Lögberg - 17.09.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 17.09.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 17. SEPTEMBER, 1953 „Ég ætlaði bara að sýna þér, ofan af hvaða stykki é*g ætla að rista í haust,“ sagði hann brosandi. „Ætlarðu að rista ofan af í haust?“ „Já, þessu stykki, og þessu næsta haust og svo byggjum við baðstofuna í vor. Ekki getum við nýgift búið í þessu skrifli lengur. Ég ætla ekki að svíkja það, sem ég lofaði þér. Svo vona ég, að þú takir ekki sláturpottinn fram yfir mig í nótt. Of lengi er ég búinn að hlakka til að komast í hjónasængina til þín, og verða svo fyrir slíkum vonbrigðum.“ Hún kafroðnaði og sagði brosandi: ,í>ú hefur líka reynt að flýta fyrir giftingunni, það sem hægt hefur verið. En ég get látið slátrið bíða til morguns. Líklega áttu eftir að verða fyrir nógu mörgum vonbrigðum í sambúðinni, þótt þau byrji ekki strax á giftingardaginn.“ „En það vonleysi, og það í þér, góða, sem alltaf ert svo kjarkgóð og dugleg. En það liggur of vel á mér, til þess að ég geti látið mér detta nokkuð mótdrægt í hug, hvorki vonbrigði eða annað.“ Hann lagði handlegginn yfir hana og fann, að hún skalf. „Er þér kalt, elskan mín?“ spurði hann blíður. „Já, það er kuldalegur giftingardagurinn okkar. Ég er hrædd um, að pabba hefði ekki lítið hann,“ sagði hún döpur og horfði á regnbólgin skýin í vestrinu. „Ég anza ekki svoleiðis kerlingarbókum. Einhverntíma hlaut þó að skipta um tíðina,“ svaraði hann. Rétt í því greiddust skýin sundur og náttmálasólin helti skæru geislaflóði yfir döggvotan dalinn og hrakti burtu óham- ingjuskuggann úr hjarta brúðarinnar, sem gekk við hlið manns síns heim að bænum. Magga gamla stóð í bæjardyrunum. „Aldrei fór þó það svo, að það sæist ekki sól á giftingardaginn þinn, Þóra litla,“ sagði hún og brosti dapurlega. GANGNASEÐILLINN OG BRÚÐARGJÖFIN Tveim dögum seinna kom Siggi á Nautaflötum að Hvammi, með reiðingshest í taumi, og var langur kassi bundinn við klifbera- bogann. Hann bar kassann inn í baðstofu og bað Möggu að fá Þóru hann, þegar hún kæmi heim af engjunum. (Það væri víst brúðargjöf til hennar. „Ekki spyr ég að,“ sagði Magga. „Hvað segir nú mamma þín svo sem um þessa giftingu?" bætti hún við forvitin. „Ég hef ekki heyrt hana minnast á hana einu orði,“ svaraði hann. Svo skildi hann líka eftir gangnaseðilinn. Þóra horfði lengi á kassann, eins og hún væri að velta því fyrir sér, hvort hún ætti að opna hann eða ekki. „Hann sagði það myndi vera brúðargjöf í honum til þín,“ sagði Magga víst í fjórða sinn. „Ætlar hún nú að fara að gefa okkur brúðargjöf, sú mikla maddama," sagði Sigurður hlæjandi. Magga varð fyrri til svars en Þóra. „Ég veit nú ekki til þess, að nokkur hjón hafi verið gefin saman hér í dalnum, svo Lísibet hafi ekki gefið brúðargjöf. Þá fer hún varla að skilja Þóru eftir.“ „Ég er nú svo sem ekki mikið fyrir gjafir,“ sagði Þóra fálega. Það er ómögulegt að fjarlægjast þá konu, hugsaði hún. Hún treður upp á mann velgjörðum sínum. Sigurður sótti naglbít og opnaði kassann. í honum var stór og falleg klukka. Þóra tók hana varlega upp. „Ég held hún sé heldur stássleg í baðstofuskriflið það tarna,“ sagði Sigurður. Þóra tók samanbrotinn pappírsmiða, sem lá undir glerinu og leit á hann. Það var fallega rithöndin hennar Önnu. Hún las: Brúðargjöf til Þóru, frá okkur hjónunum og pabba og mömmu. Innileg