Lögberg - 12.11.1953, Side 6

Lögberg - 12.11.1953, Side 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 12. NÓVEMBER, 1953 EIN SNURÐA ENN Nú breyttist allt til batnaðar. Jóra fór ekki á fætur fyrr en um dagmál. Sigurður lét það óumtalað. Það munaði um þær, þegar þær komu út, því María var skörp við hrífuna. Nú var vagað, þurrkað og bundið. Tóftirnar fylltust fljótlega. María var kát stúlka og gat komið öllum til að hlæja nema Sigurði, hann gat aldrei fylgzt með glaðværð hennar og sjaldan verið á sama máli og hún. Þóra var hissa á þeirri systkina-sambúð. Sjálfri var henni farið að þykja vænt um Maríu eftir nokkra daga. Hún bað hana að vera hjá sér svo lengi sem hún gæti, helzt fram að jólum. „Ég geri það fyrir þig en ekki Sigga; honum er kannske ekki nein þægð í því, að ég verði nema til sláttuloka. Ekki vorkenndi hann mömmu, þegar hún var ólétt; hélt, að henni væri þetta mátulegt fyrir barneignirnar," og María hló. „Þá var ekki alltaf gott í mínum góða bróður, þegar systkinin voru á leiðinni í heím- inn,“ bætti hún við. En Þóra hristi höfuðið orðlaus af undrun. Að nokkur skyldi geta talað svona um hana móður sína. Hverjum ætti þá að vor- kenna, ef ekki móðurinni? Oft hafði hún óskað þess og þráð það, að eiga mömmu, og hún hafði hugsað sér að vera ósköp góð við hana, alveg eins og systkinin í Seli við sína mömmu og Jón við sína mömmu. Af einhverri tilviljun kom hún auga á Möggu gömlu, sem kom trítlandi með fullan hálftun'nu poka af hörðum tað- flögum á sínu mjóa, bogna baki, sunnan frá ærhúslnu. „Þetta hefur hún gert á hverju sumri öll þessi ár, sem hún er búin að vera hér, og enginn hefur vorkennt henni,“ nöldraði samvizkan í barmi Þóru. Hún er heldur ekki móðir mín, reyndi Þóra að afsaka sig með. Þetta er ekki nema það, sem allar manneskjur gera, sem við eldamennsku eru. Skyldi það nokkurn tíma hafa orðið að vana, að láta mömmu gera það? María var hlaupin af stað, áður en hún vissi af, og tók pokann af Möggu og bar hann heim í eldhúsið. Þegar búið var að hirða af engjunum og koma því í tóft, stakk Þóra upp á því, að farið yrði að koma eldiviðnum inn. Sigurður var nú orðinn ólíkt léttari í skapi en hann hafði verið, meðan tíðin var vond, en samt svaraði hann konu sinni stuttlega og sagðist líklega hlaða fyrir heyin fyrst. Það hefði víst ekki verið ofverkið kerlingarinnar að kpma taðinu inn í hjáverk- um sínum í sumar, hún hefði ekki haft svo mikið að gera. Þá skellihló María. „Það veit ég, að enginn maður getur verið eins líkur sjálfum sér eins og þessi Sigurður,“ sagði hún, þegar hláturskviðan var afstaðin. „Ætli þú sért ekki lík sjálfri þér líka með bölvaðan fíflaskap- inn, alltaf flissandi,“ sagði hann fokvondur. „Ég skal koma eldiviðnum inn með ykkur, Þóra mín, meðan hann er í réttunum," sagði María. „Ég ætlaði nú einmitt að lána þér Mósa í réttirnar,“ sagði Þóra. „Það yrði ekkert gaman, nema þú kæmir líka. Ég þekki engan mann.“ „En ég ætla nú að sitja heima í fyrsta sinn á ævinni síðan ég man eftir mér,“ sagði Þóra um leið og hún fór fram. Hún heyrði, að þau körpuðu og þrættu um eitthvað inni langa stund. Hvað skyli þau nú geta fengið að jagast um? Hún spurði Jóa að því, þegar hann kom fram. „Það var út af Möggu. Hann segir, að hún sé ekki matvinn- ungur og að hann ætli að fara að taka af sveitinni með henni.