangikjöt handa blessuðum prestinum. Ingibjörg heitin gerði það ævinlega, þegar hann kom hér fyrr meir,“ svaraði Sigríður hógvær. „Nú gengur þó alveg fram af mér, hvað hún hefur getað látið einfeldnislega. Hann sem borðar aldrei hangikjöt. Ég sýð nú lík- lega nýjan silung. Ég kann að bera fram fyrir heldri menn. En þú getur svo átt þitt hangikjöt sjálf,“ sagði Jóhanna. „Aldrei ferðu nú samt í sporin hennar Ingibjargar sálugu, hvað hátt sem þú reynir að hreykja þér,“ laumaði Sigríður út úr sér. Þá þoldi Jóhanna ekki meira og nú hófst hávær deila, sem heyrðist um allan bæinn. Séra Helgi var mjög árrisull maður, jafnt þar sem hann var gestur. Hann var því kominn á fætur nógu snemma til að heyra til Jóhönnu, þar sem hún stóð í göngunum og sendi Sigríði tóninn inn í eldhúsið. Hann gekk út í vorblíðuna, upp túnið og alla leið upp í mitt fjallið fyrir ofan bæinn. Þar settist hann og horfði yfir dalinn fagran og aðlaðandi. Túnin voru o'rðin skrúðgræn og bakk- arnir með ánni litkaðir. Við og við heyrðist kindajarmur eða blíðar fuglaraddir. Annars var allt hljótt. Hér heyrðist ekki ölduniður eða gargandi fuglaraddir eins og í Felli, sem stóð skammt frá sjónum. Hér var kyrrð og friður dalanna í fyllsta máta. Runki kom ranglandi sunnan og ofan fjallið frá lambfénu. Hann varð ekki lítið undrandi, þegar hann sá prestinn sitja þarna hátt uppi í fjalli. Presturinn spratt upp og gekk á móti honum, heilsaði honum og þúaði hann. Skárra var nú lítillætið. „Ertu búinn að vera lengi hér á heimilinu, piltur minn?“ spurði prestur. „Það eru nú, ef ég man rétt, sjö ár í vor, síðan ég kom hingað,“ svaraði smalinn uppveðraður af þeirri virðingu, sem honum var auðsýnd. „Þetta er víst gott heimili. Jakob er sjálfsagt geðprýðismaður og góður húsbóondi eins og faðir hans var.“ „Já, það má nú segja, hann er það,“ svaraði Runki. „Er hann ekkert að hugsa um að giftast, maðurinn?“ spurði prestur enn- fremur. „Ekki ber neitt á því.“ . „Ekki það.“ Þeir gengu á stað í hægðum sínum niður fjallið. „Á hann ekki talsvert margar jarðir hérna í sveitinni og víðar,“ spyr prestur. „Jú, þær eru nú margar,“ anzar Runki. „Hvað heldurðu, að hann fái marga landskuldagemlinga á hverju vori?“ „Þeir eru nær sextíu.“ „Ojá, það er laglegur hópur.“ Efst á túninu kom Jakob á móti þeim. „Mér þykir þú geta vaknað prestur góður,“ sagði hann, þegar þeir höfðu boðið hvor öðrum góðan dag. „Ég er svefnléttur, einkanlega þar sem ég er ókunnugur, svo ég fór að klæða mig og sjá mig um. Það er falleg og auðnuleg jörð, Nautaflatir.“ „Já, það er fallegt hérna í dalnum,“ sagði Jakob, „enda flytja fáir úr honum aftur, sem í hann koma.“ „Hér hafa líka forfeður þínir búið hver fram af öðrum og eiga eftir að búa í marga liði,“ sagði prestur. „Þetta hefur alltaf verið höfuðból sveitarinnar, þangað til núna.“ Jakob horfði hálf raunalega á ættaróðalið fagra. Séra Helgi klappaði vingjarnlega á öxl hreppstjóranum. „Hvað hugsarðu maður? Ætlarðu að neita þér um það, sem mest er um vert í lífinu, konuna og börnin? Ætlarðu að láta Jón og Jakob alveg deyja út?“ „Það er vandi að velja,“ sagði Jakob. „Já, það er vandi, vinur. En annars eins maður og þú ætti að geta valið sér góðan kvenkost. Aðrar eins eignir. Komdu vestur að Felli. Ég á nokkur stykki af konuefnum, og þær eru ekki neitt óefnilegar. Ég skal tala máli þínu, ef þú vilt. Líklega hugsar þú þó ekki til þess, að hún verði móðir að Jóni Jakobssyni þessi skellinaðra, sem ætlar að hafa af mér hangikjötið og segir, að ég smakki það aldrei. Það er minn bezti matur.“ Jakob hristi höfuðið. „Þá manneskju vildi ég helzt í burtu. Hún er óskapleg. Hún hefir algjörlega rifið öll ráð af þeirri konu, sem ég trúi bezt af þeim stúlkum, sem ég þekki. Hún var líka búin að vera hér svo lengi hjá foreldrum mínum. Nú fær hún engu að ráða fyrir þessari óskemmtilegu manneskju, sem ég asnaðist til að taka, vegna dugnaðarorðs, sem ég hafði heyrt af henni.“ „Þessu get ég varla trúað,“ sagði séra Helgi. Þeir gengu heim túnið, meðan þeir töluðust við. Runki var kippkorn á eftir þeim, en heyrði samt ávæning af samtalinu. Jóhanna var búin að bera á borð heitan silung og alls konar kaldan mat af því bezta, sem til var á bænum, þegar þeir komu inn í stofuna. Jakob gekk til eldhúss og spurði Sigríði eftir hangi- kjötinu, hvort það væri ekki soðið. Jú, það var soðið fyrir löngu. En það mátti ekki bera það á borð. Jóhönnu þóknaðist það ekki. Hann fór með fullan disk af því til stofu. Jóhönnu fannst sér misboðið í meira lagi, en talaði þó fátt um, nema hún sagði svona við Sigríði, að fólkið hérna í daln- um kynni enga mannasiði. Presturinn gerði kjötinu góð skil, bað að heilsa Sigríði, þegar hann fór, en Jóhönnu þakkaði hann ekki fyrir góðgerðirnar fremur en aðrir. Jakob fylgdi honum fram í afrétt. Þar var farið vestur fjallveg, sem lá milli sýslnanna. Runki kom inn í búr, þegar þeir voru nýfarnir. „Á ég ekkert að fá af þessu hangikjöti, sem hér var soðið í morgun?“ spurði hann Jóhönnu, sem sat og prjónaði rósaleppa handa húsbónda sínum. [

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.