hamingjuósk. Þá greip Þóru eitthvað gremjufát. Hún greip miðann og bögglaði hsym í lófa sér. Það var útlátalítið að óska þeim unganum góðrar ferðar, sem hrundið var út úr hreiðrinu, svo rýmra yrði um þá, sem eftir sátu. „Þáð er eitthvað skrifað hinum megin á blaðið,“ sagði Jói. Hann stóð rétt hjá og horfði á fallegu klukkuna. Þóra sléttaði úr blaðinu og las það, sem hinum megin var. „Elsku Þóra mín! Guð og gæfan leiði þig í hjónabandinu. Komdu bráðum fram eftir og tefðu lengi. Við erum að verða ókunnugar." —ANNA. Hún sléttaði blaðið ennþá betur. Líklega var þó þetta einlægasta hammgjuóskin, sem hún hafði fengið. Svo lét hún það í bók uppi á hillu. Sigurður hafði lesið það, sem stóð á blaðinu, yfir öxl henni. „Svo ég á þá ekkert af þessum hamingjuóskum eða brúðar- gjöfina. Þú átt það bara ein. Ja, sama er mér,“ sagði hann gremju- lega, og andúðin til nágrannanna óx að miklum mun. Hann þreif gangnaseðilinn og fór að*lesa^hann. Ekki bætti hann úr skák. Þóra átti að leggja tvo menn til í göngurnar, en hann átti aðeins að leggja til mann í fyrirstöðu út á strönd. Hvers lags bölvuð vitleysa var þetta. Hann henti seðlinum á borðið. Svo áttaði hann sig á því, að seðillinn hefði verið fullgerður, áður en giftingin komst á. „Svo þú þarft þá út eftir,“ sagði Þóra, þegar hún hafði lesið seðilinn. ,Þ>á verð ég að fá mér mann eða ganga sjálf. Ég get líklega fengið Fúsa.“ „Dettur þér í hug, að ég fari að láta þig fara í göngur eins og strák? Það væri svo sem ekki ljótt,“ sagði hann önugur. „Ég hef nú farið í göngur og staðið mig eins vel og aðrir,“ sagði hún hlæjandi. „Það kemur mér ekki við, þó það hafi verið þrælað á þér eins og húðarbikkju. Ég ætla ekki að fara svoleiðis með þig.“ „Ef henni líður ekki ver hjá þér en hjá pabba hennar, máttu vera rogginn,“ sagði Magga gamla snúðugt. „En það er stytzt af ennþá, lagsmaður. Hún mun sjálf hafa viljað fara í göngurnar. Hann hefur víst ekki sagt henni það.“ „Ég fer varla að þvælast út á strönd til að vera þar í fyrir- stöðu. Þau eru víst ekki of góð að láta einhvern strákinn í hana, karlinn og kerlingin,“ hélt hann áfram. „Það er naumast þú talar virðulega um foreldra þína og tengdaföður,“ sagði Magga gamla. „Kannske eru þau ekki merki- leg. En ég tek-því ekki þegjandi, að þú hnjóðir í Björn heitinn, og mér þykir ólíklegt, að Þóra geri það heldur. Það á víst heldur ekki vel við, þar sem allir líta þig hornauga í sætinu hans.“ Hann hringsnerist á gólfinu. Skárri var það ofsinn í kerlingar- vargnum. Þetta átti hún til í pokahorninu, og svo gat hann vonazt eftir öðru eins frá konunni, eftir svip hennar að dæma. Hann tók því það ráðið að hafa sig út og melta fýluna undir beru lofti. En Þóra þurrkaði klukkuna hátt og lágt með mikilli vandvirkni. Það var bezt að lofa Möggu að taka ofan í hann í þetta sinn. Hún gat komið fyrir sig orði, þegar henni rann í skap, og gat verið sæmi- lega ónotaleg. „Heldurðu að hún prýði ekki stofuna, Magga mín? spurði hún hlýlega, eins og ekkert hefði komið fyrir. Það var víst engin hætta a því, að henni þætti að því, þótt baunað væri á hann. Henni þótti víst ekki svo mikið vænt um hann, hugsaði Magga. Eftir stutta stund kofn Sigurður aftur inn, með hamar og sterkan nagla. Nú var honum runnin reiðin. „Það er víst bezt að hjálpa þér til að koma þessum dýrgrip þínum upp á þilið,“ sagði hann blíður. „Hvar ætlarðu að hafa hana, góða?