“ „Mét- þykir líklegt, að Magga fari þá héðan,“ skaut Jói inn í frá eigin brjósti. „Taka af sveitinni?“ tók Þóra upp eftir honum. „Ég skal nú sýna honum það.“ Náttúrlega hafði hann bara sagt þetta til að geta jagazt um eitthvað við Maríu. Það léti hann sér aldrei detta í hug að fara fram á að fá manneskju, sem vann annað eins og Magga; þar að auki hafði hún sagt honum, að hún hefði lofað föður sínum að sjá um hana ævilangt." Réttirnar voru afstaðnar. Sigurður var í ágætu skapi, þegar hann kom heim með safnið. Þóra hafði kviðið fyrir, að eitthvað kæmi fyrir þan dag milli hans og Erlendar, en svo hafði ekki verið, sagði Jói. Lömbin voru væn og heimturnar góðar. Næst var að taka frá sláturféð. Þóra fór á stekkinn, þótt hún væri farin að þyngjast til gangsins. Hún ætlaði, að vanda, að líta eftir líf- gimbrunum. Þau völdu í sameiningu 20 vænar gimbrar og létu þær inn í lambkróna. „Svo er þarna móbottnótta gimbrin hennar Möggu og þessi hvíta,“ sagði Þóra. „Dettur þér í hug, að ég fari að fóðra fyrir hana fleira en ærnar, eða ætlar hún að lóga einhverju af þeim?“ spurði hann afundinn og lét brýrnar síga talsvert. „Nei, í þetta sinn setur hún þær allar á, en næsta haust verður hún að fækka þeim. Þá verður hún að eiga eitthvað í skarðið. Svo er lambið hans Jóla litla,“ svaraði hún, og það var auðheyrt, að nú ætlaði hún að ráða. „Það verður ekkert af því. Ég hef ekki hey til að fóðra fyrir ekki neitt. Kerlingin á ekki neitt kaup, hvað þá öll þessi fóður. Það er sjálfsagt hægt að fá kerlingu fyrir ekkert til að elda grautinn.“ „Finnst þér hún ekkert gera annað? Það var öðruvísi hljóðið í þér, fyrst eftir að þú komst hingað. Þá fannst þér hún vinna svo mikið.“ sagði Þóra og brosti háðslega. „Það er sama. Mér dettur ekki í hug að fóðra fyrir hana nema ærnar, og sjá þó allir, að það er gjöf en ekki gjald.“ „Svona smásálarlegur hélt ég ekki, að þú værir,“ sagði hún reið. „En þú skilur lömbin eftir. Ég kem þeim einhvers staðar fyrir og gef með þeim. Rabbi minn, blessunin, skildi mér eftir fáeinar krónur, sem ég ætla að nota mér til þæginda. Þær skulu aldrei komast í þínar hendur.“ „Ég skal fóðra þau, ef þú gefur með þeim,“ sagði Sigurður og glotti kæruleysislega. „Vaxa heyin þín við það að sjá pening? Fyrst þú tímir ekki að fóðra þau, skal ég gera það,“ svaraði hún og fór heim í allt annað en góðu skapi. Hann kallaði á eftir henni, en hún anzaði ekki. „Alltaf ertu sjálfum þér líkur með bölvaða nízkuna,“ sagði María, þegar Þóra var farin. „Ekkert skil ég í, að þessi manneskja skyldi geta beygt sig svo mikið, að hún gæti hirt þig upp af götu sinni.“ „Skammastu þín! hreytti hann til hennar. Jói stóð í einu stekkjarhorninu og strauk lambinu sínu um höfuðið. Hann vissi ekki, hvort hann ætti að sleppa því eða ekki. „Aumingja Tinda mín,“ sagði hann í hálfum hljóðum. „Lík- lega verður þú að deyja. Ég var búinn að hugsa mér, að þú yrðir fullorðin kind. Ekki hefði Björn gert þetta.“ Sigurður stjakaði rollunum harkalega til hliðar og tók mó- bottnóttu gimbrina hennar Möggu í aðra hendina en þá hvítu í hina og dró þær heldur ómjúklega að dyrunum á lambakránni, hratt opinni hurðinni og henti þeim inn. „Komdu þarna með lambið þitt ,strákur,“ kallaði hann til Jóa, heldur stygglega. Drengurinn mjakaðist ákaflega hægt gegnum stekkinn og ýtti ánum frá sér. „Geturðu ekki hreyft þig? Það er víst ekki brothætt,“ sagði Sigurður og seildist í hausinn á lambinu til að flýta fyrir. Svo henti hann því inn í króna, jafn fólskulega og hinum. „Ætlar þú að gefa því?