Lögberg


Lögberg - 22.04.1954, Qupperneq 6

Lögberg - 22.04.1954, Qupperneq 6
t 6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 22. APRÍL 1954 i ’ Borghildur roðnaði og ranglaði inn í búrið til að leyna því, hvað hún roðnaði mikið. Eftir langa þögn tók Jón til máls: „Þú hefur alltaf skilið mig svo undarlega vel, og það vona ég, að þú gerir ennþá. Mig langar ekki til þess að minning mömmu sálugu hverfi, langt frá því. En hitt á ég bágt með að gera mig ánægðan með, að það setji svo niður á heimilinu, að jafnvel börnin tali um það, hvað þá þeir fullorðnu. Þið hljótið að geta bætt úr þessu með því að reyna að líkjast mömmu sem mest. Anna er svo mikið barn, að það þarf að segja henni, hvað hún á að gera. Það vona ég, að þú reynir, Borga mín“. „Ég er ósköp hrædd um það, góði minn,“ sagði Borghildur, „að við getum aldrei fyllt sætið hennar mömmu þinnar, þótt við sitjum samhliða í því. En samt skal ég reyna það, sem ég get. Ég finn það vel, að ég hef miklu meiri áhyggjur út af því, sem ég hef að hugsa um en ég þyrfti, og gef mér þess vegna ekki tímá til að sinna gestunum, eins og ég ætti að gera“. Eftir þetta skipti svo um, að Anna fór sjálf að bera gestum sínum góðgerðir og skrafa við þá. Einnig kom Borghildur því til leiðar, að hún tæki tvær ungar stúlkur um veturinn til að kenna þeim ’útsaum og oreglspil. Það myndi áreiðanlega lífga upp heimilið. HVAÐ SKYLDI MAMMA SEGJA? Milli jóla og nýárs var haldið ball niðri í kaupstaðnum. Jón talaði um það við konu sína, hvort hún ætlaði ekki að koma með sér ofan eftir. „Ertu frá þér, maður? Heldurðu, að ég fari að dansa og skemmta mér eftir allt það, sem hefur yfir okkur dunið?“ sagði hún. „Það er ekki ár, síðan mamma sáluga dó“. „Finnst þér rétt að breiða fyrir gluggana, þegar sólin er farin að skína aftur? Erum við ekki búin að sitja nógu lengi í myrkrinu?" spurði hann. « „Láttu engan heyra til þín. Það fer enginn héðan af heimilinu“, sagði hún ákveðin. „Þú ferð þó líklega ekki að banna vinnufólkinu að skemmta sér, ef það langar til þess?“ „Ég get ekki meint, að því detti það í hug. Það væri skárra vanþakklætið við mömmu og pabba“. Það fór enginn á ballið. En Jón var óvenju þögull um kvöldið og las í bók. „Heldurðu að það geti skeð, að hann langi á ballið?“ spurði Anna Borghildi. „Það efast ég ekki um“, svaraði hún. „Þetta er nú víst fyrsta skemmtunin, sem hefur verið haldin hérna í sveitinni, sem hann hefur ekki farið á. Tommi hefði farið, ef ég hefði ekki hreint og beint farið til hans og beðið hann að vera heima. Ég vissi, að Siggi yrði þreyjulaus, ef hann færi“. „Það verður varla þennan veturinn, sem ég líð fólki það, að fara á skemmtanir“, sagði Anna. Hún vissi, að nú var það hún, sem hafði völdin, og bjóst við, að sín orð yrðu tekin jafnt til greina og fóstru sinnar. Hún fór inn og stakk upp á því við Jón, að þau færu að spila við piltana sér til skemmtunar. „Tilheyrir það ekki skemmtunum?“ spurði hann og leit ekki upp úr bókinni. „Æ, vertu ekki svona, góði minn“, sagði hún blíðmálg. „Það er bara saklaus skemmtun heima“. „Það langar kannske fleiri til að skemmta sér en piltana. Ég vil heldur sþila móti stúlkunum“, sagði hann glettinn. . „Þá spilum við í tvennu lagi“. Og það var gert. „Finnst þér ekki alveg eins gaman að vera heima, eins og að fara ofan á Ós og dansa?