“ Hún sýndi honum það. Svo var klukkan hengd upp á gamla þilið. Þóra horfði á hana ánægjuleg á svip. Svona fallegt stykki hafði hún aldrei eignazt, nema söðulinn sinn. Á þetta litla uppþot, sem varð milli Sigurðar og Möggu, var ekki minnzt fremur en það hefði aldrei komið fyrir. RÉTTARDAGURINN Sigurður hætti heyskapnum nógu snemma til þess að geta verið búinn að hlaða fyrir heyin og ganga vel frá öllu fyrir göng- urnar. Jói hafði sagt honum, að svo leiðis hefði Björn haft það. Þóra hefði helzt kosið, að hann hefði farið út á ströndina um göngurnar. Þá hefði hún sjálf getað farið í göngurnar og allt verið mikið frjálslegra. Líklega mætti hann sömu keskninni og erting- unum hjá þeim dalbúum og í vor. Hann var af öðru sauðahúsi en þeii, og þegar vínið var annars vegar, var ekki góðs að vænta af gangnaforingjanum, sem var Erlendur á Hóli. Hann var nýtekinn við af föður sínum, sem hafði haft það starf á hendi í nær fimmtíu ár, en hafði nú hætt, þótti ófær lengur vegna heyrnarleysisins. Jói vaknaði klukkan fimm á gangnadagsmorguninn og vakti Sigurð. Reyndar hafði drengurinn lítið sofið. Það var vanalegt, að tilhlökkunin héldi fyrir honum vökum þessa nótt. „Kemur þú ekki fram að réttinni, góða mín?“ spurði Sigurður konu sína, þegar hann kvaddi hana. Hún svaraði því játandi. „Nú verður þú að ráða ferðinni, Jói minn, því ekki ratar Sigurður,“ sagði Þóra brosandi, þegar þeir fóru fram úr bað- stofunni. „Ég líklega rata nú hérna fram hjá Seli,“ anzaði hann drjúgur. Svo riðu þeir af stað í niðamyrkrinu. Þegar þeir komu fram undir Sel var orðið hálfbjart. Þeir heyrðu söng og glaðværð skammt fyrir framan. „Þarna eru þeir komnir,“ sagði Jói kátur og herti á klárnum. Þar nokkru framar sátu gangnamennirnir í hóp og hresstu sig á gangnapelanum. Sigurði var tekið kompánlega, boðið í staupinu og sumir óskuðu honum til hamingju. „Þig verð ég að láta hafa léttar göngur, því þú ert ókunnugur,“ sagði Erlendur. „Tommi verður öðrum megin við þig, en Þórarinn á Hjalla hinum megin. Hvorutveggja ágætir menn.“ „Það er ágætt,“ sagði Sigurður. Þegar heim að réttinni kom, biðu konur og krakkar með nestistöskur til gangnamannanna. Sigurður svipaðist um eftir Þóru, en sá hana hvergi. Svo var rekið í réttina. Það gekk ágætlega. Eftir það settust mennirnir niður undir réttarveggjunum og fóru að opna töskurnar. Sigurður aðgætti dilkana og spurði Jóa, hvaða heimili hver tilheyrði. Þá komu þrjár konur ríðandi utan eyrarnar. Þar var Þóra fremst í flokki á Mósa. Hinar voru vinnukonur frá Nauta- flötum. Skyldi hún hafa farið þangað heim eða þær hitzt á leið- inni. Ekkert var honum leiðara en hugsa til þess, að hún væri í nokkrum kunningsskap við það fólk. Sigurður fór á móti henni út fyrir réttina. Hún rétti honum nestið. „Þið fáið líklega matinn seinna en allir aðrir. Ég var svo lengi að komast af stað,“ sagði hún. Hann hafði vonast eftir kossi hjá henni, en hún kom sér lík- lega ekki að því, svona á almannafæri. Hann spretti af hestinum fyrir hana. Jói fór með töskuna heim að réttarveggnum. Þóra settist hjá honum og fór að spyrja eftir, hvernig göngurnar hefðu gengið. Hann sagði henni það helzta. Skammt frá þeim sátu þeir félagarnir Jón og Erlendur og skoluðu niður spikfeitu- kjöti með brennivíni. Þóra gekk til þeirra og heilsaði. Erlendur hristi hönd hennar og óskaði henni til hamingju. Svo bætti hann við: „Og svo þakka ég líka fyrir síðast í lamba- rekstrinum. Það var nú fíni túrinn.