Lögberg - 23.04.1953, Page 6

Lögberg - 23.04.1953, Page 6
6 LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 23. APRIL, 1953 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: ■ DA LALÍF r Næsti morgun kom með sólina og sumarið. Nú urðu snögg umskipti. Allt rann í sundur af sólbráð. Krapelgurinn varð óskap- legur. Varla var hægt að stíga út úr bæjardyrum án þess að vera orðinn rennandi í fæturna. Hver lækjarspræna belgdi sig upp og sprengdi af sér ísinn. Hann var heldur ekki nema þriggja vikna gamall. Krakkarnir biðu með óþreyju eftir því, að áin gerði það sama. Það var svo gaman að sjá tli hennar. Loksins kom að því, að hún vaknaði af vetrardvalanum eins og allt annað. Það ‘heyrðist suða, hvinur og skruðningar. Smal- arnir stönzuðu uppi í fjallinu, og konurnar komu fram í dyrnar með þvöruna í hendinni, þegar krakkarnir kölluðu hástöfum fyrir utan gluggana: „Viljið þið ekki koma og sjá ána ryðja sig?“ Hún ruddist áfram, óð og uppvæg; allt varð að láta undan frekju hennar og frelsisþrá. Jakarnir riðluðu hver ofan á öðrum. Mörgum var hent upp á eyrarnar, en hinir voru þó fleiri, sem hrökluðust alla leið til sjávar. „Skárri var það nú gangurinn 1 henni, óhemjunni þeirri arna. Það verður ekki hlaupið yfir hana 1 á næstunni,“ sögðu smalarnir. „Alltaf er hún jafn tignarleg, blessunin!“ sögðu konurnar hrifnar. Og næsta dag komu vermennirnir að sunnan. Vinnumaðurinn á Hjalla var einn af þeim. Fúsi í Hvammi gerði sér eitthvað til erindis úteftir, svo hann gæti fengið einhverjar fréttir af Axel norska. „Hann stökk austur á land upp úr sumarmálunum. Það er víst engin hætta á, að hann sjáist í sveitinni framar, eftir því sem hann sagði. Hann var að hugsa um nýja kvensu þarna fyrir sunnan og elti hana austur.“ Svona voru fréttirnar, sem vinnumaðurinn sagði Fúsa. Hann var líka hælsvakur heim með þær til húsbónda síns, sem færði Þóru þær samstundis. I fyrsta sinn, síðan óheillakvöldið nefndi hann Axel á nafn. Hann endaði frásögn sína með þessum orðum: „Sem betur fer, spillir hann ekki heimilisfriðnum hér oftar, þessi óheillaskepna!“ „Hamingjunni sé lof! Ég vona, að ég sjái hann aldrei oftar,“ sagði Þóra ánægjulega. „Fúsi verður hjá mér þetta næsta ár,“ sagði Björn gamli. „Ég býst við, að ég þurfi ekki lengur á vinnumanni að halda.“ Þóra hreyfði engum mótbárum. Fúsi var þó gullvægur hjá Axeli. Hún skyldi ekki skipta sér af vinnumönnum föður síns framar. En leiðinlegt var það samt, að sjá þennan sífellda til- beiðslusvip á andlitinu á honum Fúsa. ÞOKAN 1 DALNUM Það leið fram að fardögum. Dagarnir voru hver öðrum betri. Dalurinn var orðinn alauður fyrir löngu. Sauðburðarvastrið og túnávinnslan stóð sem hæst, og sums staðar var farið að hlaða saman taðinu. En það var algerlega fréttalaust, og það sem verra var: Fréttirnar, sem gómsætastar þóttu um veturinn, reyndust markleysa og ósannindi. María á Hrafnsstöðum var jafn hrein og grönn og hún var vön að vera, og hún hafði aldrei selt neina hryssu á markað vegna þess, að hún átti hana enga. En það vissu aljir, að hún syrgði mikið sinn svikula pilt. Það gerði Þóra víst líka. Að minnsta kosti hafði hún ekki látið sjá sig á mannamótum upp á síðkastið. Svo kom allt í einu saga, sem þótti æði munntöm. Hún byrjaði gang sinn á Ásólfsstöðum, fremsta bænum í dalnum að vestan- verðu. Þar bjuggu ung hjón, Bárður og Hlíf hétu þau. Systir húsfreyju hét Hildur. Það var hún sem var söguhetjan. Vinnu- kona frá Ásólfsstöðum var send út að Hóli. Hún hvíslaði einhverju að Helgu, um leið og hún fór. Þær voru nákunnugar. „Alltaf heyrir maður nú eitthvað," sagði Helga við tengda- móður sína. „Hún kvað vera orðin eitthvað framúrleg, hún Hildur á Ásólfsstöðum. Og hún lætur ekki gestina sjá sig, heldur læðist fram í stofu, eftir því sem Sigga sagði mér. Hver skyldi nú hafa trúað þessu um Hildi. Hún ætti að vera dálítið hnarreistari að fara sama sem upp á milli hjóna. Því enginn maður er annars vegar annar en Jón Jakobsson. Hún hefur látið utan um hann eins og vitlaus manneskja, síðan hann var barn.