“ spurði Jói hikandi. „Ég býst við því, að ég verði að gera það. Þótt þetta „dót“ vinni ekki nema fyrir mat, verður víst að fóðra fyrir það eins mikið og því dettur í hug.“ „Þú verður vinnufólkssæll, ef þú verður svona þakklátur við fólkið þitt,“ vogaði systir hans sér að segja. „Jói hefur áreiðanlega unnið fyrir einu lambsfóðri. Það væri ekki mikið, þótt hann fengi lamb í kaup og þú fóðraðir það líka." „Geturðu aldrei haldið þér saman, blaðran þín?“ sagði hann reiður. María kom brosandi inn í baðstofu til Þóru, þegar hún kom af stekknum. „Þetta dugði, Þóra mín. Hann skammaðist sín og lét lömbin verða eftir. Þú ferð þó ekki að telja honum út fyrir fóðrið á þeim. Sýndu honum bara í tvo heimana og láttu ekki undan.“ Þóra brosti líka. „Það er víst engin hætta á því, að ég geri það Ég hef aldrei þótt geðlipur manneskja." * Næstu daga var Þóra fálát og afundin við mann sinn. Hann reyndi að vera hlýlegur og gera gott úr þessari vandræða snurðu, sem hlaupið hafði á þráðinn. Sambúðin ætlaði að verða erfiðari en hann hafði gert sér hugmynd um í fyrstu. Hún var ráðrík og skapstór kona og óvön að láta undan. Einn daginn fór hann að rista ofan af þúfnastykki, sem var óþægilega nærri hlaðvarpanum, að honum fannst. Helzt mundi það bæta skapsmunina. Svipur hennar var líka ólíkt léttari um miðjan daginrt en hann var vanur. Um kvöldið, þegar hann var lagstur upp í rúm, þreyttur og hálf- sofnaður, kom hún inn með kaffi og heitar lummur, sem hún hafði bakað bara handa honum. Hún tyllti sér á rúmið hjá honum, meðan hann drakk úr bollanum, en sagði ekkert. „Bakaðirðu þessar lummur handa mér, góða mín?“ spurði hann. „Og líka handa okkur. Það er gott að fá aukakaffi í slátrun- um,“ svaraði hún. Hann kyssti hana fyrir kaffið. „Heldurðu, að þú gætir ekki fengið hann Ármann til að hjálpa þér við flagið eins og í fyrra haust? Ég veit, að þú ert þreyttur að þræla svona upp á hvern einasta dag síðan um sumar- mál,“ sagði hún. „Þú ert samt ekki ánægð með mig,“ sagði hann þreytulega. „Ég verð aldrei óánægð með vinnuna þína, en hitt er annað mál, að við höfum líklega þekkt hvort annað heldur lítið til þess að geta búið saman eins og hjón. Skapsmunirnir eru ekki sem ákjósanlegastir hjá hvorugu,“ svaraði hún alvarleg. „Þetta lagast, góða mín. Við förum að læra að búa hvort við annað,“ sagði hann. „Það er mikil bjartsýni," sagði hún og tók pörin og fór fram. Hún rak sig á dyrastafinn og missti bollana niður á gólfið. „Hvað er þetta, kona, ertu að meiða þig?“ spurði hann og reis upp til hálfs í rúminu. „Nei, það var ekkert, fyrst bollarnir eru heilir.“ Hún var nógu hjátrúarfull til að taka mark á slíkum smámunum. Hann hallaði sér út af aftur. Þetta var nú líka meiri fyrirferðin á henni, hugsaði hann. Svo varð hún alltaf að hafa dálítið svig- rúm, hvar sem hún fór, blessuð konan, ef vel átti að fara. Daginn eftir kom Ármann. Jói hafði verið sendur eftir honum. Nú gekk allt ágætlega, eins og í skemmtilegri sögu, heimilislífið upp á það ákjósanlegasta. OFT ER DÁTT í KOTINU, ÞEGAR KARL ER EKKI HEIMA Undir veturnæturnar gerði stillur og Sigurður fór til sjós, því afli var góður. „Nú er það svei mér frjálslegra heimilislífið, þegar Siggi er farinn,“ sagði María. „Það er satt, sem máltækið segir, „að dátt sé í koti karls, þegar karlinn er ekki heima.