“ „Það læt ég nú ósagt, hvað fínn hann var, Elli minn,“ sagði hún hlæjandi. Sigurði fannst hún hefði ekki þurft að vera neitt að heilsa þeim. En Jói hvíslaði í hálfum hljóðum við Sigurð: „Það er betra á milli þeirra Jóns og Ella en þá. Manstu eftir hjá stekknum?" ,yÞeir fljúgast nú sjálfsagt á í illu, áður en þeir skilja,“ sagði Sigurður. „Nei, nú verður Jón stilltur, þegar Jakob er viðstaddur,“ sagði Jói. Sigurður þoldi ekki, að Þóra væri að ræða við þá félaga lengur. Hann ýtti smjöröskjunni undir lokið á töskunni og kallaði svo til hennar: „Ég er hræddur um, að þú hafir gleymt viðbitinu, góða mín.“ Þóra kom til þeirra og fór að leita í söskunni. „Ég skil ekkert í þessu.“ En þá fann hann þær sjálfur undir lokinu, þar sem hann íaldi þær. „Jói hefur látið þær þarna,“ sagði hann ánægður yfir því, að hún var ekki lengur að skrafa við Erlend. En hann sendi henni tóninn, þegar hann sá Sigurð taka mjólkurflöskur upp úr töskunni. „Það hefði verið nær fyrir þig að láta hann hafa svolítið víntár til að fjörga sig á heldur en fara með hann eins og pelabarn." „Ætli ykkur hafi veitt af því, sem til var í verzluninni. Gott ef þið hafið ekki sleikt innan lekabyttuna,“ svaraði hún. „A ha, ha, aldrei er bið á svari hjá Þóru,“ svaraði Erlendur. „Komdu og skrafaðu meira við okkur. Segðu okkur, hvernig þér fellur hjónabandssængin. Hér er líka nóg hressing handa þér,“ bætti hann við og veifaði flöskunni. „Þið kannizt víst báðir við hjónabandssængina. Það þarf ekki að lýsa henni fyrir ykkur,“ svaraði hún og gekk í burt til að losna við ertni hans. Þóra stóð við dilksdyrnar og tók á móti því, sem henni var dregið. Þeir félagar, Jón og Erlendur, voru orðnir vel hreifir og drátturinn gekk ágætléga. Þeir kölluðu alltaf: „Þóra í Hvammi,“ þegar þeir fundu kind, sem var hennar eign og drógu hana til hennar eða fengu Jóa hana, en aldrei Sigurði. Hann þóttist vita, að þeir gerðu það til að stríða sér. Aðrir kölluðu: „Hvammur," en enginn lét sér detta í hug að eigna honum neitt af búinu. Hann reyndi að láta sér standa á sama. Þetta hlaut að lagast. Hann var seinn við dráttinn, af því hann þekkti ekki mörkin. Einu sinni náði hann í tvævetran hrút og þuklaði eyrun, en Þóra kallaði til hans: „Komdu með hann hingað, ég á hann.“ Hann gerði það. En Erlendur kveðraði upp úr með það, að leiðinlegt hlyti það að vera fyrir glöggar konur, að eiga þá menn, sem ekki þekktu heimilismarkið. Það var eina kersknin, sem Erlendur sýndi Sig- urði í réttunum. En uppi á réttarveggnum sat gamli gangnaforinginn með stóru járnsvipuna í hendinni, spurði í þaula svo hátt, að allar aðrar raddir hljóðnuðu: & „Haldið þið, piltar mínir, að það hafi ekki orðið eftir á Svörtu- bungum eða Þjófadrögum? Þar er leitótt. Þangað setti ég alltaf aðgætnustu mennina.“ Enginn gaf sér tíma til að svara honum, nema Siggi á Nauta- flötum. Hann kallaði svo hátt, sem hann hafði róm til, rétt hjá honum: „Það varð áreiðanlega engin skepna eftir. Við sópuðum Svörtu- bungurnar með vendi og leituðum Þjófadalnum lúsa.“ Þá hringlaði hláturinn niðri í karlinum. „Þú getur einhverntíma svarað fyrir þig orði, hvolpur. Það er um að gera að vera fljótur til svars. Einu sinni fann ég tvo hrúta, krækta saman, í Þjófadrögunum; það var ljót sjón.