“ spurði hún, þegar staðið var upp frá spilunum. „Nei. Þú hlýtur að vita það, að engin skemmtun er jöfn dansins", svaraði hann. Hún vissi, að hann lá vakandi eftir að þau voru háttuð. Það gerði ekkert til. Hún hafði unnið stóran sigur með því að láta hann ekki fara. Því ætlaði hún að halda áfram. Hana langaði ekki til að skemmta sér. Því skyldi hann þá ekki geta verið eins, hugsaði hún. Til allrar hamingju var ekki haldin nokkur skemmtun fyr en á annan í páskum. Hún átti að vera á Kárastöðum. Nú ráð- gerðu allir að fara og námsmeyjarnar líka. Anna gekk kvíðafull allan daginn. Vonandi kæmi eitthvað fyrir, sem setti það kyrrt, kæmi stórhríð eða eitthvað. En ekkert svoleiðis átti sér stað, og fólkið fór að búa sig úr miðjum degi, því leiðin var löng. Karlmennirnir lánuðu stúlkunum hestana sína, en ætluðu sjálfir á skautum. Tilhlökkunin skein út úr hverju andliti. „Ertu alveg búinn að gleyma mömmu, Siggi minn?“ spurði Anna. Helzt kynni það að geta stoppað hann. „Nei, henni gleymi ég aldrei“, svaraði hann. „En hún hefði varla kært sig um, að ég sæti heima. Hún vildi láta fólkið skemmta sér“. „Það er alveg rétt, sem Siggi segir“, gegndi Jón fram í. „Nú förum við líka, góða mín. Sorgarárið er liðið, og meira en það“. „Nei, við förum ekkert“, svaraði Anna ákveðin. Fólkið fór að tínast burtu ríðandi og gangandi, allir nema hjónin. Þau ætluðu að koma á eftir. „Farðu að búa þig, góða“, sagði Jón. Hann var að raka sig frammi í kokkhúsinu. „Ég er búin að segja þér, að ég fer ekkert“, sagði hún snúðugt, yfir því að honum skyldi detta slíkt í hug. „Ég bíð eftir þér í hálftíma, þá ættirðu að vera búin að klæða þig“. Hún hraðaði sér inn í hjónahúsið og skellti afur hurðinni, óvanalega harkalega. Hún skyldi nú sýna honum það svart á hvítu, hvort hún færi að þeysa út að Kárastöðum til að dansa eins og fífl, þótt það væri óneitanlega gaman. Eftir hálftíma lauk hann upp hurðinni og kom inn ferðbúinn.. Hún sat við ofninn og las í bók eða þóttist gera það, og brosti hálf kergjulega til hans. „Hvað á þetta að þýða? Ertu ekki farin að búa þig? Hestarnir eru til“, sagði hann hissa. „Ég er búin að segja þér, að við förum ekkert. Þér er óhætt að spretta af klárunum“, sagði hún. Hann slengdi aftur hurðinni án þess að segja meira. Hún sat lengi og beið þess, að hann kæmi aftur. Gaman að sjá hann klæða sig úr ballfötunum. Auðvitað ætlaði hún að spila við hann og láta Borghildi baka honum lummur með kaffinu. Það var hans uppáhalds brauð. En hann kom ekki eða neinn annar. Það heyrðist ekki minnsta hljóð, enda voru nú fáir orðnir heima. Seinast fór hún fram í kokkhúsið. Finni gamli og Borghildur sátu þar tvö ein fyrir utan. Jakob litli, er sat í annari tröppunni í stiganum, sem lá upp á geymsluloftið, talaði við Borghildi. Hann var nú orðinn hér um bil altalandi. „Pabbi farinn í kaupstaðinn. Kemur með gott og súkkulaði handa Jakob. Hann fór á hestinum sínum“. „Pabbi ætlaði út að Kárastöðum en ekki í kaupstaðinn“, leiðrétti Borghildur. Anna horfði undrandi á Borghildi. „Er hann farinn?