“ Og sagan læddist út dalinn eins og þoka. Hún smaug inn í búrið eða eldhúsið og þaðan til baðstofunnar. Hún kitlaði fólkið í eyrun og gerði það forvitið. „Það var mikið að svona lagað var ekki fyrr komið fyrir Jón, þennan slarkara,“ sagði eldra fólkið með vandlætingarsvip. „En það var meira, að Hildur skyldi hrasa svona herfilega, þessi þótta- fulla og merkilega manneskja, sem eins og leit niður á flesta sveitunga sína.“ En hvergi var þó sögunni tekið eins vel og á Hrafnsstöðum. Valgerður húsfreyja hafði nú einu sinni fengið þá hugmynd, að engin stúlka önnur en María dóttir hennar gæti sómasamlega orðið tengdadóttir Lísibetar á Nautaflötum, og hún næstum hataði önnu fyrir að hún hafði hlotið það góða hlutskipti. „Þarna kom nú dálítið babb í bátinn fyrir henni, stássrófunni þeirri.“ Valgerður sat hugsandi og réri áfram með tóbaksdósirnar milli handanna, opnaði þær svo og tók nokkur korn á milli fingur- gómanna og flutti þau á handarbakið. Þetta var orðið svo vana- legt, að hún gat gert það, þó að hún væri að hugsa um allt annað. Það var Hannes bóndi, sem fyrst tók til máls: „Mér finnst vera orðið mikið meira um þetta lausaleiksglopur núna en þegar við vorum ung og upprennandi,“ sagði hann hálf- kindarlegur á svip. 1 Valgerður saug tóbakið .fljótlega upp í nefið, áður en hún svaraði: „Hvort það nú er! Hvað skyldi hafa verið sagt í mínu ung- dæmi, ef myndarstúlka eins og Hildur hefði lent í þessu og öðru eins. Það hefði engum karlmanni dottið í hug að taka hana að sér fyrir konu, fyrr en eftir mörg ár. Nei, óekki; og lausaleiksbörn þóttu mikið óskemmtilegri en önnur börn. Nú er þetta allt orðið breytt.“ „Þeim verður ekki mikið fyrir að smeygja sér upp á milli kærustupara, þessum drósum þarna frammi í dalbotninum,“ greip María fram í fyrir henni. Hún kenndi Þóru um allt að Axel brást henni. „Nei, ónei,“ sagði húsfreyja. „Hvað sagði ég ekki, að þetta færi aldrei vel, þegar mér var sögð þessi skynsamlega trúlofun þeirra Jóns og Önnu. Ég er búin að sjá það svo oft í veröldinni að sá biti, sem gleyptur er frá öðrum, stendur vanalega í þeim, sem ætlar sér að njóta hans, eða fer þá hálfilla niðri í þeim. Hvað sagði ekki Jóhanna ’á Brekku, að enn væru þau ekki gift? Og hvað sagði ekki María mín, að hann yrði fljótt leiður á henni, þessum vesaling, sem ekki er neitt í neinu? Jæja; kannske að Hildur litla Hjaltadóttir geti rutt kaupmannsdótturinni af garð- anum; ha ha!“ „Hún sleppir honum aldrei," sagði Hannes. „Það gera reyturnar." „Ekki nema hann fái henni hringinn og taki Hildi. Hún er olíkt gerðarlegri með þessi stóru brjóst." „Það skyldi nú vera einhver prýði, eins og júgur á belju," gall í Hallgrími. „Hef ég ekki nokkrum sinnum bannað þér, Hallgrímur, að fleipra svona fram í, þegar fólkið er að tala?“ sagði Valgerður skipandi. En Hallgrímur talaði samt. „Ég er nú smeykur um, að blessunin hún Anna mín sé heldur fallegri.“ Móðir hans bandaði til hans með hendinni. „Þú ert asni! Lofaðu mér að tala út. Það, sem ég ætlaði að segja, er þetta: Ég skyldi hafa sýnt það í Hildar sporum, hvort ég hefði látið hlut minn. Ég hefði heimtað, að barnið fengi svo og svo mikið af eignunum. Eða ég hefði heimtað, að hann giftist mér, áður en barnið fæddist. Ég sný ekki aftur með það. Hvað skyldi ég hafa hugsað um stelpuna; ó-ekki.