“ „Já, það var af því, að þeir gátu ekki svarað fyrir sig hrúta greyin,“ kallaði Siggi og hljóp hlæjandi í burtu. „Svona lætur gamli skröggurinn alltaf,“ sagði Erlendur sonur hans og hló kíminn. Hann reif sig á fætur í nótt, þegar ég klæddi mig. Síðan hefur hann verið að þvælast um túnið með svipuna á lofti. Sjálfsagt finnst honum, að hann sé kominn fram í afrétt eins og hann er vanur. Og svo hef ég ekki nokkurn frið fyrir spurningum í marga daga eftir göngurnar.“ Þegar búið var að draga að mestu leyti, bað Þóra Jóa litla, að ná í Mósa. Hún þurfti að ríða á undan rekstrinum, svo hún gæti mjólkað með Möggu, áður en myrkrið skylli á. Sigurður lagði á söðulinn, meðan hún klæddi sig í reiðpilsið. Skammt frá réttinni stóð stórt tjald. Þar veitti Borghildur á Nautaflötum ókeypis kaffi öllum, sem inn komu. Jón stóð inni í dilknum og reykti pípu. Sigurður sá, að hann fylgdi Þóru með augunum. Hann fór að finna til sömu gremjunnar og um vorið, þegar hann sá hana sitja á milli þeirra félaganna. Jón færði sig að útivegg dilksins, rétt hjá þeim, og sagði ákaflega prúðmannlega: „Ætla ekki nýgiftu hjónin að fara inn í tjaldið og fá sér kaffi?“ ^ „Þau eiga víst nóg kaffi heima,“ svaraði Þóra og brosti lítið eitt. „Ekki efast ég um það,“ svaraði hann, „en mér finnst þú ekki hafa stækkað það í seinni tíð, að þú gætir ekki þegið kaffi hjá okkur eins og hinir sveitungarnir.“ Þóra roðnaði. „Ég hef áreiðanlega þegið það, sem meira er af ykkur,“ sagði hún og rétti honum hendina yfir réttarvegginn og þakkaði honum fyrir sendinguna. En henni fannst það ákaflega erfitt, að þurfa að gera það. Hann tók þétt og hlýtt í hönd henni. Hún roðnaði öll i einu við tillit hans. Sigurði fannst hjarta sitt stikna. Þessi maður gat gert hann vitstola með návist sinni. Hann hefði helzt helzt viljað gefa honum utan undir fyrir að líta hana þessum augum, sem komu henni til að kafroðna svona. Henni gat ekki verið sama um hann. „Þið hafið víst aldrei gefið ykkur tíma til að fá ykkur kaffi,“ var sagt rétt hjá honum. Það var hreppstjórinn. „Og maður ætti nú að komast af kaffilaus í þessu veðri,“ sagði Sigurður. „Kaffilaus allan daginn! Skárri væri það ævin. Gjörið þið svo vel.“ Þóra þakkaði og gekk rakleitt inn í tjaldið og Sigurður með henni. „Láttu mig bara fá molasopa, Borghildur,“ sagði hún áköf. „Ég er alveg að fara.“ Hún leit óróleg út og tók sér ekki sæti. „Seztu, manneskja, ekki liggur þó neitt á,“ sagði Jakob hreppstjóri. Hún settist við hliðina á Sigurði. ,Þú ferð ekki neitt, fyrr en með okkur,“ sagði hann. „Jú, ég er búinn að segja þér, að ég er að fara.“ Hann þóttist sjá, að það væri þýðingarlaust, að tala um það. Þessi manneskja gat víst ekki látið undan. Þóra drakk úr bollanum, þakkaði fyrir og kastaði kveðju á alla, sem inni voru. Jón stóð hjá Mósa, þegar hún kom út. Hann hafði lagt taumana upp á makka, eins og hann biði eftir henni og ætlaði að hjálpa henni á bak. ' Hún greip svipuna af réttarveggnum og kom til þeirra. „Ég er nú vön að komast á bak, án þess að mér sé hjálpað,“ sagði hún. Hann hristi höfuðið. „Mér datt heldur ekki í hug að bjóða þér hjálp til þess. Ég þarf bara að tala við þig,“ svaraði hann. Mósi rölti af stað óþolinmóður. Þau gengu sitt við hvora hlið hans. Jón byrjaði samtalið: ,Þú ert víst bálreið við mig, síðan í vor, að við rákum lömbin."

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.