“ spurði hún, og augun urðu óvenjulega stór. „Já, hann er farinn. En að þú skyldir ekki drífa þig með honum, góða mín. Það hefði víst verið hægt að dúða þig svo, að þér hefði ekki orðið kalt“, svaraði Borghildur í kjassandi málróm, sem var óvanalegur. Anna svaraði engu, heldur hvarf aftur í húsið og settist á sama stað og áður. Það settist beiskur kökkur í hálsinn, og tárin leituðu fram í augun. Svo hann var þá farinn, án þess að kveðja hana. Hann mat það meira að dansa við ungu stúlkurnar þarna út frá en vera heima hjá henni og Jakobi litla, sem var þó það unaðslegasta að hennar áliti, sem til var. Líklega yrði það Hanna, sem hann dansaði oftast við. Það var önnur stúlkan, sem var að læra orgelspilið, lagleg stúlka, með rauðar kinnar og feimnisleg augu. Jón hafði oft gefið henni lítinn selbita á eyrað, og þá hafði hún roðnað allt of mikið. En hér yrði hún að sitja allt kvöldið og alla nóttiga og láta sér leiðast. En hvað hún hafði verið mikið flón að fara ekki líka. En það var af því, að henni fannst það synd að dansa, þó hana langaði til þess. En hvað hún skyldi verða fýld við hann, þegar hann kæmi heim. Kannske færi hann þá ekki á næsta ball. Borghildur opnaði hægt hurðina og sagði: „Komdu fram, góða mín. Ég bakaði lummur og hellti á könn- una. Svo verðum við að reyna að skemmta okkur eitthvað með spilum á eftir, þangað til fjósatíminn kemur“. „Mér finnst ég hafa litla lyst á kaffi", sagði Anna kjökrandi. „Það hefði varla farið á ballið fólkið, ef mamma hefði aftekið það. Það hefði víst verið eins gaman fyrir Jón að vera heima hjá okkur Jakobi litla. Hvað heldurðu, að mamma hefði sagt?“ Borghildur brosti góðlátlega. „Ég býst við, að hún hefði hvorki bannað honum eða neinum öðrum að skemmta sér. Þú verður að hugsa skynsamlega um það, hvernig ævin hans hefir verið, eintómar skemmtanir og leikir. En nú er hann búinn að sitja heima hálft annað ár, svo það var víst engin von til þess, að hann héldi það út lengur, annar eins gleðimaður“. „Svo sit ég hér heima, en hann dansar með aðrar stúlkur í faðminum“. „Hann er nú einu sinni svoleiðis, þessi dans ykkar, sífelld faðmlög — meiningarlaus faðmlög — eins og á sjónleik getur maður sagt“, sagði Borghildur. „Ó, það getur víst margt komið fyrir“, sagði Anna og þurrkaði tárvot augun. „Komið fyrir á dansgólfi, nei, nei. Læturðu ímyndunina fara með þig í gönur“, sagði Borghildur. „Mér þykir Jóni þykja helzt til vænt um þig, til þess að þú berir ekki fullt traust til hans“. „Ég get ekki að því gert. Það eru allar stúlkur svo hrifnar af honum“, flýtti Anna sér að segja. Hún blygðaðist sín fyrir, hve hún hafði verið opinská. „Það er eðlilegt, því að hann er bæði laglegur og skemmti- legur“, sagði Borghildur brosandi, „og nú skaltu hætta að grufla út í þessa vitleysu og koma fram og fá þér kaffi, og farðu svo með honum á næsta ball“. Sigga gamla var risin upp af rökkurblundinum og komin fram í kokkhúsið, og rausaði við Finna gamla. „Hvað heldurðu nú eiginlega, að hún Ingibjörg heitin hefði sagt, ef allt fólkið hefði þotið burtu á eitthvert ball og hún hefði verið ein heima og þurft að mjólka allar kýrnar, eins og hún Borghildur?“ „Ég held það hefði nú orðið eitthvað skrítið“, sagði Finnur gamli. „Reyndar kom það nú fyrir, að allar stúlkurnar fóru á grasafjall nema hún og Rósa gamla, sem var hér alltaf“, bætti hann við. „Það var nú kannske dálítið annað að fara á grasafjall eða þetta andstyggðar skokk, sem engum er til gagns. Slíkt og þvílíkt. Það má segja, að það eru allir góðir siðir aflagaðir. Það var þó reglulega gaman að fara til grasa í hlýju veðri“, sagði Sigga og' lifnaði við endurminningarnar. „Þá held ég vildi nú heldur dansa inni í hgitri stofu en norpa hálfloppinn fram á fjöllum við að tína grös“, sagði Anna brosandi. „Það var áreiðanlega heldur nytsamara en dansa“, sagði Sigga þurrlega, ,,að maður minnist nú ekki á, hvað það var skikkanlegra“. Þá brosti Finnur gamli sínu einkennilega flírubrosi og sagði: „Það vildi nú verða dálítið skrítið stundum, það sem kom fyrir á grasafjallinu. Einu sinni hurfu karlmaður og kona héðan af heimili og vöntuðu þó nokkuð lengi. En grasapokarnir voru kyrrir á sínum stað“. „En fjandans ruglið í þér, karlugla“, sagði Sigga ótr.