“ Ármann var enginn sjómaður og lauk því við flagið. María átti ótrúlega oft erindi út til hans, eftir að Sigurður fór. Þóra spaugaði um það við hana einu sinni og spurði hana, hvort henni litist vel á Ármann. „Okkur lízt heldur vel hvoru á annað, og hefur lengi verið gott á milli okkar, en það ætlar nú allt mitt fólk að rifna af reiði, ef við hugsum til að verða hjón, svo ég verð líklega að brjóta minn vilja á bak aftur og hætta við allar giftingargrillur,“ svaraði María hlæjandi. Þóra horfði á hana stórum augum. Hún hafði bara verið að spauga. „Er þetta virkilega satt, María?“ „Því ekki það? Er það nokkuð undarlegt, að ég hafi dálitla lÖngun til að eiga vingott við karlmenn eins og þú og flestar aðrar?“ „Nei, það er ekkert undarlegt, en ætlarðu svo að láta aðra taka af þér ráðin og kæfa allt í fæðingunni? Það fer víst bezt á því, að hver og einn ráði sjálfur í þeim efnum.“ „Það efa ég nú samt,“ sagði María. „Ég býst við, að þeir eldri ogjeyndari sjái betur. Það er nú svona með mömmu, að hún er búin að stríða svo mikið í fátæktinni, að hún getur ekki hugsað til þess, að við giftumst, nema þá sem efnað ektapar. Þess vegna ýtti hún undir Sigga.“ „Gerði hún það?“ spurði Þóra. María hló. „Já, áreiðanlega. Ég hef nú aldrei séð það, að þau væru neitt líkleg til að vera móðir og sonur fyrr en í fyrra vor, að hann kom út eftir. Þau voru bara alltaf á einmæli. Ég þóttist vita hvað stæði til.“ „Mér þykir ólíklegt, að hann hefði hætt við þá stúlku, sem hann hefði ætlað sér að eiga, þótt fólkið hans hefði haft á móti henni,“ sagði Þóra fálega. „En hvað setur hún eiginlega út á Ármann?“ „Hún segir, eins og satt er, að hann eigi aldrei neitt. Hann drekkur og reykir út allt, sem hann vinnur fyrir. Og svo er hann alltaf að braska, selja og kaupa, alltaf sér til skaða. Nei, það er áreiðanlega ekki álitlegt. Svo er nú þetta auga í honum, sem strákarnir eru alltaf að stagast á.“ „Þið hefðuð þó átt vel saman, svona glaðlynd bæði.“ „Við lifum nú ekki lengi á því,“ sagði María hlæjandi. „En hvernig geturðu hlegið að því, að geta ekki lifað með honum, ef þú elskar hann?“ spurði Þóra. „Hvernig ætli ég hafi getað lifað án hans hingað til? Það tekst víst einhvern veginn hér eftir. Það er nú efst í honum að fara til „vesturheims" næsta vor.“ „Náttúrlega drífur þú þig með honum,“ flýtti Þóra sér að segja. „Fara frá mömmu og krökkunum? Heldurðu, að þú hefðir getað það?“ „Ég hef aldrei átt systkini eða móður, sem ég man eftir,“ var svar Þóru. „Þá pabba þínum?“ „Það hefði ég aldrei gert; hann var líka einmana. Það er öðru máli að gegna með mömmu þína, sem á öll þessi börn.“ „Hún getur nú samt ekki séð af mér frá heimilinu." „Bróðir þinn hefði ekki beðið svo lengi að komast í hjóna- bandið,“ sagði Þóra. Það var svolítill snefill af hreykni eða aðdáun í málrómnum, sem kom óþægilega við Maríu. „Láttu þér ekki detta í hug, að h'ann hefði sótt eins eftir þér, ef þú h'efðir verið allslaus. Það var jörðin og búið og þetta, sem Magga sagði honum að þú ættir í kistuhandraðanum, sem rak meira eftir en ástin. Það máttu vera viss um. Hann -sér aldrei annað en sjálfan sig og peninga. Samt held ég honum þyki nú talsvert vænt um þig, strákgreyinu.