“ „Ja, kannske," skaut Hannes inn í. „Hvað skyldi hún Lísibet mín hugsa, þessi líka skikkelsis manneskja? Það verður fróðlegt að heyra það næsta þarna framan úr dalnum. Líklega fleygir stelpan í hann hringnum og kæfir sig í ánni eða skýtur sig eins og hann faðir hennar. Drottinn minn sæll og góður! Að taka svona aumingja að sér allslausa." María hafði setið þegjandi yfir saumum sínum, raunaleg á svipinn. En nú kom andinn yfir hana. „Nú jæja,“ sagði hún. „Smakki fleiri, hvort ekki er hland.“ Þá rak Hallgrímur upp ofboðslegan hlátur. María leit til hans reiðilega. „Alltaf getur þú látið eins og fífl, Hallgrímur. Ekki veit ég, hvenær þú tekur þér fram. Snáfaðu út í taðið, svo að maður hafi frið til að tala í baðstofunni.“ „Frið til að tala um hlandið,“ sagði hann og hélt áfram að flissa. „Mamma!“ kallaði María. „Rektu strákinn út. Ég get ekki liðið hann í baðstofunni, fyrst hann lætur eins og fífl. Þessi hlátur hans er eins og þegar stóðhross eru að hneggja.“ „Svona hlægja Nossarnir,“ sagði hann ertnislega. „Það mætti kannske biðja þig að hypja þig út, Hallgrímur," sagði Valgerður. „Þér leiðist ekki að særa hana systur þína.“ „Skyldi hann ekki mega hvíla sig eins og ég,“ nöldraði Hannes. „Hann hefur þó verið við útivinnu í allan dag, en þið komið aldrei út úr bæ.“ „Þú ætlast þó ekki til að María fari að standa við útivinnu, annað eins og hún hefur að sauma,“ sagði húsfreyja. „Heilsuna mína þekkirðu nú. Ég hef ekki þolað útivinnu í mörg ár.“ „Þú prófar það víst lítið, hvort þú þolir hana eða ekki. Svo er ég í allra rassi fyrir þetta bölvað saumadót sí og æ.“ „Mér finnst, að þú gætir fengið þér einhverja hræðu til að kasta úr hrúgunum; hana Ástu á Brekku til dæmis.“ „Hún getur líklega ekki fremur ausið hjá mér, heldur en þar. Karlinn og kerlingin eru við útivinnuna. Hún á að hafa einhvern orm í höndunum, sagði Jóhanna mér.“ „Það er bara Anna Pétursdóttir, sem getur hreyft sig, þó að hún sé ekki há í loftinu,“ hélt Hannes áfram. „ Hún kastaði rösk- lega úr troginu í fyrrakvöld, þegar ég kom yfir um.“ „Það eru áreiðanlega engar ýkjur, að hún megi ekki vinna skítverk,“ sagði María snúðugt. „Hvers vegna baðstu hana ekki að ausa fyrir þig? Hún hefði líklega ekki verið lengi að því,“ sagði Valgerður. „Ég gerði það; en hún hélt að María væri nógu leggjalöng til þess að standa úti á túni.Sjálf sagðist hún þurfa að bregða sér fram í dal?‘ „Það var eftir henni, ónytjungsdruslunni þeirri,“ sagði María með svip, sem lýsti því, hvað henni fannst hún vera hátt hafin yfir Önnu. „Kannske hún verði nú sú næsta, sem gildnar af völd- um Jóns, kunningjans hennar góða. Þá held ég hún yrði nú upp með sér,“ bætti hún við. „Það þarf víst engin stúlka að skammast sín fyrir að vera í kunningsskap við annan eins mann,“ sagði Hannes og gaut horn- auga til dóttur sinnar. María hló háðslega. „Það er þó dálítill hængur á, að hann er opinberlega trúlofaður. Eða finnst ykkur ekkert til um það?“ Valgerður svaraði fyrir mann sinn. „Og læt ég það nú vera. Bara að Hildur hefði vitið mitt. Ég skyldi hafa gert mér eitthvað úr svona happi. Hvað er að tala um stelpuna. Látum hana bara róa til næstu lendingar, eins og hann, ísak flækingur sagði stundum. Hún verður svo hvort sem er aldrei annað en honum til leiðinda, aumingja piltinum. En hún. Hildur! Bara að ég gæti lagt henni ráð.“ „Það yrðu víst skynsamleg ráð!