úlega reið. „Þú ert víst farinn að ganga í barndóm; dikta upp sögum, sem aldrei hafa átt sér stað“. „Jæja, ég held það geri þá ekki mikið til“, greip Borghildur fram í. „Þetta skemmir víst engan. Við skulum nú bara fara að fá okkur kaffi sopa, og svo förum við að spila á eftir“. „Kannske vill nú blessuð húsmóðirin koma út í fjósið og mjólka með mér sér til gamans“, sagði Borghildur, þegar spila- mennskunni lauk. „Já, það skal ég gera“, sagði Anna. Hún klæddi sig í hvers- dagsföt af Viggu og fór með Borghildi í fjósið. Það var langt síðan hún hafði komið í fjósið. „Eru allar kýrnar mjólkandi?" spurði hún, þegar út í fjósið kom. „Nei, tvær eru geldar. Annars ættir þú nú að koma oftar í fjósið, svo þú vissir, hvaða kýr eru bornar og hverjar ekki. Það er ólíkt sveitakonum að vita það ekki“, sagði Borghildur. „Heldurðu það séu víða svona margar kýr? spurði Anna, þegar þær voru farnar að mjólka. „Áreiðanlega hvergi í sveitiinn“. „Það er þó dálítið gaman, finnst þér það ekki?“ sagði Anna og brosti. Svo varð þögn dálitla stund. Síðan spurði Anna: „Heldurðu Jón hafi verið reiður, þegar hann fór?“ „Það er vel líklegt, en hann verður orðinn góður, þegar hann kemur heim. Þú verður að taka vel á móti honum“, sagði Borghildur. „Nei, ég ætla nú einmitt að vera fýld við hann, fyrst hann kvaddi mig ekki“, svaraði Anna. „Hvað heldurðu, að mamma hefði þá sagt?“ Borghildur lagði áherzlu á hvert orð. Anna hikaði við svarið. Það var óþarfi að hugsa um það. Hún sá ekki lengur, hvað fram fór á þessu heimili. Þó hafði hún verið með alla þessa vandlætingu við mann sinn hennar vegna. Hún þagði góða stund, en braut svo upp á öðru umtalsefni. „Heldurðu, að þessir kálfar verði báðir látnir lifa?“ spurði hún. „Áreiðanlega þessi stærri, hann er undan svo góðri kú. Annars ættir þú að ráða því, hvaða kálfar lifa. Það gerði mamma þín“, svaraði Borghildur. , „Ó, hún mamma. Heldurðu, að ég líkist henni nokkurn tíma — annarri eins búkonu“. „Þú gætir reynt það, góða mín“. „En ef ég mætti ráða, léti ég þá alla lifa“. Morguninn eftir fór Anna líka í fjósið og mjólkaði. Þegar þær komu heim, sátu þeir inni við kokkhúsborðið, Tommi og Siggi, heitir og rjóðir af skemmtuninni. Siggi kyssti Borghildi, en Tommi heilsaði þeim báðum með handabandi. „Eruð þið komnir tveir einir?“ spurði Anna. „Við flýttum okkur heim til að gefa fénu“, sagði Siggi. „Hvernig got okkur dottið í hug, að karlskriflið gæti gefið öllu fénu. En það er undarlegt, hvað sumar manneskjur geta, þegar þær vilja“. „Þú talar þá merkilega um hann, eða hitt þó heldur. Er það þakklætið fyrir, að hann hefur verið svona duglegur?