“ „Það er þó ekki hægt að segja, að þú fegrir bróður þinn,“ sagði Þóra stuttlega. „Ég segi alveg eins og mér þykir vera,“ sagði María og fór að þeyta rokkinn. Þær voru báðar hálf óánægðar hvor við aðra í fyrsta skipti. Þóra gaf þetta mál alveg frá sér. Það var ekki fyrir hana að skilja þetta strandafólk. Það var leiðinlegt, að þetta tengdafólk hennar skyldi ekki geta orðið efnað, eins og það langaði þó til þess. Þarna hafði það verið búið að ráða og ræða um reyturnar hennar, löngu áður en henni datt í hug að trúlofast Sigurði. Það var lítillækkandi að láta ginna sig svona, en hvað þýddi svo sem að ergja sig yfir því nú. Líklega hefði farið betur, ef þeir eldri og reyndari hefðu verið látnir ráða, eins og María sagði. Hún var skyldurækin og fórnfús stúlka. Ekki var hægt annað að segja. María þeytti rokkinn og kvað sömu vísuna aftur og aftur. „Fái ég yndisástvin minn, örmum binda um síðir.“ „Góða María, vertu ekki að kveða þetta,“ sagði Þóra. „Ég ! þoli það ekki.“ María stanzaði rokkinn og hló. „Hvað á ég þá að kveða? Kannske um „bola- litla á balanum“ eða „skjótta köttinn?" „Allt annað en þessa vísu,“ sagði Þóra, og fór líka að hlæja. Nú voru þær hjartanlega sáttar aftur. „Hvenær ætlarðu að fara að sauma litlu fötin? Mig er farið að langa til að sjá,“ spurði María næst. „Getur þú sniðið þau fyrir mig?“ spurði Þóra. „Ég hef aldrei sniðið svoleiðis flíkur.“ „ Á enginn börn hér í nágrenninu, sem þú getur fengið lánaðar spjarir hjá? Hversslags dauðans aumingjar eru þeir hér í dalnum? Mig minnir, að Magga hafi minnzt á barn á Nautaflötum. Ríddu bara fram eftir og láttu sníða fyrir þig.“ „Kannske þú haldir, að ég fari að ríða á bæi, eins og vöxtur- inn er nú skemmtilegur," sagði Þóra og roðnaði. Það fannst Maríu, að hún gæti ósköp vel. Næsta dag sendi Þóra Jóa fram að Nautaflötum með bréf til Önnu. Hún vonaði, að hún stæði utan við alla þessa úlfúð, sem komin var upp á milli bæjanna. Bréfið var stutt en hlýlegt. Hún bað hana að lána sér snið á lítil föt, en láta engan vita það. Og Jói kom aftur með bréf, en engin snið. Þóra flýtti sér að rífa það upp. Anna sagðist ætla að koma út eftir og sníða og sauma fyrir hana, þegar karlmennirnir væru á hreppaskilunum, fyrst hún væri svona feimin að koma ekki fram eftir. Þóru fannst hlýju leggja um sig frá bréfinu. Þetta var líkt Önnu. Hún hlakkaði til hreppaskiladagsins. Og Anna kom glöð og hlaupandi eins og krakki. „Hamingjan góða!“ var það fyrsta, sem hún sagði, „hvað þú ert orðin gildvaxin, Þóra. Sigþrúður á Hjalla heldur, að þú eignist tvíbura." En Þóra fór hjá sér og blóðroðnaði. „Ó, vertu nú ekki svona feimin, manneskja. Mamma segir, að giftar konur þurfi ekki að vera feimnar." Þóra sótti kramböggulinn. Nú kom hann í góðar þarfir. „Ó, hugsa sér, hvað verður gaman að sníða og sauma úr þessu, svona fallegu,“ sagði Anna. Og svo var tekið til óspilltra málanna og saumað allan daginn. Ekki var lengi verið með hverja spjörina, því þær voru ekki stórar. Anna var símasandi eins og krakki. KAUPENDUR LÖ6BERGS Á ÍSLANDI Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna. Æskilegt að gjaldið sé sent 1 póstávísun. Þeir sem eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir að snúa sér til mín. BJÖRN GUÐMUNDSSON FREYJUGATA 34 . REYKJAVIK

x

Lögberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.