“ gall Hallgrímur við. Umræðurnar voru nú komnar í allt annað horf en þær voru í fyrstu. María var sárreið yfir þessum sífelldu hnýfilyrðum og virðingarskorti frá þeim feðgunum. Heimilislífið hafði aldrei verið skemmtilegt; en út yfir tók, síðan Axel kom til sögunnar. Hannesi hafði alltaf geðjazt illa að honum, en konu hans þvert á móti. Síðan hann sýndi þeim hvern mann hann hafði að geyma, var því sífellt nöldur og hnútukast. Hannes lét það oft í ljós, að Hall- grímur væri ekki óvænlegra barn en María; en það þoldu þær mæðgur ekki. Sagan var sú, að henni var engin athygli veitt lengur. Hún tiplaði því af stað ofan í kaupstað. Þar gekk hún á milli húsanna og var jafn velkominn inn í stofuna hjá kaupmanninum eins og í torfkofann hjá fátæklingunum. Hún brá sér meira að segja til sjómannanna, og þeir höfðu hana með sér á sjóinn sér til skemmt- unar. Svo lagði hún af stað fram dalinn að austanverðu og var orðin sæmilega sárfætt, þegar hún kom fram að Hvammi. En þar fékk hún slæmar viðtökur. Þóra rak hana á dyr og vildi ekki hlusta á hana. Þá hröklaðist hún fram að Nautaflötum, en þorði þó ekki heim að bænum, heldur tyllti sér á kvíavegginn hjá vinnukonunum. Þær voru að bjástra eitthvað við á, sem hafði týnt lambinu, en Siggi hafði fundið það. Og nú vildi móðirin ekkert kannast við tapaða soninn. „Það er bezt að láta hana eiga sig hérna, þangað til piltarnir koma. Ég held, að hún hljóti að átta sig,“ sagði önnur vinnukonan, sú sem þóttist vera skynsamari. Svo settist hún niður og hlustaði á tíðindin, sem smalinn í Hvammi hafði að segja. Þegar hann var farinn, sagði sú skynsamari: „Hvernig skyldi svipurinn á húsmóðurinni verða, ef hún heyrði hana, söguna þessa?“ „Ég er ósköp hrædd um, að hann fengi fyrirgefninguna, sá hinn sami, sem bæri svona lagað heim til hennar,“ anzaði hin. „Ellegar þá hún Anna litla; sú yrði volæðisleg á svipinn. Ég gæti svo sem trúað honum til þessa. Þetta hefur nú verið meira rápið á honum þangað í vetur.“ „Vesalings barnið; ég meina hana önnu. Ég er ósköp hrædd um, að það verði leikið í kring um hana. Hann er ekki svo lengi að snúa sér við pilturinn. Hún endist varla til að fylgja honum eftir,“ bætti sú skynsama við. Nokkru seinna urðu þessar sömu vinnukonur þess áskynja, að Lísibet og sonur hennar sátu lengi á eintali frammi í stofu. Jakob var á fundi niðri á Ósi, en Anna lá úti í glugga á húsinu og las skáldsögu. Daginn eftir reið húsfreyja yfir að Ásólfsstöðum, og það var sagt, að hún hefði setið yfir Hildi hálfan daginn frammi í stofu. Enginn vissi, hvað þeim hafði farið á milli. Hlíf, systir Hildar, reið því næst í kaupstaðinn og keypti mikið af álnavöru og fékk útlærða saumakonu, sem var á Ósnum, fram eftir með sér. Hún sat við sauma með Hildi daginn út og daginn inn frammi í stofu. Enginn vissi, hvað þær voru að sauma. Vinnu- konurnar gægðust inn um gluggana og sáu ósköpin öll af fallegri álnavöru og blúndum. Hún skyldi þó ekki ætla að fara að gifta sig? Það skyldi nú vera einhver annar í spilinu, hvískruðu þær sín á milli. Hvernig skyldi hann nú líta út? Fróðlegt að vita, hver endir verður á þessu öllu. Það var víða mikið amstur og umstang í sveitinni um þessar mundir. í hálfan mánuð hafði verið vonazt eftir stóru gufuskipi, sem flutti á hverju vori marga tugi íslendinga vestur um haf. Vanalega tíndist eitthvað af ungu fólki þaðan úr sveitinni, stund- um heilar fjölskyldur. Margur sofnaði hálfkvíðandi á kvöldin. Kannske yrði þetta síðasta nóttin, sem hann yrði heima. En hjá öðrum réð tilhlökkunin mestu. Ýmsar missagnir voru um skipið. Stundum átti það að koma næsta dag, en svo aftur ekki fyrr en að viku liðinni. Allir voru búnir að flytja farangur sinn ofan á Ósinn, til þess að verða fljótari til, þegar kallið kæmi. Loksins vöknuðu Ósbúar einn morgun við Jieljarmikinn gufu- blástur. Skipið var komið og kallaði hátt á fólkið, sem svaf værum svefni hér og þar um sveitina. Maður var sendur á næstu bæina, og svo flaug fregnin eins og eldur í sinu.