“ sagði Anna ávítandi og horfði á Finna samúðarfullum augum. En hann horfði út í eitt hornið á kokkhúsinu og brosti flírulega, eins og hann sæi þar einhvern, sem hann hefði gaman af að kjá framan í. „Ég held hann sé hálffullur, strákurinn, hann er svo spilandi", sagði hann. „Já, það var nóg vín þar ytra“, sagði Siggi. „Þú þarft ekki að horfa svona angistarlega á mig, Anna mín. Jón fór ekki á neitt fyllirí, ekkert sem hét að minnsta kosti, og ekki heldur á kvennafar, en á næsta balli vil ég ráðleggja þér að vera með honum“. „Hvað meinarðu?" spurði Anna. „Bara það, sem ég segi“, anzaði hann glettinn. „Það hefur margt komið fyrir á þessari nóttu og þessum morgni. Finnur gamli Finnsson gefur öllu fénu á Nautaflötum og húsfrú Anna Frjðriksdóttir fer í fjósið og mjólkar, en fröken Hanna kemur harðtrúlofuð af ballinu". Þeir hlógu báðir, Siggi og Tommi. En Finnur gamli sagði að það væri áreiðanlegt, að þeir hefðu báðir fengið sér „neðan í því“ þarna út frá, og það ríflega. „Skárri er það nú vaðallinn í þér, Siggi“, sagði Anna. „Hvað ertu svo sem að segja, um að Hanna kæmi trúlofuð heim?“ bætti hún við forvitin. „Þú ert að hasta á vaðalinn í mér, svo það er bezt að segja ekki meira“, sagði hann glettinn. „Góða Borghildur, flýttu þér að koma í okkur matnum, við erum alveg að sálast úr sulti“, bætti hann við. 'V „Þú hugsar nú elcki um neitt nema að seðja græðgina í þér“, sagði Anna. „Segðu okkur heldur fréttirnar, Tommi. Er nokkuð hæft í þessu, sem hann er að segja, að Hanna væri trúlofuð?“ „Það þykir mér ekki ólíklegt. Hún dansaði alltaf við sama herrann alla nóttina að heita mátti. Svo sátu þau lengi tvö ein inni í hjónahúsinu á Kárastöðum. Það þótti grunsamlegt mjög“, sagði Tommi og lygndi augunum drýgindalega. „Hveer er það svo sem?“ „Það er bróðir séra Benedikts“. Anna stundi feginsamlega. „En hvað það var gott, að hann skyldi vera prestsbróðir. Hanna er svo lagleg stúlka, hún verður að fá fallegan mann“, sagði hún og fór loksins að hugsa um að klæða sig úr fjósafötunum. „Ojæja“, sagði þá Finnur gamli. „Það hefur gaman af þessu, fólkið. Annars bíður gestur eftir þér, Anna mín, inni hjá Sigríði“. „Gestur. Hver er það nú svo sem?“ „Það er enginn annar en hún Þóra“, svaraði gamli maðurinn. „Ekki nema það“, sagði Borghildur. „Sú skýtur mér ref fyrir rass með mjaltirnar. Hún getur vaknað ennþá“. Þóra.sat á rúminu hjá Siggu með Jakob litla í fanginu, þegar Anna kom inn. „En hvað það er langt síðan þú hefir komið, Þóra mín. Til hamingju með litla soninn. Ég hef alltaf ætlað að koma og sjá hann, en dugnaðurinn er nú alltaf eins og þú þekkir“, sagði Anna milli kossanna. „Ég varð nú ekki lítið hissa, þegar ég heyrði, að þú værir í fjósinu. Ég held þú sért í miklum framförum í dugnaðinum", sagði Þóra. „Já, já, Ég mjólkaði tvær kýrnar. Hver er heima hjá þér að hugsa um drengina þína, svo þú gætir komið? Nú verðurðu að stanza lengi hjá mér, þegar ég er ein heima“. „En nú hef ég ekki tíma til að stanza neitt. Ég ætlaði aðeins að biðja ykkur að koma út eftir í kvöld með Jakob litla. Það á að skíra litla strákinn. Ég sá aldrei til Jóns út eftir, svo ég hélt að hann væri heima“. „Jú, reyndar fór hann, án þess að ég vildi það og meira að segja án þess að kveðja mig, en um það tala ég nú betur við þig, þegar við erum orðnar tvær einar“. „Því í ósköpunum fórstu ekki með honum? Svo hefurðu ekki sofið hálfan svefn í nótt. Þú hefur verið svo hrædd um hann fyrir stúlkunum", sagði Þóra og hló glettnislega. Anna roðnaði og spurði: „Hvernig veiztu það?“ „Ég sé það á þér. Þú ert svo tekin til augnanna“. „Þú hlægir ekki að því, ef þinn maður hefði farið á ball, en þú setið heima“, sagði Anna vandræðaleg. „Það var nú einmitt það, sem hann gerði“, sagði Þóra. „Og þú varst ekkert óróleg?“ „Ekki aldeilis. Ég svaf ágætlega“. I

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.