Þá dreymdi engan um þau þægindi, sem síminn veitti þeim nokkrum árum síðar. Fólkið þusti að úr öllum áttum. Vinir og vandamenn fylgdu til skips. Hver báturinn eftir annan fór hlaðinn af fólki og far- angri fram að skipinu, en kunningjar og vinir horfðu á eftir þeim, hljóðir og syrgjandi. Bryggjan var troðfull af fólki. Síðasti báturinn var í þann. veginn að leggja af stað. Þá brunaði há og fyrirferðamikil kona í blárri klæðiskápu með háan stráhatt á höfðinu með stórri fjöður utanum gegnum fólkskösina og leit hvorki til hægri né vinstri. Það var Hildur Hjaltadóttir. Hún stanzaði fremst á bryggjunni og bað mennina, sem í bátnum voru, að doka ofurlítið við eftir farangri sínum, sem kæmi rétt bráðum; hún væri ein af þeim útvöldu. Svo beið hún með auðsærri óþolinmæði eftir að komast burt frá öllum þessum forvitnu augum, sem á hana störðu, athugul og illkvittin. Engum hafði dottið í hug að láta boð ganga fram að Ásólfs- stöðum um skipskomuna. Það var því hrein og bein tilviljun, að maður kom utan úr dal að Nautaflötum og sagði fréttirnar. Lísibet húsfreyja sendi Sigga litla strax yfir um, til þess að láta Hildi vita, að skipið væri komið. Hún ein hafði einhverja hugmynd um, hvað stóð til, og lét þau boð fylgja, að hrossin sín væri þeim velkomið að taka, ef’þeirra hross væru ekki við höndina. Þetta kom sér vel, því að Ásólfsstaðahrossin voru frammi í afrétt. Nú hlupu allir upp til handa og fóta, og eftir ótrúlega stuttan. tíma reið Hildur úr hlaði á bleika gæðingnum Gáska, sem engin kona hafði komið á bak fyrr, önnur en unnusta eiganda hans. Hildur hafði lagt svo fyrir, að hann yrði söðlaður. Bara að Anna gæti séð hana, þegar hún þeysti út grundirnar! En hún sat inni og las skemmtilega sögu og hafði ekki hugmynd um, hvað var að gerast í kringum hana. Vinnumaður frá Ásólfsstöðum fór með koffortalest rétt á eftir Hildi, en hún hvarf honum brátt úr augsýn. Og nú var hún þarna komin á elleftu stundu, hnarreist og merkileg, virti ekki nokkra manneskju viðlits, alveg eins og hún vissi, að sveitungar hennar hefðu haft sér það til dægrastyttingar síðastliðnar vikur að skrafa um hana og misþyrma mannorði hennar. Hrafnsstaðamæðgur voru þarna staddar nálægt Hildi. Þær höfðu þó ekki verið að fylgja neinum vini eða ættingja, heldur hafði Maríu langað til að sjá, hvernig kápur og kjólar færu utan á þessum Ameríkudrósum. Saumavit hennar var einstakt. Valgerður olnbogaði sig gegnum fólksþyrpinguna, þangað sem Hildur stóð og beið eftir farangri sínum. Valgerður hafði verið vinnukona á Ásólfsstöðum, þegar Hildur var barn. Þess vegna fannst henni hún hafa meiri rétt til kunningsskapar hennar en aðrir. „Þú ert þó líklega ekki að fara til Vesturheims, Hildur?“ spurði hún spekingslega. „Svo er sem þér sýnist,“ svaraði hún og leit tæplega á hana, heldur horfði stöðugt upp eftir götunni, sem lá fram í dalinn. „Hvernig dettur þér þetta í hug, manneskja, að yfirgefa Hlíf og Ásólfsstaði?“ Það brá fyrir nöpru brosi á andliti Hildar, þegar hún svaraði: ,Þau geta víst vel verið án mín. Það er sagt, að það sé hlýrra sólskinið þar vestra. Það er orðið kalt í dalnum nú upp á síðkastið.“ „Og fara til allra ókunnugra. Ég á engin orð,“ hélt Valgerður áfram.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.